Laugavegspistill: Axel Einar Guðnason Hlaupahópi FH

birt 27. júlí 2018

Ragnheiður Sveinbjörnsdóttir og Axel ansi flott með rásnúmerin.

Það þarf ákveðin kjark að skrá sig til leiks í Laugavegshlaup tvö ár í röð, sérstaklega ef fyrra hlaupið gekk ekki vel. Hlaupið 2017 var í stuttu máli fimm klukkutímar af algjörri bugun og rúmlega tveir klukkutímar af svolitlu lífsmarki en samt var ákveðið samstundis að taka aftur þátt 2018, það væri einfaldlega ekki hægt að hætta á botninum. Hlaupið hlyti að ganga betur í annað skiptið þó það sé aldrei hægt að ganga að neinni velgengni vísri í Laugavegshlaupi, það er svo margt sem spilar inn í. Óhjákvæmilega fara allar hugleiðingar um nýafstaðið hlaup 2018 í samanburð við hlaupið í fyrra enda er upplifunin af Laugavegshlaupi engu öðru lík.

Halda þægilegum hraða - 6.30 yfirlýst markmið
Það kom mér líka á óvart í þessum skrifum þegar ég uppgötvaði að ég hef aldrei tekið þátt í neinu keppnishlaupi sem er lengra en 22 km Hvítasunnuhlaup Hauka, oftar en einu sinni. Fyrsta skiptið er líka alltaf spennandi, algjör óvissuferð um ókunnar slóðir og því var óneitanlega svolítið sérstakt að mæta aftur til leiks, vitandi hvað bíður manns handan næstu hæðar. Kokhreystin víkur fyrir auðmýkt og örlítið meiri þroska enda vita allir Laugavegshlauparar hversu mikið afrek það er að komast í mark. Það fór því óvenju lítill tími í að hugsa einhverja taktík og planið var einfalt, að halda sér á þægilegum hraða allan tímann og vera ekkert að spá í einhvern frábæran lokatíma. Yfirlýst markmið var 6:30 en þá þyrfti allt að ganga upp.

Síðustu daga fyrir hlaup var ég að vandræðast með klæðaburð enda getur verið snúið að búa sig undir hlaup þar sem vaðið er í snjó í 1100 metra hæð með vænum skammti af rigningu og mögulegri bongóblíðu í lokin. Niðurstaðan var að klæða sig meira en minna, það er ekkert grín ef eitthvað kemur fyrir uppi á hálendi, líkaminn er fljótur að kólna þegar maður hættir að hreyfa sig. Því þorði ég ekki að vera í stuttbuxum, fór þó í þær yfir síðu hlaupabuxurnar þar sem þær eru með svo góða vasa. Að ofan var það sérstakur síðermabolur sem heldur einstaklega vel hita, gamall hlaupajakki yfir, buff um hálsinn, og auðvitað húfa og vettlingar sem hafa verið einkennisklæði þessa sumars.

Svo var brúsabelti með tveimur 300 ml brúsum og bakpoki með tveggja lítra vatnsblöðru sem var fyllt til hálfs og var aðeins hugsuð sem varaforði. Í nesti tók ég gamlan stauk af nuun steinefnafreyðitöflum, 10 gel, 7 skammta af orkuhlaupi og 3 orkustykki, allt frá Clif. Ég var með þá kenningu að með reglulegri næringu væri hægt að hlaupa alla leið í markið án þess að orkan myndi klárast og það reyndist rétt. Ég hafði karbólódað í þrjá daga með 600 gr af Leppin Carbo Lode og allir vöðvar voru því væntanlega stútfullir af glúkósa í rásmarkinu og kæmu mér vel áleiðis. Meirihluti utanvegalandsliðs kvenna í rásmarkinu ásamt þremur glæsilegum körlum úr Hlaupahópi FH.

