Laugavegurinn 2009, undirbúningur og framkvæmd - Steinar B. Aðalbjörnsson

birt 23. febrúar 2010

Líkaminn er ótrúleg „vél"!

Síðastliðin þrjú ár hefur mig dreymt um að hlaupa Laugavegsmaraþonið svokallaða sem er rétt tæplega 55 km hlaup frá Landmannalaugum yfir í Þórsmörk. Leiðin er ein vinsælasta gönguleið landsins og taka flestir u.þ.b. 3-5 daga í þessa göngu. Leiðin er ægifögur, stórkostlegt landslag þar sem íslensk náttúra gerir allt sem hún getur til þess að sýna allt það fallegasta sem hún hefur upp á að bjóða. Þetta er landslagið sem er táknrænt fyrir „Ice and Fire" ferðamannaklisjuna!

En þar til í ár hafði þessi draumur verið bara það; draumur. Æskuvinur minn, Ágúst Fjalar Jónasson, hafði hlaupið Laugaveginn tvisvar áður og í bæði skiptin hvatt mig eindregið til þess að skella mér með. Meira að segja reyndi hann að fá mig til þess að fara þegar hann fór svo ekki sjálfur, sumarið 2008. Alltaf rakst eitthvað á, eða kannski „lét" ég eitthvað rekast á þær dagsetningar sem líklegast væru að Laugavegsmaraþonið færi fram.

Síðastliðin tvö ár hef ég staðið á ákveðnum tímamótum í lífinu. Þörfin fyrir það að gera eitthvað öðruvísi og takast á við nýjar áskoranir hefur aukist til muna undanfarin tvö ár. Ekki veit ég af hverju en vinir mínir, flestir óumbeðnir, hafa verið fljótir að benda á að þetta séu akkúrat árin sem þessi þörf eykst og karlmenn þurfi að sýna fram á að karlmennskan sé ennþá til staðar (ok köllum þetta fiðringinn!). Það var því þannig að sl. febrúar þá ákvað ég á einu andartaki að á árinu 2009 myndi ég hlaupa Esjuna upp að útsýnisskífu og niður aftur á innan við 60 mínútum, hlaupa Laugavegshlaupið og hlaupa heilt maraþon í New York maraþoninu (NYM). Af hverju ég ákvað þetta veit ég ekki en þetta tel ég að hafi verið mín tilraun til þess að byrja á „besta formi lífs míns þegar ég slæ í 40 árin"!

Ég fór strax á vefinn og leitaði að skráningum í Laugaveginn og NYM.  Skráning í Laugaveginn var ekki hafin og ég varð að gera mér lottó að góðu í NYM. Svo gleymdi ég náttúrulega þessu öllu saman og rétt reddaði mér inn síðar í Laugaveginn af biðlista en NYM verður að bíða næsta árs!

Ég hafði ekki hugmynd um hvernig ég ætti að æfa fyrir Laugaveginn. Ég hafði aldrei hlaupið neitt af viti en kannaðist þó við 10-15 km hlaup frá því ég var á „meiðslalista í boltanum" sem og frá sælustundum með æskuvini mínum, Gunnlaugi Einarssyni, í morgunhlaupunum hér í „gamla daga".  En meiri þekking var ekki til staðar og því þurfti ég að sækja mér þekkingu til mér reyndari manna. Ég hafði þetta þó einfalt. Fór á www.hlaup.is og náði þar í staðlaða 16 vikna æfingaáætlun fyrir maraþonhlaup (lengra komnir). Þessa æfingaáætlun fór ég vandlega yfir og taldi að þetta gæti ég nú alveg. Eitt af því sem hjálpaði mér líka við að hreinlega vilja gera þetta var reynsla eins kunningja míns af langhlaupum: „Maður getur nánast drukkið rjóma í hvert mál þegar álagið eykst og lengra líður á æfingaáætlunina!" Þessi yfirlýsing höfðaði til mín enda lifi ég til þess að borða (frekar en að borða til þess að lifa).

Æfingaáætlunin fór vel af stað. Ég var duglegur við að grobba mig af fyrirætlun minni og var tilgangurinn að geta hreinlega ekki hætt við þar sem of margir myndu spyrjast fyrir um þá málalyktir. Ég hugsaði þetta svona eins og reykingamennirnir ættu að hugsa þegar þeir eru að fara að hætta að reykja: „Láta sem flesta vita þannig að ég fá stuðninginn og aðhaldið!".

Vikurnar liðu og fannst mér áætlunin leiðinleg því álagið var of lítið og mér fannst þetta ekki gera neitt fyrir mig. Ég spjallaði við vinnufélaga sem hafa gríðarlega reynslu af hlaupum, bræðurna Svein og Björn Margeirssyni, en Sveinn á einmitt einn allra besta tímann í Laugavegsmaraþoni. Sveinn taldi mér margoft trú um að þessi æfingaáætlun myndi duga stórvel fyrir 55 km hlaup þrátt fyrir að hún væri gerð fyrir keppni í maraþoni, sem er jú um 13 km styttra en Laugavegurinn. Sveinn á heiður skilinn fyrir að hvetja mig áfram með þetta og því fór það þannig að þessi áætlun varð að miklum sannleik fyrir mig sem ég reyndi að fara eftir eins vel og minn tími leyfði.

