Laugavegurinn 2003 - Pétur Helgason

birt 12. apríl 2004

Hoppaðu á bak - Frásögn Péturs Helgasonar

Eftir fremur svefnlitla nótt í Hólaskógi silaðist rútan í blíðskaparveðri upp í Landmannalaugar. Ég var að hugsa hvort ég hefði kannski átt að drekka heilan bjór en ekki hálfan í gærkvöldi eftir pastaveisluna til að ná að slaka betur á og sofna. Nokkuð hafði verið um hrotur og heitt í skálanum þó að glugginn hefði staðið opinn alla nóttina og því lítið um svefn. En það var of seint núna, svo nú var bara að njóta útsýnisins og horfa á fjöllin speglast í Frostastaðavatni svo skýrt að maður sá vart muninn á hvað sneri upp og niður.

Það voru aðeins um 25 mínútur í byrjun hlaups þegar rútan renndi í hlað mitt inni í þéttri tjaldborginni. Ég var dálítið stressaður þar sem ég var enn á inniskónum til að viðra tærnar vel áður en ég ataði þær út í vasilíni og lokaði inni í sokkum og skóm. Ég náði þó að klára allt sem gera þurfti en tæpt var það. Við ráslínuna hitti ég Guðjón E. Ólafsson vígmannlegan með byssuna. Hann óskaði mér góðs gengis og skömmu síðar reið skotið af.

Ég var með þrjá drykkjarbrúsa í beltinu, tvo tóma sem ég ætlaði að fylla á í skálanum við Hrafntinnusker og einn fullan af geli. Fatnaðurinn var gamall bleikur og hvítur Sub4 hlýrabolur, sem ég var meira en tilbúinn að henda af mér á leiðinni ef hitinn yrði alveg óbærilegur, og stuttar hlaupabuxur. Aldrei hafði byrjað þetta hlaup jafn létt klæddur en miðað við útlitið var engin hætta á að mér yrði kalt. Á stundum var vindurinn í bakið og þá var stafalogn og engin kæling. Þetta var eins og að hlaupa í bakarofni. Mér varð hugsað til þeirra sem hlaupa Sahara ofurmaraþonið. Ljós jarðvegurinn við Brennisteinsöldu er líklega ekkert ósvipaður því sem þar er á köflum og hitinn varla minni. Ég fann fljótt að þorstinn fór að sækja að og sá fljótlega eftir að hafa ekki tekið með mér vatn. Þegar ofar kom fór að bera á litlum lækjum sem runnu undan snjóbreiðunni og þar náði ég á nokkrum stöðum í ískalt vatn í brúsa án þess að tapa miklum tíma. Hér skipti miklu máli að byrja að drekka strax.

Það tók 1:10 að komast upp í Hrafntinnusker sem var nokkuð lakara en í fyrra en ásættanlegur miðað við aðstæður. Við undirbúning fyrir Laugaveginn þetta árið hafði ég tekið nokkar spretti upp Esjuna ásamt nafna mínum Ásbjörnssyni með sérstaka áherslu á niðurhlaup. Nú var að sjá hvort þessar æfingar hefðu skilað einhverju þegar haldið yrði niður brekkuna löngu við Jökultungurnar. Í fyrra titruðu vöðvarnir í framlærunum af þreytu eftir niðurhlaupið en í ár brá svo við að ég fann varla fyrir neinu. Þvílíkur munur. Við Gunnar Richter hlupum nú saman léttum skrefum í átt að skálanum við Álftavatn.

Tíminn frá Hrafntinnuskeri að skálanum við Álftavatn var 1:07 sem var ekki langt frá áætlun. Gunnar lagði af stað á undan mér frá Álftavatni. Hann kom því á undan að litlu lækjarsprænunni skammt frá skálanum. Hún var ekki mikil að sjá en þó nógu breið til þess að ekki var hægt að stökkva yfir hana. Ég sá að Gunnar átti orðaskipti við stráka sem stóðu við bakkann og óð svo yfir. Ég fór strax að pirra mig yfir að núna vantaði plankann sem var þarna í fyrra og það var enn töluverður spölur í Bláfjallakvíslina þar sem þurru skórnir biðu í poka. Ég kannaðist við einn af strákunum og heilsaði. Hann spurði: á ég ekki bara að bera þig yfir? Ertu viss um að þú getir það? spurði ég á móti. Hoppaðu á bak var svarað. Hann fór létt með þetta og ég þakkaði honum kærlega fyrir, yfir mig ánægður með að sleppa við að bleyta skóna. Gunnar hafði á orði að þarna hefði hann þurft að vera með myndavél.

