Ironman 2008 - Njóttu augnabliksins - Sigmundur Stefánsson

birt 05. október 2008

Aðdragandi
Það hafði blundað með mér í nokkur ár að taka þátt í þríþrautarkeppni þar sem þessi skemmtilega blanda þriggja íþróttagreina, sem keppt er í, hafði heillað mig töluvert og ég taldi mig ráða bærileg við þessar greinar. Það skemmtilega við þær er hvað þær ná vel til almennings, og hversu auðvelt er að stunda þær án mikillar fyrirhafnar og kostnaðar. Er ég fór að íhuga þennan kost af alvöru velti ég vöngum yfir því hvort yfir höfuð væri skynsemi hjá mér að taka þátt í slíkri þrekraun, fyrir karl kominn hátt á sextugsaldurinn og með þá sjúkrasögu sem ég hef að baki! Ég gerði mér grein fyrir því að þetta væri jú mín ákvörðun en eigi að síður hlyti hún að bitna á mínu fólki og eflaust velti það vöngum yfir því hvað ég væri nú að fara út í, mundi ég ofbjóða heilsu minni o.þ.h. En ég þekkti minn mann, um leið og ég var farinn að hugleiða þetta vissi ég að ég léti verða af því að fara í þrautina! Í upphafi var það aldrei til í mínum huga að byrja á styttri vegalengdum og að sjá til hvað yrði síðar, nei heill Járnkarl skyldi það verða!

Ég gerði mér strax ljóst að undirbúningur fyrir slíka keppni yrði mikill sem krefðist mikils aga og andlegs sem líkamlegs undirbúnings. Lykilatriði í vinnu sem þessari er að hafa stuðning og hvatningu frá fjölskyldunni. Eiginkona mín og besti vinur studdi mig frábærlega og hvatti þau misseri sem undirbúningurinn stóð yfir, einnig fjölskylda,  hlaupafélagar og aðrir vinir, er ég þeim öllum þakklátur fyrir allan stuðninginn, umburðarlyndið og hvatninguna. Ég vil sérstaklega geta um þátt vinar míns og hlaupafélaga, Þórs Vigfússonar, sem reyndist mér ómetanlegur er ég var kominn út til Þýskalands.

Ef menn ætla sér að stökkva út í djúpu laugina og fara strax í Járnkarlinn krefst það þess að  einhver íþróttalegur grunnur í öllum keppnisgreinunum sé til staðar, þó alltaf sé hægt að æfa upp greinar sem ekki eru sterkar fyrir og gefa sér þá nægan tíma til að ná tökum á þeim.

Bakgrunnur
Bakgrunnur minn í þeim íþróttagreinum sem keppt er í er nokkuð góður og mun ég aðeins stikla á hvernig ég mat hann með tilliti til þeirrar ákvörðunar minnar að takast á við þetta verkefni.

Ég æfði sund sem ungur drengur, aðalgreinin mín var skriðsund, en í þeirri grein keppti ég mest í langsundi. Ég æfði og keppti með sunddeild Umf. Selfoss og tók þátt í fjölda móta auk þess að vera keppandi á meistaramótum unglinga og þremur landsmótum ungmennafélaganna. Ég hef alltaf átt mjög auðvelt með að synda og syndi án átaka og ligg vel í vatninu.

Í upphafi var ég viss um að sundið yrði mér létt og tæki ekki mikinn toll af mér í upphafi þrautar. Eina sem ég í reynd þarfnaðist var að synda reglulega og að taka þá langar æfingar.

Hlaupið óttaðist ég heldur ekki því bakgrunnur minn í hlaupum er töluverður. Á yngri árum hafði ég stundum verið fenginn til að taka þátt í hlaupum á héraðsmótum. Fyrstu verðlaunin mín í hlaupum voru gull og brons í víðavangshlaupum á Selfossi á árunum 1964 og 1965. Lítið gerist í íþróttaiðkun minni í ein 26 ár en 1997 byrja ég að skokka eftir að hafa greinst með sykursýki og fór því að hlaupa til að vinna gegn hækkun á blóðsykrinum. Fljótlega finn ég hve hlaupin reynast mér vel og gefa mér mikið sem leiðir síðan af sér að ég fer að æfa reglulega og stefnan fljótlega sett á keppni í götuhlaupum og hef ég nánast ekki stoppað síðan. Fyrsta maraþonið ætlaði ég að fara í Mývatnssveit árið 1999 en í lokaundirbúningi fyrir það fékk ég hjartaáfall og varð að fresta því í tvö ár. Í dag er ég búinn að fara 14 maraþon, fara Laugarveginn þrisvar auk þess sem ég á nokkur 10 km hlaup og ½ maraþon.

