Bólgueyðandi lyf verri en gagnslaus

birt 09. nóvember 2016

Rannsóknir benda til að bólgueyðandi lyf geti beinlínis dregið úr árangri líkamlegra æfinga.Allmargir hlauparar nota verkjalyf eða bólgueyðandi lyf á æfingum og í keppnishlaupum, væntanlega í þeirri trú að lyfin fyrirbyggi sársauka og geri það mögulegt að ljúka hlaupi. Fyrir nokkrum árum spratt meira að segja upp umræða um notkun bólgueyðandi lyfja í Laugavegshlaupinu eftir að fólk sem fór um Laugaveginn að nýafstöðnu hlaupi hafði orð því hversu mikið hefði verið af lyfjaumbúðum í slóðinni, til viðbótar við öll gelbréfin sem hlauparar höfðu kastað frá sér.Sjálfsagt eru flestir sammála um að ekki sé verjandi að henda rusli meðfram Laugaveginum, en útbreidd lyfjanotkun í hlaupum bendir til að ekki hafi allir kynnt sér kosti þess og galla að taka verkjalyf eða bólgueyðandi lyf fyrir hlaup og meðan á þeim stendur.

Rannsóknir benda til að kostirnir séu fáir sem engir og að gallarnir einskorðist síður en svo við óþægindi í meltingarvegi, sem margir kannast við. Frekar dragi þessi lyf úr árangri æfinga, bæti ekki frammistöðu í keppnishlaupum og komi ekki í veg fyrir sársauka, auk þess sem þau seinki endurheimt og geti í versta falli valdið nýrnabilun og jafnvel dauða.

Bólgan sem ekki má eyða
Nýlegar rannsóknir sýna að steralaus bólgueyðandi lyf (e. non-steroidal anti-inflammatory drugs) á borð við íbúfen (íbúprófen), aspirín og naproxen (hér eftir kölluð NSAID-lyf) geta dregið úr árangri æfinga með því að koma í veg fyrir eðlilega bólgumyndun í vöðvum strax eftir átök. (5,7) Við erfiðar æfingar trosna vöðvaþræðir alltaf að einhverju marki. Þessar litlu skemmdir í vöðvunum eru í raun forsenda framfara því að eftir að líkaminn hefur gert við skemmdirnar er vöðvinn tilbúinn í meira áreiti en áður. Fyrsta viðbragð líkamans við þessum litlu vöðvaskemmdum er að auka blóðflæði til vöðvans. Þar með myndast bólga sem er fyrsta skrefið í viðgerðarferlinu. Bólgueyðandi lyf hemja þessa bólgu og seinka þannig batanum. Um leið dregur úr gagnsemi æfingarinnar.

Ofmetin virkni gegn sársauka
Margir hlauparar, þríþrautarkappar og íþróttamenn í öðrum greinum taka NSAID-lyf fyrir keppni eða í keppni í þeim tilgangi að fyrirbyggja sársauka, t.d. vegna gamalla meiðsla sem gætu átt það til að minna á sig. Þannig kom í ljós í rannsókn sem gerð var í tengslum við keppni í Ironman í Brasilíu 2008 að um 50% þátttakenda tóku NSAID-lyf rétt fyrir keppni eða meðan á henni stóð, í flestum tilfellum að sögn til að fyrirbyggja sársauka. (8) Svipaðar tölur komu út úr rannsóknum á lyfjanotkun knattspyrnumanna og -kvenna sem tóku þátt í heimsmeistaramótunum 2002-2014. Rúmlega helmingur þeirra tók NSAID-lyf á meðan á mótunum stóð og þriðji hver tók slík lyf fyrir hvern einasta leik, jafnvel þótt þeir sætu á varamannabekknum. (6)

Rannsóknir benda þó til að lyfin auki ekki sársaukaþol. Í rannsókn sem Dr. David Nieman gerði á þátttakendum í Western States ofurhlaupinu (WS 100) árið 2005 (þar sem Gunnlaugur Júlíusson var einmitt meðal þátttakenda) kom fram að þeir sem notuðu íbúprófen fyrir hlaupið og á meðan á því stóð reyndust hvorki finna fyrir minni sársauka né minni eymslum í vöðvum en þeir sem ekki tóku lyfið. Auk heldur voru þeir lyfjalausu frekar lausir við bólgur. (2,3) Að mati Niemans ættu hlauparar að forðast að taka íbúprófen í keppnishlaupum. Áhættuþættirnir séu of margir og verkir og bólgur sem gera vart við sig á leiðinni sé ekki eitthvað sem menn ættu að meðhöndla með lyfjum. Þvert á móti séu verkir og bólgur ábending um að kominn sé tími til að endurskoða æfingaprógrammið. Nái lyfin að lina verkina er hætta á að hlauparinn ofgeri viðkomandi líkamshluta, auki á meiðslin og geri þau varanlegri.

