Laugavegspistill eftir Stefán Gíslason

birt 11. ágúst 2017

Síðastliðinn laugardag hljóp ég Laugaveginn í fjórða sinn. Þó að leiðin sé alltaf sú sama eru engar tvær ferðir eins og upplifunin ný í hvert skipti. Þessi Laugavegur var t.d. ríkari af mótlæti en tveir þeir næstu á undan. Annars vegar höfðum við vindinn í fangið næstum alla leið og hins vegar lenti ég í óhappi undir lokin sem setti strik í reikninginn. En ég er sáttur við árangurinn eins og hann mældist í mínútum. Og öll ný reynsla bætir einhverju við lífið.

Rásnúmerið mitt, vælubílsnúmerið 113. Slæmur fyrirboði?UndirbúningurinnÆfingarnar fyrir Laugaveginn gengu ekki alveg eins vel og ég hafði ætlað mér. Mörgu ferðirnar sem ég ætlaði upp á Hafnarfjallið urðu að fáum ferðum og minni háttar meiðsli og veikindi gerðu það að verkum að æfingatímabilið varð heldur skörðótt. Þetta rakti ég allt saman í þar til gerðum bloggpistli á dögunum. Þrátt fyrir þetta hafði ég trú á að ég gæti jafnvel bætt mig í þessu Laugavegshlaupi ef aðstæður yrðu hagstæðar. Ég hafði tekið tiltölulega margar langar hlaupaæfingar og hraðinn, sem ég vissi að ég átti ekki til, var ekki líklegur til að skipta sköpum í svona löngu utanvegahlaupi.

Ég taldi sem sagt að í mér byggi býsna þrautseigur langhlaupari, þó að spretthlauparinn væri í fríi. Það var helst að brekkurnar gætu orðið erfiðar, sérstaklega upp í móti, því að brekkuhlauparinn var ekki upp á sitt besta.

Að morgni hlaupadags
Ég var ekki aldeilis einn á ferð frá Borgarnesi þennan laugardagsmorgun. Auk mín ætluðu þrír félagar mínir úr Hlaupahópnum Flandra að hlaupa Laugaveginn og þar við bættist Strandamaðurinn Birkir Stefánsson í Tröllatungu sem oft áður hefur veitt mér góðan félagsskap á hlaupum. Og af því þetta var nú orðinn svona álitlegur hópur var ákveðið að sleppa rútuferðinni þetta árið og reyna þess í stað að finna fararskjóta sem gæti flutt allt liðið í Landmannalaugar og heim aftur frá Þórsmörk, þ.m.t. yfir Krossá. Haukur Þórðarson, hlaupafélagi okkar, hafði fyrir löngu boðið sig fram sem bílstjóri og Björgunarsveitin Heiðar í Borgarfirði var svo vinsamleg að leigja okkur öflugan bíl til fararinnar. Þar með var allt til reiðu og við lögðum af stað úr Borgarnesi stundvíslega kl. 4 að morgni.

Ferðin upp í Landmannalaugar gekk eins og í sögu. Vorum komin þangað um kl. 7:30, vel á undan rútunum sem fluttu flesta hlauparana á staðinn.Þessu fylgdu tiltekin forréttindi, svo sem greiður aðgangur að annars takmörkuðum fjölda salerna. Veðurspá dagsins gerði ráð fyrir suðvestan kalda, skúrum og fremur svölu veðri, en veðrið í Landmannalaugum var stórfínt, hægur vindur, þurrt og svalt.Fyrsti hópurinn í Laugavegshlaupinu var ræstur upp úr kl. 9 og tíminn þangað til var að vanda notaður í vangaveltur um hvernig best væri að klæða sig, hvaða búnað og nesti ætti að taka með sér og hvað væri betur geymt í bílnum þannig að grípa mætti til þess í Þórsmörk að hlaupi loknu.Borgarnes kl 04.00 á laugardagsmorgni.