Fagnaðarfundir með hlaupavinum í Landmannalaugum
Allur undirbúningur og æfingar sumarsins gengu nokkuð vel og mér sýndist ég vera á þokkalegu róli fyrir átökin. En það er auðvitað aldrei á vísan að róa, það getur allt gerst á Laugaveginum. Einn úr hópnum snéri sig í startinu og þurfti að hætta keppni - hversu svekkjandi er það? En Hlaupahópur FH fjölmennti í Laugavegshlaupið að þessu sinni sem dugði til að leigja rútu sem er óneitanlega svolítið þægilegt. Samt fór ég ekki eftir eigin heilræðum frá síðasta ári, þ.e. að gista í Landmannalaugum aðfararnótt hlaupadags og fá að sofa fram á morgun. Ég mætti því nánast ósofinn í rútuna um miðja nótt sem er auðvitað hálfglatað en væntanlega átti það við um fleiri hlaupara. Auka skammtur af adrenalíni bætti það upp enda allir nokkuð spenntir fyrir ævintýri dagsins.

Í miðri Bláfjallakvísl, Axel fyrir aftan Sveinbjörn Sigurðsson og Gísla Guðmundsson úr Hlaupahópi FH. Við renndum tímanlega í hlað í Landmannalaugum og frábært að vera í fyrstu rútunni, fá nægan tíma á baðinu og gæta að síðustu smáatriðum í rólegheitum - ég var tilbúinn í hlaupið tæplega klukkutíma fyrir ræsingu. Svo streymdu rúturnar að og fljótlega fylltist svæðið af hlaupurum. Það urðu endalausir fagnaðarfundir þegar hlauparar hittu vini sína og félaga úr öðrum hlaupahópum enda fátt skemmtilegra en að upplifa eftirvæntinguna og spjalla við aðra. En tíminn líður alltof hratt í rásmarkinu, fyrr en varir er komið að ræsingu hjá gula hópnum sem ræsir fyrst.  Startað með landsliðskonunniÞað er auðvitað orðin hefð fyrir því að ræsa með Ragnheiði frænku mér við hlið og taktíkin var óbreytt, að hlaupa á þægilegum hraða og láta sér líða sem bærilegast. Fljótlega eftir startið kom í ljós að ég er enginn maður til að vera samferða Ragnheiði enda er hún landsliðskona í utanvegahlaupum og nýbúin að rúlla upp 88 km hlaupi á heimsmeistaramóti á Spáni! En það var hvort sem er ekkert markmið að halda í við hana enda fór ég hægt upp brekkurnar og mikið svakalega fannst mér þær erfiðar. Það draup fljótlega af mér svitinn af áreynslu og hita, enda svolítið hlýrra en ég hafði gert ráð fyrir og púlsinn var fljótur upp í eitthvað rugl. Við héldum hópinn til að byrja með nokkrir félagar og allir fóru jafnhratt upp bröttustu brekkurnar enda ekki pláss fyrir annað en einfalda röð. Það voru löngu aflíðandi brekkurnar sem skildu á milli mín og annarra, þar fór stríður straumur hlaupara fram úr mér sem er kunnuglegt stef úr síðasta hlaupi.

Mér gekk ekkert sérstaklega vel upp að Hrafntinnuskeri en mikið var gott að hafa hlaupið í fyrra í reynslubankanum. Snjórinn kom lítið á óvart og mér fannst hann auðveldari viðureignar í þetta sinn og lítið mál að rata uppi í þokunni.

Mér telst til að ég hafi verið mættur í drykkjarstöðina á 1:23 sem er um sjö mínútum fljótar en í fyrra. Eftir áfyllingu var haldið áfram enda sjálfstætt markmið að koma sér niður úr háloftunum sem allra fyrst. Það var því ágætis tilfinning þegar Álftavatnið blasti allt í einu við, snjórinn og þokan að baki. Flestir félagar mínir úr gula hópnum voru farnir á undan og aðrir úr rauða ráshópnum búnir að ná mér. Þegar komið var niður Jökultungurnar byrjaði sami barlómur og fyrir ári, alltof mikið púður hafði farið í brekkurnar og alltof mikið eftir af hlaupinu.

