birt 09. apríl 2018

Fimmtudaginn 6. júlí voru liðin 100 ár frá fæðingu nýsjálenska hlaupaþjálfarans Arthurs Lydiard, en líklega átti hann meiri þátt í því en nokkur annar að gera hlaupin að þeirri útbreiddu almenningsíþrótt sem þau eru í dag. Þess vegna er einkar vel við hæfi, einmitt núna og einmitt á þessari síðu, að rifja upp nokkur atriði úr ævi hans og starfi.

Lydiard deilir visku.Fyrstu skrefinArthur Leslie Lydiard fæddist í Auckland á Nýja-Sjálandi 6. júlí 1917. Hann var lágvaxinn og snar, var fljótari en skólafélagarnir að hlaupa, en hafði þó meiri áhuga á rugby. Tuttuguogsjö ára gamall tók hann 8 km hlaupaæfingu með sér mun eldri manni og náði ekki almennilega að halda í við hann. Þetta fékk hann til að hugsa í hversu lélegu formi hann myndi verða sem gamall maður ef staðan væri strax orðin þetta slæm við 27 ára aldurinn. Í framhaldinu sökkti hann sér í hlaupabækur og fór að gera tilraunir á sjálfum sér, með það að markmiði að breyta hlaupunum úr striti í ánægju. Tilraunin fólst í því að hlaupa miklu lengri vegalengdir en tíðkuðust á þessum tíma og miklu oftar. Um tíma hljóp hann alla 7 daga vikunnar og náði mest allt að 400 km á einni viku.Nýjar áherslur í þjálfun hlauparaÞað tók Lydiard 9 ár að þróa þjálfunaraðferðina sem honum fannst virka best. Upphaflega hafði hann engin áform um að verða hlaupaþjálfari en smám saman safnaðist að honum hópur hlaupara og til varð Owiraka hlaupahópurinn undir hans stjórn. Nýjungarnar sem hann innleiddi í hlaupaþjálfun voru einkum tvær; miklu meira hlaupamagn en tíðkast hafði og markviss skipting æfingatímabilsins í áfanga.

Á uppbyggingartímabilinu hlupu maraþonhlauparar á hans vegum allt að 160 km á viku, þ.á.m. 35 km á hverjum sunnudegi. Jafnvel 800 m hlauparar tóku þessa löngu sunnudagstúra til að byggja upp grunnformið. Þegar nær dró keppnistímabilinu var dregið úr heildarmagninu og lögð áhersla á hraðaæfingar og brekkuæfingar.

Því hefur stundum verið haldið fram að Lydiard hafi verið upphafsmaður löngu hægu æfingahlaupanna, sem gjarnan eru kölluð LSD í hlaupabókum („Long Slow Distances"). Hann hefði sömuleiðis sinnt hraðaæfingum vel en hugsanlega vanrækt „mjólkursýruþröskuldsæfingar" sem einkennast af löngum sprettum með stuttum hléum á milli og er ætlað að auka færni líkamans í loftháðri öndun. Þetta er ekki alls kostar rétt, því að löngu æfingarnar hans Lydiards voru alls ekki hægar, heldur að öllum líkindum nógu hraðar til að „ýta við þröskuldinum".

Finnlandstímabilið
Lydiard þjálfaði allmarga heimsklassahlaupara um dagana, en líklega vakti þó samstarf hans við Finna hvað mesta athygli á þeim vettvangi. Hann er talinn hafa átt stærstan þátt í endurreisn finnsku hlaupahefðarinnar í lok 7. áratugar síðustu aldar og í upphafi 8. áratugarins. Þessi árangur birtist m.a. í Ólympíugulli Pekka Vasala í 1.500 metrunum í Munchen 1972 og í afrekum Lasse Virén sem vann bæði 5.000 og 10.000 metrana, bæði í Munchen 1972 og í Montreal 1976. Lydiard var sæmdur heiðursmerki Hvítu rósaorðunnar (Suomen Valkoisen Ruusun ritarikunta) fyrir störf sín í þágu finnskra hlaupara.

