Gaman er að sjá hversu mikið rými maraþonhlauparar okkar hafa fengið í fjölmiðlum undanfarna daga. Rannveig, Bryndís Ernsts. og Helga að gera það gott í hitanum í Rúanda. Frábært framtak hjá þeim og fagnaðarefni að Rannveig og Bryndís eru komnar á fullt eftir nokkurt hlé. Þær eiga báðar mikið inni og vonast ég til að sjá þær virkar í götuhlaupunum heima í sumar.
Nú svo er það Gunnlaugur Júlíusson sem ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur. Hvorki meira né minna en 160 km fjallahlaup í Bandaríkjunum eftir mánuð. Þetta eru a.m.k. sólarhringsátök og jafnvel allt að 30 tímar fyrir suma. Mér fannst sjálfum nóg að fara Laugaveginn (um 55 km) en þetta er um það bil þrír slíkir ,,sprettir". Þetta verður þrekraun sem mun krefjast mikillar útsjónarsemi. Ég spurði eitt sinn ofurmaraþonkonu sem tók þátt í Reykjavíkurmaraþoni fyrir um 10-12 árum hvað væri erfiðast í keppni í vegalengdum 100 km og lengra. Hún sagði að það væri að halda aftur af sér. Til að ná árangri þyrfti mikla þolinmæði og stöðugan útreikning. Maður mætti aldrei freistast til að elta einhvern á öðrum hraða en eigin áætlun gerði ráð fyrir. Gunnlaugur er enginn nýgræðingur í þessum efnum en þessar miklu brekkur krefjast annarrar nálgunar en hlaup á flatanum.