Hversu sögulegt verður Londonmaraþonið 22. apríl?

birt 10. apríl 2018

Eftir að fréttir bárust af því í janúar að Eþíópíumaðurinn Kenenisa Bekele hefði ákveðið að taka þátt í Londonmaraþoninu 22. apríl nk. hafa sumir gengið svo langt að segja að þetta verði stærsta maraþonhlaup sögunnar. Oft hættir mönnum til að sjá nútímann í skærara ljósi en fortíðina, en hvað sem því líður hefur þetta hlaup alla burði til að rata á spjöld sögunnar, ekki út af Bekele einum og sér, heldur vegna þess að við hlið hans á ráslínunni verða m.a. þeir Eliud Kipchoge og heimamaðurinn Mo Farah. Þarna takast sem sagt á, að öðrum ólöstuðum, þrír nafntoguðustu langhlauparar samtímans, hvort sem litið er til götuhlaupa eða brautarhlaupa. Og kvennahlaupið gæti sömuleiðis orðið sögulegt. Þar beinast sjónir manna fyrst og fremst að Kenýakonunni Mary Keitany, sem hefur lýst því yfir að hún ætli að bæta heimsmetið sem Paula Radcliff setti í Londonmaraþoninu 2003, 2:15:25 klst.

Eliud Kipchoge
Kenýamaðurinn Eliud Kipchoge (f. 1984) er af flestum talinn sterkasti maraþonhlaupari heims um þessar mundir. Áður en hann sneri sér að götuhlaupum hafði hann sópað til sín verðlaunum á hlaupabrautinni, allt frá því að hann varð fyrst heimsmeistari fullorðinna í 5.000 m hlaupi 18 ára gamall árið 2003. Mörgum er líka í fersku minni þegar Kipchoge hljóp hraðasta maraþon sögunnar á Monza kappakstursbrautinni á Ítalíu fyrir ári síðan þar sem hann kom í mark á 2:00:25 klst. Sá tími er þó ekki skráður sem heimsmet, þar sem hraðastjórar („hérar") héldu uppi hraðanum alla leið og klufu vindinn. En markmiðið var heldur ekki að slá heimsmet, heldur að sýna fram á að hægt væri að hlaupa maraþon undir 2 klst.

Eliud Kipchoge hefur hlaupið 9 maraþonhlaup við löglegar aðstæður og unnið þau öll nema eitt. Það var í Berlín haustið 2013 þar sem Wilson Kipsang setti heimsmet (2:03:23 klst) og Kipchoge varð annar. Aðeins einu sinni hefur hann lokið hlaupi á lengri tíma en 2:05:30 klst! Besti staðfesti tíminn hans er 2:03:05 klst, frá því að hann setti brautarmet í London 2016. Aðeins tveir menn í heiminum hafa náð betri tíma við löglegar aðstæður, þ.e.a.s. heimsmethafinn Dennis Kimetto (2:02:57 klst) og Kenenisa Bekele (2:03:03 klst).

Kenenisa Bekele
Kenenisa Bekele (f. 1982) er af mörgum talinn besti langhlaupari sögunnar. Hann á í fórum sínum þrjú Ólympíugull og fimm gull frá heimsmeistaramótum í 5.000 og 10.000 m hlaupum, auk þess að hafa 11 sinnum orðið heimsmeistari í víðavangshlaupum. Bekele á heimsmetin bæði í 5.000 m hlaupi (12:37,35 mín frá 2004) og 10.000 m hlaupi (26:17,53 mín frá 2005). Hann hljóp sitt fyrsta maraþonhlaup árið 2014 og hefur þegar þetta er skrifað lokið samtals fimm hlaupum. Besta árangrinum náði hann þegar hann vann Berlínarmaraþonið 2016 og var aðeins 6 sekúndum frá heimsmeti Dennis Kimetto. Í Berlín 2017 atti hann kappi við Eliud Kipchoge og Wilson Kipsang, eins og fjallað var um í pistli á hlaup.is skömmu fyrir hlaupið. Kipchoge var sé eini af þremenningunum sem lauk hlaupinu.

Mohamed Farah
Mo Farah (f. 1983) er síður en svo nokkur byrjandi í hlaupum, þó að hann hafi ekki snúið sér alfarið að götuhlaupum fyrr en á síðasta ári. Frá 16 ára aldri hefur hann sópað að sér verðlaunum í víðavangshlaupum og brautarhlaupum. Hann varð m.a. heimsmeistari í 5.000 m hlaupi þrisvar í röð (2011, 2013 og 2015) og lék sama leikinn í 10.000 m hlaupi (2013, 2015 og 2017). Þá vann hann silfur í 10.000 m 2011 og í 5.000 m 2017 og var reyndar líka á meðal keppenda í 5.000 m á heimsmeistaramótunum 2007 og 2009! Þessu til viðbótar vann hann báðar greinarnar á Ólympíuleikunum 2012 og 2016 - og þá er aðeins fátt eitt talið.

Fram til þessa hefur Mo Farah aðeins hlaupið eitt maraþon. Það var í London vorið 2014, þar sem hann varð áttundi á ensku meti, 2:08:21 klst. Mo Farah er áberandi hlaupari og mjög dáður í heimalandi sínu og reyndar um heim allan. Haustið 2017 sló Elísabet Englandsdrottning Mo til riddara, þannig að það verður Sir Mo Farah sem drottingin ræsir ásamt 40.000 öðrum hlaupurum í Londonmaraþoninu 22. apríl.

