Eru langhlaup góð fyrir hjartað?

birt 09. janúar 2017

Áratugum og jafnvel öldum saman hafa menn velt því fyrir sér hvort langhlaup séu góð fyrir hjartað eða hvort þau séu kannski bara stórhættuleg. Þessar vangaveltur eru eðlilega mest áberandi fyrst eftir að fréttir berast af því að menn hafi lent í hjartastoppi og dáið á hlaupum, sem vissulega hefur gerst. Í þessum pistli verður tíndur til einhver fróðleikur um þetta mál, en spurningunni verður samt ekki svarað með jái eða nei. Málið er ekki alveg svo einfalt.

Pietri og Lazaro
Umræðan um skaðsemi maraþonhlaupa fékk byr undir báða vængi eftir að Ítalinn Dorando Pietri hneig niður á Ólympíuleikunum í London 1908 nokkrum metrum frá marklínunni þegar sigurinn blasti við. Hann var dreginn í markið og síðan komið sem skjótast undir læknishendur. Um kvöldið sagði orðið á götunni að hann væri dáinn en daginn eftir var hann aftur mættur á völlinn hinn hressasti. Hann var að vísu dæmdur úr leik, en það er önnur saga. Alvarlegra atvik átti sér stað í maraþoninu á Ólympíuleikunum í Stokkhólmi fjórum árum síðar þar sem Portúgalinn Francisco Lazaro lést eftir að hafa fengið hitaslag í grennd við 30 km línuna. Næstu árin eftir þetta var mikið rætt um hugsanlega skaðsemi langhlaupa fyrir hjartað og á þeim tíma var m.a. lágur hvíldarpúls hlaupara ranglega túlkaður sem vísbending um skaðsemina. Líklega tengdust ófarir Pietris og Lazaros ekki hjartanu neitt sérstaklega.

Sviplegt fráfall Capallo Blanco
Annað atvik og nær okkur í tíma, sem setti enn af stað umræðu um hugsanlega skaðsemi langhlaupa fyrir hjartað var sviplegt fráfall ofurhlauparans Micah True, sem margir þekkja sem Capallo Blanco (Hvíta hestinn) úr bókinni Born to Run, en hann dó úr hjartabilun langt fyrir aldur fram á æfingu í mars 2012.

HCM aðalskaðvaldurinn
Þegar horft er fram hjá einstökum tilvikum, svo hörmuleg sem þau eru, og rýnt í tölfræðina í stærri mælikvarða kemur í ljós að dauðsföll vegna hjartabilana í maraþonhlaupum eru afar fátíð. Í rannsókn Jonathan H. Kim og félaga sem sagt var frá í tímaritinu New England Journal of Medicine 2012 kom til að mynda fram að dánartíðni vegna hjartabilunar í maraþon- og hálfmaraþonhlaupum væri u.þ.b. 1 á móti 259.000 (42 af 10,9 milljónum þátttakenda í tilteknum hlaupum á árunum 2000-2010). Af 31 dauðsfalli sem skýrslur voru til um var mikill meirihluti, 23 tilvik, rakinn til ofvaxtarhjartavöðvakvilla (e. hypertrophic cardiomyopathy (HCM)) sem er arfgengur sjúkdómur sem lýsir sér í óeðlilegri þykknun hjartavöðvans. HCM er algengasti arfgengi hjartasjúkdómurinn og má ætla að um einn af hverjum 500 einstaklingum gangi með hann. Fæstir þeirra verða nokkurn tímann varir við sjúkdóminn en líkamsleg áreynsla er einn þeirra þátta sem geta aukið áhættu fólks með HCM. Áreynsla getur þá orsakað ofurhraðan og stjórnlausan hjartslátt, svonefnt sleglatif, sem er lífshættulegt ástand.

Góðar líkur en engin trygging
Almennt er óhætt að gera ráð fyrir að langhlaup séu miklu frekar til þess fallin að draga úr áhættu vegna hjarta- og æðasjúkdóma en að auka hana, enda styðja fjölmargar rannsóknir þá ályktun. Það breytir hins vegar ekki því að hvorki hlaup né önnur líkamsrækt getur eytt allri þeirri áhættu sem fyrir er, svo sem vegna erfða, reykinga, óholls mataræðis o.s.frv. Og í vissum tilfellum getur áreynslan ýtt manni fram af brúninni, svo sem þegar fólk með HCM á í hlut. Jafnvel það sem stuðlar mest að bættri heilsu getur aldrei tryggt mann gegn sjúkdómum eða dauða.