Hjólareynsla mín er ekki mikil miðað við það sem yfirleitt gerist hjá keppendum í þríþraut en flestir þríþrautarkappar eru í grunninn miklir hjólreiðagarpar. Þrátt fyrir að hafa hjólað nokkuð hér á Selfossi, þar sem eru nú ekki miklar vegalengdir, þá taldi ég að með því að fókusera á hjólreiðarnar ætti ég að hafa góða möguleika á að klára þrautina. Hjólreiðarnar eru fyrst og fremst spurning um dugnað, þær reyna ekki mikið á þolið heldur er það spurning um eljusemi og að venjast hjólinu, stilla það rétt og síðan að hjóla og hjóla.

Eftir að hafa farið yfir og metið bakgrunn minn í þeim greinum sem keppt er í leit uppleggið fyrir undirbúninginn og þrautina þannig út:

  • Sundið - yrði ekki fyrirstaða -
  • Hjólið - væri veikasti hlekkurinn -
  • Hlaupið - yrði á heimavelli -

Það er  sagt að í reynd sé næringarinntakan fjórða keppnisgreinin sem keppt er í. Af þessu hafði ég töluverðar áhyggjur vegna sykursýki minnar. Eftir ráðleggingar og viðræður við Fríðu Rún Þórðardóttur var þessi þröskuldur yfirstíginn og allt gekk vel varðandi næringarinntöku og stjórnun á blóðsykri mínum.

Markmið
Markmið mitt með þátttöku í IRONMAN keppninni var fyrst og síðast að klára keppnina og að ganga ekki nærri mér líkamlega. Þó setti ég mér það markmið að reyna  að klára þrautina á u.þ.b. 11:15 - 11:30 klst. Ég ráðgerði að sundið tæki um 60 - 70 mín., hjólaleggurinn um 6:15 klst. og hlaupið  um 4 klst. og skiptitíminn yrði um 10 mín.

Æfingar
Eiginlegur undirbúningur fyrir þríþrautina hófst síðan formlega í byrjun júlí 2007 er ég náði að komast inn í IRONMAN - European Campionship - í Frankfurt Þýskalandi. Þá fer ég strax að leggja mestu áherslu á hjólreiðarnar. Ekki var æft eftir fyrirfram ákveðnu æfingaplani í upphafi heldur voru æfingarnar skipulagðar frá degi til dags. Haustið 2007 tek ég þátt í fyrstu ½ IRONMAN keppninni á Íslandi sem var liður í undirbúningi fyrir þrautina en mjög gott er talið að hafa tekið þátt í styttri þríþrautarkeppni áður en farið sé í heila þraut.  Æfingar fram yfir áramótin gengu vel fyrir sig. Samkvæmt æfingadagbók minni er heildar km fjöldi ársins 2007 um 6,117  km sem skiptist þannig að ég synti 106  km, hjólaði 3846 km, og hljóp 2165 km.

Aðalundirbúningurinn fyrir þrautina hófst síðan 18. febrúar sl. Ég studdist við æfingaprógramm er náði yfir 20 vikur. Æfingaplanið gerði ráð fyrir 8 - 20 klst. á viku í æfingar  og var fjöldi æfingadaga 5 - 6 með allt upp í þremur æfingum á dag. Uppbygging æfinganna var þannig að í fimmtu hverri viku var "recovery" vika en fjórar vikurnar á undan með mismunandi áherslum og skiptingu á keppnisgreinarnar.

Í undirbúningum lagði ég mikla áherslu á að hlusta á líkamann, þ.e. að vera ekki að æfa ef ég fann fyrir þreytu eða álagseinkennum og sleppa hreinlega æfingum ef þannig bar undir. Síðasti vetur var mjög erfiður til að æfa hjólreiðar úti. Því varð ég mér úti um "trainer" á keppnishjólið mitt þannig að ég gat æft inni í bílskúr sem ég gerði mestan hluta vetrar. Hjólaæfingarnar voru oft og tíðum mjög erfiðar andlega en á móti gáfu þær svo sannarlega þann andlega styrk sem þarf að vera til staðar þegar tekist er á við slíka raun sem heil þríþraut er. Á meðfylgjandi mynd sést hvernig ein vikan af þeim tuttugu leit út í loka undirbúningnum.

Æfingarnar á þessu ári fram að keppninni urðu samtals 321 og heildartíminn sem farið hefur í þær eru 290 klst. Hef ég lagt að baki 5.136 km vegalengd í öllum greinunum þremur.

Keppnin
Ég kom til Þýskalands fimmtudaginn fyrir keppnina sem haldin var sunnudaginn 6. júlí 2008.  Dagarnir á undan voru síst of margir til undirbúnings en það er sannarlega margt sem þarf að aðgæta og fara yfir fyrir keppni sem þessa og eins gott að allir hnútar séu vel hnýttir og allt klárt þegar á hólminn er komið.