Þarna er vandrataður meðalvegurinn á milli þess annars vegar að vera of lítið klæddur og verða gegnkaldur þegar hitastigið lækkar á fjöllum og hins vegar að burðast með óþarfa sem þyngir mann í hverju skrefi. Reynslan kemur að góðum notum í þessu, en samt verður hver og einn að finna þá lendingu sem hentar honum best.

Áætlun dagsins
Áætlun mín fyrir hlaupið var einföld: Ég ætlaði að reyna að ná sömu millitímum á helstu viðkomustöðvum og ég gerði í hlaupinu 2015 þegar ég náði mínum besta tíma til þessa, 5:41:10 klst. Ef það gengi ekki upp var ég tilbúinn að gefa mér 5% afslátt, sem myndi þýða lokatíma upp á 5:58:14 klst. Ég hefði útbúið lítið spjald með helstu vegalengdum og tímasetningum, sem ég skellti í vasann til að geta rifjað upp áformin. Reyndar notaði ég þetta spjald lítið. Á frekar auðvelt með að muna tölur.

Við „Flandratröllin" höfðum gert ráð fyrir að fylgjast að mestu að til að byrja með, en svo yrði framhaldið auðvitað að ráðast af líðan hvers og eins. „Flandratröll" var nafnið á fjögurra manna sveit sem var skipuð okkur Gunnari Viðari, Kristni (Kiddó) og Birki. Þrír okkar eru félagar í Hlaupahópnum Flandra og Birkir hefur fylgt okkur í ýmsum hlaupum síðustu árin. Nafnið á sveitinni er augljóslega tengt nafni hlaupahópsins og búgarði Birkis, en í því felst jafnframt tilvísun í vaxtarlag okkar félaganna, sem mörgum þykir með knappara móti.

Í samantektinni hér á eftir nota ég vegalengdirnar sem úrið mitt sýndi á laugardaginn. Þær eru örlítið frábrugðnar sams konar tölum úr sams konar bloggi frá 2015, enda má alltaf búast við einhverjum mun á svona mælingum frá ári til árs.

1. áfangi: Landmannalaugar - Hrafntinnusker: 9,99 km
Félagar mínir þrír eru allir talsvert sterkari í brekkum en ég, sérstaklega á uppleiðinni. Ég hafði því hvatt þá til að nýta þennan styrkleika af festu og ábyrgð á leiðinni upp í Hrafntinnusker, þó að það myndi þýða að leiðir skildu. Ég myndi svo hugsanlega saxa á forskotið á flatari köflum þegar líða tæki á hlaupið og reynslan og þolið færu að segja til sín. Birkir og Kiddó virtust hafa ákveðið að fara að mínum ráðum. Alla vega náðu þeir fljótlega góðu forskoti þrátt fyrir að ég hefði reynt að fara sem hraðast á fáeinum stuttum og flötum köflum í upphafi hlaupsins. Gunnar var hins vegar lengst af í humátt á eftir mér og þegar ég var kominn lengra upp í brekkurnar fór hann að dragast aftur úr. Þá vissi ég strax að ekki var allt með felldu. Hins vegar var vinur okkar, Gunnar Ólason, allan tímann í námunda við mig. Hann sagðist staðráðinn í að fara ekki fram úr mér snemma í hlaupinu, því að það hefði aldrei reynst honum vel. Þar var hann að vísa í einhver löng hlaup sem við höfum verið samferða í síðustu tvö árin.

Veðrið á þessum fyrsta kafla var ekkert til að kvarta yfir og náttúrufegurðin jafn óviðjafnanleg og alltaf. Ég fylgdist lítið með klukkunni, enda lítið um viðmiðanir á þessari leið. Mér leið frekar vel þó að mér fyndist ég ekki sérlega ferskur, en svoleiðis tilfinningar í upphafi langra hlaupa hafa lítið forspárgildi.