Þegar fram kom á vorið hafði álagið aukist töluvert. Ekki hjálpaði til að golfið var að detta inn og aukinn tími sem þurfti að fara í það til þess að ná að spila upp í árgjaldið í golfklúbbnum í fyrsta skipti í 3 ár. Ég náði því ekki að fylgja hlaupaáætluninni 100% eftir en ég gerði það besta úr því sem ég hafði. Ef ég átti lausa stund þá fór hún í hlaup. Auðvitað voru tímabil sem ég nennti hreinlega ekki út vegna veðurs eða vegna aumingjaháttar en mér telst til að ég hafi tekið ca. 60% af þeim æfingum sem stóð á „blaðinu" að ég ætti að taka. Ég gerði ríka kröfu til sjálfs míns að æfa eins mikið útivið og ég gæti og „hlaupabrettahlaup" voru nánast ekki í boði.

Ég var ekki laus við meiðsli frekar en aðrir sem gangast undir æfingaáætlun sem endar á 55 km maraþonhlaupi. Stífir og tognaðir kálfar og aftanverð læri, vöðva- og sinafestuvandamál, krampar, bakverkir ofl. ofl. „kíktu" í heimsókn á tímabilinu frá ca. miðjum apríl. Ef ég hefði ekki átt að yndislegustu manneskju í heimi, sjúkraþjálfarann Guðrúnu Sigurðardóttur, þá hefði meiðslatímabilið orðið að martröð. Guðrún sá til þess að hlauparahnéð mitt (Runner''s knee) og stökkvarahnéð mitt (Jumper''s knee) náðu sér aldrei það vel á strik að ég þyrfti að hætta að æfa. Í staðinn fékk ég nuddmeðferðir, nálastungumeðferðir, sem voru ekki skemmtilegar, og flottar „límingar" á hnén í hverri viku í 4-5 vikur (bleik og blá teip á víxl). Á þessu tímabili spurði ég mig margoft hvort þetta væri þess virði. En ég fékk ekki að hætta við. Hvorki Guðrún, né frábærasta vinkona í heimi, hún Gulla, vinnufélagi minn, leyfðu mér að vera með væl og aumingjaskap. Þær sögðu báðar að þetta yrðir ekkert mál fyrir mig og ég væri nú þegar búinn að ákveða að gera þetta og það ætti að duga til að hætta ekki við.

Þannig að áfram hélt ég.

Á lagardögum voru löngu hlaupin. Þá hljóp ég frá 18 og upp í 33 km í einum rykk. Fyrsta skiptið í hverri vegalengd var alltaf erfitt. Þannig voru 20 km erfiðir, 24 km líka, 26 km hrikalegir og í fyrsta skipti sem ég hljóp 30 þá þurfti ég að ganga síðustu 3 km; ég var algerlega búinn á því. Eftir á að hyggja má vera að ég hafi verið of brattur í þessum löngu hlaupum og hreinlega hlaupið of hratt!

Klukkustundirnar eftir fyrsta 30 km hlaupið mitt voru alger martröð. Ég VAR hættur við. Ég kom heim og lagðist á gólfið og stóð ekki upp næstu 20 mínúturnar. Krakkarnir mínir spurðu hvort það væri allt í lagi með mig og ég gat ekki sagt neitt annað en „Nei!". Ég hringdi í Ágúst Fjalar og ætlaði að segja honum að ég væri hættur við. Ég var ákveðinn; þetta dæmi væri bara hreinlega ekki fyrir mig! En enn og aftur kom það í ljós að það er gott að eiga góða að. Hann tók það ekki í mál enda hafði hans æfingafélagi hætt við og hann ætlaði að treysta á mig í hlaupinu sjálfu í júlí; hann vildi endilega fara með „einhverjum". Hann útskýrði fyrir mér að þetta væri hluti af því að gera „undirvagninn" tilbúinn og að ég yrði klár í áframhald eftir nokkra daga. Það þurfti ekki nokkra daga! Ég var orðinn klár í meira síðar um kvöldið og tilhlökkunin vegna 18. júlí komin aftur.

Þannig var þetta hjá mér næst vikurnar. Tilhlökkunin jókst með hverjum degi og hverri æfingu. Ég var samt orðinn þreyttur og smá leiður á æfingunum mínum þá sérstaklega miðvikudögunum sem voru tempó æfingar þar sem ég tók t.d. 4-6x1000 metra hröð hlaup með 2,5 mínútna hvíld á milli „spretta".

