Laugavegspistill eftir Auði Ingólfsdóttur: "Þetta gat ég"

birt 04. september 2017

Að koma í mark eftir 13 km í Jökulsárhlaupi þann 11. ágúst 2012. Frábært hlaup sem kveikti hlaupaástríðuna fyrir alvöru.Ég tók þátt í Laugavegshlaupinu, 55 km fjallahlaupi frá Landmannalaugum í Þórsmörk (reyndar bara 53 km skv. Garmin - en nógu langt samt ;-)). Ég kláraði hlaupið á rétt rúmum níu klukkutímum (9:01,05) og kom í mark alsæl og ánægð með að hafa náð markmiði sem fyrir aðeins nokkrum árum virtist fjarlægur og óraunhæfur draumur. Hlaupið var virkilega krefjandi líkamlega en andlega var ég í góðu standi alla leið og hvikaði aldrei frá því markmiði að halda áfram, skref fyrir skref, og koma heil í mark. Hér kemur framsögn að aðdraganda, undirbúningi og hlaupinu sjálfu.Bloggið er skrifað bæði til minnis fyrir sjálfa mig en einnig með það í huga að frásögnin gagnist öðrum, ekki síst hægfara hlaupurum sem eru kannski á svipuðum stað í dag og ég var sjálf fyrir nokkrum árum.

Aðdragandi
Það var fyrir um fimm árum síðan sem ég skrifaði í dagbókina mína að einhvern tíman langaði mig til að hlaupa Laugaveginn. Á þessum tíma var ég búin að hlaupa reglulega í um eitt ár og hafði nýlokið við 13 km utanvegahlaup úr Hljóðaklettum í Ásbyrgi (stysta leiðin í Jökulsárhlaupinu). Ég var afar hægfara á þessum tíma, langt yfir kjörþyngd, og var yfirleitt með þeim síðustu í mark í flestum hlaupum sem ég tók þátt í. Jökulsárhlaupið var ekki bara fyrsta utanvegahlaupið mitt heldur líka fyrsta hlaupið sem var lengra en 10 km. En mér fannst þetta eitt af því skemmtilegasta sem ég hafði gert og vildi halda áfram, fara lengra og stefna hærra.

Ég þorði ekki að nefna þessa hugmynd um Laugaveginn á nafn við nokkurn mann fyrr en 2-3 árum síðar - svo fjarlæg og í raun hlægileg var þessi hugmynd á þessum tíma miðað við mitt líkamlega ástand. En góðir hlutir gerast hægt og smátt og smátt fór ég að hlaupa bæði lengra og hraðar og markmiðið var ekki alveg jafn fjarstæðukennt. Ég hljóp mitt fyrsta maraþon árið 2015 og sumarið 2016 tók ég endanlega ákvörðun um að reyna við Laugavegshlaupið ári síðar, eða í júlí 2017.

Það sem hræddi mig mest við Laugaveginn var ekki sjálf leiðin og hvort ég kæmist alla vegalengdina, heldur hvort ég myndi ná tímamörkunum í hlaupinu. Hlauparar þurfa sem sagt að ná í Álftavatn á innan við fjórum tímum og í Emstrur á innan við sex tímum til að fá leyfi til að halda áfram og klára hlaupið og ég vissi að það yrði enginn afsláttur gefinn hvað varðar þessi tímamörk. En það var bara ein leið til að finna út hvort mér tækist að ná tímamörkunum - að skrá sig í hlaupið, æfa sig og láta á það reyna.

Undirbúningur
Ég hljóp bara eins og venjulega yfir vetrartímann, fór á Flandraæfingar þrisvar sinnum í viku og vikulegur kílómetraskammtur var oftast á bilinu 20-25 km. Ég lagði hins vegar sérstaka áherslu á styrktaræfingar frá september og til marsloka og var mætt í ræktina klukkan sex tvo morgna í viku með tveimur hressum vinkonum og þjálfara. Held að þær æfingar hafi skilað sér því ég komst algjörlega meiðslalaus í gegnum bæði æfingar fyrir Laugaveginn og sjálft hlaupið.