Ofan við Stórahver sat enn talsverður snjór í giljum, þó ekki nærri eins mikill og 2015 ef ég man rétt. Ég reyndi að halda mig utan við troðnustu brautina í sköflunum, því að þar finnst mér undirlagið oft fastara fyrir. Reyndar miðaði mér ágætlega upp skaflana og var farinn að draga verulega á Kiddó og Birki. Ofarlega í brekkunum fór að rigna og svo breyttist rigningin í slyddu. Þá var gott að grípa til lambhúshettunnar sem ég hafði geymt í vasa mínum til öryggis. Annars er ég lítið gefinn fyrir höfuðföt.

Og allt í einu birtist skálinn í Hrafntinnuskeri, miklu fyrr en mig hafði minnt. Við þremenningarnir skokkuðum þar í hlaðið næstum samtímis, ég var óþreyttur og mér leið vel þrátt fyrir að vera orðinn vel blautur. Tölurnar á klukkunni komu verulega á óvart. Þar stóð 1:10:43 klst, sem þýddi að ferðin uppeftir hafði tekið 3:47 mín styttri tíma en ég hafði best gert áður. Nú var gaman!

2. áfangi: Hrafntinnusker - Álftavatn: 10,99 km
Ég hef vanið mig á að eiga litla viðdvöl á drykkjarstöðvum. Hélt uppteknum hætti að þessu sinni og staldraði ekkert við í Hrafntinnuskeri, þáði bara fyllingu á vatnsbrúsann minn og hélt svo ferðinni áfram, glaður í bragði, á móti sunnanáttinni sem var aðeins farin að sækja í sig veðrið. Slyddan var hætt en gekk á með skúrum. Líðanin var góð en einhvern veginn fannst mér ég þó vera farinn að lýjast, fyrr en ég hefði viljað. Að vanda fylltist hugurinn af gleði þegar útsýni opnaðist suður af fjöllunum og yfir Álftavatn og ég sá ekki betur en þar skini sól inn á milli skúraklakkanna. Framundan var leiðin niður Jökultungur, sem sögð var óvenju viðsjárverð að þessu sinni. Sögur höfðu jafnvel borist af klaka og hálku.

Leiðin niður Jökultungur reyndist allsendis klakalaus, en álíka brött og laus í sér og vant er. Niðurhlaup hafa löngum verið mín sterkasta grein en þarna fannst mér mig vanta styrk í fæturna til að geta „látið vaða" eins og mig langaði til. En þetta gekk nú samt ágætlega og við talningarstöðina við Álftavatn sýndi klukkan 2:19:08 klst, sem var 3:22 mín betra en 2015. Ég var sem sagt búinn að glutra niður 25 sek af forskotinu sem ég vann mér inn á leiðinni upp í Hrafntinnusker, en þetta leit samt ágætlega út. Kannski myndi ég ná að bæta „PB-ið" mitt þegar allt kæmi til alls. En, samt, eitthvað var farið að hægjast á mér og greinilegt að suðvestanáttin var ekkert hætt að blása í fangið á okkur. Kiddó og Birkir voru þarna rétt hjá mér og Gunnar Ólason sömuleiðis. Kiddó hafði átt í einhverjum vanda með innlegg í skónum sínum, en að öðru leyti virtust þeir félagar þokkalega ferskir.

3. áfangi (a): Álftavatn - Bláfjallakvísl: 5,20 km
Ég hef tekið upp þann sið að skipta Laugaveginum í sex áfanga en ekki bara fjóra eins og flestir gera. Þannig fæ ég oftar vísbendingu um gang mála og um leið finnst mér leiðin styttast. Í sv0na löngum hlaupum finnst mér best að beina huganum að einum áfanga í einu, því að mér finnst léttara að hugsa um 5 kílómetrana sem eru eftir að næsta viðkomustað en 32 kílómetrana sem eru eftir í mark.