Ég slysaðist sett sinn á æfingu í hádeginu hjá hlaupahópi sem kallar sig Hádegisskokk. Þetta var alger slembilukka því ég var á eigin vegum í einu hádeginu og hafði gleymt öllum „græjunum" mínu til mælinga á hraða og vegalengd. Ég var meira að segja ekki með klukku þannig að ég vissi ekki hvað tímanum leið. Stuttu eftir að hlaup hófst hljóp ég nánast í fangið á tveimur stelpum sem ég þekki og voru þær einmitt á leiðinni á æfingu hjá Hádegisskokki. Ég kastaði á þær kveðju og hélt mína leið en snéri svo við eftir ca. 100 metra og hljóp þær uppi. Ákvað að skella mér með á æfingu með þeim og sé sko ekki eftir því. Fjölbreytnin sem þar stóð mér til boða var akkúrat það sem ég þurfti á að halda á þessum tíma. Ég held því fram að það sem þar fór fram og þær upplýsingar sem ég fékk frá Báru Agnesi Ketilsdóttur og Erni Gunnarssyni hafi verið ómetanlegar í að trúa því að ég gæti ekki bara klárað Laugavegsmaraþonið heldur aukinheldur náð góðum tíma.

Í byrjun júní fór ég aftur í 30+ km hlaup eldsnemma á laugardagsmorgni. Ég fór sömu leið og ég hafði farið í fyrsta skipti í 30 km hlaup, hlaupið sem mér tókst ekki að klára vegna örmögnunar. Í þetta sinn byrjaði ég aðeins hægar (ca. 5:50 mín/km) og skemmst er frá því að segja að ég tók vegalengdina, 32 km, í nefið! Ég átti heilan helling eftir og hljóp síðustu 8 km á hraðanum 5 mín/km og tók í lokin Klukkubergsbrekkuna eins og að drekka vatns (Klukkubergsbrekkan er askoti brött 500 metra brekka sem endar hjá blokk hæst í Setbergslandi í Hafnarfirði). Þennan dag rann upp fyrir mér að ég kæmi ekki bara til með að klára Laugaveginn og heldur myndi tíminn verða góður! Nú var komið að því að setja vara-markmið!

Viku fyrir Laugavegsmaraþonið var spenningurinn orðinn ægilegur. Ég gat vart rætt við fólk á förnum vegi án þess að koma hlaupinu að; ég var hreinlega orðinn óþolandi og óþolandi óþolinmóður! Síðustu 5 dögum fyrir hlaup eyddi ég í góðan nætursvefn, kolvetnisríkt mataræði og góða hvíld. Ég tók 12 km rólega æfingu laugardaginn fyrir Lagaveginn og svo tók ég 7 km æfingu á þriðjudeginum. Mér fannst óþægilegt að hlaupa svo lítið en treysti á orð margra þaulreynda hlaupara að hvíldin vikuna fyrir hlaup væri gulls ígildi.

Mataræðið var annars bara hefðbundið en ég gerði meira af því að borða pasta og hrísgrjón en ég var vanur. Sömuleiðis drakk ég bara sykrað kók en ekki sykurlaust kók eins og ég er vanur því ég taldi mig frekar þurfa að bæta við mig í kolvetnamagni frekar en hitt. Svo voru engir koffíndrykkir á boðstólnum eftir lok dags á miðvikudeginum fyrir hlaup. Það var nefnilega ekki rökrétt að vera að neyta mikils vatns og leggja áherslu á kolvetnadrykki (líkar best við Leppin) þessa vikuna ef maður ætlaði svo að „henda" vatninu út með því að neyta drykkja með koffíni en koffín er einmitt þvaglosandi og geri illt verra þegar maður vill halda vatni í líkamanum.

Kvöldið fyrir hlaup fór ég að sofa upp úr kl. 20. Ég hafði fengið góðan svefn alla vikuna (ca. 8-9 klst. á nóttu) en mér fannst mikilvægt að ná góðum svefni nóttina fyrir hlaupið. Ég var svo vaknaður áður en kl. sló 03 um nóttina. Spenningurinn var ægilegur! Ég kveið ekki neitt fyrir þessu hlaupi heldur var eingöngu tilhlökkun í brjósti mér.

Laugavegurinn 2009
Rútan til Landmannalauga fór hægt yfir að mér fannst. Ég vildi fara að byrja þetta hlaup og komast í mark! Félagsskapurinn var skemmtilegur en Ágúst Fjalar var mér við hlið eins og áður í undirbúningi fyrir hlaupið. Ég veit fyrir víst að þetta hlaup hefði ekki verið eins skemmtilegt né hefði það gengið eins vel fyrir sig ef Ágúst Fjalar hefði ekki notið við.

Komið var í Landmannalaugar upp úr kl. 8:30 og átti hlaupið að hefjast kl. 09:00 með þeim sem færu hraðast yfir. Ágúst Fjalar og ég áttum svo að byrja með hópi nr. 2, kl. 09:05. Nú fór kvíðinn að gera vart við sig! Gæti ég þetta yfir höfuð! Væri þetta fyrir mig? Ég sá þarna, að mér virtist, þaulreynda ofurmaraþonhlauparar sem höfðu gert þetta margoft áður. Úff!!!!! „Muna að byrja rólega og ekki sprengja þig" fór stöðugt í gegnum huga mér.

Landmannalaugar - Hrafntinnusker
Vegalengd: 12 km
Lóðrétt hækkun: 470 m

Ég og Ágúst Fjalar tróðum okkur fremst. Ég vildi endilega stjórna hraðanum eins lengi og mögulegt væri enda erfitt að taka fram úr á fyrstu metrunum. Við lentum fyrir aftan konu sem fór ansi hægt yfir þannig að ég bara varð að fara fram úr henni þrátt fyrir áætlanir um að taka því „verulega" rólega alveg yfir í Hrafntinnusker. Svo lullaði maður bara áfram á rétt um 5:30 mín/km fram að fyrstu brekku.