Í mars byrjaði ég svo í námskeiði hjá þeim Sigga P. og Torfa, en þeir félagar hafa boðið upp á undirbúningsnámskeið fyrir Laugavegshlaupið árum saman. Þetta námskeið var algjör snilld og hárrétt ákvörðun fyrir mig að skrá mig í það. Þar fékk ég fróðleik, félagsskap og æfingaáætlun sem var sérsniðin mínum markmiðum og aðstæðum.Nú fóru hlaupin að lengjast og kílómetrunum að fjölga. Í mars hljóp ég samtals 158 km, í apríl voru það 185 km, í maí 242 km og í júnímánuði hljóp ég samtals 282 km, sem er það langlengsta sem ég hef nokkrum sinnum hlaupið í einum mánuði.Þessar mættu með mér í ræktina klukkan sex á morgnanna, tvisvar í viku, í allan vetur.

Það var eiginlega ekki fyrr en ég byrjaði að mæta á æfingar með Laugavegshópnum sem ég fór að trúa því að það væri möguleiki fyrir mig að ná tímamörkum og klára hlaupið. Fram að því hugsaði ég alltaf með mér að ég ætlaði að „prófa" að hlaupa Laugaveginn og velti því mikið um hvernig ég myndi bregðast við ef ég kæmist ekki í Emstrur innan tímamarkanna. En einhvern tímann á miðju námskeiði breyttist hugsunin úr því að ég ætlaði að „reyna" og yfir í einbeittan vilja að klára hlaupið. Trúin á eigin getu var sem sagt að styrkjast.

Frá æfingu við Hvaleyrarvatn með Laugavegshópnum í lok maí 2017.Í byrjun júní tók ég þátt í Hvítasunnuhlaupi Hauka og var mjög sátt við hvernig mér gekk þar, sérstaklega í brekkunum þar sem ég fann að ég var orðin sterkari en áður. Ég hafði hins vegar áhyggjur af því að allan júnímánuð, þegar mesti þunginn var í æfingum, var ég í Kaupmannahöfn þar sem erfitt er að finna hlaupaleiðir nema á marflötu malbiki. Á meðan hlaupafélagar mínir á Íslandi skokkuðu um fjöll og firnindi hljóp ég kílómetra eftir kílómetra í sléttlendinu í Kaupmannahöfn og nágrenni, oftast ein.Það hefði vissulega verið gott að komast í brekkur og undirlendi sem var líkara því sem von var á í hlaupinu, en þegar upp var staðið gögnuðust þessar löngu og einhæfu æfingar mér betur en ég átti von á, sérstaklega á söndunum milli Álftavatns og í Emstrur. En þá að sjálfu hlaupinu.

Laugavegurinn
Við Borgnesingarnir lögðum af stað í Landmannalaugar um miðja nótt. Við vorum fjögur í Flandra sem tókum þátt í hlaupinu, en auk þess var einn hlaupari frá Ströndum með í för og einn félagi okkar kom með sem bílstjóri og keyrði jeppa sem við höfðum leigt fyrir ferðalagið. Það var alger lúxus að fá að vera í samfloti með þessum félögum mínum og gerði daginn mun skemmtilegri en ella.

Ég hafði engar sérstakar áhyggjur af því, enda vissi ég að þessi spá um lokatíma væri sennilega í bjartsýnni kantinum. Ég var hins vegar lengur en ég ætlaði mér úr Hrafntinnuskeri og í Álftavatn. Sá leggur var strembnari en ég átti von á.

Við vorum komin í Landmannalaugar um hálfátta, aðeins á undan rútunum, og höfðum því nægan tíma að fara á klósett, ákveða endanlega klæðnað og sinna öðru sem þurfti að huga að síðustu mínúturnar fyrir hlaup. Ég var orðin óþreyjufull að drífa mig á stað og það var því ákveðinn léttir þegar hlaupið var loksins ræst rúmlega níu.Fyrsti hópurinn, sá guli, fór af stað klukkan 09:15, sá rauði kl. 09:20, sá græni kl. 09:25 og við sem vorum í bláa og síðasta hópnum vorum ræst kl. 09:30. Og þar með var ævintýrið hafið.Mér gekk nokkuð vel upp í Hrafntinnusker. Samkvæmt áætlun frá þeim Sigga P og Torfa, sem miðaði við lokatíma upp á 8 klukkutíma og tíu mínútur, var viðmiðunartíminn fyrir mig við komuna í Hrafntinnusker 1:40 mín, en ég var fjórum mínútum lengur.Með ferðafélögum í Landmannalaugum við upphaf hlaups.

