uppfært 08. maí 2020

Mér hefur alltaf fundist gaman að hlaupa. Það eru þó ekki mörg ár síðan ég byrjaði að líta á mig sem hlaupara. Lengi vel var ég það sem mætti kalla tómstundaskokkara. Ég hljóp þegar það var gott veður og ég hafði ekkert betra að gera.

20190628 202247 IMG 2153
Allt í lukkunnar velstandi fyrir hlaupið í júní.

Árið 2006 fór ég í mitt fyrsta hálfmaraþon í Reykjavíkurmaraþoninu. Syni mínum, þá 8 ára, fannst nú ekki mikið til þess koma. Hann myndi kannski koma og horfa á mig koma í mark þegar ég færi heilt maraþon. Að gera eitthvað til hálfs fannst honum glatað.

Sumarið 2012 plataði vinur minn mig með sér í Jökulsáhlaupið. Má eiginlega segja að það sé besti hrekkur sem ég hef lent í. Síðan þá hefur ekki verið aftur snúið.

Tók skrefið 2015
Ég hafði fram til þessa gengið um náttúru Íslands en hlaupið um götur borgarinnar. Þarna í hlaupinu áttaði ég mig á því að það var vel hægt að hlaupa í náttúrunni. Það var hægt að hlaupa allar þessar gönguleiðir sem ég hafði verið að þræða, til að slá tvær flugur í einu höggi og spara tíma. Svo fóru hlaupin auðvitað að lengjast og tímasparnaðurinn fór sína leið.

Þegar þarna var komið hljóp ég alltaf meira og meira í náttúrunni og þar sem ég var ekki dugleg að fara í keppnishlaup og var ekki virk í hlaupasamfélaginu þá var ég mikið ein að brölta en árið 2015 tók ég stórt persónulegt skref og fór í Laugavegshlaupið og 2016 fór ég í mitt fyrsta erlenda utanvegahlaup.

Jóda
Jóda og Hafdís Guðrún vígreifar í aðdraganda Lavaredo Ultra Trail.

Ég ákvað að gera þetta mjög skynsamlega og fara í vegalengd sem ég þekkti. Rétt undir 50 km, aðeins styttra en Laugavegurinn en með meiri hækkun. Hlaupið kallast Cortina trail í Lavaredo og er í hinum ítölsku Dólómíta fjöllunum. Ég vissi að ég myndi ráða vel við það og það var mikilvægt, því ég var að gera svo margt í fyrsta skipti. Ferðast ein erlendis og skipuleggja ferðina sjálf. Fyrir utan 10 tíma bið á flugvelli í Þýskalandi og eina auka gistinótt í Feneyjum, þá gekk allt mjög vel. Ég kynntist frábæru fólki og var ekki ein í þessu brasi lengur.

Skref af skrefi nær 100 km markmiðinu
Í þessu hlaupi fékk ég alvarlega fjallahlaupa bakteríu. Ég taldi þó mikilvægt að missa mig ekki og taka framtíðaskrefin af skynsemi. Til að mynda ákvað ég að fara ekki í meira en eitt útlandahlaup á ári og smám saman lengja vegalengdirnar. Ég ætlaði að vinna mig rólega upp í 100 km og fá fyrirheitnu derhúfu 100 km klúbbsins.

Árið 2017 fór ég 83 km (Maxi Race í Annecy), 2018 fór ég 95 km (UT4M í Grenoble) hvort tveggja í Frakklandi. Áðurnefndur sonur minn gerði nú smá grín að þessu og talaði um að þetta væri nú hálf lummulegt. Hvers vegna færi ég ekki 100 km? Þá loksins gæti hann orðið stoltur af mér.

Svo kom að því: ég var að fara í 120 km hlaup árið 2019. Aftur var haldið í Dolómítana.  Samkvæmt plani gerði ég allt rétt.  Í marga mánuði æfði ég vel, nærðist vel, hvíldi vel og bjó til pláss í stofunni fyrir derhúfuna. Svo fór ég út til að klára hlaupið með glans en allt klikkaði.

