Árekstur við raunveruleikann

uppfært 09. ágúst 2020

Ég lenti í hörðum árekstri við raunveruleikann í lok ágúst. Áreksturinn var harkalegur og skyndilegur og að því er virtist án allra aðvarana en þegar ég lít til baka þá voru viðvörunarbjöllurnar búnar að klingja í nokkrun tíma, ég tók bara ekki mark á þeim. Ég taldi mig vera að æfa skynsamlega og stefndi á að taka góða hlaupahvíld í september eftir hlaupið. Ég varð of sein enda ekki tekið neina hlaupahvíld sem heitið getur síðan 2012 þegar ég braut á mér bakið og var neydd til að hvíla. Ég veit að hvíldin er nauðsynleg en mér finnst bara svo gaman að hlaupa og leiðinlegt að hvíla. Ég taldi mig vera skynsama og æfa eftir getu og hlusta á líkamann. Ég hafði rangt fyrir mér.

Hafd 1
Hafdís í einni af utanferðum sínum í dýrlegri náttúru.

Brotnir hryggjaliðir
Ég hef frá því ég var um tvítugt æft mikið því ég finn svo mikinn ávinning fyrir líkama og sál að hreyfa mig. Ég byrjaði að hlaupa sumarið 2008 fyrir algjöra tilviljun og skráði mig strax í hálft maraþon í Reykjavík án þess að hafa mikla reynslu eða þekkingu á hlaupum.

Fyrstu árin hljóp ég eingöngu á sumrin og aðeins ef veðrið var gott, annars var ég inni í ræktinni að lyfta eða í jóga. Árin 2010 og 2011 hljóp ég maraþon og 2012 skráði ég mig í Laugaveginn. Æfingarnar gengu ágætlega en í apríl lenti ég í slysi og braut tvo hryggjarliði. Ég þurfti því að fresta mínu fyrsta Laugavegshlaupi um ár. Ég hljóp ekkert fyrr en um haustið og fór hægt af stað en fór þá að bæta mig í hverju keppnishlaupi sem ég skráði mig í.

Árið 2013 hélt ég áfram að bæta mig og á mína bestu tíma í öllum vegalengdum frá því ári. Eftir Laugaveginn keyrði ég hálfpartinn á vegg og þegar ég hugsa til baka held ég að ég hafi verið komin í ofþjálfunarástand þá líka. Samt tók ég enga hvíld, ég var farin út að hlaupa daginn eftir Laugaveginn.

Ég vissi strax að hvíldin sem ég var neydd til að taka við bakbrotið hafði gert mikið fyrir hraðann minn og úthald í hlaupunum. Samt hef ég ekki tekið hvíld svo heitið geti síðan.

Skert lungnarými
Ég fann fyrir miklum öndunarerfiðleikum í Hong Kong í janúar og aftur í Lavaredo í júní og pantaði tíma hjá lungnalækni. Það kom í ljós að ég er með mjög skert lungnarými eða um 82% af því lungnarými sem meðal 45 ára einstaklingur er með. Ég fékk sterapúst og á að koma aftur í mælingu í október. Þetta reyndist mér mikið áfall en samt gott að fá skýringu á mæðinni og svimanum sem ég upplifði í erfiðustu brekkunum. Þetta var í júlí og samt tók ég enga hvíld frá hlaupum.

Hafd 3
Stutt í brosið þrátt fyrir mótlæti.

Markmiðasetning
Fyrir ári síðan fór ég í mitt fyrsta 100 km hlaup og ég fann hvað það átti vel við mig, mér fannst þetta fáránlega skemmtilegt allan tímann og upplifði ekki mikið álag á líkamann hvorki í hlaupinu né eftir hlaupið. Ég var farin að hlaupa nokkrum dögum seinna og strax farin að huga að áhugaverðum löngum hlaupum fyrir árið 2019. Eftir að komast inn í 103 km í Hong Kong í janúar kom það kom mér þægilega á óvart að komast bæði inn í Lavaredo 120 km í lok júní og CCC 101 km í lok ágúst.

