Það var kalt úti þegar við Valgerður lögðum af stað til Keflavíkur árla morguns föstudaginn 23. september. Á flugvellinum hittum við Halla í Adidas, Magnús Guðmundsson og frú og Jóhannes Guðjónsson og frú sem öll voru á leið til Berlínar. Það eru svo margir möguleikar í flugi í dag að erfitt er að henda reiður á því hver fer hvenær eða hvert, en við höfðum frétt að um 25 Íslendingar væru skráðir í Berlín maraþon. Sem dæmi um umferðina áttu þennan morgunn 10 vélar að hefja sig til flugs innan sama hálftímans. Eins gott að mæta tímanlega til að lenda ekki í stressi.
Flugum til Stanstead með Iceland Express, en þar hafði ég aldrei lent áður. Síðan með Berlinair á áfangastað. Vorum komin upp á hótel um kl. 18:00 eftir þægilegt ferðalag. Mikil viðbrigði að koma úr frostmarkinu í 20°C þægilegheit. Þar sem margir hlauparar voru á hótelinu okkar var boðið upp á glæsilegt hlaðborð þar sem uppistaðan var pastaréttir. Þetta nýttum við okkur af sjálfsögðu. Daginn eftir var farið að ná í keppnisgögnin á maraþonsýningunni. Það tók ansi langan tíma enda mannfjöldinn mikill. Held að um 40 þúsund manns hafi verið skráð í maraþonið. Hittum m.a. Sigurjón Sigurbjörnsson sem sagðist ekki hlaupa þar sem hann hefði fengið slæm álagsmeiðsli fyrir tveimur vikum. Sagðist hafa verið kominn í sitt besta form á þeim tíma. Svona getur þetta verið ósanngjarnt. Þekki þessa tilfinningu frá keppnisferli mínum. Fannst það alltaf skítt að missa af mikilvægu hlaupi vegna meiðsla eða veikinda, en þetta er hluti af þessu. Sýningin í Berlín er stærsta hlaupasýningin sem ég hef komið á. Ótrúlegur fjöldi af íþróttavörum. Við keyptum m.a. hlaupasokka og sagði afgreiðslustúlkan að það væri tveggja ára ábyrgð á þeim. Ef kæmi gat á þá innan þess tíma ættum við að senda tölvupóst á framleiðandann. Þetta fannst mér nokkuð skondin sölumennska, en nú fylgist ég auðvitað sérstaklega vel með þessum sokkum.
Daginn fyrir maraþonhlaup skiptir miklu máli að halda sem mest kyrru fyrir, drekka vel og borða ekki of mikið um kvöldið. Tíminn fór því nokkuð í að horfa á sjónvarpið þar sem fylgst var með framgöngu fellibylsins Rítu sem átti að ná hámarki sínu á sunnudeginum. Mikil dramatík í gangi þar sem fréttamenn töluðu frá vettvangi rennblautir í hífandi roki. Þess á milli kíktum við á veðurspána fyrir Berlín og vorum nokkuð óróleg þar sem spáð var allt að 24°C hita, logni og heiðskýru. Það var dálítið skrítið að hafa áhyggjur af slíku veðurfari horfandi upp á lætin í Rítu.
Vorum mætt í morgunmatinn klukkan sex eða um 3 tímum fyrir hlaupið. Venjan hjá mér hefur alltaf verið að fá mér léttan morgunverð fyrir keppni, 2-3 ristaðar brauðsneiðar með sultu og drekka te með. Byrja þó gjarnan á einu djúsglasi. Sá í kringum mig að ekki voru allir hlauparar að hafa áhyggjur af þessu, borðuðu m.a. jógúrt, egg og höfðu skinku og ost sem álegg. Sá þó engan fá sér beikon en það stóð til boða. Hótelið okkar var í aðeins 2,5 km fjarlægð frá rásmarkinu þannig að flestir gengu þangað. Vissum að kraðakið yrði mikið og ákváðum því að leggja af stað tímanlega með vatnsbrúsa í hönd. Vorum búin að fylla á drykkjarbeltið með íslensku vatni að heiman. Keppnissvæðið var stórt eins og búast mátti við og tók langan tíma að ganga þar í gegn. Sennilega höfum við gengið hátt í 5 km samtals áður en við komumst í ráshólfið okkar. Til að taka enga áhættu vorum við komin þangað um 25 mín. fyrir ræs. Það er nokkuð langur tími að bíða en skynsamlegt í svo stóru hlaupi. Halli kom nokkru seinna til okkar með íslenska fánann saumaðan á bolinn og í húfuna. Stemmningin í rásmarkinu var fín undir dynjandi dægurlagatónlist. Sól skein í heiði og hitinn sennilega ekki meiri en 14-15°C. Ákváðum að halda áætluninni og sjá til hvort við þyrftum að slá af þegar fram í hlaupið væri komið.