Skítaveður, vindur, rigning og meira að segja smá slydda. Þegar ég var að koma niður Jökultungurnar fór ég að hafa áhyggjur af hvort ég væri komin í hættu að ná ekki tímamörkunum í Emstrum, en svo reyndist þessi leggur úr Hrafntinnuskeri í Álftavatn 11 km (en ekki 12) og síðustu 1-2 kílómetrarnir voru á flatlendi eftir jeppavegi, þannig að ég róaðist fljótt. Ég var engu að síður 10 mínútum lengur en áætlunin gerði ráð fyrir og heildartíminn var kominn upp í rétt rúmar þrjár og hálfa klukkustund þegar ég kom að drykkjarstöðinni við Álftavatn. Þá vissi ég að svo framarlega sem lappirnar væru enn í sæmilegu standir ætti ég að geta náð í Emstrur innan sex tíma.

Komin af stað. Þarna eru ca 2-3 km búnir.Mér gekk frekar vel yfir sandana, þrátt fyrir mótvind, og náði að halda nokkuð jöfnum hraða. Þá komu hlaupaæfingarnar á flatlendinu í Kaupmannahöfn í júní loksins til góða. Var líka með góðan hlaupafélaga þennan legg, Elínu Úlfarsdóttur úr Hveragerði, en við hlupum samsíða lengst af í Hvítasunnuhlaupinu fyrir nokkrum vikum, hittumst svo á drykkjarstöðinni við Álftavatn, og við ákváðum að vera í samfloti í Emstrur, sem hjálpaði heilmikið.Þetta var eini hluti hlaupsins þar sem ég var á nákvæmlega sama tíma og áætlun gerði ráð fyrir, en það tók mig 2:20 mín að hlaupa þennan legg.

Þegar ég hljóp í hlað í Emstrum var heildartíminn kominn upp í 5:52. Ég var sem sagt átta mínútum undir tímamörkum og fékk leyfi til að halda áfram og klára hlaupið. Það var mikill léttir og svo sannarlega ekki sjálfgefið. Af 487 hlaupurum sem lögðu af stað voru 430 sem kláruðu, sem þýðir að 57 náðu ekki tímamörkum eða þurftu að hætta af öðrum ástæðum.

Ég stoppaði í ca. átta mínútur í Emstrum til að næra mig, fara á klósettið, bæta á vatnsbirgðirnar og teygja örlítið á stífum kálfum. Svo hélt ég áfram glöð í bragði en líkamlega var þó heldur af mér dregið. Var farin að reka tærnar í og datt eða hrasaði þrisvar sinnum á stuttum tíma (þó án þess að meiða mig).Ég sá því að eina vitið væri að hægja aðeins á mér, ef ég ætlaði að komast í heilu lagi á leiðarenda, og það tók mig því heila þrjá klukkutíma að klára þessa síðustu 16 km, eða um hálftíma lengur en áætlunin sem sett hafði verið upp.Þessa mynd tók írsk kona, sem ég hljóp með góðan spöl, Þarna eru um 40 km búnir.

Ég labbaði rösklega ca helming og skokkaði rólega inn á milli. Spjallaði líka heilmikið við fólk á leiðinni og naut útsýnisins, en á þessum tímapunkti var veðrið orðið talsvert betra.

Það var ljúft að sjá loksins í markið og klára hlaupið. Lokatíminn var 09:01,05. Heldur lengur en ég átti von á að ég yrði ef ég á annað borð næði tímamörkum, en engu að síður var ég alsæl, enda markmiðið fyrst og fremst að ná að klára og að njóta - og það tókst

Næring og klæðnaður
Ég tók með mér átta gel sem ég var búin að setja í tvær litlar 200 ml vatnstúbur. Ég setti gelin í túburnar til að forðast að bréfin utan af gelunum myndu fjúka burt en það reyndist líka vel að hafa gelin í þessu formi í mesta kuldanum því ég var orðin loppin á fingrum og hefði reynst mér erfiðara að rífa upp gelbréfin heldur en að skrúfa af tappann af túbunum.