Við Bláfjallakvísl ákvað ég að sleppa því að skipta um skó. Ég var ennþá þurr og því engin ástæða til að fara í aðra skó. Gunnar fór að sækja kex og sagðist koma með handa mér líka. Nú tók F261 við og ég fann gamla góða maraþontaktinn. Það eina sem var til ama var rykið frá bílunum, en allmikil umferð var á veginum. Aldrei kom Gunnar með kexið. Á söndunum við Útgönguhöfða var einmannalegt og fáir á ferð. Ég náði að fylla á brúsana við óvænta drykkjarstöð áður en beygt er út af veginum og þurfti því aldrei þessu vant ekki að fá mér að drekka úr læknum skammt frá Tvíböku og Tudda, þar sem Ívar Adolfsson bjargaði einum brúsanum mínum frá því að fljóta til sjávar í fyrra. Við þennan sama læk náði ég Bjartmari í fyrsta hlaupinu ´97 en það á víst ekki eftir að gerast aftur. Við skálann í Botnum hitti ég þá félaga SveinÁsgeirsson, Börk Árnason og Gauta Höskuldsson.

Tíminn frá Álftavatni var 1:40 og ég var enn nokkuð sprækur og hljóp nú upp brekkur sem ég gekk í fyrra. Hvort þarna hafi Esjan verið að skila sínu eða eitthvað annað skal ósagt látið en þetta var allavega miklu skemmtilegra svona. Í Bjórgili var margt um manninn og margir að hvetja. Ég heyrði greinilega í röddinni hans Dýra þar sem hann kallaði: Pétur þetta er gott hjá þér, þú stendur þig vel. Ég kallaði á móti: þakka þér fyrir Dýri. Nokkru eftir að ég var kominn í mark og búinn að ná áttum sá ég Dýra og fór að furða mig á því hvað hann hefði verið fljótur tilbaka úr Bjórgilinu. Ég þakkaði honum samt fyrir stuðninginn en hann varð eitt spurningamerki í framan og sagðist ekki hafa hreyft sig frá marksvæðinu. Hafði ég heyrt ofheyrnir? Ég lýsi hér með eftir þessum tvífara hans Dýra sem hvatti mig þarna svo menn haldi ekki að ég hafi ekki verið orðinn ruglaður í hitanum.

Skammt frá Fauskatorfum sjá ég hóp af fólki raða sér í skyndingu í einfalda röð þegar ég nálgaðist. Þetta var eins og móttökunefnd og fjær stóð maður með myndavél. Ég reyndi að líta vel út og brosti mínu breiðasta og tók ofan. Ekki átti ég von á að þessi mynd ætti eftir að prýða baksíðu Moggans og lenda á mbl.is, en svona er þetta á Laugaveginum, maður veit aldrei á hverju maður á von.

Við Þröngána stóð Kristján Ágústsson hinn vígalegasti. Ég hafði á tilfinningunni að hann hefði verið tilbúinn að skutla mér yfir öxlina og bera mig yfir hefði þess gerst þörf. Hann greip þéttingsfast um mjöðmina á mér og labbaði ákveðið með mig yfir fyrri kvíslina. Ég náði að slíta mig lausan og fékk þá skipun um að grípa í kaðalinn og halda mér vel í yfir þá seinni. Þegar ég var næstum kominn að bakkanum var mér bent á að það væri dálítið djúpt þarna í lokin. Um leið og ég steig út í djúpið hrukku báðir kálfarnir samtímis í hnút nánast eins og um samráð hafi verið að ræða. Ég staulaðist upp úr og reyndi að slaka á. Þarna var Munda Richter ásamt fleirum og bauð hún mér Coke að drekka. Sjaldan hefur maður Coke drykknum hafnað og þó hitinn á drykknum hafi verið langt fyrir ofan það sem maður á að venjast, enda búinn að hitna í sólinni, hresstist ég strax og var til í lokasprettinn.

Síðasti kaflinn gegnum Hamraskóg er alltaf mun lengri en maður á von á. Ég sá að bæting var ekki lengur í kortunum og ákvað því að slaka á og koma vel útlýtandi og afslappaður í mark. Ágúst var örugglega með vídeóvélina á lofti eins og venjulega. Þetta átti eftir að koma mér í koll. Þegar um 200-300 m voru eftir að markinu fór Gauti framhjá mér svo hljótt að ég hefði ekki orðið þess var ef hann hefði kastað á mig kveðju. Við hefðum eflaust getað komið saman í mark en þess í stað hófst mikill endasprettur. Ég náði Gauta aftur en hann var sterkari lokin (enda mun yngri) og renndi sér framúr rétt fyrir framan markið. Í stað þess að koma léttur og brosandi inn var ég nú svo móður að ég varð að leggjast í grasið og kasta mæðinni. Þetta var líflegur endir á góðu hlaupi.

Tíminn frá Botnum var 1:57 og heildartíminn 5:55:50. Þrátt fyrir allan hitann var þetta mitt skemmtilegasta Laugavegshlaup hingað til. Ég náði að byrja að vökva mig bæði snemma og skynsamlega og drekka vatn og staupa mig á geli þegar orkudrykkinn vantaði. Mér leið því bærilega allt hlaupið og ekki spillti hin ótrúlega náttúrufegurð sem þessi leið hefur upp á að bjóða. Verst að maður gat ekki notið hennar til fullnustu án eiga á hættu að detta á hausinn. Ég verð með næst.

25.07.2003

Pétur Helgason