Laugavegurinn 2000 - Viktor A. Ingólfsson

birt 01. febrúar 2004

Frásögn Viktors A. Ingólfssonar

Laugavegurinn 2000 eða skipulög hópferð frá Landmannalaugum á ótiltekinn stað í Fljótshlíðinni.

Jæja þetta fór þá þannig. Regnguðinn reiddist, fyllti allar ár á Þórsmerkurleið og gerði ófærar stærstum jeppum og rútubílum. Skipuleggjendur brugðust við og beindu hlaupurum niður í Fljótshlíð og þar var sett upp mark. Það var fljótlega eftir Hvannagil sem orðrómur um þessa breytingu fór að berast út á milli hlaupara og síðan var það staðfest við afleggjarann í Emstrur.

Það dró satt að segja úr manni við þetta því ég var að fara hlaupið í fyrsta sinn og nú mundi maður ekki fá staðfestann tíma á Laugaveginum. Markmiðið var þá sett að taka það mátulega rólega, reyna að halda í við hópinn og hleypa ekki nema völdum mönnum framúr eins og Sigga Gunnsteins og Pétri formanni. Niðurstaðan varð svo 38. sæti á 7:34. Það má þá kalla þetta löngu æfinguna fyrir Reykjavíkurmarþonið. Einhverjir voru að tala um að þetta væri lengri leið en orginal leiðin og ég bíð spenntur eftir upplýsingum um það. Ég dreif mig fljótlega í bæinn eftir að komið var í mark og hef því ekki fréttir af fyrstu mönnum. Eitthvað skildist mér þó að breytingin á leiðinni hefði komið verr niður á þeim en okkur sem síðar vorum á ferðinni. Það væri gaman að fá þeirra sögu hér á síðuna.

En þá er það ferðasagan í heild. Þegar ég ákvað endanlega að fara Laugarveginn nú í vor pantaði ég strax gistingu í skálanum í Landmannalaugum. Ég var nefnilega dálítið smeikur við að þurfa að mæta í rútu klukkan 4:30. Ég tók því með mér bíl og bílstjóra og átti ágæta nótt í Laugunum, vaknaði kl. 7 og hafði góðan tíma til að annast morgunverkin. Það var þó ekki annað að heyra hjá hinum sem komu með rútunni að það hefði verið lítið mál.

Ég ætla ekki að lýsa hlaupaleiðinni hér en vísa á ágætar ritgerðir Gísla Ásgeirssonar ritara maraþonfélagsins á heimasíðunni þeirra. Aðeins að minnast á nokkur atriði sem ekki hafa komið fram annarsstaðar.

Það hefur alltaf pirrað mig þegar ég hef hlaupið utanvega hve skórnir safna í sig af smásteinum. Ég tók því gamlar göngulegghlífar sem ég átti, klippti ofan af þeim, bætti við festingum í hliðarnar á skónum og niðurstaðan var búnaður sem hleypti ekki sandkorni í skóna alla leiðina. Þennan útbúnað var ég svo búinn að prófa í Þorvaldsdalsskokkinu með góðum árangri.

Ég var búinn að hafa áhyggjur af ánum og lesa með mikilli athygli lýsingar af laxapokum o.þ.h. Reynslan varð hins vegar sú að mér fannst best og fljótlegast að vaða árnar án þess að hika. Við það hreinsaðist líka drulla af skónum. Maður labbaði bara 20-30 metra eftir að komið var uppúr á meðan skórnir voru að tæmast. Þegar líða tók á hlaupið var ég meira að segja farinn að stíga í læki sem hægt var að hoppa yfir, bara til að kæla tærnar. Ég hafði borið vaselín á tærnar, var í tvennum bómullarsokkum og fann ekki fyrir neinum óþægindum þegar komið var í mark.

Á æfingatímabilinu hafði ég gert talsvert af því að skokka reiðgötur í Biskupstungum og það reyndist mjög vel. Ég hafði hins vegar trassað brekkurnar og sá mikið eftir því. Ég var mjög hægur niður á við, miðað við marga aðra og í löngu brekkunni niður að Álftavatni fóru 10 framúr.
Leppin gelið virkaði vel eins og áður en nú veit ég að sjö túpur eru hámark í magann. Ég var svo heppinn að mér var gefið súkkulaðistykki þegar 15 km voru eftir og það bjargaði öllu.