Verið vakandi fyrir einkennum
Helsta ályktunin sem hægt er að draga af þessu öllu saman er sú að fólk eigi alls ekki að láta óttann við hjartabilun koma í veg fyrir að það stundi líkamsrækt, þ.m.t. löng hlaup, því að hreyfing og útivist stuðla vissulega að betri heilsu hjarta og annarra líffæra í langflestum tilvikum. Skyndidauði íþróttamanna, ungra sem aldinna, vegna hjartabilunar ætti hins vegar að vera áminning um að leita læknis ef vart verður einkenna á borð við þyngsli fyrir brjósti, óeðlilega mæði, svima á hlaupum eða yfirlið. Það getur verið allt í lagi að „hlaupa í gegnum" alls konar aðra verki, en einkenni af þessu tagi þarf að taka alvarlega. Fólk með ættarsögu um hjartasjúkdóma og fólk sem hefur misst nána ættingja úr hjartabilun eða á annan óútskýrðan hátt (þ.m.t. vöggudauði) fyrir 55-65 ára aldur ætti sömuleiðis að láta skoða í sér hjartað, sérstaklega ef það hefur í hyggju að fara að stunda líkamsrækt í miklum mæli. Það eru nefnilega ekki allir svo heppnir að fá aðvörun áður en klukkan glymur. Fólk sem greinist með HCM getur í mörgum tilvikum haldið áfram að hlaupa eða stunda aðrar íþróttir, allt eftir því hvernig læknar meta ástand þess. Þá þarf bara að halda álaginu í hófi og í sumum tilvikum kemur til greina að græða svonefndan bjargráð (Implantable Cardioverter Defibrillator (ICD)) í viðkomandi.

Oftast já en stundum nei
Stutta svarið við spurningunni „Eru langhlaup góð fyrir hjartað" er „já". Höfum það samt hugfast að við flóknum spurningum eru aldrei til einföld og rétt svör. Með öðrum orðum er svarið oftast „já" en samt einstaka sinnum „nei". Höldum áfram að hlaupa eins og ekkert hafi í skorist en látum hjartað ráða för og hunsum ekki mikilvægar vísbendingar um að eitthvað sé í ólagi.

Efnisflokkur: Heilsa

Heimildir:

  • 1. Amanda Loudin (á.á.): Think Running is all You Need to Keep Your Heart Healthy? Sorry, it''s Not! RunnersConnect. https://runnersconnect.net/masters-running/masters-running-heart-health/.
  • 2. Berglind Aðalsteinsdóttir o.fl. (2012): Arfgerð og svipgerð ofvaxtarhjartavöðvakvilla á Íslandi. Vísindi á vordögum 25. apríl til 4. maí 2012. Ávarp, dagskrá / yfirlit og ágrip veggspjalda. Fylgirit 70. Læknablaðið 98. árg.: 1-xx, (bls. 24-25). http://www.landspitali.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=32904.
  • 3. David Roche (2016): The Tell-Tale Heart. Examining your risk for sudden cardiac arrest while running. Trail Running, Issue 116, December 2016, (bls. 48-49).
  • 4. Jonathan H. Kim o.fl. (2012): Cardiac Arrest during Long-Distance Running Races. New England Journal of Medicine, January 2012; 366:130-140. http://www.nejm.org/doi/full/10.1056/NEJMoa1106468.
  • 5. Óskar Hrafn Þorvaldsson (2012): Veikleiki í kerfinu getur afhjúpast með miklum hvelli. Viðtal við Guðmund Þorgeirsson yfirlækni. Fréttatíminn 3. árg., 12. tbl. 23. mars 2012. http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=5861095.
  • 6. Thor Gotaas (2008): Løping. En verdenshistorie. Gyldendal Norsk Forlag, Oslo.

Stefán Gíslason, hlaupafrömuður, er pistlahöfundur á hlaup.is. Í pistlunum fer Stefán yfir víðan völl og fjallar um skemmtilegar og stundum ókannaðar hliðar hlaupanna.