uppfært 09. ágúst 2020

Ég brá mér til Englands á dögunum, þar sem ég hljóp fyrsta keppnishlaupið mitt eftir eins og hálfs árs fjarveru vegna meiðsla. Aðaltilgangur ferðarinnar var að vísu annar, nefnilega að fylgja þremur hlaupavinum mínum, en mér fannst tímabært að gera þetta í leiðinni fyrst að færi gafst. Hlaupið gekk áfallalaust og ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að leiðin liggi áfram upp á við. Enn er nóg svigrúm til framfara.

Að taka þetta eins og langa æfingu
Ég gat í raun ekkert hlaupið vegna meiðsla frá miðjum janúar á síðasta ári og fram í miðjan október. Síðan þá hafa æfingar gengið áfallalaust en framfarirnar hafa verið mun hægari en ég hafði vonað. Með öðrum orðum hafa hlaupin sjálf verið mun hægari. Þess vegna finnst mér ég ekki vera komin í keppnisform, hvað sem það orð annars þýðir fyrir menn á sjötugsaldri sem eru löngu hættir að vera í hópi þeirra bestu, hafi þeir nokkurn tímann verið það. Og ef manni finnst maður ekki vera kominn í þetta annars torræða form, þá þarf að grípa til væntingastjórnunar til að gleðin tapist ekki í keppninni.

Stefán í ægifögru landslagi í Kielder.Með þetta í huga ákvað ég að hugsa hlaupið í Kielder ekki sem keppnishlaup, heldur sem langa æfingu. Vegalengdin var 32 km sem var ekkert miklu lengra en þessir 21-27 km sem ég hafði hlaupið á hverjum einasta laugardegi næstu sjö vikurnar á undan. Löng laugardagsæfing skyldi það vera. Að taka þetta EKKI eins og langa æfinguHlaupið í Kielder var ræst kl. 10 að morgni laugardagsins 6. apríl. Og þar sem ég stóð við rásmarkið við kastalann og beið eftir að kallið kæmi vissi ég vel að þetta yrði EKKI eins og löng æfing. Ég var sem sagt ekki búinn að ná þeim þroska að ég gæti breytt keppnishlaupi í æfingu eins og ekkert væri. Maður var jú búinn að næla á sig númer með innbyggðri flögu og tímatökukerfið var í þann veginn að fara í gang.

Fyrir mér er keppnishlaup alltaf keppnishlaup. Ég mátti svo sem vita það. Hins vegar var ég laus við alla pressu í þessu tiltekna keppnishlaupi, annars vegar vegna þess að ég hafði ekki undirbúið það neitt sérstaklega enda aðaltilgangur Bretlandsferðarinnar annar eins og fyrr segir, og hins vegar vegna þess að ég átti engan gamlan tíma í þessu hlaupi sem ég „þurfti" að hafa til samanburðar. Ég gat sem sagt hlaupið sultuslakur af stað.

Hlaupið sjálft
Í hlaupinu voru 78 þátttakendur, líklega allt Bretar nema ég. Mikil hógværð ríkti við rásmarkið og enginn virtist hafa áhuga á að byrja alveg frammi við línuna. Ég er vanur örlítið meiri ágengni og var því fyrstur af stað og hélt forystunni fyrstu 200 metrana eða svo. Eftir það fóru fljótari hlauparar að síga fram úr og ég bjó mér strax til það tómstundagaman að reyna að halda tölunni og fylgjast þannig með í hvaða sæti ég væri. Var fljótlega kominn niður í 10. sæti og svo það tólfta. Fyrstu kílómetrarnir voru frekar erfiðir, upp hlykkjótta skógarstíga, en inn á milli voru bílfærir vegarkaflar. Svalt var í veðri, skýjað og hægur vindur og í raun hið ákjósanlegasta hlaupaveður í alla staði. Snemma um morguninn hafði hitastigið verið við frostmark, en þegar þarna var komið sögu var hitinn líklega kominn í 3-4°C.

Eftir 7-8 km fannst mér kominn tími til aðfækka fötum, sem tók svolitla stund því að bakpokinn þvældist fyrir. Í honum var skyldubúnaður samkvæmt reglum hlaupsins, þ.m.t. regnföt, álteppi og fullhlaðinn sími, sem er auðvitað öryggistæki í svona hlaupi, kannski samt ekki í þessu tiltekna hlaupi þar sem leiðin var nánast öll utan þjónustusvæðis farsímakerfa. En maður hefði þá alla vega getað skoðað myndir af fjölskyldunni á meðan beðið var eftir hjálp sem ekki var hægt að hringja í.Ég missti nokkra hlaupara fram úr mér á meðan ég fækkaði fötum, en náði þeim fljótlega öllum aftur. Taldist þá til að ég væri í 11. sæti í hlaupinu. Var þó líklega nr. 10. Maður getur alltaf ruglast í tölfræðinni. Næstu 20 km var ég aleinn á ferð og stytti mér stundir við að stilla mig um að kíkja á úrið til að gá hversu langt væri eftir. Lét það bíða þangað til ég væri kominn upp á næstu hæð, eða kannski þar næstu. Kílómetrarnir verða langir ef maður er alltaf að rýna í teljarann. Rólegur í vanþakklætinuEftir því sem á leið hlaupið fann ég betur og betur að formið var ekki það sama og það var fyrir meiðsli, allt einhvern veginn þyngra og erfiðara. Mér fannst þetta ekki skemmtileg tilfinning, en hún hefur fylgt mér síðustu mánuði og var því ekkert framandi. Hún vék líka til hliðar þegar ég minnti sjálfan mig á hvernig heilsan var fyrir ári síðan þegar hlaup voru nánast óframkvæmanleg. Auðvitað eru það forréttindi, sérstaklega fyrir íslenskan karl á sjötugsaldri, að geta hlaupið um breskar heiðar klukkutímum saman án nokkurra teljandi vandræða. Maður þarf að vera „rólegur í vanþakklætinu" þegar allt gengur í raun svona vel. Endaspretturinn og sigurlauninEndaspretturinn varð auðvitað enginn sprettur, en ég náði samt einum hlaupara í síðustu löngu brekkunni og endaði í 9. sæti í hlaupinu þegar upp var staðið. Þá kom meira að segja í ljós að ég hafði verið fyrstur allra sem komnir voru yfir sextugt, rúmum hálftíma á undan þeim næsta. Ég fékk sem sagt aldursflokkaverðlaun sem ég hirti að vísu ekki fyrr en um kvöldið þegar ég var búinn að fylgjast með hlaupavinunum þremur sem ýmist lögðu 50 eða 100 km að baki þennan dag.

Aðalatriðið
Ég er sem sagt byrjaður að keppa aftur. Keppnisferlinum fyrir meiðsli lauk með maraþonhlaupi í Bregenz í Austurríki í október 2017. Síðan er liðið eitt og hálft ár. Það er stuttur tími af heilli ævi. Hlaupaferðin til Kielder var nýtt upphaf fyrir mér. Og gleðin tapaðist ekki. Nú er bara að halda áfram að njóta. Það er aðalatriðið.

Efnisflokkur: Persónulegt

Lesefni:

Stefán Gíslason, hlaupafrömuður, er pistlahöfundur á hlaup.is. Í pistlunum fer Stefán yfir víðan völl og fjallar um skemmtilegar og stundum ókannaðar hliðar hlaupanna.