Jæja, þá er enn eitt Reykjavíkurmaraþonið að bresta á. Hef ekki verið með síðan árið 2000 en nú ætla ég að hlaupa hálft maraþon með konunni minni. Nú hlaupa víst allir í boði Íslandsbanka eða hvað. Vona að allir skemmti sér vel í ,,boðinu" og fari heim með bætingar í farteskinu.
Ég rak augun í viðtal við Hjördísi Guðmundsdóttur, kynningarstjóra hlaupsins, í Viðskiptablaðinu í dag. Hjördís er skemmtileg og dugleg kona sem ég hef ekkert nema gott um að segja. Það sem olli mér vonbrigðum er að hún virðist sammála þeirri stefnu sem verið hefur undanfarinn áratug eða svo að ekki sé ástæða til að bjóða góðum hlaupurum til þátttöku í RM. Þess í stað segir hún að áherslan sé á að eyða meira púðri í skemmtunina og er helst á henni að skilja að RM eigi að vera einhvers konar karnival.
Gott og vel, ég get alveg tekið undir það að full ástæða er til að auka skemmtanagildi hlaupsins og finnst það bara flott að tekist hefur að fá hljómsveitir til að spila undir með hlaupurum. Þetta töluðum við líka um fyrir 10-20 árum og gerðum ýmsar tilraunir í þá átt. Þessi áhersla má þó aldrei koma niður á gæðum hlaupsins. Þeir sem eru að hugsa um að ná árangri leggja mest upp úr því að skipulag sé gott s.s. merkingar, brautarvarsla, drykkjarstöðvar og tímataka. Fyrir þá skiptir minna máli hvort einhver tónlist eða trúðslæti eru á hlaupaleiðinni.
Til að okkar bestu maraþonhlauparar, sem eru allt of fáir, bæti sig þá þurfa þeir að hafa tækifæri til að keppa við sér betri hlaupara. Mér finnst RM hafa þá skyldu að bjóða okkar bestu hlaupurum upp á samkeppni. Það er hægt að fá svokallaða ,,millihlaupara" (þeir sem eru ekki í fremstu röð en góðir samt) á ódýran hátt. Hér á árum áður fengu þeir flugmiðana frítt og uppihaldið. Þar sem Flugleiðir voru styrktaraðili þurfti RM ekki að greiða fargjaldið. Þannig að hér er ekki um mikil útgjöld að ræða. Tel því hér vera mikið metnaðarleysi á ferðinni. Það er hins vegar ekki rétt að skrifa það á Hjördísi heldur miklu frekar á stjórn og stjórnarformann RM því þar eru áherslurnar væntanlega ákveðnar. Árið 1999 kom stráklingur frá USA fyrstur í mark á 2:48 klst. Það kom honum sjálfum mest á óvart enda sagðist hann bara hlaupa annað slagið. Að mínu mati er það ekki gott til afspurnar að slíkur tími nægi til þess að sigra í alþjóðlegu maraþoni sem er auglýst um allan heim og vill láta taka sig alvarlega. Í rauninni finnst mér það fráleitt.