Í hommabuxum og hlýrabol (Skokksaga miðaldra fitubollu) - Pétur Reimarsson

birt 01. febrúar 2004
Frásögn Péturs Reimarssonar

Það er komið að því. Nú skal það takast. Í dag er laugardagurinn 28. september 2002 og klukkan er að verða 10. Hitinn er um 7°C, það er skýjað og vindur er hægur og ætti ekki að verða til mikilla vandræða að þessu sinni. Ég er staddur í hópi 65 hlaupara uppi í Mosfellssveit neðan Gljúfrasteins þar sem er að hefjast meistaramót Íslands í maraþonhlaupi. Ég er að leggja upp í mitt sjötta maraþon og þriðju tilrauninni á árinu til að ljúka hlaupinu á 3 og 1/2 tíma eða skemur. Ég er í góðu formi (held ég), 51 árs, 76 kíló, 18% feitur (skv. mælingu á beinþéttnideild Landsspítala í Fossvogi fyrir skömmu) og nýklipptur til að minnka loftmótstöðuna. Og þó að ég sé vongóður um að ná takmarkinu er ég í aðra röndina áhyggjufullur. Ég veit allt um það hvílík kvöl og pína það getur verið að ljúka hlaupinu ef ég fer of hratt af stað fyrstu 20 til 25 kílómetrana.

Ég er í hlaupabol númer 27 sem bæði táknar afmælisdag konu minnar og þann dag sem við hittumst fyrst auk þess að vera margfeldi af afmælisdegi mínum og mánuði. Og svo eru í dag nákvæmlega 4 ár frá því ég fór í fyrsta sinn út til að skokka og staulaðist 500 metra hring með hvíldum og því má eiginlega segja að þetta sé afmælishlaup hjá mér. Þetta veit vonandi allt á gott.

Lengi vorum við búnir að gantast með það nokkrir félagarnir hvað þær væri asnalegt að sjá menn á miðjum aldri þvælast um götur og stíga borgarinnar á nánast ósiðlegum klæðnaði þar sem ístran hangir yfir buxnastrenginn og greinilega mótar fyrir þeim hlutum líkamans sem eðlilegt er að menn láti fara lítið fyrir að minnsta kosti þegar aðrir sjá til. Við höfðum farið að gera okkur það til gamans á sunnudagsmorgnum og stundum oftar að ganga okkur til heilsubótar. Þessir vinir mínir tveir eiga nú reyndar báðir hund sem frekar hvatti þá til þessara ferða. Ómissandi hluti gönguferðanna var svo helst að fá sér snaps af vodka áður en lagt var af stað og ekki var ferðin fullkomnuð fyrr en snapsarnir voru orðnir tveir eða þrír að lokinni göngunni.

Svo varð ég þess var að þeir félagarnir voru farnir að fara þessar ferðir án mín og gjarnan á mun meiri hraða en ég gat ímyndað mér að væri heilnæmt. Þannig óku þeir á bílnum austur að göngubrúnni á Kringlumýrarbraut og skokkuðu til baka heim í Vesturbæinn þar sem ég hitti þá stundum og fékk að njóta verðlaunanna með þeim sem ekki voru síðri en áður. Þeir sögðust vera um hálftíma að fara þessa vegalengd sem mér reyndar fannst alveg ótrúlega skammur tími miðað við hvað þetta virtist langt.

Ég á líka annan vin og sá hefur haft meiri áhyggjur af eigin þyngd en nokkur annar sem ég þekki. Hann hefur farið í gegnum flesta megrunarkúra sem fundnir hafa verið upp og mér fannst hann komast lengst þegar hann mánuðum saman nærðist á tvennu aðallega þ.e. dæetpepsíi og léttpoppi. Liður í þessu stöðuga megrunarátaki var að fá nokkra helstu vini sína til að vigta sig 4 sinnum á ári í Vesturbæjarlauginni. Hefur það nú verið gert samviskusamlega í um tíu ár og eru gerð línurit og útreiknaðir alls kyns stuðlar sem eiga að sýna hvernig líkamlegt ástand hópsins er.
Þróunin hefur nú verið þannig að hópurinn hefur þyngst jafnt og þétt allan tímann þannig að heildarþyngdin hefur aldrei verið meiri en einmitt nú um þessar mundir.

