Gera compression hlífar gagn?

uppfært 12. september 2021

Margir hlauparar sem ég þekki nota þrýstiklæðnað (e. compression garments) af einhverju tagi bæði á æfingum og í keppni, sérstaklega á neðri hluta líkamans (sokkar, kálfahlífar eða buxur). Sjálfur hef ég aldrei notað fatnað af þessu tagi, enda hefur mér skilist að erfitt hafi reynst að sýna fram á gagnsemina. Kálfavandræði síðustu mánaða hafa hins vegar aukið áhuga minn á fyrirbærinu. Lausleg skoðun á myndum sem hlaup.is tók á Laugaveginum bendir til að u.þ.b. 50% af hlaupurum í 1. ráshópi hafi verið með kálfahlífar af þessu tagi, og enda þótt hjarðhegðun og vel heppnuð markaðssetning geti átt sinn þátt í því, þá hlýtur maður að álykta að a.m.k. stór hluti þessa hóps telji hlífarnar koma að gagni. Með þetta í huga fannst mér full ástæða til að rýna í rannsóknir á raunverulegri gagnsemi.

Sagan

Þrýstihlífar af ýmsu tagi hafa lengi verið notaðar á sjúkrastofnunum við meðferð eftir aðgerðir, í tengslum við æðasjúkdóma, til að draga úr bólgumyndun o.s.frv. Rannsóknir á þeim vettvangi benda til að þrýstihlífar geti dregið úr segamyndum og komið í veg fyrir blóðtappa, sérstaklega hjá kyrrsetufólki, þ.m.t. í löngum flugferðum.

Nú eru liðin þó nokkur ár síðan compression-búnaður hélt innreið sína í heim íþróttanna. Margir íþróttamenn hafa tjáð sig um ágæti fyrirbærisins, m.a. á ferðalögum og eftir æfingar. Án frekari rannsókna kann þó að vera erfitt að greina á milli raunverulegrar gagnsemi einhverrar vöru og vel heppnaðs markaðsstarfs framleiðenda vörunnar. Hlauparar eru reyndar einkar áhugaverður hópur í markaðslegu tilliti, og þá ekki síst utanvegahlauparar, sérstaklega eftir þá sprengingu sem orðið hefur í hlaupaiðkun almennings síðustu 12 árin eða svo. Nokkrir framleiðendur hafa náð einkar góðum árangri á þeim markaði, svo sem 2XU og Compressport. Á heimasíðum þessara framleiðenda er gagnsemin ekki dregin í efa, en í þessu sem öðru er gott að fylgja þeirri meginreglu að leita upplýsinga um ágæti vöru hjá aðilum sem ekki hafa hag af því að selja manni vöruna. Þar koma vísindin til sögunnar.

Rauði þráðurinn í niðurstöðum rannsókna

Lausleg yfirferð á tiltækum rannsóknum á gagnsemi compression-búnaðar bendir til þess sama og sagt var í upphafi þessa pistils, þ.e. að erfitt hafi reynst að sýna fram á gagnsemina, alla vega þá gagnsemi sem hægt er að mæla í mínútum og sekúndum í tilraunum. Það þýðir þó alls ekki að þessi búnaður sé gagnslaus, enda gildir hér það sama og annars staðar, að „fjarvist sönnunar er ekki fjarvistarsönnun“.

Compress Grein Stefán Gíslason 2XU C
Margir hlauparar nota compression kálfahlífar
Vísbendingar um gagnsemi

Í rannsókn Ned Brophy-Williams o.fl. (2019) voru 12 vanir karlkyns hlauparar látnir taka tvær æfingar sem hvor um sig fólst í að hlaupa tvo 5 km spretti á fullu álagi með klukkutíma millibili með staðlaðri upphitun fyrir báða sprettina. Á annarri æfingunni voru hlaupararnir í compression-sokkum en ekki á hinni. Eins og við má búast var tíminn í seinni sprettinum almennt lakari, en munurinn á fyrri og seinni spretti var marktækt minni á „compression-æfingunni“ (9,6 sek minni „afturför“). Ekki kom þó fram marktækur munur á mælanlegum þáttum á borð við súrefnisupptöku, laktatgildi í blóði o.fl. Rannsóknin leiddi þannig ekki í ljós í hverju ávinningurinn væri fólginn en í greininni er getum að því leitt að hann gæti tengst greiðara súrefnisflæði, minni skjálfta í vöðvum, hlaupastíl og trú hlauparanna á gagnsemi búnaðarins.

Í rannsókn Hugo A. Kerhervé o.fl. (2017) á notagildi compression-hlífa fyrir kálfa kom fram að hlífarnar virðast bæta súrefnisbúskap kálfavöðvanna eftir langar og erfiðar utanvegaæfingar, án þess hafa áhrif á súrefnisupptöku í æfingunum sjálfum. Ekki var marktækur munur á árangri þeirra sem notuðu hlífarnar og þeirra sem gerðu það ekki. Hins vegar virtust hlífarnar auka stökkkraft í kálfavöðvunum, lengja „sviftíma“ (e. aerial time) og stytta „snertitíma“ (e. ground contact time), (mælt í hoppum fyrir og eftir æfingar). Ekki kom fram marktækur munur á harðsperrum eftir á, en hins minnkuðu hlífarnar verki í hásinum eftir æfingar.

