Laugavegspistill eftir Önnu Þuríði Pálsdóttur

birt 01. ágúst 2017

Laugardaginn 15. júlí 2017 hljóp ég Laugaveginn. Ég kláraði hlaupið á 7:00:35 - 7 klst og 35 sekúndum sem skilaði mér 150. sæti af 430 hlaupurum. 26. kona af 139. Einnig skilaði það mér 3ja sæti í aldursflokki, í besta aldursflokknum 18-29 ára, eða ,,átt þú ekki að vera að djamma?" hópnum. Fékk fyrir það afrek að verðlaunum kertastjaka. Hér ætla ég að stikla á stóru hvernig hlaupið gekk. Ég ætla að skipta hlaupinu í fimm hluta.


Mæðgurnar rétt fyrir start. Tilhlökkun í hámarki.

Landmannalaugar - Hrafntinnusker
Ég var í rauða ráshópnum sem er annar hópur af stað af fjórum. Planið var að taka því rólega upp í Hrafntinnusker en reyndir Laugavegsfarar höfðu varað mig við því að eyða ekki of mikilli orku í þennan fyrsta hluta þar sem algengt er að fara of hratt af stað. Það er nokkuð mikið klifur upp í Hrafntinnusker og hingað til hafa brekkur verið minn mesti veikleiki, ég er mun sterkari í úthaldi en að komast hratt upp brekkur.

Til að vera alveg hreinskilin þá hata ég brekkur. Það var nokkuð mikill snjór á köflum en ég hljóp í Salomon Speedcross skónum og fannst þeir gefa gott grip í snjónum.

Þegar komið var nokkuð áleiðis upp í Hrafntinnusker var ég bara í góðu skapi en þá nýttu veðurguðirnir sína krafta og það byrjaði að rigna ansi hressilega. Mótvindur var alla leiðina sem gerði það að verkum að rigningin var beint í fangið.

Ég var vopnuð 66N hlaupajakka sem hélt í mér líftórunni á þessum tímapunkti þar sem það nægði veðurguðunum ekki aðeins að láta hann rigna heldur var einnig haglél með í úrkomunni. Líklega var hitastigið um 3-4 gráður enda í um 1000 metra hæð. Þarna reyndi meira á andlegan styrk en líkamlegan. Höskuldsskáli, fyrsta drykkjarstöð, við Hrafntinnusker, blasti við eftir 1klst 30 mín og þar drakk ég glas af Powerade og tók 1 gel.

Hrafntinnusker - Álftavatn
Ég var í góðu standi eftir að hafa tekið því svona rólega upp eftir og lagði af stað frá Hrafntinnuskeri á góðum hraða en samt með það í huga að ofgera mér ekki þar sem mikið var eftir af hlaupinu. Einbeitingin var sett á að halda nokkuð þægilegum hraða og tók ég fram úr nokkrum fjölda hlaupara á þessum kafla.

Eftir nokkuð klifur fram hjá Háskerðingi kemur maður að þeim kafla sem mér fannst einna skemmtilegastur í hlaupinu. Á þessum kafla kom eini glugginn sem veðurguðirnir buðu upp á þann daginn en það hafði stytt upp og sólin glennti sig aðeins fram úr skýjunum.

Hraðinn var ágætur og mér leið virkilega vel fram að Jökultungunum, en þær bjóða uppá mestu lækkunina í hlaupinu. Þegar maður hleypur að Jökultungum blasir við manni fallegasta útsýni sem þessi veröld býður upp á.

Erlendur hlaupari (útlenskur þ.e.a.s. ekki Erlendur sem er hlaupari) stoppaði til að taka myndir á símann sinn en slíkar myndir eru ekki mikils verðar þar sem útsýnið verður ekki fangað á filmu, svona náttúru verður maður að upplifa.

Þarna er, líkt og Halldór skrifaði um jökulinn í Heimsljósi, landið ekki jarðneskt. Nú var bara að halda sínu striki að Álftavatni þar sem ég stoppaði stutt og nærði mig aðeins með því að troða í mig kanelsnúði og kóki.


Anna bar sig greinilega vel þegar komið var í Emstrur.

Álftavatn - Bláfjallakvísl
Þegar ég hljóp frá Álftavatni var veðurglugginn ennþá opinn og ég var bjartsýn um framhald hlaupsins þar sem mér fannst ég eiga mikið inni og sá fram á að geta aukið nokkuð hraðann. Á þeim tímapunkti vissi ég ekki að veðurguðirnir höfðu fyrir mig önnur plön.