Einhvern veginn var leiðin í Hrafntinnusker sá hluti sem ég kveið hvað mest fyrir. Þeir sem höfðu farið þetta áður vöruðu mig við að fara þessa leið of hratt yfir því hægt væri með léttum leik að eyðileggja hlaupið á þessari stuttu vegalengd ef hraðinn yrði of mikill. En einhvern veginn þá fann ég lygilega lítið fyrir þessum 11-12 km og þegar komið var að fyrstu drykkjarstöð þá eiginlega trúði ég ekki að ég væri búinn með þetta. Ekki má svo skilja að þetta hefði ekki verið neitt mál en einhvern veginn var það þannig að ég hafði gert svo mikið úr þessum hluta hjá sjálfum mér að hversu erfitt sem þetta yrði þá yrði það alltaf auðveldara en ég hafði gert ráð fyrir. En þar fyrir utan þá var landslagið ægifagurt og maður hljóp ýmist á möl, mold, í snjó og með hveralykt í nefinu! Það var þetta sem Laugavegsmaraþonið gekk út; hlaup í stórbrotinni íslenskri náttúru!

Í fyrsta hluta leiðarinnar voru við samferða 4 hlaupurum sem virtust vera á svipuðu róli og við Ágúst Fjalar. Ég spurði þá hvort þetta væri þeirra hraði og reiknaði með ef svo væri þá yrði þessi hópur samferða e.t.v. stærstan hluta leiðarinnar. Svo fór þó að allir fóru þeir á undan okkur nokkrum km síðar en tveimur þeirra náði ég þó aftur áður en yfir lauk og komst svo að því að annar tveggja sem ég náði ekki hefði klárað einungis 3 mínútum á unda mér.

Þegar komið var fram á síðustu brúnina og við blasti fyrsta drykkjarstöðin varð mér ljóst að fyrsti hlutinn væri að baki og þetta hefði verið mun minna mál en ég reiknaði með. Á drykkjarstöðinni var boðið upp á vatn, Powerade og banana. Ég greip banana og ætlaði að fylla á brúsana mína 5 sem voru hver um sig um 200 ml. Skipti engum togum heldur tók starfsmaður þá úr höndunum á mér og spurði mig hvað ég vildi. Sá hún svo um að fylla á og stinga aftur í beltið mitt! Þvílíkri þjónustu og yndislegheitum frá starfmönnum á drykkjarstöðvum hef ég aldrei áður kynnst! Og þrátt fyrir að þetta sparaði ekki nema nokkrar sekúndur á staðnum þá var þetta þvílíkur stuðningur þegar ég hélt svo áfram að hlaupa; þarna var manneskja sem þekkti mig ekki neitt en lagði sig svo fram um að mér gengi vel að það hálfa hefði verið fullkomið! En svona var þetta ekki bara á fyrstu drykkjarstöð! Svona var þetta á öllum stöðvunum og hrósið og hvatningin sem ég fékk á öllum drykkjarstöðvunum var ómetanleg!


                                                                                                       Mynd: hlaup.is

Hrafntinnusker - Álftavatn
Vegalengd: 12 km
Lóðrétt lækkun: 490 m

Strax eftir Hrafntinnusker rann upp fyrir mér að tíminn sem ég næði í hlaupinu gæti orðið verulega góður. Ég trúði þessu því ég hafði náð í Hrafntinnusker á undir þeim tíma sem ég ætlaði mér (78 mínútur).  Klukkan sló í 76 mínútum þegar ég yfirgaf drykkjarstöðina við Hrafntinnusker.

Leiðin sem nú tók við var ekki síður falleg en sú fyrri. Þessi leið var auðveldari enda meira niður í móti. Reyndar voru snarbrattar Jökultungurnar nokkuð erfiðar enda var ég að leggja ofuráherslu á að þreyta lærleggina ekki of mikið því hlaupið var nánast nýhafið. Því gætti ég mín á því að fá ekki of mikið högg í hverju skrefi niður þessar bröttu brekkur. Eftir Jökultungurnar tók við nokkuð sléttur kafli þó með einstaka hækkunum sem svo endaði  við drykkjarstöðina við Álftavatn. Þar var stoppað fyrir vatn og Powerade og svo var vatni einnig kastað í fyrsta og eina skiptið í hlaupinu.

Mér leið vel á þessari leið og ekki síður vel en í fyrsta áfanganum. Ég fann þó að ég var farinn að þreytast og sat niðurhallinn frá Jökultungunum í mér, þó kannski meira andlega enn líkamlega. Annars fylgdumst við Ágúst Fjalar enn að og spjölluðum um hvernig hlaupið gengi, hvernig okkur liði, hver hraðinn væri og annað sem fyrir augu bar. Þessi leið var falleg eins og áður sagði en samt fannst sem ég fylgist minna og minna með því sem fyrir augu bar. Kannski var það þreyta sem gerði það að verkum en reyndar fannst mér síðar koma í ljós að líkaminn var að detta inn í einhvers konar „eigin takt" sem erfitt er að útskýra en ég mun gera þegar ég lýsi síðasta áfanga leiðarinnar.

