Hlaupareikningurinn okkar Betu - Guðrún Geirsdóttir

birt 01. febrúar 2004
Frásögn Guðrúnar Geirsdóttur

Snemma vors 1999 fórum við Beta hlaupafélagi og vinkona að ræða upphátt um möguleika á að fara heilt maraþon. Umræðan var fyrst afar varfærnisleg og lágróma en magnaðist eftir því sem dagur lengdist og vorið efldist. Undir miðjan apríl var komin nokkur alvara í umræðuna og Beta fór á Netið of fann æfingaprógram samið af ameríkana sem hafði á sínum tíma komist á pall á Ólymípuleikunum. Og þá var ekki aftur snúið. Við vorum í huganum búnar að stofna hlaupareikning og vorum farnar að leggja kerfisbundið inn á hann kílómetra. Undirbúningur og æfingar gengu vel framan af. Við lengdum reglulega löngu hlaupin um korter á viku í þrjár vikur og héldum svo þeirri lengd þá fjórðu alveg eins og ammríkumaðurinn ráðlagði. Eitthvað voru nú útreikningar að vefjast fyrir okkur því að í lok júní vorum við farnar að toppa og enn einn og hálfur mánuður í Reykjavíkurmaraþon! Og nú skildust leiðir í sumarfrí. Beta fór vestur og hljóp þar um holt og hæðir, fjörur og fjöll til að hala inn kílómetra og ég safnaði mínum á fögrum götur Vínarborgar, um akra og engi Jótlands og í morgunsárið á auðum Spánarströndum. Viku fyrir maraþon fékk ég angistarkast. Vissi sem var að við áttum helling á hlaupareikningnum en staðan var óljós og við höfðum ekki hugmynd um hvað maraþon kostaði. En létum vaða. Afar varkárar. Möluðum saman út í eitt fyrri hringinn en vorum farnar að þegja meira á þeim seinni. Hlupum í ljúfu veðri og fengum með okkur félaga á hjóli sem kvöttu og hjálpuðu. Komum í mark á 3:44, nokkuð óþreyttar og báðar nokkuð hissa á því að maraþon væri ekki erfiðara en þetta - eftir allt saman!!! Við höfðum augsýnilega átt nóg á reikningum.

Í fyrra ákváðum við að hlaupa ekki maraþon. Fannst báðum erfitt að skipuleggja sumarið í kringum æfingar og þótti of mikill tími hafa farið í undirbúninginn árið áður. En svo rann enn og aftur upp vor. Og um miðjan maí vorum við eitthvað farnar að orða maraþon. En í þetta sinn vorum við kæruleysið uppmálað. Enginn fór á Netið að sækja prógröm og kílómetrasöfnunin var afar stopul og tilviljanakennd. Löngu hlaupin okkar virtust heldst fylgja gengi krónunnar á sama tíma. Aðeins upp og svo niður, niður, niður. Um miðan júlí skildust leiðir í sumarfrí og við ákváðum að sjá hvernig við kæmum undan sumri. Ég hljóp örfá máttlaus morgunhlaup í Englandi og reyndi við eitt langt fyrir austan. Beta lagðist í kvef. Á fimmtudegi fyrir Reykjavíkurmaraþon hittumst við aftur og ákváðum að skella okkur í heilt. Í þetta sinn vissum við báðar að innistæðan fyrir hlaupið var afar tæp og kannski mest spurning um hvort yfirdráttarheimild fengist út á gott veður, hvatningar og sykurdrykki. Hún fékkst ekki! Talsvert var þetta maraþon ólíkt okkar fyrra. Við sögðum ekki orð við hvor aðra alla leiðina. Norðanstrekkingurinn frá Norðurströnd inn í Skeiðarvog virkaði eins og norðanbál, brekkan upp að Víkingsheimilinu var orðin að fjalli, Fossvogurinn hafði lengst um helming og síðustu kílómetrarnir út á höfn voru óendanlegir. Ég fékk krampa í þindina og krampa í annan kálfann og Guðjón aðstoðarmaður var búinn að bjóðast til að sækja bílinn áður en ég komst út að 35 km merkingunni. Betu gekk betur en var stirð og aum og fölgrá í framan þegar ég hitti hana í marki. Tímarnir okkar voru ekki svo miklu verri en okkar fyrri - þar munaði aðeins 6 og 12 mínútum en þetta var talsverð önnur reynsla!

En nú vitum við Beta talsvert meira um hlaupareikninga og hvað þarf að safna miklu fyrir maraþon. Næsta vor þegar að mjúkur vorblærinn fer að hvísla orðið maraþon í eyrun á okkur og rugla okkur í ríminu verða ákvarðanir vonandi byggðar á ársuppgjöri og skynsömum áætlunum.