Um það leiti sem þessi vinur minn var að stofna til þessara vigtarfunda var ég orðinn 99 kíló og reykti töluvert. Ég ákvað þá að ekki ætlaði ég að ná því að verða 100 kg og var þess vegna líka í stöðugum megrunarhugleiðingum næstu árin og hafði náð nokkrum árangri þegar hinir tveir fyrrnefndu vinir voru farnir að skokka snemma árs 1998. Eftir að þeir tóku þátt í gamlárshlaupi ÍR fyrir tveimur árum hættu þeir hins vegar þeirri iðju með öllu því þeim fannst þeir fá svo herfilega útreið af því þeir urðu ekki með fyrstu mönnum í mark. Þeir eru því úr sögunni, alla vega sem skokkarar, en annar þeirra er reyndar læknir og spyr í hvert skipti sem við hittumst núorðið: "Hvernig ertu í hnjánum?" Og svo hristir hann hausinn með vorkunnsemi í svipnum.

Í maí 1998 ákvað ég svo að hætta að reykja og fékk þá hjá lækninum vini mínum nikótín í dós sem ég gat sprautað í nefið ótæpilega og var svo gott að fá orð geta lýst. Um mitt sumar var nefið farið að stækka svo út úr andlitinu á mér að meira minnti á annað líffæri en nef. Fannst mér svo nóg komið af svo góðu og skipti yfir í nikótíntyggjó og tuggði það í gríð og erg næstu mánuði áður en ég varð að endingu laus við nikótínfíknina í þessari lotu.

Af því að ég vissi alveg hvernig myndi fara fyrir mér í vigtarklúbbnum góða við það að hætta að reykja þá stundaði ég töluvert gönguferðir um þessar mundir og er þá rétt að nefna til sögunnar mesta áhrifavaldinn í þessu ævintýri: Vin minn, spilafélaga, gömlu handboltakempuna og félaga í hlaupaklúbb Vesturbæjar (alla vega þegar árshátíðir nálgast) sjálfan Árna Indriðason. Sumarið 1998 var nefnilega fyrsta sumarið í áratugi sem hann sá ekki um gerð stundaskrár næsta vetrar fyrir MR og þar að auki var hann ekki með heilt handboltalið á bakinu. Ég sjálfur hafði nokkuð rúman tíma og við stunduðum fjallgöngur stíft. Gengum á Esjuna bæði þvert og endilangt. Hengilinn endilangan frá Vífilsfelli. Akrafjall allan hringinn. Botnssúlur. Skjaldbreiði. Og svo framvegis. Mér fannst svo alveg ómögulegt þegar Árni fór að kenna aftur um haustið að missa niður það þol sem mér fannst ég hafa komið mér upp í þessum göngum.

Því var það síðasta laugardaginn í september 1998 að ég staulaðist út snemma morguns til að enginn sæi til og skokkaði hring í hverfinu mínu í Vesturbænum. Feginn var ég að komast inn aftur en hafði það af að fara sjálfsagt eina 500 metra. Smám saman lengdist svo í þessum túrum og þeir urðu að reglulegum þætti í lífinu þennan vetur. Aldrei var það þó ætlunin að fara að stunda maraþonhlaup eða iðka kapphlaup. Hins vegar tóku vinir mínir og félagar eftir breytingu á holdarfari og reyndar geði líka og svo þegar Árni nefndi það í ræðu sem hann hélt mér og eiginkonu til heiðurs sumardaginn fyrsta 1999 að ég væri farinn að stunda maraþonhlaup þá varð það mér til nokkurs hugarangurs. Var það svo að allt annað sem hann sagði í ræðunni var merkingarlaust kjaftæði eða var þetta áskorun um að hefjast handa við undirbúning.

Smám saman myndaðist svo sá ásetningur að reyna við maraþonið og stóð undirbúningur yfir allt sumarið og gekk hann stóráfallalaust nema hvað ég fann hvernig kvef og hiti helltist yfir mig þar sem ég var að koma frá því að skrá mig í hálft Reykjavíkurmaraþon. Það var svo í lok október sem frumraunin var þreytt í haustþoni Félags maraþonhlaupara (FM) og lauk ég hlaupinu á 4 tímum og rúmum 2 mínútum og var ákaflega stoltur enda tók Árni, formaður viktarklúbbsins, eiginkonan og hundurinn á móti mér í markinu ásamt reyndar fleirum. Hlaupið gekk vel, ég hljóp alla leiðina, villtist hvergi, var aldrei á því að hætta en sá engan keppinaut frá 8 km merkinu þar til ég var að koma í mark. Ég var afar stoltur að vera orðinn fullgildur félagi í FM.

