Laugavegspistill eftir Jóhann Helga Sigurðsson

birt 06. september 2017

Jóhann naut sín í náttúrfegurðinni.Ég byrjaði að hlaupa af nokkurri alvöru sumarið 2015 þegar ég æfði nokkuð reglulega með KR-skokk og fór þá meðal annars í mitt fyrsta hálfmaraþon. Í fyrrasumar hljóp ég mun minna og fór ekki í nein keppnishlaup önnur en tvö utanvegahlaup (Fjögurra skóga hlaupið og Tindahlaupið) sem mér fundust virkilega skemmtileg. Svo var ég mjög lítið að hlaupa fram að jólum en langaði að taka þetta af alvöru sumarið 2017.Hafði oft séð fjallað um Laugaveginn og langaði að fara hann en sá þetta sem fjarlægt takmark. Fyrir það fyrsta hafði ég aldrei hlaupið lengra en 21 km í keppnishlaupi. En ég ákvað að skrá mig og þá var ekki um annað að ræða en fara að undirbúa sig!

Undirbúningur
Hlaupaæfingar hófust í janúar/febrúar þegar ég fór aðeins að dútla mér, fyrst í tvær vikur í sólinni á Tenerife og síðan heima í kuldanum.

Æfingar hófust fyrir alvöru í byrjun mars með Laugavegshópi Sigga P og hlaup.is, þar sem þeir Siggi P og Torfi sáu um æfingaáætlanir og sameiginlegar æfingar. Þetta var algerlega frábær undirbúningur. Mér tókst að halda mér nánast meiðslalausum allan tímann, missti reyndar af viku æfingatíma í apríl vegna veikinda en þar fyrir utan náði ég sinna æfingum skv. plani ca. 97%.Fyrstu vikurnar var ég að hlaupa um 40 km á viku og toppaði í ca. 85 km á viku seinnipartinn í júní. Lengsta æfingin var þremur vikum fyrir Laugaveginn og hún var 31,5 km.Sameiginlegar utanvegaæfingar fóru að mestu fram í Heiðmörk og við Hvaleyrarvatn en einnig var hlaupið á nokkur fjöll. Mínar æfingar tók ég að mestu á stígum vestur í bæ eða þar í kring.Enginn er verri þó hann vökni.

Það var frábært að vera hluti af hópi sem var að æfa með þetta sameiginlega markmið í huga og að hafa sérsniðið æfingaplan frá Sigga P. Mikill stuðningur í hópnum og hann hélt manni vel við efnið.

Þegar ég fór af stað í þetta verkefni þá taldi ég mig geta farið Laugaveginn undir 6:30 með réttum undirbúningi og fjarlægur draumur var að fara undir 6 klst. Tímaplanið sem lagt var upp með fyrir hlaupið (í samráð við Sigga P) gerði svo ráð fyrir lokatíma upp á 6:15, sem ég taldi mig eiga að ráða við og eiga jafnvel að geta gert eitthvað betur. En auðvitað var takmark númer eitt einfaldlega að klára mitt fyrsta Ultra hlaup!

Síðasta vikan fyrir hlaup
Síðustu vikuna fyrir hlaup ætti maður að hvíla sig vel og safna kröftum, aðeins að hlaupa létt til að halda manni við. Laugardaginn fyrir hlaup var síðasta langa æfing, en hana tók ég kannski aðeins of rösklega og með of miklum brekkum. Fann fyrir meiri þreytu eftir það en ég hefði viljað. Svo mánudag-miðvikudag var ég ferðalagi vegna vinnu erlendis sem var ekki óskavikan fyrir slíkt. Auk þess var svo talsvert stress í vinnu síðustu daga fyrir hlaup. Allt raskaði þetta hvíld og svefni.

Ég náði hins vegar að borða nokkuð vel og 2-3 síðustu dagana borðaði ég mikið og reglulega. Náði að taka mér frí frá vinnu nánast allan föstudaginn og klára að pakka niður, fara á skráninguna í Laugardalshöll o.s.frv. Ég fór síðan úr bænum síðdegis á föstudag og gisti nálægt Geysi. Þar fékk ég að sofa til kl 05:00 á laugardagsmorgun, fékk mér ágætan og fjölbreyttan morgunmat og mér var síðan skutlað upp í Landmannalaugar.

Laugavegurinn
Dagana fyrir hlaup var búið að fylgjast vel með veðurspánni. Það var spáð talsverðri rigningu og einnig nokkrum vindi. Fyrst leit út fyrir hliðarvind en síðustu spár gerðu ráð fyrir mótvindi mestalla leiðina og það var hann sem mér leist einna verst á. Einnig átti hitastigið að vera alveg þokkalegt, en þó lægst í Hrafntinnuskeri, um 3-4°C. Þegar komið var í Landmannalaugar þá var veðrið mun betra en ég bjóst við, nánast logn og enga úrkomu að sjá. Hitastigið flott. Það féllu reyndar nokkrir dropar rétt fyrir ræsingu. Ég lagði af stað í Saucony Peregrine skóm og þunnum Hilly trail hlaupasokkum (til að losa vatn sem fyrst). Var með compression kálfahlífar og í Compressport stuttbuxum. Í stuttermabol og þunnum langermabol utan yfir. Í bakpokanum var ég með regnjakka, húfu, vettlinga og buff. Einnig vatn í blöðrunni og 5 GU gel. Meiri fatnaður, aukaskór og næring beið svo í drop-off pokanum handan Bláfjallakvíslar.

