uppfært 10. febrúar 2021

Ég hef það fyrir sið að loknu hlaupaári að horfa um öxl og fram á við, þ.e.a.s. að rifja upp helstu viðburði í hlaupalífinu mínu á nýliðnu ári og gefa innsýn í væntingarnar framundan. Þessi pistill hefur að geyma þess háttar vangaveltur af persónulega taginu, en á bloggsíðunni minni (stefangisla.com) geri ég þetta allt saman upp í miklu lengra máli.

Rondane 100

Fyrstu vikur ársins 2020 voru vikur draums og vona. Ég og nokkrir uppáhaldshlaupafélagar vorum nefnilega búin að skrá okkur í nýtt utanvegahlaup í Noregi í ágúst, Rondane 100, ýmist í 50 mílur eða 100 mílur. Ég ætlaði að láta 50 mílur duga, enda hefði það orðið lengsta keppnishlaupið mitt hingað til. Þetta markmið fól í sér mikinn hvata til markvissra æfinga. En svo kom COVID-19. Strax í mars byrjaði maður að efast um að verkefnið gæti orðið að veruleika, þær efasemdir ágerðust með hverri vikunni sem leið og um miðjan maí kom svo tilkynning þess efnis, að vegna sóttvarnarráðstafana sæju aðstandendur hlaupsins ekki fram á að geta tekið við erlendum þátttakendum. Þar með var sá draumur úti.

Æfingarnar 2020

Í marslok var ég búinn að hlaupa 660 km frá áramótum, sem var með því mesta sem ég hef náð á 1. ársfjórðungi hingað til. Eftir það lá leiðin heldur niður á við. Fyrir því voru einkum þrjár ástæður. Í fyrsta lagi var aðalmarkmið ársins að leysast upp, í öðru lagi var búið að loka flestu vegna COVID-19 og þar með voru sameiginlegar hlaupaæfingar úr sögunni og í þriðja lagi var ég orðinn býsna slæmur í vinstra hnénu, sem hafði reyndar verið til ama frá því snemmsumars 2019. Þetta vandamál er reyndar enn til staðar og tengist líklega ónógum styrk í aðliggjandi vöðvum. Það stendur vonandi til bóta og líklega skrifa ég langan pistil um þessa sjúkrasögu seinna. Við þetta þrennt bættust svo einhverjar minni háttar tognanir hér og þar, sem voru náttúrulega líka vísbending um dvínandi vöðvastyrk.

Stefáns 3 Pistill Jan 2021
Í góðum félagsskap við Mávadalsá í Gilsfirði.

Sumarið 2020 var býsna gott hlaupalega séð. Um miðjan júní fannst mér ég aftur vera kominn allvel af stað og um það leyti var líka búið að slaka á sóttvarnarráðstöfunum þannig að ég gat notið fallegrar náttúru og nærandi samskipta í fyrstu fjallvegahlaupum ársins. Reyndar var lítið um hraðar æfingar, þar sem ég treysti ekki þessum vöðvarýru fótum almennilega í það. Þess í stað lagði ég aðaláherslu á líkamsbeitingu og tel mig hafa náð nokkrum árangri í því. Þetta snýst ekki bara um sterka vöðva, heldur líka hvernig þeim er stjórnað og beitt.

Ágúst 2020 var lengsti ágústmánuðurinn minn frá upphafi með samtals 325 km. Þar munaði mikið um tvær rúmlega 40 km æfingar seint í mánuðinum, hálfpartinn til að bæta mér upp Reykjavíkurmaraþonið sem aldrei var hlaupið. Eftir það datt botninn hins vegar svolítið úr æfingunum, hlaupaheilsan svo sem góð en engin almennileg markmið framundan – og mikið annríki í vinnu, sem ágerðist eftir því sem nær leið áramótum. Vikulegum æfingum fækkaði úr 4-5 í 1-3 og þá er ekki lengur nein von á framförum. Reynsla mín síðari árin er meira að segja sú, að eftir því sem æfingum fækkar aukist meiðslahættan. Reyndar ætlaði ég ekki að hlaupa mikið síðustu mánuði ársins, heldur var ætlunin að leggja aðaláherslu á styrktaræfingar. En um haustið var líkamsræktarstöðvum lokað og þar með fór það plan út um þúfur, þar sem tiltækur búnaður og sjálfsagi bauð ekki upp á heimaæfingar að neinu gagni. Þess í stað hélt ég áfram að hlaupa af og til og í byrjun desember minnti tognun í kálfa mig á vöðvastyrkinn sem ég hafði vanrækt að byggja upp. Það þýðir ekkert að byggja hús án sökkulveggja.

Stefáns 1 Pistill Jan 2021.
Kílómetrafjöldi eftir mánuðum árið 2020
Stefáns 2 Pistill Jan 2021
Heildarvegalengdir síðustu 36 hlaupaár.

