Fámáll hlaupafélagi - Reykjavíkurmaraþon 1997 - Bjarni E. Guðleifsson

birt 01. febrúar 2004
Frásögn Bjarna E. Guðleifssonar, Möðruvöllum

Ég hljóp mitt fyrsta hálfmaraþon þegar ég var um 45 ára. Var það Reykjavíkurmaraþon og hef ég reynt að taka þátt í því árlega síðan og hleyp ætíð hálfmaraþon. Mér finnst afar skemmtilegt að taka þátt í þessari fjöldahátíð og ekki minnkaði ánægjan þegar maraþonið var sameinað menningarnóttinni. Hér verður sagt frá ánægjulegustu upplifun minni í Reykjavíkurmaraþoni.

Um maraþonhelgina árið 1997 var ég staddur í Reykjavík vegna veikinda í fjölskyldunni, en móðir mín aldurhnigin lá talsvert sjúk. Ég hafði lítið getað æft mig og var ekkert viss um að ég ætti að vera að hlaupa og ættingjar mínir drógu heldur úr mér kjarkinn. En venju samkvæmt ákvað ég að fara og hlaupa fyrir mömmu. Veður var gott, og mér leið svosem ágætlega framan af hlaupinu. Rétt er að geta þess, að ég keppi aldrei við tímann, vantar til þess allan metnað og bara rúlla vegalengdina á mínum hraða. Ég er einfari í skokkinu, vil helst vera einn í mínum þönkum og hvorki tala né láta hraða annarra rugla taktinn. Þrívegis komu kunningjar mínir upp að hlið mér og hófu samræður, en ég sagði þeim bara að fara á undan mér, sem þeir og gerðu. Þegar ég kom á Skúlagötuna eftir rúma 10 kílómetra kemur maður upp að hlið mér og hleypur þegjandi nákvæmlega í sama takti og ég. Það var greinilegt að hann ætlaði ekkert framúr mér og við hlupum Sæbrautina (og Kleppsveginn) án þess að mæla orð af vörum. Ég gaf honum auga, og virtist mér hann vera eitthvað yngri en ég, kannski um fimmtugt en ég var þá 55 ára. Ljóshærður var hann, talsvert sólbrúnn, fríðleiksmaður. Þegar við vorum að nálgast enda Kleppsvegarins bendir hann á Esjuna sem enn var prýdd nokkrum snjósköflum og segir: "Sne". Þá áttaði ég mig á því að þetta var Dani og ég sagði: "Ja". Lengri urðu samræður okkar ekki, einungis eitt orð á hvorn veg.

Við hlupum áfram samsíða í takti og þegjandi. Þetta var greinilega kurteis maður, því þegar Bjarni frændi minn Bogason (sem ætlaði að taka mynd af systur sinni) sá mig óvænt og smellti að mér mynd, þá vék þessi þögli hlaupari til hliðar, eins og hann vildi ekki eyðileggja myndina. Engu að síður varð hann með á myndinni. Á þessum árum var Kleppsvegurinn hlaupinn á enda og síðan upp Skeiðarvog, eftir Langholtsvegi, Laugarásvegi og gegnum Laugardalinn að Lækjartorgi. Syðst á Kleppsveginum finn ég að nokkuð fer að draga af mér, og var kannski ekki að furða því ég fór nær óundirbúinn í hlaupið. Fannst mér líklegt að ég yrði að láta þennan fámælta ferðafélaga fara á undan mér. Á mótum Kleppsvegar og Skeiðarvogs stóðu ungir menn og afhentu öllum hlaupurum litla túpu af orkugeli eða hlaupi frá Leppin, líklega í auglýsingarskyni. Þessu tókum við feginshendi, gleypti ég strax minn skammt og fann ég að mér bættist strax kraftur þannig að ég gat haldið áfram við hlið Danans. Það gekk vel alla leið niður í Laugardal, þá kemur aftur þessi þreytutilfinning yfir mig og ég fer að slaka á og ætla að senda Danann á undan mér. En þá gerist nokkuð óvænt. Daninn réttir mér orkugelið sitt, sem hann hafði þá greinilega ekki notað. Ég tók því fegins hendi og enn þögðum við. Sagan endurtók sig, ég fylltist Leppinkrafti og hljóp við hlið þessa vinar míns alla leið í mark og náði næstbesta tíma mínum í hálfmaraþoni Reykjavíkurmaraþons. Það sem kom mér hins vegar enn meira á óvart var að þegar ég kom í mark í mínu hálfmaraþoni, kom í ljós að Daninn hélt áfram, hann var að fara í heilt maraþon.

Fyrstu daga eftir hlaupið velti ég því mikið fyrir mér hvernig ég gæti þakkað honum fyrir þessa íþróttamannlegu hjálp. Datt mér helst í hug að senda honum kort, kannski jólakort. Ég hafði sett númerið hans á minnið og komst að því hjá framkvæmdaaðilum Reykjavíkurmaraþons að hann hét Leo Bro og passaði það við tíma hans á úrslitalistanum, en hann var rétt um 4 klukkutíma í hlaupinu. Það olli mér hins vegar nokkrum vonbrigðum að Ágúst framkvæmdastjóri gat ekki gefið mér upp heimilisfang hans, það var einhver ruglingur í skráningunni. Snéri ég mér þá til íslenska sendiráðsins í Kaupmannahöfn og síðar danska sendiráðsins í Reykjavík og bað þá um að finna heimilisfang Leo Bro, en án árangurs. Á öðrum hvorum staðnum fékk ég þau undarlegu svör að bannað væri að gefa upp heimilisföng. Ég gat því aldrei þakkað Leo.

Ég hef eftir þessa lífsreynslu ætíð tekið með mér Leppin Squeeze í hálfmaraþon og tel það gagnast mér vel, en ég er svo eigingjarn að aldrei hef ég gefið öðrum af mínum skammti. Það skal tekið fram að þetta greinarkorn er fyrst og fremst lofgjörð mín til Leos sem einungis sagði "sne", en Leppin fyrirtækið á engan þátt í þessum skrifum.