uppfært 09. ágúst 2020

Kathrine Switzer átti stóran þátt í að opna konum leið inn í hlaupasamfélagið, en eins og kunnugt er hljóp hún Bostonmaraþonið 1967 þrátt fyrir að þátttaka kvenna bryti gegn reglum hlaupsins. Síðan þá hefur hlutfall kvenna meðal þátttakenda í maraþonhlaupum hækkað jafnt og þétt. Þegar sagan er skoðuð sést reyndar að hlaup Katrínar 1967 var e.t.v. ekki eins einstakt og af er látið. Í stuttu máli hafa konur alltaf hlaupið, rétt eins og karlar, en mismunandi trúarbrögð og aðrar kennisetningar hafa löngum gert konum erfiða fyrir við þessa iðju en körlum. Hér verður ekki birt nein tæmandi úttekt á þátttöku kvenna í hlaupum, heldur aðeins gripið niður í söguna.

Kvennahlaup á tímum Spartverja
Strax á tímum Forn-Grikkja voru konur orðnar virkir þátttakendur í hlaupaviðburðum. Þær öttu þó ekki kappi við karlana, heldur voru reglulega haldin sérstök kvennahlaup, m.a. til heiðurs gyðjunni Heru, sem var drottning himinsins og verndari hjónabands og kvenna, auk þess að vera eiginkona Seifs. Fjórða hvert ár fjölmenntu spartverskar hlaupakonur til Ólympíu, þar sem þær kepptu í 160 m Heruhlaupi mánuði áður en karlarnir mættu til keppni á Ólympíuleikum þess tíma. Þjálfun kvennanna fyrir þessi hlaup snerist þó frekar um árangur í hernaði en um ánægjuna, enda þótti líklegt að þær best þjálfuðu myndu fæða af sér hraustustu hermennina. Í Heruhlaupum kepptu konurnar gjarnan klæddar sem hinar herskáu amasónur með hægra brjóstið bert. Þessar hlaupakeppnir voru fyrst haldnar um 580 f.Kr. og sögu þeirra lauk ekki fyrr en 900 árum síðar. Minna er vitað um kvennahlaup í Rómarveldi. Helsta heimildin þaðan er mósaíkmyndin Bikínistúlkurnar á Piazza Armerína á Sikiley, sem sýnir unglingsstúlkur hlaupa, dansa og leika sér með bolta. Með kristninni komu strangari siðareglur sem m.a. fólu í sér ýmsar hömlur varðandi klæðaburð kvenna og þátttöku þeirra í íþróttum. Líklega átti það sinn þátt í að forngrískar hlaupahefðir liðu undir lok.

Ítalía á miðöldum
Hlaupakeppnir voru tíðar á Ítalíu allt frá því um 1200 og fram að aldamótunum 1800. Ein þekktasta keppnin var „Hlaupið um græna strangann" (Corsa del Palio) í Veróna, þar sem þátttakendur hlupu naktir og sigurlaunin voru grænn efnisbútur. Þetta hlaup var fyrst haldið árið 1207 eða þar um bil og er m.a. nefnt í Gleðileiknum guðdómlega (La Divina Commeddia) eftir Dante. Reyndar var þetta miklu frekar bæjarhátíð en eiginleg íþróttakeppni. Árið 1393 var viðburðinum skipt upp í tvö hlaup, þar sem karlar kepptu um rauðan efnisbút og konur um grænan. Konurnar sem tóku þátt áttu að vera „heiðvirðar" en ef engar slíkar skráðu sig til leiks voru vændiskonur samþykktar sem þátttakendur.

Mikill áhugi á forngrískri menningu átti líklega stóran þátt í uppgangi hlaupa á Ítalíu á miðöldum, bæði fyrir konur og karla. Í riti Sadóletósar kardinála, De libris recte instituendis, frá 1530 var mælt með að meiri áhersla væri lögð á hlaup en heræfingar, en á þessum tíma virðist talsverð áhersla hafa verið lögð á líkamsrækt og útiveru til að auka almenna hreysti og heilbrigði.

Kvennahlaup voru gjarnan haldin sem hluti af bæjarhátíðum á miðöldum, bæði á Ítalíu og annars staðar á Evrópu. Þetta virðist þó frekar hafa verið gert til að skemmta áhorfendum en til að heiðra bestu íþróttamennina. Vændiskonur gátu leyft sér að taka virkari þátt í þessum viðburðum en aðrar konur og virðast m.a. hafa nýtt sér þá til markaðssetningar. Hins vegar hafa þessi hlaup líklega ekki síður þjónað þeim tilgangi að niðurlægja konur og leyfa áhorfendum að skemmta sér á þeirra kostnað. Þetta hefur því að öllum líkindum haft lítið með kvenfrelsi að gera, nema ef vera skyldi að því leyti að á bæjarhátíðum leyfðist fólki að gera sitthvað sem annars hefði kostað refsingar.