Álftavatn - Emstrur
Vegalengd: 13,5 km
Lóðrétt lækkun: 40 m

Eftir um 4 km hlaup frá Álftavatni var komið að fyrstu ánni sem þurfti að vaða, Bláfjallahvísl. Það var algerlega yndislegt að vaða út í straumharða ána. Ástæður þess eru tvær að ég held; í fyrsta lagi vegna þess að ég hafði hlakkað til þess arna og í mínum huga varð þetta maraþon að því sem það varð vegna óbrúuðu ánna og í öðru lagi vegna  þeirra kærkomnu kælingar sem ég fékk við að vaða ískalda ána upp að hné. Það eina slæma var að í ánni var talsvert af sandi og skórnir fylltust af sandi um leið. Eftir á að hyggja gæti reynst happadrjúgt að vera með lágar legghlífar til þess að reyna að koma í veg fyrir að skór fyllist af sandi og smásteinum í hlaupinu og þá aðallega þegar vaðið er yfir árnar. Handan árinnar var svo taskan mín og þar voru próteinstykki, meira vatn, próteinblandað vatn og flatkaka með smjöri.

Ég stoppaði stutt við handan Bláfjallakvíslar. Mér finnst ekki gott að stoppa í hlaupum og vissi að sá tími sem ég myndi fá í hvíld myndi ekki nýtast mér í auknum hraða í hlaupinu. Mig var auk þess farið að verkja talsvert í vinstri fótlegginn allan, var kominn með smá krampa í vinstri kálfann, festurnar frá aftanverðum lærlegg og upp í mjaðmagrind voru farnar að pirra mig (eldgamalt vandamál) og báðir nárar voru byrjaðir að krampa. Ég ætlaði ekki að trúa því að einungis 28 km væru búnir og að ég væri þá þegar kominn með þessa verki þannig að ég eiginlega hunsaði skilaboð líkamans. Það kom svo í ljós nokkrum km síðar að það voru eiginlega einu mistök mín í þessu hlaupi.

Ég stoppaði vart nema um 3 mínútur við Bláfjallahvísl en gaf mér þó tíma til þess að drekka próteinvatnið mitt og drekka smá hreint vatn. Ég hafði ætlað að skipta um mittisbelti og taka vatnsbeltið sem tók rúmlega litra af vatni í stað þess beltis sem ég hafði haft frá byrjun hlaups. En ég hugsaði að þetta hefði gengið vel fram að þessu og því taldi ég rangt að breyta taktíkinni og skipta um belti. En mitt í þessum pælingum þá gleymdi ég að í beltinu sem beið mín í töskunni var auka skammtur af Íbúfeni og ég hafði talið að ég myndi þurfa á þessum skammti að halda þegar lengra kæmi inn í hlaupið. En eins og áður sagði var mig farið að verkja en ég hunsaði þau skilaboð þannig að öll verkjalyf voru skilin eftir að undanskilinni einni 200 mg töflu sem ég hafði sett í beltið sem ég notaði frá upphafi hlaups en sú tafla var hugsuð sem neyðartafla ef ég myndi misstíga mig eða eitthvað slíkt á þessum fyrri hluta hlaupsins (þangað til ég kæmi að Bláfjallakvísl).

Ég  stökk því næst af stað og var næsta stopp um 13 km síðar. Það voru eiginlega ekki liðnar nema um 15 mínútur frá því að ég yfirgaf bakka Bláfjallakvíslar að mig var farið að verkja illilega og þá aðallega í báðum nárum (smellir og krampar) og svo í sinafestunni í aftanverðum lærlegg/rasskinn. Það var þá sem ég áttaði mig á því að ég hafði skilið eftir nánast öll verkjalyfin mín. Bara við það að átta mig á þessu þyngdist hlaupið til mikilla muna. Vitneskjan um að ég þyrfti að þola þennan sársauka í rétt um 3 klst til viðbótar var mér erfið. Ég varð að taka ákvörðun: ætlaði ég að taka þessa einu töflu strax og vera orðinn þokkalegur eftir um 30 mínútur og eiga það svo á hættu og vera algerlega að drepast í lokin eða tæki ég töfluna eftir um klst. og gæti þá klárað hlaupið þokkalega? Ég eiginlega gerði hvorugt heldur hélt ég áfram og geymdi töfluna í beltinu. Á þessum tíma var ég hættur að sjá landslagið og hættur að heyra hvatningu ferðalanga sem ég mætti eða tók fram úr.