Árið eftir þ.e. árið 2000 hljóp ég tvö maraþon. Á Mývatni náði ég í mark á 3 tímum og 59 mínútum og var svo eftir mig að ég gat ekki hreyft mig í rúminu næstu 4-5 klukkutímana án þess að æla eins og múkki. Og í Haustmaraþoninu kom ég í mark á 3 tímum 46 mínútum.

Svo las ég það í DV snemma árs 2001 að formaður FM, Pétur Frantzson, sagði að vanur hlaupari væri svona þrjá og hálfan tíma að fara maraþon. Þá fór ég að velta fyrir mér hvort ég væri ekki vanur hlaupari eða hvað maður þyrfti að hafa hlaupið mikið og lengi til að teljast vanur hlaupari. Eins var ég búinn að sjá það út að 50-54 ára karlmenn vinna sér keppnisrétt í Boston maraþoninu með því að hlaupa á þessum tíma. Svo sá ég það í afrekaskrá sem Sigurður Pétur gaf út (apríl 2001) að innan við 10 Íslendingar fimmtugir og eldri fylltu þennan flokk (en hefur fjölgað síðan). Og um þessar mundir myndaðist hjá mér sá ásetningur að ná þessu marki.

Ég ákvað að stefna að því að ná markinu í Reykjavíkurmaraþoninu í ágúst 2001 og hóf því undirbúning og hljóp mikið og langt um vorið og sumarið. Skemmst er frá því að segja að ég lagði afar frískur af stað en fann að það þyngdist fyrir fæti í Fossvoginum og þegar ég var kominn út á Ægissíðu á leiðinni út á Nes varð ég að ganga öðru hvoru. Svo fóru menn að koma fram úr mér hver á fætur öðrum og sumir litu á mig vorkunnaraugum og spurðu hvort ekki væri allt í lagi. "Auðvitað er ekki allt í lagi, djöfuls asnar eru þetta" hugsaði ég.

Í mark kom ég og hafði bætt mig um 37 sekúndur frá því í haustmaraþoninu árið áður (minna en sekúndu á kílómeter) og hugsaði með mér að þetta skyldi ég aldrei gera aftur.

Svo tók nú við tímabil umhugsunar og greiningar á því hvað hefði farið úrskeiðis. Það rifjaðist upp fyrir mér að ég hafði hitt Guðmann Elísson þegar hann var að undirbúa sig fyrir Laugaveginn fyrr um sumarið þar sem hann hljóp upp Esjuna tvisvar í röð fisléttur eins og fugl í bæði skiptin og skildi ekki eftir sig nein spor en Guðmann horfði á mig og sagði með örlitlum vorkunnartón: "Það er nú ekki nóg að vera bara duglegur að hlaupa."

Niðurstaðan varð sem sagt sú að að ég væri of þungur og líkaminn alls ekki nógu stæltur. Það væru líka þær aðstæður á landinu sem gerðu að verkum að maður gæti ekki treyst á það að ná sínum besta árangri vegna veðurs eða erfiðrar brautar eða einhverra annara skilyrða.

Svo fór ég með hálfum hug af stað í Haustmaraþonið í október 2001 vitandi að ég væri bæði of feitur og illa undirbúinn. Enda fór það svo að þegar ég sá að konan mín var komin til að hvetja mig áfram fyrir neðan bílasölu Ingvars Helgasonar þá hljóp ég einfaldlega inn í bílinn okkar og sagðist vera hættur og ætlaði aldrei að gera þetta aftur. ALDREI og alveg örugglega ALDREI. Þarna var ég sem sagt búinn með rúma 33 km og sá fram á það að síðustu kílómetrarnir yrðu alger pína. Mér fannst ég vera ALGER AUMIIINGI.

Þetta varð til þess að konan mín neitar nú orðið að hvetja mig í brautinni og segir að ég verði bara að ráða fram úr þessu sjálfur. Svo skammaðist ég svolítið í huganum við þá FM menn sem aldrei mega sjá brekku tilsýndar án þess að leggja maraþonbrautina þar upp á topp.