Hver vinnur í London?
Engin leið er að spá með neinni vissu fyrir um sigurverann í London. Flestir veðja þó líklega á Eliud Kipchoge, enda er hann sem fyrr segir ekki vanur að tapa maraþonhlaupum. Og ef aðstæður verða góðar gæti brautarmetið fallið - og jafnvel heimsmetið, enda munar ekki nema 8 sekúndum á þessum tímum. Kenenisa Bekele á ekki eins jafnan maraþonferil og Kipchoge og hefur nokkrum sinnum lent í vandræðum og þurft að hætta á miðri leið. En tíminn sem hann náði í Berlínarmaraþoninu 2016, þrátt fyrir krampa, sýnir að hann er til alls líklegur. Mo Farah er óskrifaðra blað en hinir tveir þegar maraþonhlaup eru annars vegar, en heimavöllurinn, vinsældirnar og ótrúleg útsjónarsemi og keppnisharka geta fleytt honum langt. Og þó að þessir þrír séu óumdeilanlega stærstu nöfnin, þá geta ýmsir aðrir blandað sér í baráttuna. Það er nefnilega þröngt á toppnum í maraþoni, eins og sést m.a. á því að í Dubaimaraþoninu í janúar hlupu sjö fyrstu menn, allir frá Eþíópíu, á 2:04:00-2:04:44 klst! Líklega verður enginn þeirra sjömenninganna með í London, en samt er af nógu að taka. Á þátttökulistanum má m.a. sjá nöfn á borð við Daniel Wanjiru frá Kenýa (f. 1992) sem vann hlaupið í fyrra og á best 2:05:21 klst, landa hans hinn margreynda Stanley Biwott (f. 1986) sem hefur hlaupið maraþon á 2:03:51 klst og Eþíópíumanninn Guye Adola (f. 1990) sem veitti Eliud Kipchoge harða keppni í Berlínarmaraþoninu sl. haust og kom í mark á 2:03:46 klst, besta tíma nýgræðings í maraþonsögunni!

Fellur heimsmet Paulu Radcliff?
Hér hefur verið fjölyrt um karlana sem þykja sigurstranglegastir í London. En tíðindin gætu ekki síður gerst í kvennaflokknum. Þar er Mary Keitany frá Kenýa (f. 1982) líklega fremst meðal jafningja. Hún setti heimsmet í „karlmannslausu maraþonhlaupi" í Londonmaraþoninu í fyrra (2:17:01 klst) og nú hefur hún sett sér það markmið að slá heimsmetið sem Paula Radcliff setti í London 2003, 2:15:25 klst. Með henni á ráslínunni verður m.a. Tirunesh Dibaba (f. 1985), margfaldur Ólympíu- og heimsmeistari í 5.000 og 10.000 m hlaupum og í víðavangshlaupum. Dibaba á þriðja besta maraþontíma sögunnar, 2:17:56 klst frá því í London í fyrra.

Ekki bara London!
Londonmaraþonið er ekki eina maraþonið sem vert er að fylgjast með næstu vikur. Bostonmaraþonið fer t.d. fram í 122. sinn mánudaginn 16. apríl. Þetta elsta maraþonhlaup í heimi verðskuldar alltaf athygli og að vanda eru mörg stór nöfn á þátttakendalistanum. Augu heimamanna munu sjálfsagt beinast að heimakonunni Shalane Flanagan (f. 1981, b. 2:21:14 klst) sem vann New York maraþonið svo eftirminnilega í fyrra. Meðal keppinauta hennar má nefna sigurvegarann frá Boston 2017, Ednu Kiplagat frá Kenýa (f. 1979, b. 2:19:50 klst), Buzunesh Deba frá Eþíópíu (f. 1987, b. 2:19:59 klst) og bandarísku konurnar Desiree Linden (f. 1983, b. 2:22:38 klst) og Jordan Hasay (f. 1991, b. 2:20:57 klst). Og í karlaflokki má sjá nöfn á borð við Bandaríkjamennina Galen Rubb (f. 1986, b. 2:09:20 klst), Dathan Ritzenhein (f. 1982, b. 2:07:47 klst) og Abdi Abdirahman (f. 1977, b. 2:08:56 klst), að ógleymdum Eþíópíumönnunum Lelisa Desisa (f. 1900, b. 2:04:45 klst) og Tamirat Tola (f. 1991, b. 2:04:06 klst (frá því í hlaupinu ótrúlega í Dubai í janúar))! Og sama daginn og Londonmaraþonið fer fram verður sjálfur heimsmethafinn Dennis Kimetto (f. 1984) á ráslínunni í Genfarmaraþoninu. Hann hefur ekki verið fyrirferðarmikill í hlaupaheiminum eftir að hann setti heimsmetið í Berlín 2014, en nú gerir hann sér vonir um að ná sér á strik á nýjan leik.

Í lok apríl gæti maraþonsagan verið breytt!

Efnisflokkur: Keppnishlaup

Heimildir og lesefni (m.a.):

Uppfært 10.4.2018: Leiðréttar upplýsingar um Mo Farah.

Stefán Gíslason, hlaupafrömuður, er pistlahöfundur á hlaup.is. Í pistlunum fer Stefán yfir víðan völl og fjallar um skemmtilegar og stundum ókannaðar hliðar hlaupanna.