Þessi hluti leiðarinnar var að stórum hluta á sandi. Það var heppilegt að veður hafði verið t.t.l. þurrt þannig að sandurinn var ekki mjög erfiður yfirferðar. En vegna þeirra verkja sem ég fann fyrir þá fannst mér þetta alveg rosalega erfitt. Svo til að bæta gráu ofan á svart þá byrjaði að rigna eins og hellt væru úr fötu beint fyrir ofan höfuðið á mér. Nú var Ipodinn settur í gang og nú þurfti að bíta á jaxlinn. En það var meira: vindurinn sem hafði algerlega látið mig í friði fram að þessu kom af fullum krafti í andlitið á mér. Mér til happs hljóp ég uppi mikinn skrokk, Júlíus Jónasson, fyrrum handknattleiksmann og næstu 4 km eða svo hélt ég mig vart meira en um hálfan metra fyrir aftan Júlíus og nýtti hann sem skjól. Ég er ekki viss um að hann hafi kunnað vel við þetta en áfram hélt hann þó. Ég stoppaði svo á vatnsdrykkjarstöð nokkru síðar sem Júlíus gerði ekki. Ég stoppaði því mun skemur en ég hefði þurft því ég ætlaði ekki að missa skjólið mitt! Ég hljóp Júlíus aftur uppi. Nú virtist sem það drægi verulega af honum því hraðinn minnkaði. Kannski dró hann úr hraðanum til þess að ég hætti að nýta hann sem skjól og færi fram úr. Ég tók fram úr að lokum því hraðinn var of lítill þrátt fyrir að verkurinn ykist stöðugt.

Í kringum 36 km var ég u.þ.b. að gefast upp. Ég vart hljóp þegar tækifæri gafst til og ég gekk upp allar brekkur hvort sem þær væru 2 eða 10 gráður. Ég nuddaði festuna í aftanverðu læri hvenær sem færi gafst. Ég VARÐ að taka ákvörðun! Upp í mig fór eitt stykki, eina stykkið sem ég átti, 200 mg Íbúfen og ég er ekki frá því að mér hafi strax liðið betur!

Stuttu síðar kom ég loksins á enn eina brúnina og nú virtust sandarnir að baki. Þetta var þvílíkur léttir því örfáa metrum neðar blöstu skálarnir í Emstrum við! Nú gat ég farið að telja niður í km talið. Einungis rétt um 15 km voru nú eftir. Ég bara HLYTI að geta þetta!

Þegar ég kom í Emstrur tók á móti mér þvílíkt einvala lið af fólki sem vildi ekkert annað en að mér gengi vel og að mér liði sem best. Þarna tók maður utan um mig og spurði hvort eitthvað bjátaði á en ég sagði að ég væri góður en spurði samt hvað væri nákvæmlega langt eftir. Hann gat ekki svarað því og kom svo í ljós síðar að þessi óvissa um hversu langt væri eftir háði mér verulega í hraðastjórnun í fyrri hluta þessa síðustu 16 km.

Emstrur -  Þórsmörk
Vegalengd: 16 km
Lóðrétt lækkun: 300 m

Skrokkurinn var algerlega búinn þegar ég hélt áfram frá Emstrum. Það var talsvert brött brekka niður á við frá skálunum og ég var algerlega að drepast í vinstri fótleggnum. Ég spurði sjálfan mig hvort verkjalyfið ætlaði ekki að fara að virka! Ég kæmi ekki til með að klára hlaupið með þennan verk.

En fljótlega eftir Emstrur datt verkjalyfið inn og hlaupið fór að ganga betur. Þetta var líka verulega sálrænt því frá Emstrum gat ég farið að telja niður; ég hlyti að geta klárað aumingjalega 16 km!!

Eftir Emstrur hljóp ég nánast einn alveg að Kápunni sem er um 4 km frá markinu í Þórsmörk. Ég setti mér þó það markmið að ef líðanin yrði betri myndi ég taka Esjutaktíkina mína á þetta og ná hverjum og einum sem ég sæi fyrir framan mig og þá gilt einu hversu langt væri í þann hlaupara.

Mér fór að líða vel......mér fór að líða virkilega vel. Ég slökkti á tónlistinni því mig langaði til þess að „heyra" í líkamanum framkvæma þessa vinnu sem eftir væri. Ég horfði niður fyrir mig og sá fæturna hreyfast. Ég hafði alveg ótrúlega lítið fyrir þessu. Púlsinn var rétt um 160 slög á mínútu og mér leið alveg ótrúlega vel.

Tilfinningin sem ég var farinn að finna fyrir á þessum tíma var ólýsanleg. Ég þekki líkamann minn mjög vel enda verið mikið í íþróttum frá unga aldri en upplifunin var ótrúleg á þessum tíma og í fyrsta skipti sem mér fannst ég eiginlega ekki stjórna líkamanum sjálfur. Líkami minn hélt bara einhvern veginn áfram, tók skrefin hvert af öðru án þess að vera sagt að gera það og mér fannst eins og hann væri búinn að taka að sér þetta verkefni að hlaupa þessa 55 km og það væri ekkert sem hugur minn gæti gert við því. Líkaminn þrammaði í eigin takti, hvert hlaupaskrefið af fætur öðru og hafði nánast ekkert fyrir því. Mér fannst hreinlega eins og líkaminn gengi sem vel smurð vél!

