Stefán Hallgrímsson, gamli tugþrautarkappi, kíkir oft við í frjálsíþróttahúsið í Kaplakrika. Hann getur verið stríðinn og síðasta haust hafði hann oft á orði að ég væri orðinn of þungur. Ég hlustaði ekki mikið á þetta en 29. desember fór fram íþróttaviðurkenningarhátíð Hafnarfjarðarbæjar. Sem fulltrúi í Íþrótta- og tómstundanefnd hafði ég þann starfa að afhenda hin ýmsu verðlaun fyrir framan fulla stúku af áhorfendum. Hafði brugðið mér í gamla skyrtu sem greinilega var orðin nokkuð aðþrengd. Þegar hátíðinni var lokið gekk Þórhallur Jóhannesson, prentari, nokkrum árum eldri en ég og mikilll hlaupari til mín og sagði:
„Siggi minn, sé að þú ert farinn að þyngjast." Þetta hafði áhrif.
Þegar ég kom heim steig ég á vigtina sem sagði 86,5 kg. Kannski ekki mikið fyrir mann á mínum aldri og 1,77 m á hæð en nálægt því sem hef verið þyngstur (87 kg). Þá var bara að setja sér áramótaheit og ég setti mér það markmið að vera kominn undir 80 kg þegar ég færi til Kenía í byrjun apríl en ég vissi að ég þyrfti að vera í þokkalega góðu formi þegar þangað væri komið. Ekki tókst mér það alveg, var 81,4 kg þegar lagt var upp í þessa langferð. Smá agaleysi í mars. En hvernig náði ég þessum 5 kg af mér þar sem ég tel mig hafa lagt áherslu á hollt mataræði í gegnum árin, ekki drukkið gos í 40 ár og forðast sykur.
Ákvað að nota 12:12 regluna sem Geir Gunnar Markússon, næringaráðgjafi, sagði að væri auðveld byrjun er hann kom á vinnustað minn fyrir nokkrum árum með fyrirlestur en þá var 8:16 hlutfallið mikið í umræðunni. Ég sem sagt hætti öllu kvöldsnarli en var búinn að venja mig á að fá mér rúsínur, döðlur, hnetur og bruður flest kvöld. Ekki þó allt sama kvöldið – það hefði endað illa. Þetta var ekki svo erfitt, en erfiðast þó að henda döðlunum út en konan mín segir að ég sé haldinn döðlufíkn. Henti eina sælgætinu út þ.e. Góu súkkulaðirúsínunum en á heimilinu hefur í langan tíma verið keyptur pakki á hverjum föstudegi. Allt kex út svo og kökur en hef reyndar borðað lítið af þessu síðustu árin. Sé mest eftir tebollunum sem ég er veikur fyrir. Ætlaði að minnka brauðátið en tókst ekki. Ekkert áfengi í janúar og þar fór rauðvínið með laugardagssteikinni en kom aftur inn í febrúar. Maður verður að leyfa sér eitthvað. Fyrsti bjórinn á árinu ekki fyrr en 24. febrúar en reyndar drekk ég lítið af bjór, helst í golfferðum erlendis en bjórinn er þar ómissandi hluti af karla kúltúrnum. Til viðbótar fór ég að fara oftar í ræktina eftir áramótin með áherslu á þrekhjólið, oftar í hraðgöngu og reyna að hlaupa aðeins inni í Kaplakrika með spelku á vinstra hné. Þetta skilaði sér smá saman.
Nú er ég búinn að vera tæpar tvær vikur í Kenía á töluvert öðru fæði en ég er vanur og auk þess búinn að hreyfa mig nánast tvisvar á dag allan tímann. Við förum jafnan út að hlaupa (ég blanda saman hraðgöngu og rólegu skokki með göngustöfum) um kl. sjö á morgnana og svo aftur í síðdeginu. Ætli ég sé ekki á 7:00-7:30 meðalhraða í skokkhlutanum en á það til að fara aðeins hraðar stutta kafla. Í morgunmatnum er boðið upp á hafragraut sem er nánast eins og sá íslenski. Auk þess pönnukökur, soðbrauð líku því sem ég kynntist á Akureyri, eggjaköku og hvítt brauð.
Ekki fengið ennþá gróft brauð. Áleggið er einhvers konar smjörblanda og alltaf hnetusmjör. Aldrei boðið upp á kjötálegg, osta og marmelaði. Með þessu er mjólkurblandað kenískt te með pínulítið af sykri út í. Minnir mig á Skotland á námsárum mínum. Þessi drykkur smakkast vel.
Í hádeginu er boðið upp á sannkallað hlauparafæði – spagetti og pasta, hrísgjón, alls konar baunir og grænmeti. Einnig Ugali sem búið er til úr maísmjöli. Kenískir hlauparar halda mikið upp á þessar kökur en okkur finnst þær þurrar og ekki góðar. Alltaf súpur með sem og á kvöldin en þær eru góðar. Á kvöldin er boðið upp á lambakjöt, nautakjöt og kjúkling til skiptis. Stundum er þetta í súpum eða pottrétti eða blandað saman við pasta. Lambakjötið er ekki síðra en það íslenska, kjúklingurinn góður en nautakjötið síst. Höfum einu sinni fengið djúpsteiktan vatnafisk sem stóðst ekki gæði þess íslenska. Söknum ýsunnar. Kemur á óvart að maturinn er lítið kryddaður í HATC mötuneytinu en höfum á ferðum okkar um landið fengið kryddaðri mat. Má vel vera að maturinn sé minna kryddaður í Iten en í öðrum landshlutum. Engar sósur með matnum utan hnetusósu stundum en það er alltaf tómatsósa og chilisósa á borðum.
Í meðlæti eru til skiptis kartöflur, hrísgjón og pasta auk grænmetis.
Best er þó Chipati sem er flatbrauð líkt nanbrauði. Í eftirrétt eru vatnsmelónur og ananas, hvorttveggja mjög gott. Hins vegar búum við okkur oft til eigin eftirrétt þ.e. sneiðum niður mangó sem er ótrúlega góður hér – miklu betri en við höfum smakkað heima. Svo eru stelpurnar byrjaðar að prófa framandi ávexti sem smakkast vel.
Ekkert kvöldsnarl hér enda förum við að sofa milli kl. níu og tíu.
Skrýtið fyrir mig B-manninn sem fer yfirleitt ekki að sofa fyrr en eftir miðnætti heima. Er þó að venjast þessu enda segja tvær æfingar á dag til sín. Eftir kl. sjö er niðamyrkur hér allt árið um hring. Upp úr kl. sex á morgnana byrjar að birta og margir hlauparar þegar komnir á stjá og að ljúka sinni æfingu þegar við komum út um sjöleytið.
Beltið mitt var í síðasta gatinu er ég kom en mér finnst það orðið nokkuð rúmt núna. Þrátt fyrir að okkur hafi verið ráðlagt að borða vel vegna þunna loftsins og aukinna æfinga held ég að þyngdin hafi minnkað en ég hef þó ekki rekist á vigt hér í æfingabúðunum. Nú er stóra spurningin hvort ég verði kominn undir 80 kílóin þegar ég kem heim 29. apríl. Þetta verður spennandi.