Mér fannst samt dáldið snautlegt að enda "keppnisferilinn" svona. Því var það að um 10 dögum eftir haustmaraþonið var ég kominn í sjúkraþjálfunina þar sem ég hafði verið í meðferð út af axlarmeiðslum nokkru fyrr og ræddi við íþróttakennarann um að setja upp fyrir mig æfingar til alhliða styrkingar á skrokk mínum um veturinn. Þangað fór ég svo 1-2 sinnum í viku í allan fyrravetur og fann mun á því hvernig magavöðvar, mitti, axlir og hendur styrktust. Eftir jólin hófst svo aðhald í mataræði til að ná brott 5-7 kílóum.

Og svo ákvað ég að finna maraþon erlendis á árinu 2002 sem ég gæti æft mig fyrir og eftir nokkra umhugsun ákvað ég að skrá mig í Kaupmannahafnarmaraþonið þann 26. maí 2002. Brautin hlykkjast töluvert um miðborgina og er með mörgum kröppum beygjum en á móti kom að ég mundi ekki eftir neinum brekkum á þessum slóðum nema Fredriksberg en ég var fljótur að ganga úr skugga um að á það fjall var ekki hlaupið. Og þó að það geti blásið töluvert í Kaupmannahöfn fannst mér meiri líkur á rólegu veðri en í Reykjavík þótt sjálfsagt gæti verið þarna orðið nokkuð heitt fyrir kulsækinn landann.

Undirbúningurinn gekk svo í öllum aðalatriðum eftir áætlun. Ég ákvað að hlaupa ekki of mikið og lengst af voru þetta 60-80 km á viku. Helst var það kvef sem ég fékk tvisvar á tímabilinu sem hélt aftur af mér. Kílóin runnu svo hvert af öðru og ég náði nokkurn veginn því sem að var stefnt.

Ég bætti svolítið tímana mína í Víðavangshlaupi ÍR og eins í Flugleiðahlaupinu síðastliðið vor.en þar voru líka aðstæður eins og þær geta bestar orðið. En bæði í Neshlaupinu og Flóahlaupinu var vindurinn svo ákafur að tímarnir gáfu mjög litla vísbendingu um stöðuna.

Svo hljóp ég, eini Íslendingurinn, með um 5000 Dönum og nokkur hundruð öðrum útlendingum sunnudaginn 26. maí sl. heilt maraþon í Kaupmannahöfn. Til að gera langa sögu stutta þá varð árangurinn ekki sá sem að var stefnt því eftir að hafa verið nokkurn veginn á áætlun fyrstu 27 kílómetrana fór ég að finna fyrir krampa í vinstri kálfa sem ágerðist svo bara eftir því sem á leið. Með miklum þrautum tókst mér þó að ljúka hlaupinu en tíminn varð lélegri en í RM árið áður.

Mjög vel var að öllu staðið hjá frændum okkar og ekki hægt yfir neinu að kvarta. Ég missti Friðrik krónprins fram úr mér eftir 39 km. Við 40 km merkið höfðu Danirnir safnað saman þeim 50 konum í Kaupmannahöfn, sem stærst höfðu brjóstin og hristu þær sig allar og skóku og náðu að hressa mig í smástund.

Sem betur fer fór ég í sumarfrí að þessu loknu og dvaldi í þrjár vikur með fjölskyldunni á Ítalíu. Eftir viku á söguslóðum í Flórens var sólin sleikt í tvær vikur á lítilli eyju undan Toscana. Að sjálfsögðu voru hlaupaskórnir með og á eyjunni okkar var bara ein leið og hún lá upp 7 km háa brekku upp í 450 metra hæð og hljóp ég það nokkurn veginn annan hvern dag (og niður líka) og svo stöku sinnum niður hinum megin og aftur til baka.

Ég velti því mikið fyrir mér hvort ég væri ekki að setja mér allt of erfitt markmið með því að reyna við 3 og ½ tíma. Var ekki nægjanlegt að reyna að ná betri tíma en George W. Bush sem hljóp á 3:44:52 í Texas þegar hann var 46 ára? Eða kannski ná Óttari Guðmundssyni sem býr hér á neðri hæðinni og hljóp í Berlín í fyrndinni á 3:43:00?
Í skránni hans Gísla Ásgeirssonar um maraþonhlaupara var ég númer 230 af 469 og því aðeins fyrir ofan miðju og var það ekki bara ágætt? Var það kannski engin tilviljun að fráasta söguhetja Íslendingasagna bar viðurnefnið "heimski"?

