Það gladdi mig mjög að heyra að hinn tvítugi og bráðefnilegi Kári Steinn Karlsson hljóp á 14:30,72 mín. í 5.000 m hlaupi um síðustu helgi. Þar er á ferðinni maður sem er tilbúinn að leggja mikið á sig og gæti skrifað nýtt blað í íslenskum langhlaupum. Tími til kominn enda öll metin, nema í 3.000 m hindrun, komin á þrítugsaldur og jafnvel á fertugsaldurinn.
Í heimsóknum mínum til gömlu hlaupafélaga minna í Noregi og Þýskalandi í sumar fékk ég að vita að veruleg fækkun hefur orðið á þeim sem eru tilbúnir að leggja mikið á sig til að ná árangri í langhlaupum. Bæði félögin, Skjalg í Stavanger og TSV Trostberg í Þýskalandi áttu sterkum langhlaupurum á að skipa fyrir 20-30 árum en geta nú varla komið saman sæmilegri sveit. Skjalg sendi m.a. árin 1979 og 1981 tíu manna sveit í götuhlaupið milli Edinborgar og Glasgow og var í fremstu röð. Þar kynntist ég Helge Knudsen og fleiri Norðmönnum og hef haft samband við þá síðan. Árið 1989 fór Víðavangshlaup heimsins fram í Stavanger og bauð Helge íslenska hópnum heim í eftirminnilega rækjuveislu.
Þróunin er svipuð hjá öðrum vestrænum þjóðum. Sumir hafa um kennt ,,innrás" Afríkumannanna. Þeir vinni öll hlaup og hirði verðlaunin. Það sé enginn möguleiki að halda í menn sem hlaupi langt inn fyrir 13 mín. í 5.000 m og inn fyrir 27 mín. í 10.000 m hlaupum. Sjálfsagt hefur þetta áhrif en fleira spilar líka inn í eins og lítill sem enginn tekjuávinningur og þar með lítill hvati. Þjóðfélagsgerðin og almenn velmegun hafi gert fólk latara. Fyrir Austur - Evrópubúa og Afríkubúa hefur það hins vegar getað skipt sköpum fyrir framtíðar lífsafkomu að ná árangri í íþróttum. Á Vesturlöndum skiptir það bara máli í einstökum íþróttagreinum s.s. í knattspyrnu, tennis og golfi.
Í ljósi þessa er dálítið fróðlegt að sjá hvað afreksmaður þarf að leggja á sig til að ná afburðaárangri. Kvöld eitt í Noregi bað ég Helge að sýna mér gamlar æfingadagbækur. Helge (1952) var á sínum tíma norskur landsliðsmaður og hljóp best 1.500 á 3:48,3 (1981), 3.000 á 8:03,5 (1981), 3.000 h á 8:44,96 (1981), 5.000 á 13:57,3 (1980) og 10.000 á 29:37,0 (1979). Allt eru þetta mun betri tímar en Íslandsmetið nema í 1.500 m hlaupi. Sjá mátti að árið 1979 hljóp hann samtals á æfingum og í keppni 6.363 km, árið 1980 samtals 6.485 km, árið 1981 samtals 6.781 km og árið 1982 samtals 6.172 km. Mér lék forvitni á að skoða árið 1981 nánar en þá æfði hann hvað mest og setti þrjú af sínum persónulegu metum. Fyrstu sjö mánuði ársins var magnið eftir mánuðum eftirfarandi. Innan sviga er fjöldi æfinga í mánuði:
Janúar 716 km (51), febrúar 700 km (50), mars 730 km (51), apríl 600 km (50), maí 600 km (52), júní 497 km (52) og júlí 467 km (49). Magnið fyrstu 16 vikurnar var eftirfarandi: 161-142-180-176-140-196-180-190-143-170-192-133-162-133-148-167. Til að gefa hugmynd um æfingarnar skrifaði ég niður þrjár magnmestu vikurnar. Í viku 6 (196 km) voru æfingarnar eftirfarandi: Mán. M 16r, K 16j. Þri. M 10r, K 20x130 m (30sek hv) hraðaæf, samtals 16 km. Mið. M 10r, K 18j. Fim. M 10r, K 3x3000 (hv 12 mín) samt 18 km. Föst. M 10r, K 14j. Lau. M 10r, K 17 hratt. Sun. 31r. Þetta gera 13 æfingar á viku, enginn hvíldardagur. Í viku 8 (190 km) voru æfingarnar svipaðar eftir dögum og magni. Á þri var kvöldæfingin 24x65sek (25sek hv) og á fimmtudegi var kvöldæfingin 5x2000 (hv 8 mín). Sunnudagshlaupið var ,,aðeins" 27 km og því voru 8 km hlaupnir rólega um kvöldið, samtals 14 æfingar þá vikuna. Í viku 11 (192 km) var fyrirkomulagið svipað nema kvöldæfingin á þri var 17 km fartleikur og kvöldæfingin á fim var 10x1000 með 4 mín hv.
Grunnpunkturinn í æfingunum sagði Helge vera tvær hraðaæfingar í viku (þri og fim), eitt hratt hlaup 15-20 km (lau) og rólegt langhlaup 25-35 km (sun). Álagið í öðrum æfingum hefði verið mun minna, morgunhlaupin hefðu alltaf verið róleg og yfirleitt um 10 km. Ég bað hann um að nefna þrjú mikilvæg atriði til að ná árangri. Helge sagði:
1) Æfa saman, sérstaklega hraðaæfingarnar. Þá er tekið meira á. Vandamál í dag þar sem fáir æfa mikið.
2) Hlusta vel á líkamann.
3) Ekki treysta á púlsklukkur og þ.h. dót.
Af ofantöldu má sjá að Helge lagði mikið á sig. Sérstaklega athyglisvert að hann var að æfa fyrir 3.000 m hindrun sem aðalgrein. Hann hljóp maraþon best á 2:22 en æfði aldrei sérstaklega fyrir það. Ég hljóp aldrei svona mikið. Mesta magnið á ári var rúmlega 5.000 km, mest á mánuði um 630 km og mest í einni viku 185 km. Náði aldrei að halda svona mörgum vikum samfellt í 140 km og meira. Til þess þarf langan aðdraganda, mikinn styrk og þrautseigju.