Laugavegshlauparar að leggja í hann.

Ég spjallaði við konu sem sagðist vera frá Vestur-Kanada svo ég bjóst við að hún væri frá BC en svo var hún frá Calgary. Calgary liggur rétt við Klettafjöllin og Banff National Park þar sem ríkir mikil náttúrufegurð og miklar fallegar göngu- og hlaupaleiðir.

Það lá vel á henni og henni þótti náttúrufegurðin á Laugaveginum stórkostleg. En þarna vorum við að hlaupa fram hjá Stóru-Súlu sem er stórfenglegt fjall og af allt öðrum toga en Klettafjöllin. Ég jók svo hraðann, tók fram úr henni og hélt áfram mínu striki.

Þegar ég hafði vaðið Bláfjallakvísl tóku á móti mér Magga og Siggi en því hafði ég ekki búist við. Ég fann mína tösku strax enda hafði ég keypt skærgula Minions tösku í Rúmfó fyrir þetta. Ég ætlaði mér bara að setja nokkur gel í pokann, skipa úr blautri peysunni eftir rigninguna eða réttara sagt úrhellið, og koma mér svo af stað. Einhvern veginn tæmdist hugur minn algjörlega þar sem ég stóð þarna við Bláfjallakvíslina og ég endaði á því að fara úr skónum, legghlífunum og skipta um skó og hlaupa svo bara af stað. Kvaddi Möggu og Sigga og nú ætlaði ég sko að fara að hlaupa.

Bláfjallakvísl - Emstrur
Minn helsti styrkleiki í hlaupum er ekki að hlaupa upp og niður brekkur og vaða ár eins og ég hafði verið að gera fram að þessum tímapunkti í hlaupinu. Ég er mun sterkari þegar kemur að því að einfaldlega halda út og ætlaði ég að nýta mér það á söndunum. Ég lagði af stað á 5:30 pace og hafði sjaldan liðið betur.

Það var nóg eftir af orkunni og ég hlakkaði til að komast í Emstrur. En þá spiluðu veðurguðirnir út sínu spili með sterkum mótvindi og skúrum. Allt í einu var ég farin að berjast við að halda 6:40 pace. Gamanið fór að kárna og mér var ekki skemmt. Sú hugmynd skaust upp í kollinum á mér hvort ég gæti hringt á þyrlu til að koma að sækja mig. Það eina sem ég gat gert var að einbeita mér að því að halda áfram að hlaupa. Í brekkunum ætlaði ég að reyna að hvíla mig með því að ganga aðeins rösklega en það var einfaldlega miklu verra en að hlaupa. Það gerði ferð mína að Emstrum svo langa að labba og vindurinn var alveg jafn sterkur hvort sem ég labbaði eða hljóp. Ég fékk sand í augun, munninn og nefið.

Á þessum tímapunkti voru Emstrur það eina sem ég gat mögulega hugsað um, aðstæður voru svo erfiðar. Ekki var í boði að hugsa til þess að þegar ég kæmi loksins í Emstrur væru enn 17 km eftir. Þangað bauð ég huganum ekki og hélt mér á þeim kílómetra sem ég var stödd hverju sinni. Svo lengi sem ég er að gera mitt besta í þessu augnabliki, þá er það allt sem ég get gert.


Laugavegur verður ekki lagður nema brosið sé í farteskinu.

Aldrei hef ég verið jafn fegin að sjá nokkurn stað eins og Emstrur. 38 kílómetrar. Ég var farin að verða þreytt eftir baráttuna við veðrið og vegalengdina. Agga tók á móti okkur við Emstrur og fagnaði ég með því að hrópa upp og lyfta upp höndum og allir starfsmenn sem einn, fögnuðu með mér.

Móttökurnar voru höfðinglegar. Í lok júní hljóp ég Bláskógaskokkið og spjallaði aðeins við nokkra hlaupara úr Frískum Flóamönnum en þeir mönnuðu drykkjarstöðina í Emstrum. Þrátt fyrir lítil kynni var mér fagnað sem aldagömlum vini. Mér var boðið hlaðborð af kræsingum og starfsmenn fylltu softflöskuna mína af Poweradei. Upp upp mín sál og allt mitt geð bað Hallgrímur Pétursson til Guðs í passíusálmum en ég bið ekki til Guðs, ég bið bara til starfsmanna á drykkjarstöð í Emstrum sem lyftu upp sál minni og geði í hæstu hæðir.