Áhrif á hjarta, heila og meltingarfæri
NSAID-lyf stuðla að hækkuðum blóðþrýstingi og séu lyfin tekin á hlaupin bætast þessi áhrif við náttúrulega blóðþrýstingshækkun sem fylgir áreynslu. Lyfin virka líka gegn ensíminu sýklóoxýgenasa (COX) sem er einn af varnarþáttum hjartans. Þetta kann að vera skýringin á því að lyf af þessu tagi geta aukið líkur á hjartaáfalli. Tilteknir sýklóoxýgenasar verja líka slímhúð meltingarfæranna fyrir magasýrum og þegar þessi virkni er heft getur það haft í för með sér uppköst, niðurgang, innvortis blæðingar og krampa. Loks má nefna að NSAID-lyf virðast auka hættuna á natríumlækkun í blóði (e. hyponatremia) sem aftur getur orsakað þrútnun í heila.

Aukið álag á nýru
NSAID-lyf virka gegn prostaglandínum sem hjálpa til við að jafna blóðflæði til nýrnanna. Mikil notkun þessara lyfja getur því beinlínis verið hættuleg nýrunum, sérstaklega þegar mikil áreynsla og vökvaskortur fylgir með í pakkanum. Þess eru dæmi að endurtekin lyfjataka, t.d. í ofurhlaupum, leiði til rákvöðvalýsu (e. rhabdomyolysis) sem er undanfari nýrnabilunar og getur reynst banvæn. (1). Hlauparinn finnur að fyrsta taflan virkar og hugsanlega tafla nr. 2 sömuleiðis. Þar með er kominn hvati til að halda lyfjatökunni áfram, jafnvel á hverri drykkjarstöð, en í raun eru allar töflurnar sem á eftir koma gagnslausar og í versta falli skaðlegar af fyrrgreindum ástæðum. Það er sem sagt beinlínis hættulegt að umgangast íbúfen og önnur lyf af þessu tagi eins og hvert annað vítamín (stundum kallað i-vítamín í hálfkæringi) eða steinefnatöflu!

Hvenær eiga hlauparar að nota bólgueyðandi lyf?
Eins og hér hefur verið rakið benda rannsóknir til að hlauparar ættu alla jafna að forðast notkun bólgueyðandi lyfja enda virðast þau yfirleitt í besta falli gagnslaus og oftast til ógagns, bæði fyrir heilsu og árangur. Einu tilfellin þar sem slík lyf virðast koma hlaupurum að gagni er fyrstu klukkutímana og e.t.v. fyrstu 2-3 dagana eftir ný og skyndileg meiðsli. Séu lyfin notuð rétt á þessum tíma, og samkvæmt læknisráði, geta þau hugsanlega flýtt bataferlinu með því að draga úr bólgum.

Efnisflokkur: Lyf

Heimildir:

  1. Christie Aschwanden (2009): The Pill Problem. The right drug can relieve pain and discomfort - or put you in a world of hurt. Runner‘s World, 7. apríl 2009. http://www.runnersworld.com/injury-treatment/what-runners-should-know-about-pain-medications.
  2. David Nieman o.fl. (2005): Muscle damage is linked to cytokine changes following a 160-km race. Brain, Behavior and Immunity, september 2005, 19(5):398-403.
  3. David Nieman o.fl. (2006): Ibuprofen use, endotoxemia, inflammation, and plasma cytokines during ultramarathon competition. Brain, Behavior and Immunity, nóvember 2006, 20(6):578-584. http://www.sciencedirect.com/science/article/pii/S0889159106000328.
  4. Jennifer van Allen o.fl. (2012): Big Book of Marathon and Half-Marathon Training. Rodale Inc., New York.
  5. Masanao Machida og Tohru Takemasa (2010): Ibuprofen administration during endurance training cancels running-distance-dependent adaptations of skeletal muscle in mice. Journal of Physiology and Pharmacology, október 2010 61(5):559-563. https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/21081799?dopt=Abstract.
  6. Philippe M Tscholl o.fl. (2015): High prevalence of medication use in professional football tournaments including the World Cups between 2002 and 2014: a narrative review with a focus on NSAIDs. British Journal of Sports Medicine, 2015 49(9):580-582. http://bjsm.bmj.com/content/49/9/580.
  7. Stuart J Warden (2008): Prophylactic misuse and recommended use of non-steroidal anti-inflammatory drugs by athletes. British Journal of Sports Medicine, 2009 43(8):548-549. http://bjsm.bmj.com/content/43/8/548.
  8. Tatiane Gorski o.fl. (2009): Use of Nonsteroidal anti-inflammatory drugs (NSAIDs) in triathletes: prevalence, level of awareness, and reasons for use. British Journal of Sports Medicine, 2011 45(2): 85-90. http://bjsm.bmj.com/content/45/2/85.

Stefán Gíslason, hlaupafrömuður, er pistlahöfundur á hlaup.is. Í pistlunum fer Stefán yfir víðan völl og fjallar um skemmtilegar og stundum ókannaðar hliðar hlaupanna.