uppfært 22. september 2022

Í dag eru liðin 100 ár frá fæðingu tékkneska hlauparans Emil Zátopek, en hann var án nokkurs vafa einn af öflugustu og eftirminnilegustu hlaupurum 20. aldarinnar. Þekktastur er hann líklega fyrir að hafa unnið þrenn gullverðlaun á Ólympíuleikunum í Helsinki 1952, en af öðrum helstu afrekum má nefna að árið 1951 hljóp hann 20 km fyrstur manna undir 1 klst. og árið 1954 varð hann fyrstur til að hlaupa 10.000 m undir 29 mín. En afrekin hans eru ekki það eina sem vert er að minnast. Emil Zátopek var líka þekktur fyrir ótrúlega hörku á æfingum og fyrir hlaupastílinn, sem sumum fannst ekki sérlega fallegur. Hann var útnefndur besti íþróttamaður heims árin 1949, 1950 og 1951, og í febrúar 2013 útnefndu ritstjórar Runner´s World hann sem „mesta hlaupara allra tíma“.

Fyrstu skrefin

Emil Zátopek fæddist 19. september 1922 í smábænum Koprevnice í Tékklandi og var yngstur í stórum systkinahópi. Fimmtán ára gamall hóf hann störf í skóverksmiðju í borginni Zlín og þann 15. maí 1941 var hann, ásamt nokkrum ungum vinnufélögum, skyldaður til að taka þátt í 1.400 m hlaupi. Honum var það mjög á móti skapi, en þegar upp var staðið endaði hann í öðru sæti af u.þ.b. 100 þátttakendum. Að hlaupi loknu lýsti hann því yfir að þetta væri síðasta hlaupið sem hann léti hafa sig út í. Fáum hefur skjátlast meira. Fljótlega eftir þetta gekk Zátopek í frjálsíþróttafélagið á staðnum og bjó til sína eigin hlaupaáætlun, sem byggði m.a. á því sem hann hafði lesið um Finnann Paavo Nurmi. Nokkrum árum síðar, nánar tiltekið árið 1944, var hann búinn að setja tékknesk met í 2.000, 3.000 og 5.000 m hlaupum.

Fyrsta alþjóðlega keppnishlaupið

Emil Zátopek keppti í fyrsta sinn á alþjóðlegum vettvangi í Berlín 1946. Samgöngur þangað frá Tékklandi voru ekki greiðar á þessum tíma, þannig að Zátopek fór þessa 350 km bara á hjólinu sínu. Hann fór mjög hratt af stað í hlaupinu og áhorfendur hlógu að þessum óþekkta vitleysingi. En hann vann nú samt og það hvatti hann til frekari dáða.

Ólympíuleikarnir í London 1948

Emil Zátopek var sendur á leikana í London til að keppa í 5.000 og 10.000 metra hlaupum. Hann og þjálfarinn hans stilltu 10.000 m hlaupinu þannig upp að hann ætti að hlaupa hringinn á 71 sek., sem var heimsmetshraði á þessum tíma. Ef hann væri á réttum hraða myndi þjálfarinn, sem sat í stúkunni með skeiðklukku, veifa hvítri skyrtu, en rauðri ef hann væri að hlaupa of hægt. Hann sá rautt í fyrsta sinn á 8. hring og herti þá á sér. Þá var hann enn í baráttu við Finnann Viljo Heino sem átti heimsmetið á þessum tíma og þótti sigurstranglegur, en svo hætti Finninn eftir 6 km. Zátopek vann hlaupið á 29:59,6 mín en heimsmetið stóð óhaggað. Í 5.000 m hlaupinu náði hann svo „bara“ öðru sætinu. Í London styrktist hins vegar samband hans og spjótkastarans Dönu Ingrovu – og þau giftu sig tveimur mánuðum síðar.

