birt 17. október 2017

Ég hljóp 19. maraþonið mitt á dögunum. Ég get sem sagt ekki talist byrjandi á þessu sviði, þó að vissulega hafi þó nokkrir runnið þetta skeið oftar en ég. En hversu oft sem maður hleypur maraþon, þá fylgir því alltaf ný reynsla. Maraþonhlaup eru nefnilega ekki eins og hver annar draumur að nóttu, sem gleymist þegar dagur er risinn á ný, og heldur ekki eins og hver annar hádegisverður eða bíómynd sem rennur fyrr en varir saman við alla hina hádegisverðina eða bíómyndirnar. Hvert maraþonhlaup skilur eftir sig nýja þekkingu og nýja reynslu. Gefi maður sér tíma til að anda þessari þekkingu og reynslu að sér, nýtist það manni í næsta hlaupi - og jafnvel í lífinu sjálfu.

Nýir staðir og nýjar leiðir
Nítjánda maraþonið mitt var Þriggjalandamaraþonið sem hefst í Þýskalandi, fer í gegnum Austurríki, sem snöggvast inn i Sviss og loks til Austurríkis aftur, þar sem það endar í bænum Bregenz við austurenda Bodensee. Það er alltaf gaman að hlaupa á nýjum stöðum og í þessu hlaupi er brautin í senn óvenjuflöt og óvenjufjölbreytt. Þetta er alls ekki hefðbundið borgarmaraþon, þar sem hlaupið er fram og aftur götur á milli húsa, heldur er hlaupið meðfram strönd með fjallasýn, í gegnum litla bæi, yfir brýr, þ.á.m. yfir sjálft Rínarfljótið, og um strjálbyggð svæði. Hlaupið endar svo á íþróttavellinum í Bregenz.

Maraþon verður ekki hlaupið með hálfum huga á meðan hinn helmingurinn er í útsýnisferð. Engu að síður gefast alltaf tækifæri til að njóta umhverfisins og þá geta öll skynfæri hjálpað til við að safna reynslu. Útsýnið er sjálfsagt aðalatriðið í svona hlaupi, en lyktin og hljóðin í kringum mann eiga líka sinn þátt í að búa upplifunina til. Í þessu hlaupi fann ég t.d. súrheyslykt öðrum hvorum megin við svissnesku landamærin. Sú reynsla nýtist mér sjálfsagt ekkert í næsta hlaupi, en hún minnti mig á æskudagana á Ströndum og dýpkaði þannig upplifunina af hlaupinu. Sumir kjósa að hlaupa með tónlist í eyrum. Þá tapast niður árinnar, baul í nauti og jafnvel hvatningarhróp fólksins í þorpinu sem leiðin ligggur um.

Líkami og hugur
Í hverju maraþoni lærir maður eitthvað nýtt um sjálfan sig. Ástand líkama og hugar í upphafi hlaups er alltaf að einhverju leyti ólíkt því sem það hefur verið áður. Maður hefur elst og kannski þroskast, hefur meira eða minna þol, meiri eða minni hraða, er meira eða minna tæpur vegna meiðsla og hefur verið misskynsamur í vali á mat og drykk dagana á undan. Hvert maraþon er prófsteinn á það hvernig líkami og hugur bregðast við því sem á þá hefur verið lagt vikurnar og mánuðina fyrir hlaup. Í hverju hlaupi verður líka til ný reynsla af því hvernig maður bregst við óvæntum aðstæðum á leiðinni, hversu vel tókst til með val á skóm og fatnaði, hvaða áhrif veðrið hefur á mann, hvaða næring sé annarri betri, hversu mikil vatnsdrykkja sé hæfileg - og svo framvegis. Allt er þetta breytilegt.

Þriggjalandamaraþonið var talsverð áskorun fyrir mig, bæði fyrir hugann og líkamann. Upphaflega ætlaði ég að setja persónulegt met í þessu hlaupi, sem hefði þýtt tíma undir 3:08:19 klst. En strax á liðnu vori var mig farið að gruna að það myndi ekki ganga upp. Æfingar gengu skrykkjótt, aðallega vegna tíðra frátafa út af minni háttar meiðslum og veikindum. Um mitt sumar varð ég svo að leggja þetta markmið endanlega til hliðar eftir að hafa axlarbrotnað í Laugavegshlaupinu. Þá tóku við fimm nær hlaupalausar vikur.