Bugun við Álftavatn - "Á ég að gefast upp?"
Ég kom því gjörsamlega bugaður inn í drykkjarstöðina við Álftavatn og var í alvörunni að hugsa um að gefast upp, hætta hlaupinu og fá bara far í bæinn. Þarna varð mér ljóst að ég er bara alls enginn ofurhlaupari og öll plön um að taka þátt í 100 km hlaupi á næsta ári voru jörðuð í kyrrþey. Einnig var ákveðið að fara aldrei aftur í Laugavegshlaup, maraþonhlaup á pönnukökuflötu malbiki væru mátulega stórar áskoranir í framtíðinni. En áfram var haldið og þessi bévítans Laugavegur skyldi kláraður! Mér leið aðeins skár eftir stoppið og náði fljótlega stjórn á hausnum aftur, lagði til hliðar alla dagdrauma um framúrskarandi lokatíma og ákvað að njóta hlaupsins svolítið betur. Það kæmi ekki til greina að leggjast aftur í sama þunglyndi og í fyrra.

Ég hafði verið svolítið kærulaus í undirbúningnum, það kom í ljós að það voru aðeins tvær steinefnatöflur eftir í stauknum mínum og þær myndu duga skammt til að forðast krampa. Sem betur fer fékk ég lánaðar tvær saltpillur hjá Sveinbirni hlaupafélaga mínum en leist samt ekkert á blikuna að komast klakklaust í markið. Við Bláfjallakvísl beygði ég mig niður í vatnið til að fylla brúsa og fékk krampa í kálfann við það, það borgaði sig greinilega ekki að vera með neinar óvæntar hreyfingar það sem eftir lifði hlaups. Skrokkurinn nær sér á strikEn andlega fór allt að ganga eins og í sögu og Sandarnir gengu bara þokkalega, aðeins einn og einn hlaupari að fara fram úr mér og ég var farinn að ná sumum aftur þó að hraðinn væri alls ekkert sérstakur. Líkamlega var ég líka farinn að ná mér aftur á strik, ég passaði vel upp á næringuna og fékk mér til skiptis, gel eða þrjú hlaup á 25 mínútna fresti og sem betur fer fór það vel í maga. Hins vegar lét ég orkustykkin eiga sig, gat ekki hugsað mér að borða neitt en orkan var næg alla leið í markið. Alltaf er jafn notalegt að koma að skálanum að Emstrum, móttökurnar frábærar og gott að stoppa aðeins og gera sig kláran í lokahnykkinn, tíminn hefur verið í kringum 4:47. Arnar Karlsson var að leggja af stað aftur þegar ég renndi í hlað og bar sig illa. Til viðbótar var ég farinn að heyra krampa- og hnjasksögur frá félögum mínum sem ég var að hlaupa fram úr, á meðan ekkert stórvægilegt amaði að mér. Nokkuð þreyttur en sáttur í endamarkinu.

Á fleygiferð seinni hlutann
Nú bar nefnilega svo við að nánast enginn hlaupari var að hlaupa fram úr mér og dæmið loksins snúist við, það virðist vera að seinni hluti hlaupsins henti mér betur en öðrum. Eða kannski var ég búinn að fara svo svakalega hægt að það var næg orka eftir? Allavega jókst hraðinn svolítið á jafnsléttu og það verður að segjast eins og er að leiðin eftir Emstrur og í endamarkið er uppáhaldskaflinn minn. Samt fór ég heldur rólega og gekk auðvitað upp allar brekkur, enn snérist allt um að komast klakklaust alla leið í markið. Ég var orðinn mjög tæpur á krömpum í kálfa og nára, án þess að það háði mér að ráði. Hitinn var orðinn bærilegur og loksins áttaði ég mig á því að fækka aðeins fötum en hafið þið prófað að vera með bakpoka og klæða ykkur úr hlaupajakka?