Sú hugsun fór því að gera vart við sig hjá mér að ég gæti alveg keyrt allhressilega á þessa 12-13 km sem eftir væru. Ég jók því hraðann og var kominn rétt í kringum 5:30 mín/km. Um það bil á miðri leið fór ég að sjá til Þórsmerkur og við tók útsýni sem vart verðu líst með orðum. Jöklarnir tveir sem gera Þórsmörk að þeim sælureit sem raun er störðu beint í andlitið á mér og mér fannst þeir mana mig til þess að klára hlaupið með stæl. Ég hafði samt í raun og veru ekki hugmynd um hversu langt var eftir því Garmin úrið mitt hafði „klikkast" stuttu eftir Emstrur. En ég sá hvar Þórsmörkin ætti að vera og gat reiknað þetta út, a.m.k. að hluta til. Vart fleiri en 8 km voru eftir. Áfram með þig drengur; þú ert búinn að æfa fyrir þetta sl. 16 vikur!

Nú kom Ipodinn að góðum notum. Ég setti allt í botn og hraðinn hjá mér jókst við þetta. Hann var nú kominn í vel undir 5 mín/km og mér leið vel. Ég tók fram úr hverjum hlauparanum á fætur öðrum og mér taldist til að þeir hefðu orðið einir 13 sem ég tók fram úr síðustu 8-10 km.

Mér fannst ég eiga nóg eftir!

Nú var allt örlítið undan fæti og ýmist sandur, möl eða hraun sem á vegi mínum varð. Ég kom auga á einn hlaupara sem hafið tekið fram úr mér á fyrstu km hlaupsins og ég hafði haft á orði við Ágúst Fjalar að þessum myndum við taka fram úr áður en hlaup lyki. Ég „setti" hann fyrir aftan mig rétt áður en að drykkjarstöðinni kom við Kápuna „ógurlegu".

Þegar að Kápunni kom tók á móti mér yndislegasta fólk í heimi og fullt hvatningar. Þau hentu vatni í 2 brúsa hjá mér og réttu mér Powerade og banana. Ég stoppaði vart meira en 15 sek. þarna og bara hljóp af stað; líkaminn var bara tilbúinn að klára þetta.

Svo kom Kápan!

Kápan var dálítið furðulegt „hugtak" í mínum huga því fullt af fólki hafði talað um hver erfið hún væri svona í lok þessa erfiða hlaups og síðast bara um morguninn þegar við snæddum morgunmat í Hrauneyjum var varað við Kápunni. Hún hafði því fengið ákveðinn sess í huga mínum og hafði ég gert mikið úr henni í huga mínum. Ég tók svo fyrstu skrefin upp Kápuna og fann að hún tók verulega í. Ég beit á jaxlinn og tók fram úr einum hlaupara, ég sjálfur á „hálfhlaupi" og öðrum hlaupara, ég sjálfur á hraðri göngu. Fyrir framan mig var nú heil hersing af áhorfendum sem komu til okkar og buðu okkur súkkulaði. Undir venjulegum kringumstæðum hefði ég ekki þegið þetta því súkkulaði fer ekki vel í mig á hlaupum en ég vissi að það voru minna en 4 km eftir og að jappla á góðu súkkulaði gæti bara dregið athyglina frá sársaukanum við að hlaupa Kápuna ógurlegu. Þarna stóð þetta fólk og klappaði og stappaði í okkur stálinu og gaf okkur mat! Ótrúleg lífsreynsla og algerlega ógleymanleg upplifun! En það átti meira eftir að koma!

Fyrir framan mig voru nú 3 hlauparar; þeir síðustu sem ég hafði séð fyrir framan mig þegar ég sá sem lengst fram á veginn og reyndar svo einn af þeim sem við Ágúst Fjalar hlupum spölkorn með í upphafi hlaups en hafði svo stungið okkur af örlítið síðar. Ég varð að standa við loforðið og ná þeim sem ég hafði séð á hlaupum fyrir framan mig. Ég náði þessum hlaupurum á niðurleið frá Kápunni og ákvað að „hanga" í þeim þangað til tækifæri gæfist að skilja þá eftir. Þetta tækifæri gafst strax því þegar við komum að síðustu ánni, Þröngá en hún er einna dýpst (0,5-1,0 m) og straumhörðustu allra vaða á Laugaveginum. Ég nánast henti mér í ána því ég ætlaði mér að komast fram úr þessum hlaupurum. Þröngáin tók vel í og þá sérstaklega í nárann enda krafturinn sem lenti á fótleggjunum í hverju skrefi óvenjulegur og erfiður. Mér tókst að komast fram úr tveimur þeirra við ána en einn þeirra virtist gera sér grein fyrir ætlun minni og hélt 5-10 metra bili á milli okkar nokkur hundruð metra til viðbótar. Svo komu brekkur og þá fór hann að láta á sjá og hætti hann svo að hlaupa eftir eina brekkuna og leiðin var greið fyrir mig fram úr honum.

Restina af hlaupinu, sem mér reiknaðist til að væru um 3,5 km, fór ég á 4:20 - 4:40 mín/km og skipti þá ekki máli hvort leiðin lá upp eða niður. Ég var í hrikalegum ham og tók fram úr tveimur hlaupurum til viðbótar sem ég hafði ekki séð áður á leiðinni. Annar þessara koma að máli við mig þegar hlaupi var lokið og spurði mig hvaðan ég hefði fengið þessa orku?

