Nýbúin í rólegu 8 km morgunskokki, sunnudaginn 16.apríl. Í síðdeginu er brautaræfing á dagskrá, tvö sett af 5x400 m með 2:00 mín hv á milli og 6 mín á milli setta. Í gær var fyrsti hvíldardagurinn í ferðinni enda seinni dagurinn í Safari ferð. Þessi pistill fjallar um þá ferð og því ekkert um hlaupapælingar. Vignir Már sá um skipulagninguna enda þekkir hann best til staðhátta hér. Snúum okkur þá að ferðasögunni.
Klukkan rúmlega tíu á föstudaginn, eftir að hafa tekið morgunæfingu rann gamall Land Cruiser í hlað með leiðsögumanni. Stefnan var tekin á þjóðgarðinn við Nakuru vatn. Þetta er um 175 km löng leið frá Iten en ferðin sóttist seint vegna umferðar og ótal hraðahindrana sem eru bæði á þjóðvegum og enn þéttar á sveitavegunum. Mér skilst að Keníubúar myndu annars keyra eins og bandítar enda hvergi að sjá skilti um hraðatakmarkanir. Á leiðinni fórum við yfir miðbauginn og sérstakt að vera allt í einu komin á suðurhvel jarðar. Eftir nærri 4 klst. keyrslu komum við loks í þjóðgarðinn. Þar tóku við nokkur formlegheit við kaup á aðgangsmiðum. Þeir vildu helst fá vegabréfið en sættu sig þó við ökuskírteini enda hafði einungis eitt okkar tekið vegabréfið með, svona af rælni. Þá var bara að ná síðdegsstemmningu dýranna.
Nei Pumba! hrópaði ein stelpnanna og benti á vörtusvínið sem skokkaði yfir moldarslóðann sem við vorum að keyra eftir. Fyrsta dýrið komið og á eftir fylgdu antilópur, apakettir, sebrahestar, vísundar, gíraffar, nashyrningar og ótal fleiri dýrategundir. Fyrsta sinn sem ég fer í Safari ferð og gaman að sjá dýrin í náttúrulegu umhverfi. Keyrt var meðfram Nakuru vatni og teknir ýmsir hliðarslóðar. Bílstjórinn þekkti greinilega vel til því við komumst nálægt flestum dýranna nema ljónunum og flóðhestunum sem við sáum einungis úr töluverðri fjarlægð. Allt var með kyrrum kjörum og dýrin flest upptekin við beit.
Eftir að hafa farið fram og aftur í um tvær klukkustundir var haldið að gististaðnum sem var lítið hús við vatnið og síðan í kvöldverð á flottu hóteli við vatnið. Gestgjafinn tók vel á móti okkur og vildi endilega sýna okkur aðstöðuna, vildi greinilega fá okkur í dýra gistingu.
Maturinn góður en sumir þurftu að bíða lengi eftir honum. Eitthvað virtist skorta upp á skipulagið - eins og pantanir týnist stundum á kenískum veitingastöðum. Trúbador stytti okkur stundir á meðan og við báðum um óskalög. Hann þekkti lítið til vestrænna dægurlaga en þó tókst okkur að fá hann til að syngja country road með John Denver og fékk hann að launum 1.000 KES og hefur sennilega sjaldan fengið svo mikið því svo ánægður var hann. Á leiðinni í gistiaðstöðuna í kolniðarmyrkri lentum við í smá dramatík sem hækkaði adrenalínið. Nokkrir vísundar stóðu á veginum og vildu sig hvergi hræra. Bílstjórinn prófaði að slökkva á bílljósunum og bakka og kveikja aftur en ekkert gerðist um stund.
Vísundarnir störðu grimmilega á okkur og einn þeirra rótaði með öðrum fætinum í moldinni. Eitt augnablik stóð okkur ekki á sama en svo gáfu þeir sig og röltu inn í kjarrið.
Daginn eftir var morgunstemmning dýranna könnuð og aðrir slóðar keyrðir. Sáum fjölmargar dýrategundir en ekki tókst okkur að komast nær ljónunum. Það vakti athygli okkar að dauð tré stóðu upp úr vatninu allt um hring. Ástæðan er sú að vatnsyfirborðið hefur hækkað um nokkra metra undanfarna tvo áratugi, sérstaklega síðustu 7-8 árin. Auk þess er vatnið salt. Bílstjórinn sagði að þessi þróun væri vegna hnattrænnar hlýnunar, aukin úrkoma sem safnaðist þarna fyrir. Ekki hafði okkur órað fyrir því að áhrifa loftlagsbreytinga myndi gæta þarna.
Heimleiðin sóttist seint, enda mikið um flutningabíla á þjóðvegunum.
Mér fannst það nokkuð merkilegt á laugardegi en kannski eru allir dagar eins hér í landi eins og veðrið. Leiðin milli Iten og Naguru er mjög hæðótt, fórum mest í 2.700 m hæð og svo niður í 1.900 m við Naguru.
Brekkurnar því margar og erfiðar fyrir flutningabílana. Þá var ótrúlegur fjöldi sölufólks meðfram vegunum sem var að selja ávexti, grænmeti, te, hunang og fleira. Greinilegt að sumir voru búnir að stúdera vel hvar bílarnir fara hægast yfir eins og við endann á brattri brekku. Stukku þá á bílana og veifuðu varningnum. Enginn vsk af þessari starfsemi og ljóst að það eru a.m.k. tvenn hagkerfi í Kenía.
.