Eftir úrslitin úr London maraþoninu settist ég niður og útbjó fyrsta listann í ár yfir 20 bestu tíma karla og kvenna í maraþonhlaupi. Mér sýnist stefna í óvenju gott ár, sérstaklega í ljósi þess að veður og aðstæður hafa ekki verið langhlaupurum hliðhollar í vetur. Flottur tími hjá Birgi Sævarssyni (2:38:10) í London og góðar bætingar hjá Jóhanni Gylfasyni, Gauta Höskuldssyni og Magnúsi Gottfreðssyni. Þegar átta karlar komnir undir þrjá tímana í ár en í fyrra náðu því marki níu manns yfir allt árið. Sigurbjörg Eðvarðsdóttir og Huld Konráðsdóttir koma líka sterkar til leiks. Sigurbjörg rétt fyrir utan sitt besta og Huld að bæta sig um 17 sek. Síðan má nefna að Sif Jónsdóttir bætti sinn fyrri árangur um 5 mínútur.
Svo skemmtilega vildi til að ég gekk í flasið á stórum hluta Íslendingahópsins úr Parísarmaraþoninu þegar ég millilenti í París miðvikudaginn 9. apríl á heimleið frá Slóveníu. Þau höfðu lengt ferðina til að skoða undur borgarinnar. Flestir voru nokkuð brattir og ánægðir, en eins og oft vill verða þá ganga hlutirnir ekki alltaf upp hjá öllum. Sveinn, tannlæknirinn minn, var ekki alveg nógu ánægður með sig en viðurkenndi að hann hefði þurft að undirbúa sig betur til að hægt væri að ætlast til betri árangurs. Hrönn Bergþórsdóttir, gamall FH-ingur eins og ég, hafði hins vegar lent í því að veikjast tveimur dögum fyrir hlaupið og varð að hætta við þátttöku. Svona geta örlögin verið grimm, eftir margra mánaða erfiði í misjöfnum veðrum lendir maður í því að horfa á hlaupið sem maður var búinn að stefna markvisst að. Hrönn getur hins vegar huggað sig við það að undirbúningurinn er ekki farinn, kílómetrana sem hún er búin að leggja í bankann getur hún tekið út seinna.