Hlaup fyrir alla!Hvað sem finnskum Ólympíugullum líður verður Lydiards líklega lengst minnst fyrir þátt hans í að gera hlaupin að þeirri almenningsíþrótt sem þau síðar urðu. Þetta byrjaði strax upp úr 1960 þegar þrír hjartveikir ellilífeyrisþegar úr nýsjálensku viðskiptalífi leituðu til hans í framhaldi af ótrúlegum framförum nýsjálenskra millivegalengda- og langhlaupara og spurðu hvort hlaupaæfingar í hans stíl gætu ekki líka nýst til að koma hjartasjúklingum í betra form. Þessar vangaveltur voru síður en svo í takti við ráðleggingar lækna á þessum tíma, en þeir nánast bönnuðu hjartasjúklingum að reyna á sig.Lydiard var til í samstarf, þremenningarnir fengu grænt ljós hjá lækni til að láta á þetta reyna og byrjuðu á því að ganga á milli tveggja símastaura og reyna svo að skokka að næsta staur.Ungur og efnilegur Lydiard.

Framfarirnar voru stöðugar og á endanum gátu þessir menn hlaupið 13 km á einni klukkustund! Þessi nýstárlega endurhæfingaraðferð breiddist smám saman út um landið og upp úr þessu fóru að myndast hlaupahópar með þann eina tilgang að auka lífsgæði þátttakendanna. Hugmyndin barst svo vestur um haf, einkum fyrir tilstilli hlaupaþjálfarans Bill Bowermann (1911-1999) sem þekkti Lydiard og hafði reynt ráð hans á sjálfum sér. Á örfáum vikum í febrúar 1963 breyttist fámennur hlaupahópur Bowermanns í Eugene í Oregon í nokkur þúsund manna fjöldahreyfingu, þar sem konur voru meira að segja um fjórðungur þátttakenda. Frá Bandaríkjunum barst hlaupabakterían svo til Evrópu - og svo framvegis.

Lýsingin hér að framan á tildrögum þess að almenningur tók að stunda hlaup í verulegum mæli felur vissulega í sér talsverða einföldun, enda er þessi saga orðin lengri og flóknari en svo að hún rúmist í stuttum og einföldum pistli. En á því virðist ekki leika nokkur vafi að Arthur Lydiard átti stóran þátt í þeirri byltingu sem þetta í raun og veru var. Fyrir hans tíma höfðu fáir trú á að venjulegt fólk gæti bætt líkamlegt ástand sitt með löngum og hægt vaxandi hlaupum. Þvert á móti var slíkt athæfi talið stórhættulegt! Margir telja Arthur Lydiard hafa verið áhrifamesta hlaupaþjálfara 20. aldarinnar.

Fyrstu kynni mín af áherslum Lydiards
Sjálfur kynntist ég áherslum Lydiards fyrst haustið 1974 þegar ég var 17 ára gamall að reyna að verða „alvöru 800 m hlaupari". Ég hafði æft þokkalega veturinn áður, þar sem mest áhersla var lögð á intervalþjálfun. Það gekk svo sem ágætlega en ég hafði lítið sinnt hlaupunum um sumarið. Þarna um haustið lagði Guðmundur heitinn Þórarinsson hins vegar fyrir mig nýtt „prógramm" sem byggt var á hugmyndum Lydiards. Samkvæmt því átti ég að hlaupa 70 km fyrstu vikuna (14.-20. október) á meðalhraðanum 4:40 mín/km. Til að setja þetta í samhengi hafði ég hlaupið 10 km á 37 mín. nokkrum dögum fyrr. Forskriftin fyrir viku nr. 2 var 75 km á 4:37 mín/km, vika nr. 3 átti að vera 75 km á 4:34 mín/km og vika nr. 4 80 km á 4:30 mín/km. Reyndar er skemmst frá því að segja að ég gafst upp á þessu álagi undir lok fjórðu viku. Eftir á að hyggja var grunnformið ekki nógu gott í upphafi tímabilsins - og það var ekki Lydiard að kenna.

Lokaorð
Arthur Lydiard var óþreytandi að ferðast um og kynna áherslur sínar í þjálfun hlaupara. Hann lést í Texas í einni þessara ferða þann 11. desember 2004, 87 ára að aldri. En minning hans lifir svo sannarlega í hlaupasamfélaginu.

Efnisflokkur: Saga

Heimildir:
1. The Lydiard Foundation (2017): About Arthur Lydiard. http://lydiardfoundation.org/about-arthur-lydiard.
2. Thor Gotaas (2008): Løping. En verdenshistorie. Gyldendal Norsk Forlag, Oslo.
3. The Science of Running (2016): Arthur Lydiard: The Father of Modern Training.
http://www.scienceofrunning.com/2016/11/arthur-lydiard-the-father-of-modern-training.html.

Stefán Gíslason, hlaupafrömuður, er pistlahöfundur á hlaup.is. Í pistlunum fer Stefán yfir víðan völl og fjallar um skemmtilegar og stundum ókannaðar hliðar hlaupanna.