Í samantekt Florian Azad Engel o.fl. (2016) kom fram, sem víðar, að compression-hlífar hefðu ekki marktæk áhrif á árangur. Hins vegar virtust hlífarnar seinka örmögnun, bæta hlaupastíl, lækka meint erfiðleikastig (e. perceived exertion) og flýta úthreinsun laktats úr blóði. Jafnvel þótt ekki sæjust merki um bættan árangur gætu hlífarnar átt þátt í að draga úr verkjum, vöðvaskemmdum og bólgu. (1).

Compress Grein Stefán Gíslason 2XU D
Compression buxur
Á hverju byggist gagnsemin?

Eins og hér hefur verið drepið á bendir margt til að compression-búnaður komi hlaupurum að gagni og sé hugsanlega til þess fallinn að minnka líkur á krömpum og meiðslum og flýta endurheimt, jafnvel þótt ekki hafi tekist að sýna fram á bættan árangur búnaðarins vegna. Gagnsemin liggur líklega öðru fremur í áhrifum búnaðarins á blóðflæði í útæðum (e. peripheral circulation), þar sem utanaðkomandi þrýstingur á yfirborð vöðvanna er til þess fallinn að auka flæði í bláæðum frá vöðvunum (efla „vöðvapumpuna“) og flýta þannig fyrir brottflutningi úrgangsefna. Önnur grunnástæða getur legið í minni titringi í vöðvunum, sem gæti dregið úr eða seinkað þreytu og vöðvaskemmdum. Temprandi áhrif búnaðarins á hitastig í vöðvum getur líka skipt máli. Þar við bætast svo áhrifin á upplifun hlauparans, en leiða má að því líkum að svona búnaður skapi ákveðna öryggiskennd á svipaðan hátt og þrýstivesti („ThunderShirts“) sem hafa reynst vel til að róa hunda, t.d. á gamlárskvöld. Þess háttar áhrif eru að einhverju leyti sálfræðileg, en snerting eða þrýstingur getur líka örvað myndun tiltekinna boðefna og stuðlað að flutningi þeirra um líkamann. Þetta er m.a. talið skýra jákvæð áhrif faðmlaga á líðan fólks.

Meginniðurstaða

Compression-búnaður getur verið gagnlegur þótt ekki hafi tekist að sýna fram á jákvæð áhrif hans á árangur hlaupara. Meðaltöl segja heldur ekki alla söguna. Gagnsemin er mjög líklega einstaklingsbundin og því þarf hvert okkar um sig að finna hvað hentar okkur. Og jafnvel þótt sannanir skorti um áhrif á árangur í hlaupum eru uppi ýmsar vísbendingar um að compression-búnaður seinki þreytu og flýti endurheimt. Lítið virðist vera til af rannsóknum á áhrifum búnaðarins í ofurhlaupum (e. ultras), enda eru slíkar rannsóknir ýmsum takmörkunum háðar. Sem dæmi má nefna að í raun er útilokað að bera saman árangur sömu hlaupara í tveimur nákvæmlega eins 100 km hlaupum með stuttu millibili við nákvæmlega sömu aðstæður, annars vegar með og hins vegar án compression-búnaðar. Í ofurhlaupum getur skipt sköpum að vöðvarnir geti sinnt hlutverki sínu, þó ekki væri nema hálftíma lengur en ella. Ef compression-búnaður lengir tímann sem manni tekst að þrauka við þær aðstæður er líklegt að búnaðurinn stuðli að betri árangri.

Efnisflokkur: Búnaður, heilsa

Heimildir og lesefni:
  1. Florian Azad Engel, Hans-Christer Holmberg og Billy Sperlich (2016): Is There Evidence that Runners can Benefit from Wearing Compression Clothing? Sports Medicine 46(12): bls. 1939-1952. https://link.springer.com/article/10.1007%2Fs40279-016-0546-5.
  2. Hugo A. Kerhervé, Pierre Samozino, Fabrice Descombe, Matthieu Pinay, Guillaume Y. Millet, Marion Pasqualini og Thomas Rupp (2017): Calf Compression Sleeves Change Biomechanics but Not Performance and Physiological Responses in Trail Running. Frontiers in Physiology, 27. apríl 2017. https://doi.org/10.3389/fphys.2017.00247.
  3. Ned Brophy-Williams, Matthew W.Driller, Cecilia M.Kitic, James W.Fell og Shona L.Halson (2019): Wearing compression socks during exercise aids subsequent performance. Journal of Science and Medicine in Sport, jan. 22(1): bls. 123-127. https://doi.org/10.1016/j.jsams.2018.06.010.
  4. Samuel Griffith (2020): To Compress Or Not To Compress? Trail Runner, 8. janúar. https://www.trailrunnermag.com/training/trail-tips-training/to-compress-or-not-to-compress.