Þegar upp var staðið var heildarvegalengd ársins komin í 2.368 km, sem er bara svipað og flest undanfarin ár. Nánar tiltekið var þetta 8. lengsta árið mitt frá upphafi.

Keppnishlaupin

Öll keppnishlaupin mín þetta árið fóru forgörðum, var ýmist aflýst vegna COVID eða veðurs, eða þá að mig langaði ekki til að mæta. Sjálfsagt finnst einhverjum skrýtið að mig hafi ekki langað til að mæta þegar ég átti á annað borð kost á því. Mér fannst þetta skrýtið sjálfum, en svo áttaði ég mig á því að ég mæti ekki endilega í keppnishlaup til að fá tímann minn skráðan, heldur miklu frekar til að njóta samvista við hlaupavini mína. Þessar samvistir verða frekar snauðar þegar hlauparar eru ræstir einn og einn eða örfáir saman með löngu millibili, svo ekki sé nú talað um upplifunina á marksvæðinu þar sem ekkert bíður manns annað en að hverfa sem snarast af vettvangi. Mér finnst mikið vanta ef samveruna á marksvæðinu vantar, eða með öðrum orðum ef maður hefur ekki tækifæri til að vera „vandræðalega glaður“ að hlaupi loknu og deila þeirri upplifun með öðrum sem svipað er ástatt um.

Fjallvegahlaupin

Sumarið 2020 var fjórða sumar síðari hluta fjallvegahlaupaverkefnisins míns (sjá fjallvegahlaup.is). Fyrstu þrjú sumrin voru heldur rýr, ég náði bara tveimur fjallvegahlaupum sumarið 2017, missti sumarið 2018 alveg úr vegna meiðsla og hljóp bara tvö hlaup 2019 vegna annríkis við önnur verkefni. Þar með voru bara fjögur hlaup komin í bankann í árslok 2019, í stað 15 eins og mér hefði fundist hæfilegt (5 hlaup á ári að meðaltali). Þess vegna fannst mér ég þurfa að taka vel á því 2020. Fjallvegahlaupin þetta sumarið urðu því samtals níu og hafa aldrei verið fleiri. Fyrst hljóp ég þrjú eftirminnileg hlaup á Norðurlandi um miðjan júní, síðan eitt á Ströndum í lok mánaðarins, sem jafnframt var hið árlega Hamingjuhlaup, og loks fimm á sunnanverðum Vestfjörðum 11.-14. júlí í aðdraganda vatnsveðursins sem varð til þess að aflýsa þurfti Hlaupahátíðinni á Vestfjörðum þetta árið. Hlaupin fyrir vestan einkenndust þannig öðru fremur af þoku og rigningu, en þetta svæði er þó, ásamt Austfjörðum og Tröllaskaga, draumaland fjallvegahlauparans.

Markmiðin 2021

Ég held að það sé hverjum manni nauðsynlegt að setja sér markmið, hvort sem það er í hlaupum eða öðrum mikilvægum þáttum lífsins. Annars er ekki hægt að búast við árangri. Markmiðin mín fyrir hlaupaárið 2021 eru sem hér segir:

  • 5 km undir 21 mín.
  • Maraþon undir 3:20 klst.
  • Laugavegurinn undir 6 klst.
  • m.k. 7 fjallvegahlaup
  • Gleðin með í för í öllum hlaupum (margnotað og sígilt)

Ég hef reyndar gert þetta allt áður, en það er aukaatriði. Ég var líka yngri þá, þó að ég líti reyndar ekki á þessa rúmu sex áratugi mína sem neina sérstaka hindrun.

Lokaorðin

Árið 2020 gaf mér gott, en um leið óumbeðið, tækifæri til að velta því fyrir mér hvers vegna ég held alltaf áfram að hlaupa, þó að ástandið á skrokknum og annríki í vinnu væru á stundum hvort um sig næg ástæða til að hætta því. Á þessu óvenjulega ári skerptist nefnilega enn frekar en áður vitund mín um það hversu miklu máli hlaupin skipta mig félagslega. Í hlaupunum hef ég kynnst stórum hluta þess fólks sem ég lít á sem bestu vini mína og kunningja. Maður kynnist fólki á annan hátt á fjöllum en á skrifstofugólfi. Hlaupavináttan er að mestu óháð stétt og stöðu og einhvern veginn hafin yfir flest það sem stundum gefur tilverunni og samskiptum við fólk gráleitan blæ. Á hlaupum þarf gleðin ekki að ganga með grímu. Og fátt er meira gefandi en sameiginleg augnablik þegar langþráðum markmiðum er náð, eða jafnvel þegar fullkomin uppgjöf er eina svarið.

Efnisflokkur: Persónulegt, Markmið