Á þessum kafla var ég farinn að finna meira fyrir mótvindinum. Kannski var hann að aukast, eða kannski var ég bara orðinn þreyttur. Annað slagið gerði skúri en þær öngruðu mig ekki neitt. Þetta var ekki svo mikið að maður blotnaði að gagni, hitastigið var bærilegt og lambhúshettan komin á sinn stað í vasanum. Ég hafði meiri áhyggjur af því að hlaupafélagarnir voru farnir að dragast aftur úr. Gunnar Ólason var þó alltaf í sjónmáli.

Millitíminn við Bláfjallakvísl olli vonbrigðum en kom ekki beinlínis á óvart, 2:52:22 klst. Nú voru bara 2:08 mín eftir af forskotinu á tímann minn frá 2015 og ég vissi að næsti áfangi gæti reynst mér drjúgur í mótvindinum. En ég hafði enga ástæðu til að kvarta, fann hvergi til, bara svolítið lúinn.

3. áfangi (b): Bláfjallakvísl - Emstrur: 10,74 km
Vatnið í Bláfjallakvísl náði mér rúmlega í hné þar sem dýpst var og mér fannst það kalt. En ég hélt ferðinni strax áfram og hlýnaði fljótt aftur. Það var bara verst þetta með vindinn. Framundan voru sandarnir, hátt í 11 km leið sem mér hafði tekist að hlaupa á sléttum klukkutíma, bæði 2013 og 2015. Nú hafði ég á tilfinningunni að þetta gæti orðið seinlegra.

Á þessum kafla var ég lengst af einn á ferð. Sá þó Gunnar Ólason alltaf tilsýndar þegar ég leit um öxl og eins sá ég nokkra hlaupara drjúgan spöl á undan mér, þ.á.m. sænska konu sem hafði farið fram úr mér á leiðinni frá Álftavatni að Bláfjallakvísl. Hún varð einmitt þriðja kona í mark á tæpum 5:38 klst, sem er einmitt tími sem ég gæti vel hugsað mér að ná. Mér finnst reyndar ekkert endilega verra að vera einn á ferð á svona köflum, það er bara öðruvísi. Þegar fleiri eru saman er hægt að gleyma tímanum við spjall um eitthvað annað en hvað manni líði illa og hversu langt sé eftir, auk þess sem hægt er að skiptast á um að kljúfa vindinn. Sjálfur hef ég reyndar aldrei velt þessu vindsamstarfi neitt fyrir mér. Í einverunni reyni ég hins vegar að gleyma tímanum með því að slökkva sem mest á skynjuninni og hugsa ekki um neitt nema e.t.v. taktinn í einhverju lagi sem hljómar í huganum. Þar á ég innbyggðan lagalista sem gott er að grípa til og oft á tiltekið lag einhverja tengingu við tiltekna minningu, t.d. minningu úr hlaupi þar sem allt lék í lyndi. Takturinn getur sameinast fótataki manns sjálfs eða einhverju öðru hljóði, t.d. reglubundnu hringli í salttöflum sem ég tek stundum með mér í litlu boxi í löng hlaup, af því að ég held að svoleiðis töflur minnki líkurnar á krömpum.

Í öllum löngum hlaupum er ég með fyrirframgerða næringaráætlun og í þetta sinn var hún mjög einföld. Á 45 mínútna fresti skyldi sporðrennt einu hnausþykku GU-geli með koffíni og einni salttöflu í bragðbæti og hvoru tveggja skolað niður með tveimur gúlsopum af vatni. Þess á milli skyldi dreypt á vatni af og til, nógu miklu til að á hverjum 10 km kafla lækkaði um 300-400 ml. í vatnsbrúsanum sem ég hafði meðferðis. Á hverri drykkjarstöð lét ég svo bæta nógu vatni í brúsann til að hann entist í næsta áfanga - og helst ekkert umfram það. Þetta var fyrsta Laugavegshlaupið þar sem gel var eina nestið, enda sagði reynslan að það myndi duga mér ágætlega. Sú varð og raunin. Ég býst við að löngu hlaupin mín síðustu misseri hafi þjálfað líkamann í að brenna fitu þegar á þarf að halda. Af henni á ég nóg, þótt það sjáist kannski ekki í fljótu bragði.

