Sú hugmynd kom upp fyrir tæpu ári síðan að taka þátt í Berlínar maraþoni 2005 til að halda upp á 20 ára afmæli Íslandsmetsins. Síðan liðu nokkrir mánuðir án þess að ég gerði neitt með þetta. Í mars fór ég hins vegar að hlaupa meira með nokkrum félögum mínum sem voru að stefna á Laugarveginn. Var jafnvel sjálfur að spá í að rúlla með. Hásinin á hægra fæti fór hins vegar að kvarta verulega í júní en hún hefur verið að angra mig nokkuð sl. 2-3 ár. Kannski ekki að furða að hún sé orðin eitthvað þreytt. Það var því sjálfgert að draga úr hlaupunum í bili og því ekki mikill maraþonhugur í mér. Valgerður, konan mín, var hins vegar á fullri ferð og sagðist hafa áhuga á að reyna við maraþonið aftur, en hún hljóp á 3:48 klst. í roki og rigningu að nóttu til árið 1999 í Mývatnsmaraþoni. Við flettum upp á heimasíðu Berlínarmaraþons þann 16. júlí og þá kom í ljós að skráningarfrestur hafði runnið út daginn áður. Það verður bara að hafa það hugsaði ég og fletti upp á öðrum hlaupum og komst að þeirri niðurstöðu að maraþonið í Óðinsvéum væri kjörið bætingarhlaup fyrir hana. Skráði okkur og síðan tóku við skipulagðar æfingar þar sem hálfmaraþonið í RM yrði næsti tékkpunktur á formið hjá Valgerði.
Halli í Adidas hringdi í mig eftir Verslunarmannahelgina og barst þetta þá í tal. Hann sagðist forviða á vitleysunni í mér og sendi þegar póst til Adidas í Þýskalandi sem eru einn af stuðningsaðilum Berlínarmaraþons. Þeir tóku erindinu mjög vel og komu okkur inn í hlaupið. Þannig að eftir allt saman þá hleyp ég í Berlín, en ætla að vera samhliða Valgerði sem stefnir á tíma undir 3:30 klst. Sýnist á eldri úrslitum að það geti orðið þröngt á þingi - um 500 manns koma í mark á hverri mínútu á því getustigi. Verður ný reynsla fyrir okkur. Eins gott að passa sig á að finna rétta straumhraðann í byrjun þar sem það getur orðið tafsamt að fara fram úr. Í gær vorum við að skoða netspjallið og þá sáum við að nærri 30 Íslendingar verða með í Berlín, mun fleiri en ég átti von á. Hélt að flestir væru á leið til Ítalíu um miðjan október. Þetta verður greinilega hið mesta fjör.
Mér datt í hug að einhverjir hefðu kannski gaman af því að fá frásögn af hlaupinu mínu í Berlín 1985 s.s. undirbúningi og hvernig hlaupið gekk fyrir sig. Hef reyndar sagt eitthvað frá því, en ekki á prenti held ég. Ætla að kíkja eftir dagbókinni minni frá 1985 og setja þetta fyrr en seinna hér inn á síðuna.