Hlauparar á bæjarstjóralaunum

birt 11. september 2016

Á síðustu árum og áratugum hafa nokkrir liðtækir hlauparar gegnt starfi bæjar- eða sveitarstjóra á Íslandi. Nægir þar að nefna menn á borð við Gunnlaug Júlíusson, Daníel Jakobsson og Sigfús Jónsson. Þetta hafa með öðrum orðum verið „hlauparar á bæjarstjóralaunum", þó að hlaupin sem slík hafi líklega verið ólaunuð í öllum tilvikum. Fyrir 500 árum voru „hlauparar á bæjarstjóralaunum" í ríki Inka í Suður-Ameríku taldir í þúsundum - og þau laun voru greidd fyrir það eitt að hlaupa. Í þessum pistli segir frá þessum háttsettu hlaupurum Inkaríkisins.

Velgengni Inkaríkisins byggðist m.a. á góðum vegasamgöngum. Vegir voru lagðir eins beinir og framast var unnt til að ferðatíminn yrði sem stystur og þess vegna má enn víða sjá merki um langar tröppur upp brattar hlíðar. Vegir voru hlaðnir úr tilhöggnu grjóti og meðfram lengstu vegunum voru stikur með vegalengdarmerkingum, þar sem hver míla samsvaraði 6.000 skrefum.Inkar áttu ekkert stafróf. Þess í stað bundu þeir hnúta á mislita þræði og gátu þannig miðlað upplýsingum sín á milli, þ.e.a.s. til þeirra sem kunnu að lesa úr hnútunum og úr litum þráðanna. En upplýsingar ferðast ekki hjálparlaust, jafnvel þótt vegakerfið sé háþróað. Inkar þekktu ekki hjólið og því lá beinast við að notast við hlaupadýr til að koma upplýsingum milli staða. Fljótt á litið gæti maður haldið að hestar með knapa hefðu reynst best til þessara verka og það var einmitt sú lausn sem Spánverjar gripu til eftir að þeir hertóku Inkaríkið árið 1532. Spánskur sendiboði á hesti gat komið boðum á milli Lima og Cuzco (572 km loftlína) á 13 sólarhringum. En Inkarnir höfðu byggt upp miklu hraðvirkara kerfi. Það voru hlaupandi sendiboðar (chasquis) sem gátu borið skilaboð þessa sömu leið á þremur sólarhringum!

Sendiboðar Inkanna voru þjálfaðir í hlaupum frá unga aldri og þegar þeir uxu úr grasi voru þeir fljótustu og áreiðanlegustu ráðnir til verksins. Hlaupararnir bjuggu í litlum húsum meðfram vegunum, 5-6 saman í hverju húsi eftir því hversu mikilvæg viðkomandi „upplýsingahraðbraut" var talin vera. Alltaf voru tveir á vakt í dyragættinni og þegar hlaupandi sendiboða bar að garði tók annar þeirra sprettinn. Komumaður fylgdi honum áleiðis stuttan spöl á meðan hnútaknippið var afhent eða skilaboðin útskýrð ef um munnleg skilaboð var að ræða. Hlaupararnir þurftu ekki að skilja skilaboðin í hnútunum og voru auk þess bundnir þagnarskyldu. Þeirra eina verk var að koma skilaboðunum óbrengluðum að næsta hlauparahúsi - og svo koll af kolli. Svo var bara að hvíla sig fram að næsta verkefni.

Vegalengdin milli hlauparahúsa var í mesta lagi nokkrir kílómetrar, þannig að boð gátu borist býsna hratt. Með þessu boðhlaupsfyrirkomulagi var mögulegt að flytja boð 250 km á sólarhring (pace 5:46 mín/km), jafnvel þótt allt að 4.000 m hækkun væri inni í spilinu. Þetta var eins og gefur að skilja löngu áður en hlaupagel komu til sögunnar, en hlaupararnir tuggðu gjarnan kókablöð til að halda dampi. Cuzco var miðpunktur ríkisins og þegar hlauparar mættust á vegi viku hlauparar utan af landi fyrir þeim sem voru á leið frá Cuzco.

Á hverjum tíma voru nokkur þúsund hlaupandi sendiboðar við störf í Inkaríkinu og var verkinu yfirleitt skipt niður í 15 daga vinnulotur. Ríkið greiddi fæði og uppihald og auk þess fengu hlaupararnir sömu laun og borgarstjórar, sem segir sitt um það hversu mikils metin störf þeirra voru. Til þess að fá að tilheyra yfirstétt Inkanna urðu reyndar allir að standast próf í hlaupum, jafnvel þótt þeir sæktust ekki eftir því að verða chasquis. Það er sem sagt ekkert nýtt að hlaup skipti miklu máli í menningarsamfélögum.

Efnisorð: Saga

Heimildir:

  • Thor Gotaas (2008): Løping. En verdenshistorie. Gyldendal Norsk Forlag, Oslo.

Stefán Gíslason, hlaupafrömuður, er pistlahöfundur á hlaup.is. Í pistlunum fer Stefán yfir víðan völl og fjallar um skemmtilegar og stundum ókannaðar hliðar hlaupanna.