Fyrsta almennilega æfingin var hálft Reykjavíkurmaraþon sem gekk svo sem vonum framar. Hljóp þar á 1:34:30 klst sem þýddi að ég átti, samkvæmt einhverri reiknivél, að geta hlaupið maraþon á 3:19 klst. með því að æfa eðlilega þær 7 vikur sem enn voru til stefnu. Í þessari stöðu er hætt við að maður verði of bráður og reyni að stytta sér leiðina til framfara. Ég féll einmitt í þá gryfju og þann 19. september tognaði ég aftan í læri á lokametrunum í 10 km Flensborgarhlaupi, með tvær og hálfa viku til stefnu. Allt í einu var orðið ólíklegt að ég gæti hlaupið maraþon snemma í október, hvað þá að ég gæti náð góðum tíma.

Brosandi á vettvangi í Þriggja landa maraþoninu.Flensborgartognunin hafðist vel við og ég gat farið að skokka aftur eftir nokkurra daga hlé og góða umönnun sjúkraþjálfara og heilara. En þetta var samt allt á tæpasta vaði. Svo þegar tognunin tók sig upp á hægu skokki 30. september var ég viss um að Þriggjalandamaraþonið væri úr sögunni, enda ekki nema 8 dagar til stefnu.Fimm dögum síðar, á fimmtudegi, var ég loks farinn að geta gengið óhaltur og ákvað þá að leggja af stað í maraþonið vel „teipaður" með þann bjargfasta ásetning að hætta strax og tognunin léti vita af sér. Á föstudeginum var flogið út til Bregenz og á laugardagsmorgninum gafst mér færi á að prófa lærið í 4 km morgunverðarhlaupi.

Þar hljóp ég nógu greitt til að ögra tognuninni. Ef ég myndi ekki þola það væri óþarfi að leggja upp í maraþon daginn eftir. En lærið hélt og morguninn eftir var ég mættur á ráslínuna í Lindau í Þýskalandi í súld og svölu veðri, ásamt rúmlega 1.000 öðrum hlaupurum. Framundan var tækifæri til að öðlast nýja þekkingu á eigin líkama.

Ég reyndi að forðast átök í hlaupinu en hélt þó mínu striki í öllum aðalatriðum, tilbúinn að taka endurnýjaðri tognun af æðruleysi. Brautin var líka þannig lögð að hvergi voru meira en 15 km að endamarkinu. Þetta var í versta falli spurning um þriggja tíma göngu ef ég þyrfti að hætta. Ég var líka búinn að kynna mér almenningssamgöngur sem stóðu þeim til boða sem ekki komust í mark hjálparlaust. En til að gera langa sögu stutta komst ég hlaupandi alla leið án nokkurra vandkvæða, að frátöldum svolitlum krampa eftir 38,5 km og frekar mikilli þreytu undir lokin, sem hvort tveggja var rökrétt framhald af undirbúningnum. Og tíminn var ekkert alslæmur, 3:25:31 klst. Þetta var ný reynsla, þó að ég mæli engin veginn með því að fólk hlaupi maraþon tognað.

Fólkið
Í hverju hlaupi hittir maður fólk sem bætir við reynslu manns og þekkingu með orðum sínum og athöfnum. Í þetta sinn áttu félagar mínir úr hlaupahópnum Flandra í Borgarnesi stærstan þátt í þessu, svo og allir hinir Íslendingarnir sem voru með í þessari hópferð, sem skipulögð var af Bændaferðum. Það er líka sérstök upplifun, og reyndar forréttindi, að fá að fylgjast með öðrum hlaupa sitt fyrsta maraþon eða upplifa eitthvað annað nýtt. Svo má ekki gleyma svissnesku hlaupakonunni sem gaf mér af vatninu sínu eftir að ég hafði misst af einni drykkjarstöðinni vegna einhverra atvika. Hún sagðist vera búin að drekka nóg af því. Svona lítil atvik minna mann á samkenndina sem býr í fólki og birtist svo ljóslega á hlaupum.

Skrifum þetta niður
Hér hef ég látið hugann og fingurna á lyklaborðinu reika um fátt eitt af því sem bættist í reynslu- og þekkingarsjóðinn minn í Þriggjalandamaraþoninu um daginn. Áður en minningarnar fyrnast ætla ég að skrifa meira, hvort sem það verður í stílabók eða á bloggsíðu. Seinna get ég þá flett upp hvernig mér leið og hvers vegna. Þannig nýtist reynslan mér best í næsta hlaupi - og jafnvel í lífinu sjálfu.

Efnisflokkur: Persónulegt

Stefán Gíslason, hlaupafrömuður, er pistlahöfundur á hlaup.is. Í pistlunum fer Stefán yfir víðan völl og fjallar um skemmtilegar og stundum ókannaðar hliðar hlaupanna.