Ég var á blússandi siglingu það sem eftir var og átti nokkrum sinnum erfitt með að halda mig á slóðanum og falla ekki niður gróna hlíð! Svo mætti ég stórum hóp af fólki sem var þarna gagngert til þess að hvetja okkur hlauparana. En þessi hvatning var öðruvísi því þetta var fólk sem greinilega var í góðu formi og vissi hvernig líðanin var hjá okkur hlaupurunum. Þau vissu að nú gilti ekkert góðlátlegt klapp heldur voru öskrin og grimmdin sem þurfti til að ná fram núna hjá hverjum og einum sem var u.þ.b. að klára þetta frábæra hlaup. Þau görguðu og öskruðu á mig, steyttu hnefa og sýndu mér hvernig ég þyrfti að hugsa um þessa 2-3 km sem eftir voru. Ég bætti í hraðann enda allt vel niður í móti.

Svo fann ég grilllyktina og vissi að þetta væri að taka enda!

Síðasta beygjan rann upp og þar stóð Inga Þóra Ingadóttir vinkona mín og líkamsræktargúrú með meiru og hvatti mig áfram. Það var þvílíkt gaman að sjá hana og gæsahúðin gerði vart við sig enda sá ég nú rásmarkið og að hlaupið tæki brátt enda.

Sprettur Sprettison tók nú við og kláraði þetta frábæra hlaup og það var nú þannig að þegar ég kom í mark þá sá ég að á minni klukku stóðu 6 klst. 3 mín og 15 sek. Ég trúði varla eigin augum og ákvað að tala sem minnst um þennan tíma þar til ég myndi fá þetta staðfest. Klukkan mín gæti auðveldlega hafa klikkað líkt og Garmin úrið gerði fyrr í hlaupinu.

Nokkru síðar, eftir að ég og Ágúst Fjalar vorum búnir að fara í sturtu, „kalda" pottinn og búnir að fá okkur að borða þá fékk ég staðfest að tíminn væri:

6 klst. 3 mín og 27 sek.

58. sæti af 313 hlaupurum

Betri tími en ég hafði þorað að vona eftir sáraukann sem ég hafði þurft að þola drjúgan hluta af hlaupinu.

En ég vissi og veit að ég get gert betur og þrátt fyrir að bjartsýnasta markmiðið mitt hafi verið 6 klst. plús/mínus 30 mín þá var ég ekki alveg 100% sáttur. Því var farið að plana næsta hlaup, Laugavegurinn 2010, yfir matnum, um 1 klst. eftir að Laugavegshlaupinu 2009 lauk!


                                                                                                      Mynd: hlaup.is

Þegar ég lít til baka yfir farinn veg þá er undirbúningur Laugavegshlaupsins og hlaupið sjálft ein mesta, besta og skemmtilegasta lífsreynsla mín fram til þessa. Laugavegurinn 2009 var erfiður, það er alveg á hreinu, en það var meira skemmtilegt en erfitt að hlaupa þessa tæpa 55 km.

Ég hafði sett mér 3 markmið:

1. Að klára hlaupið

2. Að hlaupa undir 7 klst. ef veður yrði leiðinlegt/líkaminn yrði til vandræða

3. Að hlaupa á 6 klst. plús/mínus 30 mín. ef allt gengi að óskum og hvorki veður né líkami yrðu til vandræða.

Miðað við að ég hafði aldrei hlaupið lengra en 33 km í einum rykk og ekki keppt t.d. í heilu maraþoni (sem kunnugir segja að hefði skipt verulegu máli í Laugaveginum upp á hraðastjórnun) og að teknu tilliti til þess að undirbúningur fyrir hlaupið var ekki með þeim hætti sem hefði átt að vera (t.d. var km fjöldinn í erfiðustu vikunum einungis um 55/viku en hefði svo vel hefði átt að vera að vera um 80-100 km) þá get ég auðveldlega sagt að:

Hlaupið gekk vonum framar!

Ég get ekki sagt að einn hluti Laugavegarins sé erfiðari en annar en sá tími sem mér leið sem verst í fótleggnum var um sandana frá Bláfjallahvísl að Emstrum. Sandarnir eru heldur svo sem ekkert skemmtilegir og ekki mjög margt að sjá á þessum slóðum, a.m.k. ekki í þessu Laugavegshlaupi.

Ef það er eitthvað sem stendur upp úr frá þessu hlaupi þá er það upplifunin þegar mér fannst líkaminn taka yfir í hlaupinu eins og áður hefur verið minnst á en ekki síður klapp þeirra áhorfenda sem á vegi mínum urðu. Klapp og hvatning þessa fólks var ómetanleg og gerði það að verkum að hlaupið varð sú skemmtun sem raunin varð.

Að lokum langar mig til þess að þakka Íþróttabandalagi Reykjavíkur fyrir einstaka skipulagningu þar sem mér fannst algerlega allt ganga upp.

Laugavegurinn 2010: 5 klst. og 30 mín, plús/mínus 30 mín!

21. júlí 2009
Steinar B. Aðalbjörnsson
naering@hotmail.com