Sloppahlaup á tímum Shakespeares
Frá því á 17. öld og fram á 19. öld voru svonefnd sloppahlaup (e. smockraces) mikið stunduð í Englandi og Skotlandi. Þessi hlaup voru sérstaklega ætluð konum og voru yfirleitt stutt (t.d. um 200 m). Hlaupin fóru gjarnan fram í tengslum við aðra viðburði, svo sem kirkjuhátíðir, kappreiðar, brúðkaup og krikketleiki. Oftast kepptu 2-6 konur samtímis og keppendum var skipt í aldursflokka, allt frá yngri en 15 ára upp í eldri en 35 ára. Keppnistímabilið stóð frá apríl og fram í október og yfirleitt voru hlaupin árlegur viðburður á hverjum stað. Til eru heimildir um a.m.k. 20 árleg sloppahlaup í Kentsýslu einni og sér á 18. öldinni.

Í sloppahlaupum var gjarnan keppt um peningaverðlaun sem annað hvort voru gefin af fjársterkum aðila á svæðinu eða safnað með samskotum. Í sumum tilvikum voru haldin úrtökumót þar sem aðeins sigurvegarinn vann sér þátttökurétt í aðal sloppahlaupi svæðisins. Konur tóku þátt í þessum hlaupum ýmist fyrir ánægjuna, til að sýna styrk sinn eða til að vinna sér inn peninga. Sigurlaunin gátu numið allt að 10 pundum á tímum þegar árslaun ungra þjónustustúlkna voru um 2 pund, auk fæðis, vinnufata og húsnæðis. Í einhverjum tilvikum var sigurvegurum úr fyrri hlaupum meinuð þátttaka, sem m.a. leiddi til þess að konur ferðuðust fótgangandi um langan veg til að keppa annars staðar. Peter Radford, sem rannsakað hefur sögu sloppahlaupanna, telur þetta vera elsta staðfesta dæmið um hlauparöð fyrir konur. Og að sjálfsögðu spratt upp veðmálastarfsemi í tengslum við þessi hlaup.

Í byrjun 18. aldar voru enskar konar farnar að stunda langhlaup, sem auðvitað gáfu líka tækifæri til veðmála. Til eru dæmi um fjölskyldur sem ferðuðust um og höfðu tekjur af að sýna getu sína á hlaupum. Emma Mathilda Freeman ólst upp í einni slíkri fjölskyldu, sem gerði hana út sem hlaupara frá barnsaldri. Átta ára gömul hljóp hún t.d. tvisvar lengra en 30 mílur (48 km) og einu sinni rúmar 40 mílur (64 km). En á Englandi gátu menn líka veðjað á eldri hlaupakonur. Ein slík var Mary Motolullen sem vann m.a. eitt veðmál fyrir syni sína rúmlega sextug árið 1826 með því að ljúka 90 mílna hlaupi á innan við sólarhring, þrátt fyrir að þeir sem höfðu veðjað gegn henni beittu ýmsum brögðum til að spilla fyrir henni hlaupinu. Mary var sönnun þess að jafnvel eldra fólk gæti þjálfað upp og viðhaldið úthaldi með markvissum æfingum, sérstaklega þegar þetta gat verið leiðin út úr sárri fátækt. Þegar leið á 19. öldina virðast kvennahlaupin hins vegar hafa lagst af að mestu samfara bakslagi í kvenfrelsi á Viktoríutímanum.

Stamata Revithi
Rétt eins og Kathrine Switzer var ákveðin í að hlaupa Bostonmaraþonið 1967 stefndi Stamata Revithi að þátttöku í maraþonhlaupinu á fyrstu Ólympíuleikum nútímans í Aþenu 1896. Hún lagði af stað frá heimabæ sínum Pireus fótgangandi áleiðis til Aþenu með barnið sitt á öðru ári á handleggnum, viss um að þátttaka í hlaupinu væri hennar helsta von út úr eymdinni sem hún bjó við. Hún komst á áfangastað með góðra manna hjálp en var samt á báðum áttum enda ekki til neinn hentugur hlaupaklæðnaður sem þótti viðeigandi fyrir konur. Mál þróuðust þannig að henni var meinað að hlaupa með körlunum eins og ætlunin var og þess í stað hljóp hún daginn eftir eins síns liðs sömu leið og karlarnir frá Maraþon til Aþenu og lauk því hlaupi á u.þ.b. 5:30 klst. þrátt fyrir að hafa tekið sér tíma á leiðinni til að skoða sig um. Eftir hlaupið fékk hún borgarstjórann til að gefa skriflega staðfestingu á afrekinu, en ekki er vitað með vissu hvernig henni reiddi af í lífinu eftir þetta.