Bang! Blöðrum sleppt og hreyfing kemst á hópinn. Eftir tæpa mínútu förum við yfir tímatökumottuna og síðan tekur við það verkefni að finna leið framhjá þeim sem fara of hægt. Fyrstu tveir km eru á breiðstræti, en eigi að síður þröngt. Þar sem við ætlum að hlaupa saman þurfum við að passa mjög vel fyrstu km að missa ekki sjónar á hvort öðru. Það tekst. Á 2 km merkingunni get ég áttað mig á hraðanum og er nokkuð ánægður með að við höfum ekki tafist mikið. Fram undir 10 km er ansi þröngt á þingi, hlaupaleiðin farin að þrengjast og við ennþá að fara fram úr hægfara hlaupurum sem annað hvort voru ekki á réttum stað í rásmarkinu eða farið of hratt af stað. Ný reynsla fyrir mig að hlaupa í slíkri þröng, en mér finnst þetta eyða tímanum betur. Maður verður að hafa augun hjá sér stöðugt t.d. þegar farið er framhjá drykkjarstöðvunum er glasahrúgan slík að hætta er á falli ef maður horfir ekki vel niður fyrir sig. Tíminn er 46:39 mín. nettó á fyrstu 10 km sem er vel innan við áætlun. Lögðum upp með 4:50 pr. km. með fyrsta markmið að fara undir 3:30 klst. Á þessu stigi er hraðinn pr. km um 4:35-4:40. Velti fyrir mér hvort þetta sé of hratt, en Valgerður segist hafa það gott og svo erum við nú komin í hóp sem er allur á sama hraða. Það er því ekki um annað að ræða en að fylgja straumnum. Þetta er eins og á sem líður á milli bakkanna sem eru hin samfellda röð áhorfenda sem hrópar og flautar á okkur. Það kemur mér skemmtilega á óvart hversu hressir Þjóðverjarnir eru. Næstu 10 km ganga eins og í sögu, förum þá á 46:10 mín., og ég byrja að reikna út hversu mikinn bónus við eigum til að vera innan 3:30. Veit að ýmislegt getur gerst eftir 30 km. Valgerður drekkur ekki sportdrykki og finnst gel vont, spurning hvort vatnið dugar henni. Hitinn er farinn að nálgast 20°C, en er samt ekki þrúgandi. Við erum heppin að sólin er lágt á lofti og hlaupum því oft í forsælu þegar farið er um götur með háum húsum eða trjám. Rakastigið er einnig fremur lágt. Þetta lítur betur út en við áætluðum. Nettómillitími á hálfmaraþoni er 1:37:59 klst. og við sjáum allt í einu um 30 m fyrir framan okkur héra sem merktur er með 3:15 á bakinu. Valgerður virðist stressast við þetta og spyr hvort við séum að gera einhverja vitleysu. Ákveðum að draga aðeins úr ferðinni og sjá hvernig staðan verður við 30 km markið.
Millitíminn á 30 km (2:19:59) bendir til þess að við eigum möguleika á að fara undir 3:20. Valgerður er farin að þreytast og fæturnir á mér farnir að þyngjast. Eftir 32 km finn ég fyrir stingjum í kálfunum og velti fyrir mér hvort að ég geti hugsanlega lent sjálfur í vandræðum. Skelli í mig gelpakka í von um að hressast. Það væri þá eftir því að ég myndi lenda í erfiðleikum. Valgerður rúllar hins vegar áfram einbeitt og án vandræða. Hitinn er kominn í 21-22°C og við vitum af honum. Þar sem ég á eitthvað inni finnst mér síðustu km ekki tiltakanlega erfiðir en fylgist grannt með kálfunum. Passa mig vel á því að stíga ekki á ójöfnu. Valgerður er hins vegar byrjuð að telja niður 8-7-6 o.s.frv. Ég hafði sagt henni að á síðustu 10 km sé best að hugsa einungis um einn km í einu. Drykkirnir í beltinu eru búnir og ég tek drykki á stöðvunum og færi henni. Hún segist vera orðin bensínlaus við 38 km markið en það er stutt eftir og ég segi henni að lokaáfanginn sé auðveldari en brekkurnar í Heiðmörkinni sem voru stór þáttur í undirbúningnum. Við erum enn að fara fram úr hlaupurum þannig að það virkar hvetjandi. Við 42 km markið förum við í gengum Brandenburgarhliðið og ,,síðan tóku við þeir lengstu 200 metrar sem ég hef hlaupið,” sagði Valgerður. Lokatíminn 3:19:04 klst. og meðalhraðinn 4:43 mín. pr. km. Frábært, gat ekki gengið betur upp. Mjög stoltur af Valgerði minni. Myndatökur, síðan drykkirnir og að ná í fatapokann. Á leiðinni hittum við Huld Konráðsdóttur sem einnig hafði hlaupið á 3:19. Hún er ótrúlegur nagli – einungis þrjú ár síðan hún byrjaði að hlaupa og bætir sig stöðugt. Hittum nokkra af íslensku þátttakendunum á I svæðinu og var gott hljóðið í hópnum enda flestir að bæta sig, sumir verulega. Við staulumst í áttina að hótelinu og horfum á hlaupara á leiðinni sem eru að koma inn á bilinu 5:00-5:30. Þeir eru af öllum stærðum og gerðum. Sumir greinilega á áttræðisaldri. Ég dáist að þessu fólki og velti fyrir mér hvað fái það til að leggja þetta á sig. Ástæðurnar eru örugglega margar, en sennilega líta flestir á þetta sem áskorun.
