Gleðilegt ár og takk fyrir liðið ár.
Gamlárshlaupið var háð í þetta sinn í hléi milli veðrabrigða. Frábærar aðstæður á þessum árstíma - stundum erum við heppin. Tímarnir voru líka með besta móti, sumir meira að segja að bæta sinn fyrri árangur. Kári Steinn kórónaði mjög gott ár með því að hlaupa undir 32 mín. Síðasta ár var frábært hjá honum, seinast þriðja sætið á Norðurlandamótinu í víðavangshlaupi. Greinilegt að hann er undir mjög góðri handleiðslu hjá Gunnari Páli þjálfara sínum, en býr líka að góðri þjálfun sem hann hlaut hjá Rakel Gylfadóttur. Kári er maður framtíðarinnar og mun án efa ógna Íslandsmetunum á lengri vegalengdunum á næstu árum. Íris Anna Skúladóttir er framtíðarstjarna í flokki kvenna. Hún er aðeins 16 ára en er þegar farin að keppa fyrir landsliðið og fyrir Íslands hönd á Smáþjóðaleikum og stórmótum í yngri aldursflokkum. Tímar hennar síðasta sumar í 1.500 m (4:32,89) og 3.000 m (9:43,49) eru mjög góðir og gefa vonir um að hún eigi eftir að slá Íslandsmet fullorðinna á vegalengdum frá 800 m í framtíðinni. Á þeirri braut er hins vegar mikil vinna. Afreksmenn þurfa oft að glíma við meiðsli - vegurinn á toppinn er sjaldnast beinn og breiður. Það hafa menn eins og Björn Margeirsson og Gauti Jóhannesson þurft að takast á við. Gauti byrjaði síðasta ár með látum og setti Íslandsmet í 800 m hlaupi innanhúss (1:51,89) og náði síðan lágmarki á Evrópumeistaramótið innanhúss (3:47,99). Það leit því mjög vel út með sumarið, en því miður lenti hann í erfiðum meiðslum um vorið. Gauti er að mínu mati sá maður sem hefur hæfileika til að fara fyrstur Íslendinga undir 8:00 mín. í 3.000 m hlaupi. Vonandi nær hann sér á strik aftur því að hann á mikið inni. Björn átti frábæra endurkomu síðla sumars þegar hann hljóp 800 m á 1:49,98 mín, fyrstur Íslendinga til að hlaupa undir 1:50 í 18 ár. Sannaði þar með rækilega að það er ekki allt búið þó að maður lendi í erfiðum meiðslum.
Gamlárshlaupið sýndi að því miður er breiddin í langhlaupunum ennþá mjög lítil, aðeins tveir Íslendingar hlupu undir 35 mínútum sem er alls ekki nægilega gott. Vantaði að vísu 2-3 hlaupara sem geta hlaupið undir þessum tíma, en það breytir ekki miklu. Það sem er hins vegar ánægjulegt er hversu svokallaðir skokkarar eða öldungahlauparar eru að bæta sig. Allstór hópur þeirra hljóp á síðasta ári á bilinu 35-37 mín. og fleiri og fleiri eru að hlaupa undir 1:20 klst. í hálfmaraþoni. Ég nefni sem dæmi að þrír hlauparar fóru undir 40 mín í flokki 50-54 ára í Gamlárshlaupinu og í flokki 60 ára og eldri var sigurtími Birgis Sveinssonar 41:31 mín. Í maraþonhlaupi vakti sérstaka athygli mína árangur Jóhanns Karlssonar (1948) sem hljóp á 3:08:32 klst. í Stokkhólmsmaraþoni. Tími Þorláks Jónssonar (1965) í Ferrari maraþoninu á Ítalíu (2:41:56) var líka mjög góður, svo og árangur Gauta Höskuldssonar (1961) sem hljóp á 2:50:46 í London. Nefna má einnig ágæta endurkoma Mörthu Ernstdóttur (1964) á árinu sem hljóp á 1:20 í hálfmaraþoni og 36:44 í 10 km. Hennar framlag er mikilvægt þar sem breiddin í langhlaupum kvenna er lítil.
Með tilkomu nýja frjálsíþróttahússins í Laugardal opnast möguleikar til mótahalds á vegalengdum 800-5.000 m innanhúss. Þann möguleika geta öldungar nýtt sér og veit ég til þess að Meistaramót öldunga innanhúss mun fara fram 11. febrúar n.k. þar sem m.a. verður boðið upp á 3.000 m hlaup. Áhugavert væri að sjá öflugan hóp öldunga þar. Hitt er svo annað mál að hlauparar verða að gæta sín á innanhússbrautum - þurfa að gefa sér tíma til að venjast þeim, annars er hætta á meiðslum.
Mér finnst árið 2006 líta vel út. Okkar ungu hlauparar eru í mikilli framför. Breiddin þarf að vísu að aukast. Breiddin er hins vegar alltaf að aukast í götuhlaupunum. Mjög stór hópur hleypur nú t.d. undir 45 mín. í 10 km sem þótti gott af skokkara fyrir 10-15 árum. Sé fram á að þessi þróun haldi áfram. Sérstaklega gaman að sjá hversu margir eru komnir undir 3 klst. í maraþonhlaupi. Þar vantar hins vegar illilega karl og konu í fremstu röð. Við verðum að fara að eignast karl sem getur ógnað metinu - Kári getur tekið það hlutverk að sér eftir 4-5 ár. Hins vegar ætti hann að einbeita sér næstu árin að brautarhlaupum. Martha var mjög góð í maraþonhlaupi á sínum tíma, en við getum þurft að bíða lengi eftir arftaka hennar á þeirri vegalengd.
Ég lét mér nægja að þessu sinni að horfa á Gamlárshlaupið. Verð að viðurkenna að ég var ennþá með harðsperrur eftir innanhússfótbolta stjórnamanna hinna ýmsu deilda í FH þann 28. des. Ég spila sem sagt fótbolta einu sinni á ári alltaf með sömu afleiðingunum. Markmiðið næsta ár er að halda sig innan við 80 kg. Aðrar yfirlýsingar gef ég ekki að sinni.
Gangi ykkur vel á nýju hlaupári.