Áður en ég kom að Emstrum hafði ég ekki getað hugsað um að hlaupa 17 km í viðbót en þrátt eftir stutt stopp og nokkra Snickers bita var ég tilbúin sem aldrei áður að leggja af stað í síðasta hluta hlaupsins.

Emstrur - Húsadalur
Á þessum tímapunkti í hlaupinu hljóp ég nokkuð lengi ein. Rakel var aldrei langt frá mér þó, og var gott að vita af henni og Jóney, en við vorum allt hlaupið mjög nálægt hvorri annarri og hittumst oft við drykkjarstöðvarnar. Fátt var um manninn þarna en ég þekkti leiðina eftir að hafa farið 2015 og vissi hvað beið mín. Nú gat ekkert stöðvað mig. Ég ætlaði mér að klára þetta með hausinn uppréttan og bros á vör.


Mæðgurnar að hlaupi loknu.

Líðanin var góð nokkuð lengi en eftir um 42-43 km var þreytan farin að segja aðeins til sín. Á þessum tímapunkti í hlaupinu beygir maður til vesturs og hleypur með bakið í Entujökul. Útsýnið yfir jökulinn á þessum stað er stórfenglegt. Mér var orðið nokkuð óglatt og átti erfitt með að koma í mig næringu. Brátt fór ég að sjá í Þórsmörk og vissi að einungis um 10 km væru eftir. Mig óraði fyrir því að þetta yrðu erfiðustu 10 km lífs míns en á þessum tímapunkti var ég tilbúin til að þola hvaða sársauka sem er til þess að komast í mark.

Ég kveikti á heyrnartólunum mínum og setti af stað playlistann "Laugavegur". Það voru fáir hlauparar í kringum mig á þessum tímapunkti og ég seti einbeitinguna í botn. Allt í einu datt mér í hug að ég ætti möguleika á að komast í mark á undir 7 klst og gaf inn allt það bensín sem eftir var á tanknum.

Ég var svo einbeitt á því að klára hlaupið að ég varla náði að virða fyrir mér Einhyrnig, sem er eitt magnaðasta fjall sem ber fyrir sjónir á Laugaveginum. Ég gaf mér engan tíma til þess að stoppa við drykkjarstöð við Ljósá, þrátt fyrir að vera orðin mjög orkulítil þar sem að nákvæmlega ekkert komst að í huganum nema það að klára hlaupið. Aðeins nokkrir km voru eftir, en þar sem Kápan var eftir var ég óviss um það hvort ég næði undir 7 tímana þar sem ég vissi ekki hversu hratt ég kæmist yfir hana. Þegar ég kom yfir Þröngána fór ég að gefa aðeins í með endamarkið og 7 klukkutímana í huga. Guð hjálpi mér hvað síðustu kílómetrarnir voru langir.

Á þessum síðasta kafla hlaupsins er eini gróðurinn á allri leiðinni. Maður hleypur á stíg þar sem tré eru allt í kring sem gera það ómögulegt að átta sig á því hvar nákvæmlega maður er staddur. Á þessum tímapunkti er mikið af göngufólki sem hvetur mann áfram og lætur mann vita að það sé sko rosalega lítið eftir. Þessi hvatning býr til falskar vonir því eftir hverja einustu beygju þar sem maður býst við því að fara að sjá endamarkið tók ekkert við nema FLEIRI METRAR til að hlaupa. Aldrei ætlaði þetta bölvaða endamark að birtast. Ég gat svo svarið það að ég var búin að hlaupa yfir hálft landið, klifið 1000 fjöll, barist við náttúruöflin og þetta ætlaði bara ENGAN endi að taka. HVAR var þetta endamark eiginlega?! Þetta var verra en þegar maður þurfti að bíða eftir prófniðurstöðum í háskólanum og kennararnir sögðust vera of veikir til að skila en var samt í hverjum fréttatíma í viðtölum um gengi krónunnar.

Í minningum sínum skrifar fótboltastjarnan Abby Wambach ,,Ég hef skorað fleiri mörk á atvinnumannaferli mínum en nokkur annar fótboltaleikmaður í sögu íþróttarinnar, 184 til að vera nákvæm, en ég hef aldrei nokkurn tíman séð boltann hitta netið."