Ólympíuleikarnir í Helsinki 1952

Eins og fyrr segir er Emil Zátopek líklega þekktastur fyrir það einstaka afrek að vinna þrenn gullverðlaun á Ólympíuleikunum í Helsinki. Þar var það sjálfur Paavo Nurmi sem tendraði Ólympíueldinn – og þegar upp var staðið urðu þessir leikar mikil langhlauparahátíð.

10.000 m hlaupið í Helsinki þróaðist fljótlega upp í einvígi á milli Emils Zátopeks og Frakkans Alain Mimoun. Þessari keppni var lýst svo í Alþýðublaðinu 27. júlí, að Zátopek hafi byrjað að „ygla sig enn meira en hann er vanur, og var þó varla á það bætandi. En alltaf hékk Arabinn litli við hlið hans. Það var eins og þegar hundur er í kapphlaupi við áætlunarbíl norður í Skagafirði þar sem sléttast er“. En loks varð Frakkinn að gefa eftir og Zátopek kom í mark á nýju Ólympíumeti, 29:17,0 mín, eftir að hafa hlaupið síðasta hringinn í 64 sek. Þetta var þrítugasti sigur hans í röð í 10.000 m hlaupi, en alls vann hann sjötíuogtvö 5.000 og 10.000 m hlaup í röð frá því í október 1948 fram í júní 1952.

Emils Zátopek þótti ekki sá sigurstranglegasti í 5.000 m hlaupinu í Helsinki, en hann stefndi samt að sigri og ætlaði að nota þá taktík að bíða með að slíta sig frá hópnum fram að síðasta hring. Þetta gekk eftir. Hann var fjórði þegar einn hringur var eftir en kom fyrstur í mark á nýju Ólympíumeti á 14:06,6 mín eftir að hafa hlaupið síðasta hringinn á 57,5 sek! Og aftur varð Alain Mimoun annar. Og á sama tíma vann Dana Zátopková gullverðlaun í spjótkastinu.

Árið 1952 voru liðin 40 ár frá því að sami maður (Hannes Kolehmainen) hafði unnið Ólympíugull bæði í 5.000 og 10.000 m hlaupum. Tvöfaldur sigur Zátopeks vakti því að vonum mikla athygli. En hann lét ekki þar við sitja, heldur ákvað hann á síðustu stundu á skella sér líka í maraþonhlaupið sem fór fram þremur dögum eftir úrslitin í 5.000 metrunum. Þessa vegalengd hafði hann aldrei hlaupið áður og hafði því litla tilfinningu fyrir því hvaða hraði væri heppilegur til að byrja með. Hann ákvað því að fylgja Bretanum Jim Peters, sem hafði sett heimsmet í greininni fyrr um sumarið (2:20:42 klst). Eftir u.þ.b. klukkutíma hlaup spurði Zátopek Bretann hvort þeir væru ekki að hlaupa of hratt. „Nei, þetta er of hægt“ svaraði Bretinn, væntanlega til að villa um fyrir Zátopek. Þá bætti Zátopek í og stuttu síðar fékk Bretinn krampa og þurfti að hætta. Síðustu 16 kílómetrana hljóp Zátopek aleinn og kom svo í mark á 2:23:03 klst., 2:33 mín. á undan næsta manni. Þar með féll enn eitt Ólympíumetið.