Líkaminn sagði stopp
Mér leið ágætlega fyrir hlaupið, þó ekki eins og venjulega. Ég var ekki kát og spennt. Mér leið meira eins og ég væri áhorfandi en þátttakandi. Fljótlega eftir að hlaupið hófst fannst mér eins og líkaminn segði bara „nei"! Ég upplifði eins konar kerfisbilun. Ég var með hausverk, gat ekki nærst - allt var vont, ég var með verki í maga, óglatt. Ég fann svo til undan vestinu mínu að mér leið eins og ég væri með blæðandi sár, hnén, mjóbakið, ökklarnir.

Allt sem gat orðið erfitt varð erfitt og strax í upphafi hlaupsins. Eftir um 20 km var ég búin að fara í gegnum það í huganum hvort þetta væri hausinn að gefasta upp eða hvort þetta væri raunverulegt og líkamlegt. Ég komst að þeirri niðurstöðu að þetta væri í raunverulegt og þá tók ég þá erfiðu ákvörðun að hlaupa að næstu mottu, hætta og taka rútuna heim.

Hvað þetta var erfið ákvörðun og ýmislegt fór í gegnum hausinn á mér. Öll þessi fjárfesting. Allur tíminn, undirbúningurinn, ferðalagið, allir sem voru að fylgjast með mér og hvetja mig stoltir áfram. Allt. Ég upplifði mig algjöran lúser, þó ég vissi alveg betur, þá var alltaf einhver á öxlinni á mér sem hvíslaði: iss.. þú hefðir nú alveg getað klárað þetta... ertu svona léleg ... o.s.frv. Nú hljóma ég svolítið eins og ólympíufari sem klúðrar einhverju en ekki eins og miðaldra húsmóðir í Vesturbænum sem sem hleypur sér til sáluhjálpar og lífsfyllingar, en stuðningur fólksins í kringum mig kom mér yfir erfiðasta hjallann.  Þeim fannst ég ekki lúserinn sem ég upplifði mig. Þetta var ómetanlegt.

Gerði aldrei ráð fyrir DNF
Svo kom ég heim og fór yfir þetta. Fór yfir planið. Þetta skynsama, gulltryggða, eðalplan mitt.  Í baksýnisspeglinum þá minnti þetta plan mig svolítið á plan okkar vinkvennanna þegar við drukkum áfengi í fyrsta skipti. Við skipulögðum allt. Pössuðum alla þræði, hver reddaði víninu, hvar það var drukkið, mamma mátti ekki vita ... allt var skipulagt. Nema það var bara eitt sem við gleymdum. Við gleymdum að gera ráð fyrir timburmönnunum.

20190629 032928 IMG 2160
Súr á svip þegar örlögin voru ráðin.

Hlaupaplanið mitt gerði nefninlega ráð fyrir að allt gengi upp. Ég var aldrei með í jöfnunni að eitthvað kæmi uppá og ég myndi ekki ljúka keppni. Ég hafði aldrei hætt í hlaupi. Ég vissi ekki fyrir hvað skammstöfunin DNF stæði.

Þessi reynsla er orðin mjög mikilvæg fyrir mig. Ég held að hún geri mig að betri hlaupara, alveg eins og ég lærði þarna um árið að maður á ekki að fara á bak við mömmu sína þá lærði ég að þegar maður segir „ef allt gengur upp" þá þýðir það í alvöru nákvæmlega það. Ef allt gengur upp og það er ekkert sjálfsagt að það geri það. Og það er bara þannig.

Ég mun sækja aftur um pláss í sama hlaupi á næsta ári, því mig langar að hlaupa þessa fallegu hlaupaleið en hef einn annan séns á húfunni á þessu ári, í Henglinum í haust. Ég tek húfuna þá ... ef allt gengur upp.