Til að gera langa sögu stutta leið lokakaflinn alltof hratt, fyrr en varði var Þröngáin vaðin og aðeins síðustu metrarnir eftir. Hér gildir að þenja sig ekki neitt, fáeinar sekúndur til eða frá skipta nákvæmlega engu máli í kapphlaupi þar sem lokatíminn er mældur í nokkrum klukkustundum. Það er æðisleg tilfinning að nálgast markið og fá fimmur frá klappliðinu áður en farið er yfir marklínuna, eins gott að njóta augnabliksins í botn. M.a.s. markmyndin lýsir nokkuð hamingjusömum hlaupagarpi á meðan myndin í fyrra var af buguðum, grátandi karli.

Friðleifur Friðleifsson þjálfari Hlaupahóps FH og Axel á leið út að Krossá eftir hlaup. Lokatíminn var rétt undir 6:52 sem er rúmlega sautján mínútna bæting frá því í fyrra og ekki annað hægt en að gleðjast yfir árangrinum. Vissulega hefði ég viljað koma svolítið fyrr í markið en það er stórgóður árangur að klára hlaupið í þokkalegu standi á undir sjö tímum. Líðanin ólíkt betri en í fyrra, enginn stirðleiki eða nuddsár og ekkert mál að ganga um. Það eina sem vafðist fyrir mér var að klæða mig í sokka eftir sturtuna, það komu krampakippir í lærin í hvert skipti sem ég reyndi að beygja mig niður en það hafðist að lokum. Annars var stoppað stutt í endamarkinu, eftir baðið var haldið á brott enda beið mín brúðkaupsveisla í bænum sem ég vildi alls ekki missa af. Í mark í þokkalegu standiAuðvitað verður að enda þetta á smá eftir á speki, tíu dögum eftir hlaup með tærnar upp í loft við Miðjarðarhafið. Það er gaman að hafa lesið Laugavegshugleiðingar annarra hlaupara og byrja að velta hlutunum svolítið fyrir sér. Af hverju reynast brekkurnar mér svona erfiðar? Stutta svarið er of fáar brekkuæfingar. Æfingaprógrammið var hrikalega flott og allur undirbúningur gekk eins og í sögu en ég þarf greinilega að bæta við nokkrum brekkum, æfingin skapar víst meistarann. Hins vegar kom ég í markið í nokkuð betra standi en margur annar, það hlýtur að teljast jákvætt og öfugt við flesta aðra að vera nokkuð sterkur í seinni hlutanum í svona löngu hlaupi. Og það er hreinlega ekkert sjálfgefið að komast alla leið í markið, Laugavegshlaup er ekki bara maraþonglíma við hálendið og náttúruöflin, þetta er ekki síður barátta við hausinn.

Aldrei aftur Laugavegur - Jú, víst!
Í báðum hlaupunum mínum var ég búinn að gefast upp við Álftavatn og tilbúinn að leggja utanvegaskónna á hilluna en hluti áskorunarinnar felst í að sigra sjálfan sig og halda áfram í baráttu sem lítur út fyrir að vera vonlaus - og hafa betur.

Á leiðinni var ég búinn að ákveða að fara aldrei aftur í Laugavegshlaup og snúa mér frekar að viðráðanlegri vegalengdum. Guði sé lof fyrir gullfiskaminnið því líklega var þetta ekki svanasöngurinn minn í þessu stórkostlega hlaupi þó ég taki væntanlega ekki þátt á næsta ári. Hlaupaleiðin er einfaldlega of æðisleg að auðvitað verð ég að skrá mig aftur til leiks.

Hins vegar væri ég hvenær sem er til í að taka þátt í Laugavegshlaupi sem myndi byrja við Álftavatn, þá myndi ég sleppa við alerfiðasta kaflann þó afrekið væri vissulega minna. Vonandi taka hlaupahaldarar það til athugunar, ég myndi leggja til að styttri útgáfan fengi hið viðeigandi nafn „Skemmtiskokkið", enda aðeins í kringum 33 km. En mikið er gott að hvíla sig aðeins frá hlaupunum og hlaða sig svolítið á D-vítamínum við gríska sólarströnd en auðvitað ekkert voðalega lengi. Næsta verkefni er löngu planað, nú liggur leiðin til New York í fullt maraþon í byrjun nóvember og aðeins rétt rúmlega þrír mánuðir til stefnu.