Þannig eru marklínur. Sjónin bara hverfur í einhverju adrenalínflæði. Ég man ekkert eftir því að hlaupa í mark. Ég man bara eftir að sjá að ég hafði rétt misst af 7 klst múrnum og að bresk stelpa tók fram úr mér alveg í lokin. Mér var alveg sama. Næsta sem ég man var þegar ég stóð ráðvillt hinum megin við endamarkið og starfsmaður hlaupsins spurði mig hvort það væri ekki allt í lagi og ég svaraði örugglega ,,jú, ég hef aldrei verið betri". Ég sagði það við alla sem spurðu mig hvernig ég væri í hlaupinu. Bara aldrei verið betri. Í matar- og sjúkratjaldinu drakk ég heilt gas af kóki og tróð í mig svona tíu Snickersbitum. Ef einhver átti skilið allt Snickers í heiminum þá var það ég. Allt þetta Snickers var mitt. Þessi tilvera var mín. Ég var jú, ofurmaraþonhlaupari.

Aldrei hef ég gert nokkuð jafn erfitt og að klára þetta hlaup. Laugavegshlaupið mun ég ekki endurtaka í bráð. Það er þó svo hár afskriftastuðullinn á sársauka hjá íþróttafólki að hver veit nema ég verði búin að skrá mig aftur eftir nokkur ár. ,,Make friends with pain and you will never feel alone again". Í íþróttum er erfiðið og sársaukinn og fórnirnar hlutur af heildinni. Við vitum að við þurfum að sigla í gegnum sársaukann til þess að komast að marklínunni því við trúum alltaf að þar bíði okkar paradís. En þegar þangað er komið verða árar ekki lagðar í bát, langt í frá, siglingin heldur áfram. Við leitum endalaust að nýjum áskorunum. Alltaf í eilífri leit við að sigra okkur sjálf því það er jú stærsti sigurinn af þeimm öllum. Ef mér hefði varið sagt fyrir ári síðan að ég myndi hlaupa Laugaveginn hefði ég líklega svarað ,,enginn möguleiki". En hér stend ég, hinum megin við marklínuna og hrósa sigri yfir sjálfri mér.

Eftir hlaup ráfaði ég ráðvillt um og verkjaði um það bil alls staðar. Mér var kalt og mér var ekki skemmt. Þá brá ég á það ráð að fá mér bjór sem lyfti skapinu aðeins upp og svo heyrði ég nafnið mitt kallað í verðlaunaafhendingu sem var bara gaman enda elska ég athygli og myndatökur sem fóðra egóið mitt. Það kom svo í ljós að rútan okkar var biluð. Það er ekki góðs viti þegar rútur bila í Þórsmörk. Það reddaðist þó eins og flest annað.

Ég varð þó mjög stressuð þegar ég heyrði af því að rútan væri biluð, enda átti ég flöskuborð á Austur kl 00:30 og vildi síður missa af því. Þetta reddaðist samt allt á endanum. Hópurinn sló upp í grill þar sem ég tróð í mig svona 4000 kcal af góðgæti og svolgraði niður svona 4 bjórum líkama mínum til mikillar skemmtunar.

Ég vil þakka hlaupafélögum í Mosóskokki fyrir að koma þessari flugu í hausinn á mér að ég gæti hlaupið Laugaveginn. Þakka vil ég þeim fyrir samverustundir í gegnum mikill fjölda af kílómetrum og fjöllum.

Einnig þarf ég að koma þökkum til Möggu og Sigga fyrir móttökur í Bjáfjallakvísl og til Öggu fyrir móttökur í Emstrum. Anna Sigga og Addi eiga svo heiður skilinn fyrir móttökurnar í Þórsmörk þar sem bjórinn var kaldur og nóg til af mat. Ívar fær þakkir fyrir að redda okkur regnponsjóum frá Rúmfó sem komu sér ansi vel í úrhellinu í Þórsmörk eftir hlaup.

Mestar þakki fær þó mamma mín fyrir að skrá mig í hlaupið án míns samþykkis og vera til staðar þegar æfingarnar voru erfiðar og lýjandi. Betri mömmur eru vandfundnar. Gísli fær þolinmæðisverðlaun fyrir að nenna mér þegar ég vildi alltaf fara að sofa kl 10 á kvöldin og gat aldrei gert neitt á Laugardögum því ég vildi bara leggja mig eftir langt hlaup. Hvað næst? Nú er tilvalið að fá sé aðeins bjór. Svo er komið að því að pakka öllum mínum eigum ofan í töskur og halda í næsta ævintýri.