En þegar fríinu lauk var ég búin að ákveða að gera enn eina tilraun og þá stefna á
Reykjavíkurmaraþon 17. ágúst sem er nú þrátt fyrir allt í umhverfi sem maður er vanur og á braut þar sem maður gerþekkir hvern metra. Maður getur hvort eð ekkert gert við veðrinu annað en vona það besta. Undirbúningurinn var svipaður og áður og ég hélt áfram að bæta árangur minn í 5 og 10 km hlaupum í júlí og ágústbyrjun. Glaðbeittur hélt ég af stað en ekki leið á löngu áður en ég fann að ekki var allt með felldu. Þreytu-tilfinning gerði vart við sig í fótunum eftir 15 km og eftir 20 km stoppaði ég til að pissa og íhuga stöðuna. Ég var svo sem á áætlun en fæturnir voru blýþungir. Svo reyndi ég að auka hraðann, að draga úr honum, lengja skref og stytta skref en ekkert gekk. Svo dró úr hraðanum og þegar kálfarnir voru orðnir eins og steypuklumpar eftir rúma 31 km hljóp ég út úr brautinni og gekk heim. Ég reyndi að bera mig mannalega en hafði enga hugmynd um hvað var að. Ég get hins vegar sagt að mér þótti þetta ekkert fyndið.

Það var svo á mánudeginum eftir RM sem ég fann að annar fóturinn var stokkbólginn neðan hnés og rifjaðist þá upp fyrir mér að ég hafði dottið á hjólinu á tveimur dögum fyrir hlaupið og áttaði mig ekki á því hvað byltan hafði verið slæm og að bólgur taka tíma að koma fram.

Meiðsli geta nú sett strik í reikninginn og ekki um annað að gera en að taka stefnuna á haustmaraþon FM sem nú skyldi haldið í lok september og vonast til að geta haldið forminu svipuðu fram til þess. Í Brúarhlaupinu á Selfossi var ég búinn að jafna mig í fætinum að mestu og hljóp hálfmaraþon á töluvert betri tími en ég átti áður og sem mér fannst benda til að við góðar aðstæður gæti ég náð settu marki í maraþoninu.

En aftur að haustmaraþoninu 2002. Þeir glaðbeittu félagar í stjórn Félags maraþonhlaupara höfðu skipulagt héraþjónustu og ég fylgdi hópnum sem stefndi á 3½ tíma undir stjórn formanns félagsins. Fyrstu 10 km ganga vel en augljóst var að brautin var verulega snúin milli 10 og 15 km vegna hæðótts landslags og tveimur mjög erfiðum brekkum. Ég var nokkurn veginn á áætlun fyrstu 30 kílómetrana en þá hægðist á mér og kílómetrarnir urðu stöðugt lengri og lengri að mér fannst.

Ég var samt alltaf skokkandi og stoppaði lítið sem ekkert milli drykkjarstöðva. Við drykkjarstöðina á rúmum 34 km rifjaðist upp fyrir mér setningar sem fóru milli okkar Árna Indriðasonar í fjallgöngunum forðum en þegar mér var litið niður brekkurnar sem við vorum búnir með varð mér eitt sinn að orði: "Það er ekki eftir sem búið er." Íþróttamaðurinn Árni horfði hins vega til fjalltindsins og sagði að bragði: "Það er ekki búið sem eftir er."

Ég lauk hlaupinu á 3.44.16 og náði Bush en ekki Óttari en bætti mig um tæpa eina og hálfa mínútu og er bara ánægður. Þetta hlaup var ótrúlega vel skipulagt og ekki hægt að benda á neitt sem betur mátti fara. Þeir félagar í stjórn FM eiga heiður skilinn fyrir sitt mikla og óeigingjarna starf í þágu hlaupara.

Ég er hins vegar sannfærður um að ég get gert betur og þó að ég hafi enn ekki náð öllum markmiðum þá á ég það bara eftir. Svo er ég enn ekki búinn að fara Lauga-veginn. Koma tímar og koma ráð.

28. september 2002.
Pétur Reimarsson.