Um miðjan janúar ranglaði ég inn í golfbúð. Þar sem ég var að skoða kylfurnar vatt sér að mér sölumaður. Þegar ég sagðist hafa gutlað í golfi allt frá árinu 1988 með litlum árangri, sennilega vegna fornlegs búnaðar sagðist hann vita hvað mig vantaði. Tók upp þennan forláta driver sem var til sölu með 35% afslætti frá 35.000 kr. upprunanlegu verði. Þegar ég gretti mig aðeins var hann fljótur að bjóða mér 50% afslátt ef ég keypti líka 5 tré. Með þessi verkfæri (II Great Big Bertha fyrir þá sem þekkja til) gæti ég ekki annað en bætt forgjöfina. Þessu boði gat ég ekki neitað, enda hafði mér gengið illa í upphafshöggunum í þau 5-6 skipti sem ég fór í golf síðasta sumar. Þegar ég gekk út úr búðinni var ég ákveðinn í því að stunda golfið af kappi næsta sumar - hlaupaskórnir færu á hilluna. Nú skyldu Gústi Þorsteins, Gunni Palli, Sighvatur Dýri, Hafsteinn og Einar bróðir aldeilis fá að finna til tevatnsins.
Þegar ég keypti stóru Berthu var ég ekki í miklu hlaupastuði, nýbúinn að sjá töluna 80 kg á viktinni í fyrsta sinn á æfinni. Nú er ég hins vegar komin í togstreitu. Þetta líka fína hlaupaveður búið að vera undanfarna tíu daga. Eftir tóm leiðindi í veðri og færð er kominn smá fílingur í mig. Hljóp fimm sinnum í síðustu viku og ekki laust við að aðeins örlaði á smá hraða, eða var það kannski óskhyggja. Svo hringdi líka einn félaginn í mig fyrir nokkrum dögum og sagðist hafa áhuga á að koma með í Berlínarmaraþon næsta haust. Rifjaðist þá upp fyrir mér að fyrir einhverjum mánuðum nefndi ég að gaman gæti verið að halda upp á 20 ára afmæli Íslandsmetsins. Við spjölluðum í nokkurn tíma um þetta og er á leið símtalið vorum við búnir að setja saman hóp og æfingaáætlun.
Nú er ég sem sagt á báðum áttum. Gaman væri að fara með góðum hóp til Berlínar, en það yrði töluverð vinna. Vissulega yrði þægilegra og andnauðin minni að rölta með stóru Berthu fallega golfvelli endana á milli. Ég er nú líka kominn á þann aldur, en bíddu.....hvað með eitt ár enn. Meira að segja hásinin sem hefur verið að stríða mér aðeins undanfarin 2-3 ár virðist hafa dregið sig í hlé í augnablikinu. Já, þetta er ekki auðvelt. Best að taka hvern mánuð fyrir sig. Stóra Bertha verður alla vega að dúsa í geymslunni í febrúar.