Um kvöldið hittust flestir Íslendinganna yfir málsverði. Ég hef það fyrir vana að fá mér góða nautasteik eftir slík átök. Hún var stór en hefði mátt vera betri. Sennilega var þetta ekki sérlega góður staður því Þjóðverjar eru miklir matmenn og búa yfirleitt til góðan mat. Félagsskapurinn var hins vegar góður og gaman að borða úti undir berum himni á þessum árstíma. Við hliðina á mér sat Jörundur Guðmundsson, 64 ára, sem lauk hlaupinu á rúmum 4 klst. Hann er seigur karlinn. Einhver gantaðist með það að ef enginn bætti maraþonmetið mitt yrði ég að mæta aftur eftir 20 ár í Berlín. Þar sem ég hefði þegar hlaupið á 2:19 og 3:19 myndi hæfa vel að næsta markmið yrði 4:19. Held að metið verði löngu fallið fyrir þann tíma, vona það allavega. Kári Steinn, sem nú er 19 ára, hefur hæfileikana til þess og það er aldrei að vita nema Sveinn Margeirsson, sem aðeins er 27 ára, reimi aftur á sig hlaupaskóna. Hann er líkamlega sterkari en ég var og gæti auðveldlega með góðum undirbúningi hlaupið gott maraþon. Á leiðinni heim lentum við á málglöðum leigubílsstjóra sem sagðist hafa flogið nokkrum sinnum yfir Ísland. Hann sagðist koma frá austurhluta Berlínar og það hefði tekið sig sex ár að komast úr einni götunni yfir í aðra. Hann hefði komist skriffinnskuleiðina og því sloppið við að fá skot í bakið. Hann fræddi okkur um stöðu mála og sagði m.a. að atvinnuleysið væri um 15% í Berlín og um 20% í nágrenninu. Ekki gott ástand það.
Ferðin heim var ekki eins þægileg og leiðin út. Reyndar allgjört stress og vesen. Samkvæmt áætlun átti millitíminn á Stanstead að vera 1:35 klst. sem ég taldi vera í lagi. Nú brá svo við að Berlínarvélinni seinkaði um 50 mín. Við vorum því viðbúin því að missa af vélinni heim og þurfa að kaupa nýjan miða með kvöldvélinni. Sérstaklega þar sem við þurftum að fara inn í landið (í gegnum vegabréfaskoðunina) og svo út úr því aftur. Ég hef oft lent í svona löguðu og veit af reynslu að maður er ekki búinn að missa af vélinni fyrr en hún er komin í loftið. Við skiptum liði, Valgerður beið eftir farangrinum meðan ég leitaði að innskráningunni. Á skjánum stóð “closed” en okkur til happs var afgreiðslukonan rétt við það að yfirgefa skenkinn. Ég stökk á hana nánast og bað hana um að redda okkur. Fyrst benti hún á að einungis 25 mínútur væru í flugtak en lét þó undan og fór í símann, kannski vegna þess að íslensk hjón með barn, sem lent höfði í svipaðri seinkun, bar þarna að í sama mund. Mínúturnar liðu og Valgerður ókomin með töskuna. Svo birtist hún og við fengum fyrirskipun um að hraða okkur sem mest í gegnum flugstöðina. Allir strengir og þreyta gleymdist og við hlupum sem spretthlauparar upp og niður stiga og komum síðust nokkrum mínútum fyrir flugtak í vélina þar sem allir sátu rólegir. Þetta hafðist en ekki var það þægilegt. Þið getið rétt ímyndað ykkur göngulagið á okkur í flughöfninni í Keflavík eftir þessi hlaup.
Nú er vika liðin og lífið komið í fastar skorður aftur. Notalegt að vita að dæmið gekk upp, líklega hefur æfingaáætlunin sem ég setti upp bara verið nokkuð góð. Er bara montinn af því. Framundan eru hins vegar rólegri tímar í æfingunum. Valgerður verður að finna sjálf út úr því hvort hún vill reyna við annað maraþon. Hún á töluvert inni að mínu mati. Ég hins vegar reyni að rúlla 4x í viku svona til að halda vigtinni niðri og vera í sæmilegu formi. Er ennþá 78-79 kg þó svo ég hafi aukið æfingarnar fyrir Berlín. Samt finnst mér ég ekki borða mikið. Greinlegt að brennslan er orðin hægari, en svo gæti ég líka sleppt sykrinum út í teið og dregið úr brauðátinu. Allt er þetta spurning um að finna hið rétta jafnvægi sagði einhver heimspekingurinn.