Upphaflega planið var að velja annaðhvort en úr varð að ég ákvað að fara í bæði og það varð mér líklega að falli. Ég var auk þess búin að ákveða að reyna að komast inn í UTMB 170 km árið 2020 en finna annað sambærilegt ef ég kæmist ekki inn. Sem undirbúning fyrir það verkefni var ég með augastað á mörgum áhugaverðum og mislöngum hlaupum. Langtímamarkmiðið var svo að stefna á TORX 356km á næstu þremur til fimm árum. Nú eru öll markmið, langanir og plön í uppnámi.

CCC
Ég tók bara stutt og róleg hlaup vikuna fyrir CCC en var búin að vera þreytt og með slæman höfuðverk helgina á undan og hélt jafnvel að ég væri að verða lasin. Annars leið mér ágætlega dagana fyrir hlaupið og ég var mjög spennt og full tilhlökkunar fyrir hlaupinu sjálfu. Hlaupið var ræst kl. 9 og ég upplifði mig þunga og þreytta áður en við lögðum af stað, ég hef upplifað það áður og hafði því takmarkaðar áhyggjur af því.

Á fyrstu kílómetrunum var mig farið að verkja í fæturna sem voru eins og staurar og mér leið eins og það væri ekki blóðflæði niður í fæturna. Ég fann vöðvana stífna upp og eftir aðeins 20km var ég komin með krampa framan í leggi, í kálfa og læri. Auk þess var ég með svima, hausverk og ógleði. Ég náði að nærast ágætlega, drekka og taka salt en allt kom fyrir ekki, vanlíðanin jókst bara og fljótlega varð mér ljóst að þetta hlaup myndi ég ekki klára, þetta var bara spurning um hversu langt ég ætti að fara eða öllu heldur myndi komast.

Pétur, maðurinn minn og Hilmar, sonur minn ætluðu að bíða eftir mér á drykkjarstöð sem er eftir 55km og rúmlega 3000m hækkun. Mig langaði að reyna að komast þangað bæði til að valda þeim ekki óþarfa áhyggjum og til að flækja ekki skipulagið þeirra, kolröng hugsun sem einungis er hugsuð af þeim sem ekki hugsar rökrétt. Þegar þarna var komið var ég ýmist rennsveitt eða að drepast úr kulda, öll í krömpum og farin að æla. Þegar ég loksins kom á drykkjarstöðina eftir rúmlega 9 klukkutíma puð og gargandi vanlíðan hrundi ég gjörsamlega niður. Í sjúkratjaldinu mældist líkamshitinn á bilinu 34-35 gráður þrátt fyrir 30 stiga hita og glampandi sól og tennurnar glömruðu.

Hafd2
Hafdís ásamt manni sínum Pétri Gunnarssyni.

Ég naut ekki einnar mínútu af hlaupinu vegna vanlíðunar og skil ekki enn hvernig ég komst þessa 55km. Ég ofbauð líkamanum svo rosalega að hann gerði allt sem hann gat til að fá mig til að stoppa. Ég stoppaði samt ekki fyrr en ég gjörsamlega hrundi niður af vanlíðan.

Framtíðin
Mér skilst að ofþjálfun sé flókið fyrirbæri og geti gerst fyrir hvern sem er, það er mér lítil huggun. Nú eru öll markmið í uppnámi, ég veit ekki hvenær ég get byrjað að hlaupa né hversu lengi ég verð að ná upp þreki. Ég veit ekki hvort ég eigi yfir höfuð eftir að njóta þess að hlaupa eins og áður. Nú tek ég einn dag í einu, e.t.v. á þetta einungis eftir að hafa jákvæð áhrif á mig sem hlaupara, mögulega á ég eftir að hlusta betur á líkamann þegar hann kvartar í framtíðinni en ég ætla rétt að vona að ég eigi eftir að hvíla oft og lengi eftir erfið verkefni í framtíðinni.

Hafdís Guðrún Hilmarsdóttir er pistlahöfundur á hlaup.is.