Nú eru nokkrar vikur liðnar frá úrslitahlaupinu í 1.500 m karla sem fór fram þann 6. ágúst á Ólympíuleikunum í París. Í mínum huga var það hápunkturinn í frjálsíþróttakeppni leikanna þrátt fyrir frábær afrek og mjög skemmtilega keppni í mörgum öðrum greinum eins og til dæmis heimsmet Armand Duplantis 6,25 m í stangarstökki.
Í aðdraganda úrslitahlaupsins í 1.500 m voru miklar pælingar um hvernig taktíkin í hlaupinu yrði. Hvernig myndi Jakob, Ólympíumeistarinn frá Tokyo 2021, útfæra hlaupið til að taka út endasprett Josh Kerr frá Skotlandi sem hann tapaði fyrir á Heimsmeistaramótinu árið 2023. Mér sýndist Jakob vera búinn að vinna í þessum ,,veikleika“ þegar hann kikkaði (e.kick) vel síðustu 100 m og sigraði 1.500 m hlaupið (3:31,95) á Evrópumeistaramótinu í Róm í byrjun júní sl. Vel að merkja þá tók Kerr ekki þátt í því hlaupi og að sjálfsögðu ekki hlauparar utan Evrópu. Það var því mikill spenningur fyrir úrslitahlaupið. Jakob með besta tímann 3:26,73 mín sem var Evrópumet, sett þremur vikum áður í Mónakó. Hins vegar margir í úrslitahlaupinu sem höfðu hlaupið best um og undir 3:30 mín. Allt því opið því enginn héri (e.pacemaker) til að halda uppi hraðanum.
Allir bjuggust við einvígi milli Jakobs og Kerr. Jakob tók fljótt forystuna og fór geyst. Millitími eftir 400 m var 54,9 sek og eftir 800 m 1:51,38 mín, hvorttveggja með því allra hraðasta sem verið hefur í 1.500 m hlaupi. Jakob enn fyrstur þegar 100 m voru eftir og komið á beinu brautina. Á miðri braut reynir Kerr að fara fram úr utanmeginn og þá færir Jakob sig aðeins út. Gætir ekki að því að þá opnar hann leið fyrir aðra til að fara fram úr innan á fyrstu brautinni. Sennilega ekki gert ráð fyrir því að neinn gæti nýtt sér þann möguleika. Bandaríkjamaðurinn Cole Hocker sem tekist hafði að fylgja þessum mikla hraða í hlaupinu átti aðeins kikk eftir og nýtti sér þennan möguleika og sigraði á 3:27,65 mín. Þetta voru óvænt úrslit þar sem besti tími Hocker áður var 3:30,59 mín frá bandaríka úrtökumótinu fyrr á þessu ári. Vitað var þó að hann væri góður kikker (vantar gott íslenskt orð yfir þetta) og hafði hlaupið 800 m á 1:45,63 mín nokkrum vikum fyrir Ólympíuleikana. Josh Kerr varð annar á 3:27,79 sem er nýtt breskt met, Yared Nuguse, USA, þriðji á 3:27,80 mín og setti persónulegt met og Jakob svo fjórði á 3:28,24 mín. Ótrúlegt hlaup – tíu hlauparar undir 3:31 mín og margir að setja persónuleg met og landsmet. Athygli mína vakti frábær árangur Nils Laros, 19 ára stráks (fæddur 2005) frá Hollandi, sem hljóp á 3:29,45 mín (6.sæti) og setti hollenskt met. Verður forvitnilegt að fylgjast með honum á næstu árum.
Ég fylgdist með umræðum á Internetinu eftir hlaupið og þar mátti sjá mörg ummæli þess efnis að Jakob Ingebrigtsen ætti ekki lengur möguleika á að vera bestur í 1.500 m og ætti frekar að snúa sér að 5.000 m en þar varð hann Ólympíumeistari, hljóp á 13:13,66 mín eftir góðan endasprett. Enginn hafði möguleika í hann þar og í rauninni furðulegt að bestu langhlauparnir eins og Hagos Gebrhiwet frá Eþíópíu skyldu ekki halda uppi meiri hraða fyrr í hlaupinu en Gebrhiwet hafði sett landsmet og ársbesta í heiminum á vegalengdinni 12:36,73 mín á Bislett leikunum 30.maí 2024. Ekki er ég sammála þessu. Held að Jakob eigi töluvert ennþá inni í 1.500 og eigi góðan möguleika á að slá heimsmet eyðimerkurljónsins svokallaða frá Marokkó, Hickam El Gurrouj sem er 3:26,00 mín frá árinu 1998. Jakob verður 24 ára þann 19. sept og á því mörg ár eftir. Ótrúlega hæfileikaríkur og nægir að benda þar á árangur hans sem unglings. Hljóp sem dæmi 16 ára gamall undir 4:00 mín í míluhlaupi, yngstur í heimi til að gera það, og ári seinna hljóp hann á 3:52,28 mín. Mjög fjölhæfur hlaupari og setti m.a. Evrópumet undir 20 ára í 3.000 m hindrunarhlaupi er hann hljóp á 8:26,81 mín 8. júlí 2017 og vantaði þá tvo mánuði í að verða 17 ára. Held að fáir viti af þessu. Gæti án efa keppt um meistaratitla í þessari grein ef hann svo vildi. Þann 5. júlí 2019 þá tæplega 19 ára setti Jakob Evrópumet undir 20 ára í 1.500 m hlaupi 3:30,16 mín og líka í 5.000 m hlaupi 13:02,03 mín tveimur vikum seinna. Ótrúlegur árangur og áfram mætti telja fleiri afrek.
Eftir Ólympíuleika er oft keppt á demantamótum. Eitt slíkt fór fram í Lausanne 21. ágúst. Þar sigraði Jakob 1.500 m á 3:27,83 mín og Ólympíumeistarinn Cole Hocker varð annar á 2:29,85 mín og átti aldrei möguleika. Munurinn var sá að Jakob þurfti ekki að leiða hlaupið framan af þar sem héri hélt uppi hraðanum. Nú bíða allir spenntir eftir demantamótinu sem fram fer í Zürich 5. september en þar mun Jakob Ingebrigtsen freista þess að ná heimsmetinu í 1.500 m hlaupi. Spurning hvort hinir hlaupararir nái að halda í hann þar sem líklegt er að hraðinn verði mikill frá upphafi. Ég held ekki og spái því að Jakob sigri.
Hann er í fantaformi, var að setja heimsmet í dag (þetta er skrifað 25. ágúst) í 3.000 m hlaupi er hann hljóp á 7:17,55 mín á demantamótinu í Silesia, Póllandi, en íslenska landsliðið keppti á þeim leikvangi í fyrra í Evrópukeppni landsliða 2. deild. Eldra metið í 3.000 m sem þótti ósláanlegt átti Daniel Komen frá Kenía 7:20,67 mín frá árinu 1996. Í mínum huga er Jakob Ingebrigten besti hlaupari heims í vegalengdum 1.500 – 5.000 m nú um stundir og bara spurning hversu mikið hann nær að bæta sig á næstu árum.
(*Mynd fengin af Instagram síðu Jakobs)