Mér tókst vel að hverfa inn í einsemdina á söndunum, þó að ég fyndi vissulega að hægt miðaði. Reyndi að sniðganga úrið algjörlega, það tifaði víst jafnhratt hvort sem var. En svo tók ég allt í einu eftir því að tónlist saltboxins var þögnuð. Ástæðan var augljós, boxið hafði dottið úr beltinu og myndi nú sjálfsagt veltast um úti í náttúrunni í 1.000 ár með öllu hinu plastinu sem ég og allt hitt fólkið hafði misst frá sér á lífsleiðinni. Þetta voru ekki góðar fréttir. Reyndar hafði ég engar stórar áhyggjur af salttöfluleysinu, aðallega vegna þess að áhyggjur leysa engan vanda en líka vegna þess að gelin mín innihéldu eitthvað af natríum, alla vega sum. Hitt var öllu verra, að ég skyldi eiga þennan þátt í að menga þessa dásamlegu náttúru.

Rétt áður en ég kom að drykkjarstöðinni á söndunum, spölkorni sunnan við Innri-Emstruá, heyrði ég Gunnar kalla til mín að hann væri með boxið sem ég týndi. Ég hinkraði augnablik við stöðina svo að Gunnar næði mér, fékk boxið og tróð því í vasa sem það átti ekki að geta dottið úr og hélt svo áfram ferðinni í svipuðum takti og fyrr.Minn hluti af mengunarvanda dagsins var úr sögunni, þökk sé Gunnari. Gætti þess að líta aldrei á klukkuna og hugsa aldrei hversu langt væri eftir í Emstrur. Einbeitti mér þess í stað að því að hlaupa afslappaður með slakar axlir. Það getur verið gott að hugsa um smáatriði þegar stóra myndin er ekki hagstæð. Emstrur létu bíða eftir sér, en alltaf finnst mér samt jafngott að koma þangað.Nýkominn yfir Þröngá og hægri handleggurinn kominn í varanlega stöðu.

Núna var það jafnvel enn betra en venjulega, því að þar tóku Erla Gunnarsdóttir og annað starfslið mér svo sannarlega opnum örmum. En klukkan hafði tifað og sýndi 4:01:47 klst. Það var meira að segja hægara en í hlaupinu 2013 þegar millitíminn í Emstrum var 4:00:00 klst. Þar með voru allar hugmyndir um að bæta tímann frá 2015 afskrifaðar. Nú snerist þetta bara um að ljúka hlaupinu á innan við 6 klst. Það átti enn að vera hægt.

4. áfangi (a): Emstrur - Þröngá: 13,31 km
Starfsfólkið í Emstrum sagði mér að nú væri mesti mótvindurinn búinn. Það fannst mér gott að heyra, þó að ég vissi að það gæti naumast verið rétt. Vindurinn hlaut að ná sér aftur á strik þegar komið væri upp úr gljúfri Fremri-Emstruár. Sú varð líka raunin. En mér var svo sem alveg sama, þetta snerist bara um að halda áfram jafnt og þétt hvað sem á gengi. Og það gerði ég, ákveðinn í að vera sáttur við tímann minn hver sem hann yrði. Þetta var erfitt en virkilega gaman.