Þetta hafðist - síðustu metrarnir fyrir markið.Ég hefði vel komið fyrir fleiri gelum í hverri túbu og myndi taka með mér 10 gel (5 í hverja túbu) ef ég færi aftur. Slapp samt alveg til, þar sem ég nýtti mér líka næringu á drykkjarstöðum í Álftavatni og í Emstrum. Fékk mér 2-3 bananabita á báðum stöðum og litla kanelsnúða. Ég var með ca 1,2 lítra af vatni í kamelpokanum mínum þegar ég lagði af stað og það dugði mér í Álftavatn (stoppaði ekkert í Hrafntinnuskeri).Fyllti á vatnið í Álftavatni og aftur í Emstrum, en ég var eitthvað að flýta mér of mikið í Emstrum og setti full lítið vatn í pokann þannig að ég var orðin vatnslaus 1-2 kílómetrum áður en ég kom að næstu drykkjarstöð eftir Emstrur (rétt fyrir brekkuna upp Kápuna). Ég fékk mér líka kók á síðustu drykkjarstöðunum en lét orkudrykkina vera.

Eitt sem ég klikkaði á í undirbúningi voru salttöflurnar. Komst einhvernvegin aldrei almennilega í að skoða þau mál en á leiðinni í Landmannalaugar fékk ég tvær töflur hjá hlaupafélaga mínum í Flandra. Tók fyrri töfluna við Álftavatn og þá síðari við Emstrur en þegar ég var rúmlega hálfnuð með síðasta legginn fann ég að það var stutt í krampa. Var að ræða þau mál við Íslending sem hljóp samsíða mér um stund og hann átti eftir eina freyðitöflu með salti og steinefnum sem hann ætlaði ekki að nota og gaf mér. Hún gagnaðist vel og ég fann að slaknaði aðeins á spennunni í kálfum.

Varðandi klæðnað þá var ég í síðum hlaupabuxum, hlaupapeysu með renndum kraga (mikilvægt til að vernda hálsinn frá nuddi frá vatnsslöngu á kamelpokanum.... eitthvað sem var að angra mig á löngu hlaupunum þegar ég var í bol með opnara hálfmáli) og í gula Flandra hlaupajakkanum. Ég var með léttar legghlífar yfir skónum, sem gögnuðust vel og sjálfir hlaupaskórnir voru Saucony Peregrine sem reyndust frábærlega.

Ætla að geyma þessa medalíu - enda talsvert fyrir henni haft.Ég var með buff á hausnum og Craft hlaupavettlinga. Ég var líka með húfu í vasa í Kamelpokanum (sem ég notaði ekki), og þar var ég líka með léttan álpoka, svona til að vera viðbúin ef eitthvað kæmi upp á og ég þyrfti að bíða eftir hjálp. Ég tók hvorki síma né myndavél með mér.Eftir talsverða umhugsun sleppti ég að senda poka að Bláfjallakvísl. Ég vildi ekki nota dýrmætan tíma í fataskipti og lenda kannski í því að það yrðu akkúrat mínúturnar sem myndu skera úr um hvort ég næði tímamörkum eða ekki. Þetta var rétt mat. Ég hafði enga þörf á að stoppa og búnaðurinn, bæði föt og skór, reyndust eins og best var á kosið.EndurheimtÉg var dauðþreytt eftir hlaupið og með mikla strengi í 3-4 daga en að öðru leyti kenndi ég mér ekki meins. Skrokkurinn í fínu standi og ég fór að hlaupa aftur tæpri viku eftir hlaup, fór í fjögurra daga fjallgöngu tveimur vikum eftir hlaupið og er núna komin á fullt í æfingar fyrir maraþon sem er framundan í október. Þannig að ég er bara rétt að byrja.