Heiðmörkin er uppáhaldshlaupasvæði mitt. Góðir hlaupastígar, skógurinn, fuglasöngurinn og rjúpan. Allt þetta gerir hlaupatúrinn ánægjulegan. Það eina sem skyggir á er að stundum villist (vona að þannig sé því farið) einn og einn hestamaður inn á göngustígana. Frá því um miðjan mars höfum við nokkrir félagar (ég, Torfi, Grímur Ólafs, Hans Pétur og Jói Más) hist á sunnudögum eða laugardögum við hliðið í Vífilstaðahlíðinni og hlaupið á bilinu 12-23 km þar sem áherslan er á brekkur. Fljótlega bættist Valgerður konan mín í hópinn og hefur hún reyndar tekið mestum framförum. Kannski má kalla þennan hóp Pizza Hut hópinn, en við höfum hist þar annað slagið í hádeginu í mörg ár. Þannig var það fyrir tveimur mánuðum að ,,neyðarfundur" var boðaður. Allir formlitlir (á hlauparamælikvarða) og búnir að bæta á sig nokkrum kílóum. Ljóst var að taka þyrfti alvarlega á málinu. Við nánari umræðu kom í ljós að einungis ég hafði hlaupið Laugaveginn. Skipti engum öðrum togum en að samþykkt var að hefja þegar í stað undirbúning að þátttöku í Laugavegshlaupinu. Eins og allir vita er það stóralvarlegt verkefni sem þarf að undirbúa vel.
Fyrsta helgaræfingin var í 9°c frosti en menn létu það ekki á sig fá. Fyrst í stað þurftu flestir að glíma við ýmis eymsli s.s. hásinavandræði en nú eru æfingarnar farnar að ganga nokkuð vel fyrir sig. Síðastliðinn laugardag var hlaupið yfir í Reykjavíkurhluta Heiðmerkurinnar. Þar mættum við a.m.k. 30 hlaupurum úr ÍR-skokk og Hás. Greinilegt að það er hugur í hlaupurum fyrir verkefni sumarsins. Þessi hlaupaleið er hæðótt og tekur í og vorum við fegin þegar þessum 23 km var lokið. Grímur var fjarverandi þar sem hann var í sama mund að príla upp á Hvannadalshnjúk í samfylgd yfir hundrað manns með frábært útsýni eins og sást á mynd Ómars Ragnarssonar í sjónvarsfréttunum um kvöldið. Þetta er að verða mjög vinsæl gönguleið. Verð að prófa þetta einhvern tímann. Verst hvað ég er lofthræddur - átti alveg nóg með að skokka Kattahrygginn á leið yfir Fimmvörðuhálsinn sl. sumar.