Þumall upp að hlaupi loknu.Landmannalaugar - HrafntinnuskerÉg var í gula ráshópnum sem var sá fyrsti af fjórum og byrjaði mjög aftarlega í honum. Það var frábær stund að komast loks af stað í þetta hlaup sem var svo lengi búið að stefna að! Þessi kafli er mjög fjölbreyttur og það er mikil hækkun á honum. Landslagið er stórkostlegt og gefst alveg þokkalegur tími til að njóta því að mikið er gengið upp brekkur. Mér leið mjög vel á þessum fyrsta kafla og fann ekki mikið fyrir hæðaraukningunni. Mikilvægt að vera ekki of mikið klæddur til að byrja með því klifrið hitar manni vel! Sá nokkuð af fólki sem var að fækka fötum á fyrstu km.Það tók á að hlaupa í snjónum en mér fannst hann samt ekkert sérlega erfiður þrátt fyrir litla reynslu af slíku. Það fór að rigna dálítið þegar hátt var komið og ég skellti mér þá í fína Adidas regnjakkann sem er með hettu og skellti ég henni á hausinn. Hann er líka með síðar ermar sem ég notaði til að skýla höndum. Þannig tókst mér að sleppa við að kólna. Ég hafði ekkert verið að pæla í tímanum þangað til stutt var eftir í Hrafntinnusker, sem er hæsti punktur á leiðinni og fyrsta drykkjarstöð. Þá sýndist mér ég vera nálægt því að lenda þar skv. plani og það stóðst upp á mínútu: 1 klst og 17 mínútur.Var meira og minna samferða þeim Árna og Arnóri úr undirbúningshópnum upp í Hrafntinnusker og eitthvað eftir það en þeir fóru síðan á undan mér.

Hrafntinnusker - Álftavatn
Ég var í góðum málum þarna, að hlaupa skv. áætlun og þetta var virkilega skemmtilegt. Tók fljótlega fram úr nokkrum en var samt bara að hlaupa á þægilegum hraða að mér fannst. Virkilega gaman að fá stuðning göngufólks sem var mikið af á þessum kafla. Veðrið var ágætt og ég fór úr regnjakkanum. Það var samt farið að bera aðeins á mótvindi. Það var stórkostlegt að sjá útsýnið yfir Álftavatn áður en farið er niður Jökultungur sem er snarbrött og löng brekka. Ég lét mig vaða þar niður og fór eiginlega eins hratt og ég gat. Náði Árna neðarlega í brekkunni sem hafði verið að spara sig mikið á niðurleiðinni, þveröfugt við mig. Held að ég hafi þrumað mér óþarflega hratt niður Jökultungurnar og tekið of mikið úr mér með því, sem þýddi þyngri lappir síðar í hlaupinu. Ég hékk svo í Árna alveg að drykkjarstöðinni við Álftavatn. Kom þangað á tímanum 2:29 sem var mínútu á undan áætlun. Þarna var ég bara nokkuð bjartsýnn á áframhaldið.

Álftavatn - Emstrur
Fljótlega eftir að ég lagði af stað frá Álftavatni fann ég fyrir stífleika og þreytu í fótum. Mér fundust því næstu 5 km (að Bláfjallakvísl) vera ansi erfiðir og ekki bætti úr skák að nokkuð var farið að bera á mótvindi. Andlega var þetta líka orðið þungt, mér fannst ég orðinn alltof þreyttur eftir rúma 20 km en ætti samt 30 erfiða km eftir!! Eftir að hafa vaðið Bláfjallakvísl þá greip ég bara nokkur gel úr töskunni minni sem beið þar og hélt svo áfram.

Næstu  u.þ.b.10 km  voru það svo sandarnir sem tóku svo sannarlega á. Hérna var kominn alvöru mótvindur og undirlagið var líka erfitt, sandur og talsvert grýtt á köflum. Þetta var virkilega erfitt yfirferðar og það dró mjög af mér. Ég gekk einhvern hluta af þessari leið - á jafnsléttu. Planið var að ganga upp flestallar brekkur á Laugaveginum, sem ég og gerði (nema þær sem ekki voru brattar) en ég hefði aldrei trúað því að ég þyrfti að ganga á jafnsléttu. Bæði var þetta af líkamlegum og andlegum ástæðum held ég - það vantaði kannski aðeins upp á hörkuna hjá mér! Ég íhugaði það alveg á þessum kafla að þetta væri ekki þess virði og sú hugsun skaut upp í kollinum að þetta væri nú alger endavitleysa að vera að skrá sig í Laugaveginn og æfa í marga mánuði til þess eins að þjást.

