Jómfrúarmaraþon í Köln - Anna Jóhannsdóttur

birt 02. nóvember 2018

Anna á sprettinum í Kölnar maraþoninu. Ég hljóp mitt fyrsta heila maraþon í októberbyrjun í Köln. Það var hápunktur á tæplega tuttugu mánaða ferðalagi og mjög skemmtileg lífsreynsla. Ef einhver hefði imprað við mig á hugmyndum um maraþon fyrir þremur árum hefði ég bara hlegið.  Sá hlær hins vegar best sem síðast hlær og fyrir nærri fimmtuga þriggja barna móður er ekkert sjálfsagt að rífa sig af stað - og að lappir, skrokkur og allt annað fylgi með.  Ég hef lítið hlaupið í gegnum tíðina nema til smávegis upphitunar fyrir einhverja líkamsrækt síðustu áratugina. Úr sófanum í hálfmaraþon á níu mánuðumÉg tók þá ákvörðun í febrúar 2017 að byrja hlaupaprógramm.

Ég náði mér í byrjendaprógramm á hlaup.is - úr sófa í 5 km - og byrjaði að fara út snemma á morgnana og um helgar.  Það var ekki aftur snúið - andstutt og gangandi/skokkandi en með sífellt betra þrek ég ákvað að best væri að hafa almennilegt markmið - ég setti stefnuna á hálft maraþon í Brussel í október það ár.  Með góðri hjálp eiginmannsins var útfært prógramm til lengri tíma og mætt í Víðavangshlaup ÍR í 5 km, og einnig í Adidas Boost hlaupið það sumar í 10 km. Hálfmaraþonið kláraði ég, á 2:13 og fannst ég hafa afrekað töluvert. Þetta væri jafnvel eitthvað sem væri hægt að gera aftur! Maraþon á fimmtugsafmælinuÉg hélt áfram að hlaupa - prjónaði mér meira að segja hlaupapils fyrir versta kuldann og fór í bæði Kirkjuhlaup Hauka og Gamlárshlaupið þetta ár.  En svo rann upp árið 2018 og þá var spurningin - hvað næst? Fleiri hálf - bæta tímann í 10?

Einhvers staðar lúrði hugsunin um að þetta ár - 2018 - yrði ég fimmtug í árslok. Væri ekki dálítið sterkt að stefna á að klára eitt maraþon fyrir þann áfanga?  Það voru þegar orðin færri kíló að bera og meiri vöðvar eftir hlaupin fyrra árið, og ég hugsað mér að ég gæti að minnsta kosti reynt að klára svona hlaup, hvernig sem tíminn yrði. Hlaupaáætlun var gerð og skipulag miðað við Kölnarmaraþon í byrjun október. Við hjónin fórum til Genfar í maí þar sem ég tók annað hálfmaraþon, en hitinn var mikill og engin tímabæting.  Ég tók 20 km hlaup í Brussel í maílok, líka í töluverðum hita og svo skelltum við hjónin okkur í Reykjavíkurmaraþon og ég kláraði hálft þar á 2:07 - þó síðar kæmi í ljós að aðeins vantaði upp á brautina. Gekk eins og í sögu í KölnKölnarmaraþonið var framundan - lítið og fámennt í samanburði við þessi stóru, slétt braut og hæfilega langt frá Brussel þar sem við búum þessa dagana.

Á maraþondeginum var stressið greinilega að skapa einhverja heilaþoku hjá mér, því þrátt fyrir nákvæman birgðafrágang, gel, orkustykki og annað, sem átti að fara í beltið mitt með orkudrykkjunum - skildi ég þetta allt saman eftir í töskunni sem ég tékkaði inn í geymslu.  Redding var að fá lánuð tvö gel hjá eiginmanninum og nýta svo það sem yrði í brautinni, banana og þrúgusykur aðallega.  Þetta slapp allt til, maginn, hausinn og tilheyrandi, en það var fjör á götunum, skemmtilegur stuðningur og borgin falleg til að hlaupa í.  Heimatilbúna hlaupapilsið.

Síðustu 10 km voru andlega erfiðir, en ég fann ekki fyrir "vegg" eða skyndilegu orkuleysi. Hausinn hélt, lappirnar líka og ég náði markinu á tímanum 4:46, sem verður bara að teljast ágætt fyrir miðaldra nýliða

Nú nokkrum vikum síðar er ég aðeins farin að hugsa um hlaupin árið 2019, spá og spekúlera.  Kannski væri gaman að prufa að taka annað, reyna að bæta tímann, prufa nýja borg...! Ég held ég sé komin með hlaupabakteríuna og vona að ég geti bara ræktað hana sem lengst!

Anna Jóhannsdóttir