Laugavegurinn 2001 - Hreyfingarhlauparar

birt 01. febrúar 2004

Frásögn Hreyfingarhlaupara

Ferðin hófst síðdegis föstudaginn 20. júlí eftir að búið var að sækja gögn í Laugardalinn. Við fórum af stað 6 félagar úr hlaupahópi Hreyfingar og með okkur barn, hundur og 3 konur, sem reyndust allt í senn sáluhjálparar, bílstjórar og ljósmyndarar.

Við vorum misjafnlega undirbúnir undir Laugaveginn, en flestir okkar höfðu farið á Esjuna (upp undir 10 sinnum), í rútuhlaupið, Húsafellshring og Þingvallahlaup. Ekki má heldur gleyma Hellisheiðarhlaupinu frá Hveragerði í Árbæjarlaugina í sól og hita. Heldur hægðist á okkur félögunum í þeirri ferð þegar við rákumst á föngulegan hóp kvenna við heita laug í Reykjadalnum... Reyndar gleymdist sólaráburðurinn í þeirri ferð og við vorum misröndóttir þótt vaselínið hafi verið á sínum stöðum.

Við fórum á 2 bílum og tjölduðum í Landmannalaugum í hálfhryssingslegu veðri, en gott var skjólið í nútíma tjaldvögnum! Haldið var áfram með kolvetnishleðsluna í formi Carbo Lode og sælgætis og síðan var safnast saman í tjaldvagninum yfir miklu magni af pasta (ekkert rauðvín í þetta skiptið) í boði tjaldfreyjunnar. Í eftirrétt voru heimabakaðar kleinur og ostakaka. Eftir matinn fórum við í laugarnar þar sem ferðalangar af ýmsum þjóðernum með görótta drykki í höndum voru litnir öfundsaugum. Fiðringurinn í maga okkar var af öðrum orsökum en þeirra, Hvernig datt okkur þessi vitleysa í hug, sumir í fyrsta sinn og aðrir eina ferðina enn! En við hughreystum hvorn annan með því að við svæfum vært á meðan aðrir hýrðust í rútu um miðja nótt! Síðan var tjaldað á harðan melinn og þá var gott að vera með vindsæng, en við sváfum misjafnlega um nóttina vegna undirlags og umhverfishljóða.

Við fyrsta hanagal rukum við á fætur til að sinna frumþörfum hlauparans, sem eru m.a. náðhúsarferðir, bananar, plástrar og vaselín. Spenningurinn stigmagnaðist og hjartað tók aukakipp þegar rúturnar frá Reykjavík renndu í hlað og við vissum að langur og erfiður dagur væri að hefjast.

Kl. 9 small í byssunni í blíðskaparveðri og þá var ekki aftur snúið. Eftir á að hyggja hefðu sumir viljað vera framar í starti vegna örtraðarinnar sem myndaðist í byrjun, en þetta var gott tækifæri til að stilla sér upp til myndatöku

Þá vorum við loksins lagðir af stað og það með stæl því Hrafntinnuskerið var þungt yfirferðar og sumir fóru of hratt yfir, eða hraðar en ætlunin var. Þegar komið var að fyrstu drykkjarstöðinni, Hrafntinnuskeri, notuðu menn tækifærið og losuðu sig við óþarfa birgðar á mettíma og veltu sumir fyrir sér hvort nógu vel hafi verið vandað til verka! En það var unaðslegt að upplifa stórbrotna náttúruna með allri sinni litadýrð, jafnvel leirinn var gulur, rauður grænn og blár. Hápunktur fegurðarinnar var þó þegar Álftavatnið birtist og fjöllin sáust á spegilsléttu vatninu, sumir vildu taka upp pensilinn en beittu sig hörku og héldu ferðinni áfram. Það kom smá hik á þá sem áður höfðu hlaupið Laugaveginn þegar engin skiptistöð var við Álftavatn og hún reyndist vera við Bláfjallakvísl, en eftir á að hyggja þóttu þetta góð skipti.

Veðrið hélst gott með smá rigningarúða eftir Álftavatnið en fljótlega stytti upp og hélst gott allan tímann eftir það. Leiðin lá framhjá Hvanngili og þegar glitta fór í Bláfjallakvíslina lyftist heldur betur brúnin á mönnum og við óðum áfram, yfir á og aðra í tilhlökkun um nesti og nýja skó sem hvoru tveggja er lífsnauðsynlegt og bara unaðslegt á þessum tímapunkti. Við vorum sem nýjir menn þegar við lögðum af stað niður sandana sem voru ekki eins mjúkir og við óttuðumst. Allt í einu birtist Emstruskálinn. Þangað var gott að komast enda vissum áfanga náð. Við vorum orðnir þreyttir og stirðir með einstaka krampakippi. Nú var bara að bíta á jaxlinn og halda áfram enda erfiðasti kaflinn framundan. Sumir segja að hlaupið byrji ekki fyrir alvöru fyrr en í Emstrum. Landið er giljótt og grýtt og tók vel á í brekkunum. Menn deildu um hvort erfiðara var að fara upp eða niður Kápuna góðu en jökuláin var öllum kærkomin kæling fyrir auma fætur og sú vissa að aðeins 3 km voru eftir. Þá var bara að spýta í lófana og klára dæmið með reisn enda komum við glæsilegir í mark í Húsadal í faðm kvennanna sem næstum voru lengur að keyra þangað en við að hlaupa

Skemmtilegt er frá því að segja að skömmu áður en við komum í mark hljóp einn okkar fram á brautarvörð sem stóð og var að létta á sér, nema hvað að um leið og hann áttaði sig á því að hlaupari væri að nálgast beygði hann sig niður, tók upp vatnsbrúsa sem þar var, rétti hlauparanum og fullvissaði hann um að þetta væri væri hreint vatn. Þegar okkar maður svaraði engu og starði á hann tómum augum benti vörðurinn í átt að markinu og sagði It is only 500 meters!

Mikil stemming var við marklínuna þar sem gífurlega vel var tekið á móti hlaupurunum og hvatningin kærkomin þá sem fyrr. Menn hámuðu svo í sig stórsteikur og með því, ásamt drykkjum sem fóru ýmsar leiðir inn Verðlaunaafhendingin gekk vel fyrir sig þótt seint væri, gufan var unaðsleg (stelpur og strákar saman). Síðan var haldið í Bása og kvöldsins notið með annarri steik og langþráðu rauðvínsglasi. Hvíldin um nóttina var kærkomin enda allir glaðir eftir góðan dag.

Það má nefna það að félagi okkar notaði augsýnilega ekki nægilega orku í hlaupinu og þurfti þess vegna að skreppa upp á Útigönguhöfða og inn á Heljarkamb og Morinsheiði morguninn eftir!