Eftir mjög drjúga stund með lágmarksskammti af hugsunum sýndist mér ég sjá Kápuna framundan. Nú var sem sagt farið að síga verulega á seinnihlutann, þreytan í líkamanum bara svipuð og hún hafði verið og engir krampar eða önnur vandamál höfðu gert vart við sig. En þá gerðist það, bara nokkrum metrum áður en ég kom að drykkjarstöðinni við Ljósá. Ég steyptist fram fyrir mig og lenti beinlínis á andlitinu á jörðinni. Hef ekki hugmynd um hvað fór úrskeiðis, kannski gleymdi ég mér bara við að horfa á drykkjarstöðina og gleðjast yfir því hvað ég ætti stutt eftir, bara rétt um 5 km - og hægur vandi að ljúka hlaupinu á innan við 6 klst. Þarna lá ég alla vega, alveg flatur á troðnum moldarstíg. Hefði varla getað fundið betri stað á allri leiðinni til að detta á. Þetta var samt vont og ég fann að það blæddi einhvers staðar úr andlitinu á mér. Eftir að hafa legið smástund til að reyna að ná áttum brölti ég á fætur með góðri hjálp starfsfólksins á drykkjarstöðinni. Ég gat alla vega labbað, það var gott og ég hlaut að vera óbrotinn. Nú væri líklega næsta mál að rölta á leiðarenda og gleyma 6 tíma markmiðinu. Framundan var Kápan og upp hana myndi ég hafa labbað hvort sem var.

Á leiðinni upp Kápuna skolaði ég mesta blóðið og moldina úr andlitinu með vatni sem hafði verið bætt í brúsann minn á drykkjarstöðinni. Var greinilega með sár á efri vörinni en virtist hafa sloppið mjög vel að öðru leyti. Meira að segja gleraugun voru bæði heil og hrein. Þegar upp var komið byrjaði ég að skokka en fann þá að hægri handleggurinn hafði ekki áhuga á frekari þátttöku í þessu hlaupi. Ég vissi svo sem ekki til að hann hefði orðið fyrir hnjaski í byltunni, en þarna var greinilega eitthvað í ólagi. Reyndar var þessi handleggur ekkert sérstaklega góður fyrir, því að síðustu mánuði hafði ég glímt við einhverja klemmu í öxlinni og ekki haft betur. Núna var hann bara u.þ.b. tífalt verri en vanalega.

Ég var frekar illa til reika þegar ég kom að Þröngá. Hitti Ingvar Garðarsson við vaðið eins og stundum áður og sagði farir mínar ekki sléttar. Reyndi svo að láta eitthvað af mold skolast af fötunum mínum í ánni. Klukkan sýndi 5:37:36 mín, sem þýddi að ég gat enn gert mér vonir um 6 tímana. Árið 2015 hljóp ég þennan síðasta spöl á 17:10 mín og þrátt fyrir afleitt ástand hlaut ég að geta skreiðst þetta á 22 mín. Þetta eru ekki nema 2,8 km.

4. áfangi (b): Þröngá - Húsadalur: 2,76 km
Í þann mund sem ég var kominn yfir Þröngá náði Reimar Snæfells Pétursson mér, en við höfðum hist sem snöggvast fyrr í hlaupinu. Reimar var hinn hressasti og ágætt að skiptast á hvatningarorðum fyrir lokasprettinn. Þetta varð þó auðvitað enginn sprettur í mínu tilviki en ég fann út að með því að halda þéttingsfast með hinni ósamstarfsfúsu hægri hendi í framstykkið á hlaupajakkanum mínum gat ég svo sem alveg skokkað. Þessi síðasti áfangi tók þegar allt kom til alls ekki nema 18:19 mín, þ.e. rúmri mínútu lengri tíma en 2015, og þegar ég kom í mark sýndi klukkan 5:55:56 klst. Ég gat ekki annað en verið mjög sáttur við það miðað við aðstæður. En ég hef sjálfsagt oftast litið betur út á marklínunni.

Stundirnar eftir hlaup
Marksvæðið í Laugavegshlaupinu er alltaf í sérstöku uppáhaldi hjá mér og ég reyni helst að staldra þar við eins lengi og ég get til að spjalla við allt það góða fólk sem þar hefur safnast fyrir. Þetta var svo sem eins í þetta sinn, en upplifunin var önnur en venjulega því að sjálfum leið mér verulega illa í öxlinni og þar í kring. Náði þó að tína í mig næringu af ýmsu tagi og gleðjast yfir góðum degi. Gunnar Ólason kom í mark tæpum tveimur mínútum á eftir mér.