20. öldin
Á 20. öldinni jókst þátttaka kvenna í íþróttum, þ.m.t. í hlaupum, einkum þó styttri hlaupum, samfara auknum réttindum kvenna og auknu frjálsræði í klæðaburði, a.m.k. á Vesturlöndum. Lengi vel voru þó margir karlar þeirra skoðunar að langhlaup hentuðu ekki konum og færðu fyrir því ýmis misrökrétt rök. Reyndar efuðust líka margir um að langhlaup væru holl fyrir karla, sérstaklega gamla karla (t.d. yfir fertugt). Um og upp úr 1970 fór tíðarandinn að breytast og hlaupin að vaxa sem almenningsíþrótt. Frumkvæði Kathrine Switzer í Boston 1967 átti sinn þátt í því að konur fóru ekki varhluta af þessari þróun, en á þessum tíma var ekki ætlast til að konur kepptu í lengri hlaupum en 5 mílum (8 km). Margar aðrar konur komu þó við sögu á þessum tímum, m.a. kanadíska stúlkan Maureen „Moe" Wilton (nú Maureen Mancuso) sem setti óopinbert heimsmet í maraþonhlaupi kvenna 6. maí 1967 þegar hún hljóp vegalengdina á 3:15:23 klst. í Ontario, aðeins 13 ára gömul! Reyndar var Kathrine Switzer líka með í þessu sama hlaupi, aðeins tveimur vikum eftir sögulega þátttöku hennar í Bostonmaraþoninu. Tíminn hennar var eitthvað um 4:20 klst. í bæði skiptin. „Moe" lagði hlaupaskóna á hilluna 17 ára, en á síðustu árum hefur hún tekið þátt í einhverjum hlaupum og lagt sitt af mörkum til að hvetja ungar stúlkur til að láta drauma sína rætast, hverjir sem þeir eru. Saga hennar er rakin í bókinni Mighty Moe: The True Story of a Thirteen-Year-Old Women''s Running Revolutionary, sem kom út í októbermánuði síðastliðnum.

Lokaorð
Hér hefur verið stiklað á stóru og mörgu sleppt, þ.á m. hlaupaafrekum kvenna af Rarámuri-ættbálkinum (Tarahumara) í Kopargljúfrunum í Mexíkó, svo og öllum þeim ótrúlegu hlaupakonum sem komið hafa fram á sjónarsviðið á síðustu 40 árum. Reyndar er hlaupasaga kvenna frá upphafi efni í heilan bókaflokk og því útilokað að gera henni viðeigandi skil í stuttum pistli. Bókaflokkurinn myndi þá jafnframt fjalla um réttindabaráttu kvenna, því að hlaupasagan er óaðskiljanlegur hluti af henni. Enn er eftir að skrifa marga kafla í þeirri bók - og vert að hafa í huga að það sem venjulegum Íslendingi þykir sjálfsagt í dag var ekki sjálfsagt fyrir 50 árum og er það ekki enn í stórum hluta heimsins. Þar er verk að vinna.

Efnisflokkur: Saga

Heimildir og lesefni:

1. Kit Fox og Rachel Swaby (2019): At 13, She Broke the Women''s Marathon World Record. Then She Disappeared From Running. Runner‘s World, 15. október 2019. https://www.runnersworld.com/runners-stories/a29460762/mighty-moe

2. Rachel Swaby og Kit Fox (2019): Mighty Moe: The True Story of a Thirteen-Year-Old Women''s Running Revolutionary. Farrar, Straus & Giroux Inc., New York.

3. Thor Gotaas (2008): Løping. En verdenshistorie. Gyldendal Norsk Forlag, Oslo.

Stefán Gíslason, hlaupafrömuður, er pistlahöfundur á hlaup.is. Í pistlunum fer Stefán yfir víðan völl og fjallar um skemmtilegar og stundum ókannaðar hliðar hlaupanna.