Æfingarnar

Emil Zátopek var þekktur fyrir ótrúlega hörku á æfingum. Hann fór sínar eigin leiðir í þjálfun og lagði m.a. áherslu á interval- og fartlekæfingar, sem löndum hans þóttu heldur framandi – og reyndar alveg út í hött. En sjálfur sagðist hann þurfa að þjálfa hraðann, enda kynni hann alveg að hlaupa hægt. Í rauninni ruddi hann alveg nýjar brautir, því að menn höfðu hreinlega ekki áttað sig á að mannslíkaminn gæti þolað svona mikið álag. Forskriftin var að grunni til einföld: Dagleg þjálfun allt árið, hvar sem hann var staddur og hvernig sem veðrið var. Og ef færið var vont hljóp hann í hermannastígvélum. Dæmigerð „Zátopekæfing“ var 5x200 m + 20x400 m + 5x200 m. Ef honum fannst þörf á að bæta hraðann fjölgaði hann 200 m sprettunum og ef hann vantaði meira þol fjölgaði hann 400 m sprettunum. Og heildarvegalengdir á hverju ári voru á köflum ótrúlegar. Þannig hljóp hann samtals 7.888 km árið 1954. Sem dæmi um viðfangsefnin má nefna að í febrúar þetta ár tók hann 40x400 m með 200 m skokki á milli fyrir hádegi og svo aftur eftir hádegi, fimm daga í röð! Um vorið tók hann tveggja vikna tímabil með 50x400 m bæði fyrir og eftir hádegi alla daga, sem sagt 100 400 m spretti hvern einasta dag. Sú saga er líka sögð að hann hafi einhvern tímann þvegið þvott með því að leggja hann í bleyti í baðkarið og hlaupa þar ofaná á staðnum í tvo tíma. Hvítari lök hafa víst ekki sést. Og stundum hljóp hann nokkra kílómetra með konuna sína, spjótkastarann, á bakinu. En hann tók líka léttari mánuði inn á milli. Árið 1954 voru mánaðarskammtarnir þannig allt frá 140 km upp í 935 km.

Emilzatopek B
Hlaupastíllinn

Hlaupastíll Emils Zátopek var sérstakur og þótti lítið fyrir augað. Höfuðið hallaðist og vaggaði á hlaupunum, axlirnar voru skakkar og grettan á andlitinu átakanleg. Einhvers staðar var stílnum lýst þannig að þetta væri „eins og maður að slást við kolkrabba á færibandi“. Við þetta bættust svo hvæsandi öndunarhljóð, enda var Zátopek kallaður Tékkneska eimreiðin. Sjálfur sagði hann að í hlaupum væri ekki nauðsynlegt að brosa eða reyna að hrífa einhverja dómnefnd. Þetta væru hvorki fimleikar né listdans á skautum.

Heimsmetin

Emil Zátopek setti a.m.k. 13 heimsmet á ferlinum, það fyrsta árið 1949 þegar hann bætti met Viljo Heino í 10.000 m hlaupi um 7 sek, niður í 29:28,2 mín. Það met bætti hann svo fjórum sinnum næstu fjögur árin og fór með það niður í 28:54,2 mín. Hann setti einnig heimsmet í 5.000 m (13:57,2 mín.), 20 km (tvisvar), klukkustundarhlaupi (tvisvar), 25 km (tvisvar) og 30 km einu sinni.

Maðurinn

Emil Zátopek var einkar félagslyndur maður og hvers manns hugljúfi sem naut þess að hitta fólk og deila reynslu sinni með því. Þá spillti ekki fyrir að hann talaði a.m.k. sex tungumál. Árið 1966 gisti ástralski hlauparinn Ron Clarke hjá honum í Prag í tengslum við hlaupakeppni. Ron Clarke átti nokkur heimsmet í millivegalengdum en hafði aldrei náð að vinna Ólympíugull. Þess vegna gaf Zátopek honum eitt af sínum þegar þeir kvöddust.

(Meðhöfundur: Þorkell Stefánsson)

Heimildir

Einkum byggt á samantekt Þorkels Stefánssonar fyrir Silfrid.is 2012, en vefurinn hrundi nokkrum árum síðar. Þar fyrir utan má finna nær óteljandi heimildir um Emil Zátopek, jafnt innlendar sem erlendar, þ.á.m.:

  1. Brynjólfur (1952): Fréttabréf frá Helsinki: Dagur Zatopeks; daufir Íslendingar. Alþýðublaðið, 164 tbl., 27. júlí 1952, (bls. 5). https://timarit.is/page/1092427#page/n3/mode/2up.
  2. Thor Gotaas (2008): Løping. En verdenshistorie. Gyldendal Norsk Forlag, Oslo.