Hann hafði nánast aldrei misst sjónar af mér alla leiðina og það var gott að vita af honum í nágrenninu. Kiddó skilaði sér svo fyrr en varði, glaður í bragði og all vel haldinn á 6:06:35 klst. í sínu fyrsta Laugavegshlaupi. Birkir og Gunnar komu svo rúmum 20 mín. síðar, báðir dálítið lerkaðir. Auður var talsvert lengur á leiðinni eins og við mátti búast, en hún náði tímamörkunum og vel það. Og þar með var allur hópurinn í höfn.Þegar hér var komið sögu gerði ég mér grein fyrir að sturtuferð gæti orðið mér ofviða. Frestaði henni því til betri tíma og lét mér nægja að skipta um föt. Það var ærið verkefni og sársaukafullt, en þetta hafðist og við tók hefðbundinn kvöldverður og verðlaunaafhending. Ég reyndist vera öruggur sigurvegari í flokki 60-69 ára, réttum 38 mín á undan næsta manni og rúmlega einum og hálfum tíma á undan næsta Íslendingi. Mér finnst alltaf gaman að vinna til verðlauna. Verkir í öxl breyta engu um það.Flandratröll að hlaupi loknu.

Heimferðin
Haukur bílstjóri beið okkar í Þórsmörk eins og til stóð og þjónustaði okkur þar á alla lund. Það er ómetanlegt að hafa aðgang að annarri eins hjálparhellu á stundum sem þessum. Hann hafði reyndar lent í töluverðum hremmingum sjálfur, því að á leiðinni úr Landmannalaugum sprakk á bílnum. Einhvern veginn tókst honum að komast á leiðarenda á lánsdekki, en dekk á fullvaxna bíla liggja ekkert endilega á lausu. Þegar allt var yfirstaðið röðuðum við okkur inn í fararskjótann og héldum af stað heimleiðis eftir að hafa ferjað fáeina hlaupara yfir Krossá. Ferðalaginu lauk svo í Borgarnesi um miðnættið, 20 tímum eftir að það hófst.

Eftirköstin
Ég var nokkuð góður í fótunum daginn eftir hlaup og gat ekki annað en glaðst yfir því. Hins vegar hafði verkurinn í öxlinni hreint ekki skánað, enda leiddi læknisskoðun sunnudagsins í ljós að öxlin var brotin. Góðu fréttirnar voru þær að axlarliðurinn er heill og ef allt gengur að óskum ætti beinið að vera orðið gróið eftir 4-5 vikur í fatla. Það verður því lítið um hlaup á næstunni og sumar daglegar athafnir munu reynast ögn snúnari en á venjulegum degi.

Þakkir
Ég á mörgum mikið að þakka eftir þetta Laugavegshlaup. Þar ber fyrst að nefna eiginkonuna Björk sem hefur umborið þetta tímafreka áhugamál mitt í áratugi og aðstoðað mig við að sinna því, hversu mikið sem það hefur bitnað á öðrum verkefnum. Svo fá ferðafélagar dagsins sérstakar þakkir og þó sérstaklega bílstjórinn Haukur. Það var ný og afar jákvæð upplifun að fara þessa ferð í svona litlum og samhentum hópi, þar sem allir leggja gott til mála. Og svo má ekki gleyma öllum þeim fjölda starfsmanna, sjálfboðaliða og þátttakenda sem gera Laugavegshlaupið að þeim glæsilega stórviðburði sem það er. Það eru forréttindi að hafa heilsu og möguleika til að taka þátt í svona ævintýrum. Ég er lánsamur maður. Brotin öxl breytir engu um það.

Stefán Gíslason, hlaupafrömuður, er pistlahöfundur á hlaup.is. Í pistlunum fer Stefán yfir víðan völl og fjallar um skemmtilegar og stundum ókannaðar hliðar hlaupanna.