Að morgni keppnisdagsins fór ég snemma á fætur eftir fremur lítinn svefn og kom tímanlega að vatninu sem synt var í. Það var mjög sérstök upplifun að vera þátttakandi í keppni þar sem um 2500 manns eru ræstir í einu og synda af stað í einni kös (sjá mynd hér til hliðar) og vera lengst af í eintómri baráttu við að komast áfram. Það sem kom mér mest á óvart var hve rólegur ég var kominn á keppnisstaðinn,  engin spenna né kvíði, alveg pollrólegur.

Ég hafið góðan tíma til undirbúnings um morguninn til að fara vel yfir hjólið, undirbúa sundið og reyna að fanga stemminguna eins og kostur var.  Það var mikill hamagangur er ræst var eins og fyrr sagði, ég fann mig strax mjög vel í vatninu, synti létt og áreynslulítið.

Það sem var helst að trufla mig var hve rangskreiður ég var í vatninu enda vanur að synda eftir línum í botni sundlauga! Ég klára sundið á 62 mín. sem ég var mjög sáttur við. Í skiptingunni var ég ákveðinn að vera rólegur, ekkert að stressa mig og gaf mér góðan tíma í skiptingu yfir á hjólið.

Ég finn mig mjög vel er ég byrja að hjóla, enginn stirðleiki eftir sundið og byrja því strax að rúlla mjög vel. Fyrstu km hjólaleiðarinnar er sléttlendi og mjög gott að byrja hjólalegginn þannig. Mörg þau heilræði er ég kynnti mér fyrir keppnina voru  að nota hjólreiðarnar til að nærast og aftur nærast, það tókst mjög vel og fann ég aldrei fyrir orkuskorti, þá var ég duglegur að taka inn salttöflur á hjólinu. Hjólaleiðin var tveir hringir norður fyrir Frankfurt. Í fyrri hringnum fann ég fyrir þreytu í lærum og á tíma fannst mér ég vera að fá krampa í hægra lærið, sé þá að ég er að hjóla of mikið á stóra tannhjólinu að framan og fer að nota minna hjólið meira. Seinni hringurinn er allur annar og ég finn mig mun betur  og var hann í reynd auðveldari að mér fannst. Aðdáunarvert er hve vel var staðið að allri gæslu og merkingum á hjólaleiðinni og aldrei spurning hvar átti að fara. Þá er gaman að verða vitni að því hve íbúar við hjólaleiðina tóku virkan þátt í þessum mikla viðburði sem keppnin er. Síðasta hluta hjólaleiðarinnar var orðinn töluverður vindur og var hraðinn farinn að verða minni en í fyrri hringnum. Ég klára hjólreiðarnar á 5 klst. 53 mín. sem ég var mjög sáttur við, enda í góðu standi í alla staði er lagt skyldi af stað í maraþonið.

Í upphafi hlaupsins þá fann ég mig mjög vel, var reyndar örlítið valtur fyrstu skrefin en byrja samt strax að rúlla vel, mér fannst ótrúlegt hve léttur ég var í fótunum eftir hjólið. Framan af hlaupinu var ég að fara of hratt, var að sjá á hlaupaúrinu tíma um 4:45 - 5:00 mín/km en þetta var hraði sem ég á engann hátt þorði að keyra á. Næring mín í hlaupinu var nánast eingöngu coladrykkur sem ég fékk mér á hverri drykkjarstöð sem var á 2,5 - 3 km fresti. Einu sinni fékk ég mér bananabita, þetta var eina næringin hjá mér allt hlaupið. Salt tók ég nánast á hverri drykkjarstöð og er ég sannfærður um að öll saltinntaka hafi hjálpað mér mikið, allavega fann ég enga strengi né krampa í hlaupinu.

Hlaupaleiðin var mjög góð, alveg flöt, og þar af  leiðandi "hröð braut" en farnir voru fjórir hringir á bakka árinnar Main í miðborg Frankfurt. Það var frábært að hitta fólkið sitt í hverjum hring og fá hvatningu þess og stuðning á hlaupaleiðinni og sjá íslenska fánann sem veitti aukinn kraft og fyllti mig stolti að fá að vera þátttakandi í þessari miklu keppni. Aðbúnaður og umgjörð í hlaupinu eins og öðrum greinum var í alla staði frábær og skipulagningin góð. Ég klára síðan hlaupið á 3 klst. 42 mín. sem ég er mjög stoltur og sáttur með. Það var mögnuð tilfinning að hlaupa inn á Römerbergtorgið þar sem endamarkið var, heyra nafn sitt og þjóðerni nefnt og vera að ljúka þessari þraut á mun betri tíma en ég gerði mér vonir um.

Lokatími minn í þrautinni var 10 klst. 47 mín. sem gaf mér 7. sæti í þrautinni í mínum aldursflokki af tæplega 50 keppendum á Evrópumeistaramóti.  Ekki er annað hægt en að vera mjög sáttur með þennan árangurinn og þátttökuna sem eflaust verður í huga mér sem ein mesta og magnaðasta íþróttaupplifunin mín.

Járnkarlinn á Selfossi
Sigmundur Stefánsson