En ég þrælaðist áfram og það var mikill léttir að koma loks í Emstrur. Fékk þar góða aðstoð við að bæta á vatnsbirgðir og fékk mér ágætlega að borða af því sem var í boði. Í Emstrur kom ég á tímanum 4:23 sem var 8 mínútum á eftir áætlun, þannig að ég tapaði ca 9 mín á þessum kafla miðað við plan. Hljóp hann á 114 mín í stað 105.

Emstrur - Húsadalur
Eftir ágætt stopp þá var fínt að komast af stað og vita að það væru bara ca 17 km eftir. Þetta var samt mikið puð.

Eins og á síðasta legg þá hljóp ég þennan að mjög miklu leyti einn - það var oft erfitt að greina nokkurn fyrir framan mig og langt í næstu hlaupara fyrir aftan. Þetta kom sér að vissu leyti vel því að ég þurfti nokkuð oft að létta á mér, ég held að það hafi ég gert 5-6 sinnum!

Fljótlega á þessum kafla þá fannst mér ég farinn að verða stirður í fingrum og höndum. Skildi það ekki alveg, hélt fyrst að mér væri svona kalt. En fattaði svo að ég var orðinn svona svakalega þrútinn þannig að fingur og úlnliðir í það minnsta tútnuðu út. Ég virðist hafa drukkið of mikið á leiðinni. Eftir hlaupið var ég svo fræddur um það að kolvetni bindur sig við vatn í líkamanum og vatnið losnar þegar maður brennir kolvetnunum. Þannig að eftir kolvetnahleðslu og mikla brennslu þá verður mikil losun á vatni líka. Því ekki eins mikil þörf á að drekka?

Þessi síðasti kafli var ansi þungur en sem betur fer þá lenti ég ekki í neinum teljandi meiðslum eða krömpum þannig að þetta var bara spurning um að þræla sér áfram. Það var samt ekki sérlega mikið eftir á tankinum og ennþá var mótvindurinn ansi leiðinlegur. Leiðin er nokkuð fjölbreytt þarna og það létti mér lundina. Það sem mér fannst einna erfiðast voru þessir síðustu 3 km eftir Þröngána því að ég átti alls ekki von á brekkunum þar, hélt að það væru bara sæmilega auðveldir skógarstígar á þeim kafla.

Kominn í mark nokkurn veginn á áætlun.Það var alveg frábært þegar mjög stutt var eftir að heyra í kynninum í endamarkinu og ég náði ágætum endaspretti á síðasta kílómetranum. Það var enginn sem kom í mark ca 2 mín á undan mér þannig að ég fékk alla athyglina og reyndi að mjólka hana eins og ég gat! Geggjað að hafa líka fjölskyldumeðlimi við markið sem hvöttu mig síðustu metrana.Kom í mark á 6:24 - tapaði 1 mín á síðasta kaflanum miðað við plan. Alls 9 mín „á eftir áætlun" en eftir á að hyggja var það bara vel sloppið og ég er mjög sáttur miðað við aðstæður. Akkúrat núna þá er stefnan sett á að hlaupa undir 6:00 næst þegar Laugavegurinn verður farinn.

Á leiðinni slapp ég frekar vel við úrkomu. Heyrði af fólki á undan mér og eftir sem lenti í haglskúrum (helst á söndunum held ég) en ég slapp alveg við slíkt. Það var talsvert meira um ár og vöð á leiðinni en ég hafði gert ráð fyrir. Einhverjir sem ég talaði við sögðu að þau hefðu verið fleiri en áður, greinilega vatnavextir í einhverjum sprænum. Ég var ekki með skóhlífar (fann bara ekki týpu sem hentaði mér) og fékk því nokkuð af sandi og möl í skóna. Það truflaði mig ekki teljandi mikið en ég held að ég myndi fá mér hlífar fyrir næsta hlaup.

Eftir hlaup var ég alveg tómur andlega og gat ekki hugsað um annað en að nærast, fara í sturtu og skipta um föt! Það var til að mynda ansi gott að fá sér heitan kaffibolla í sjúkra/veitingatjaldinu. Leitaði mér líka ráða hjá hjúkrunarfræðingum sem þar voru hvernig ég ætti að losna við vökvann úr höndunum. Það voru síðan ekki liðnar margar klukkustundir þangað til erfiðustu stundir hlaupsins voru komnar aftarlega í minningabankann og þær betri voru fremst.

Það eru sannarlega forréttindi að hafa heilsu til að geta tekið þátt í svona hlaupi og klárað það, hvað sem öllu öðru líður. Stórkostleg leið og frábært hlaup. Maður gaf sér kannski ekki alveg nógu mikinn tíma til að njóta náttúrunnar en á köflum var útsýnið stórbrotið. Það er líka sérlega skemmtilegt hve fjölbreyttur hópur fólks er að hlaupa. Að síðustu þá var stuðningur allra á leiðinni frábær, bæði starfsmanna á drykkjarstöðvum og annars staðar, en ekki síður alls þess göngufólks sem var á leiðinni. Takk fyrir mig, ég hlakka til að fara aftur