Ég hafði mjög gaman að þessu þrátt fyrir útúrsnúninginn. Stemmingin var góð á leiðinni og ég hafði það á tilfinningunni að allir hlaupararnir væru liðsmenn í sama liði. Hvatning og góð ráð voru stöðugt í gangi. Þegar ég var að klára síðustu kílómetrana var ég líka að hugsa um nýja æfingaáætlun fyrir næsta Laugavegshlaup.

Ég þakka RM-mönnum og vona að þeir láti ekki bugast þótt svona hafi farið í þetta sinn.

Meira um Laugaveg 2000

Kunningjarnir hafa verið að hringja í dag og viljað fá meiri fréttir af Fljóshlíðarhlaupinu, m.a. af veðri og færð. Nú í minningunni daginn eftir var þetta bara sól og blíða en þegar grannt er hugsað voru jú einhverjir skúrir uppi á Skeri og skolli hvasst í Jökultungum. Það virtist þó ekki vera mikið til ama og skotinn Alexander Robbins hljóp þetta í stuttbuxum alla leið. Við Álftavatn dró meira að segja frá sólu um stund og skokkaði ég þá fram á þá Guðjón Ólafsson og Halldór Pétur þar sem þeir lágu í sólbaði. Sólin hvarf og þeir félagar náðu mér fljótlega aftur og fóru fram úr á miklum hraða.Kannski að þetta sé góð aðferð við að ná betri tíma, að hlaða sólarrafhlöðurnar um stund þegar færi gefst.

Eins og áður sagði missti ég marga fram úr mér í löngu brekkunni niður að Álftavatni. Tveir hlaupalegir náungar sem vinna hjá Ríkiskaupum (borða í sama mötuneyti og ég) stóðu á brúninni þegar ég kom þar að og migu óskaplega. Stuttu síðar hlupu þeir fram úr mér í brekkunni á miklum hraða. Ég held að þetta hafi verið lúmskt herbragð. Það þrýstir nefnilega skolli mikið á þvagblöðruna í hlaupi niður bratta brekku og því best að tæma hana áður en lagt er af stað niður.

Ég fékk góða samfylgd hjá Láru Kristínu síðustu 10 km. Siggi Gunnsteins tafði svo lengi við að tala við hana að ég hélt að ég næði karlinum aftur en Pétur formaður hélt að það væri önnur stelpa framar og hljóp áfram á fullum hraða.

Það komu nokkrir bílar á móti hlaupurunum síðasta hlutann og buðu upp á drykki. Það kom sér vel því vatnið í ánum var ólystugt eftir leysingarnar.

Ég hef verið spurður að því hvort það séu ekki óskapleg vonbrigði að hafa ekki náð að hlaupa raunverulegt Laugavegshlaup. Ég tek þessu nokkuð létt og í framtíðinni get ég státað mig af því að hafa ásamt 54 öðrum hlaupið eina Fljótshlíðarhlaupið (nema að sagan endurtaki sig). Þegar ég hljóp hálft maraþon í RM í fyrsta skipti fyrir mörgum árum var ég svo óheppinn að detta útaf lista.

Það var sennilega flett yfir númerið mitt þegar þau voru slegin inn. Ég var búinn að auglýsa þetta ætlunarverk mitt mjög víða og þið getið ímyndað ykkur vonbrigðin þegar nafnið mitt var ekki á listanum í Morgunblaðinu. Næstu daga á eftir hringdi ég a.m.k. þrisvar í RM-strákana til að kvarta og krafðist þess að réttur listi yrði birtur aftur. Nú þegar ég er reyndari í skokkinu brosi ég að þessu og eins mun ég brosa að þessu hlaupi. Þeir hlauparar sem voru hins vegar búnir að æfa vel til að slást um efstu sætin eiga alla samúð mína.