Leiðin á Laugaveg 2018: Axel Einar Guðnason

birt 11. júlí 2018

FH-ingarnir Axel Einar og Víðir Þór Magnússon í Vestmannaeyjum.Er ekki vorið skemmtilegasti tími ársins? Loksins farið að birta aftur eftir langan vetur og hitatölurnar að lagast eftir veturinn. Alltaf fleiri og fleiri á ferli, margir sem hafa dregið sig í hlé yfir veturinn eru að koma sér af stað aftur og einhvern veginn bjartara yfir öllum þó við bíðum enn eftir sumrinu. Ég verð samt að viðurkenna að hlaupaæfingar voru ekki efstar á óskalistanum mínum í mars, eftir erfitt maraþon í Tokyo í lok febrúar. Ég var einfaldlega þreyttur, bæði eftir hlaupið og langt ferðalag. En eftir letikastið mitt eftir maraþonið í Berlin í september gat ég ekki hugsað mér að hætta allri hreyfingu, þá er svo erfitt að koma sér af stað aftur. Því tók ég nokkur skokk upp í Setberg og mætti á inniæfingarnar hjá Hlaupahópi FH þar sem hlaupið er á mjúkri hlaupabraut.Auðvitað mætti ég í síðasta hlaupið hjá FH og Bose og var bara alls ekki á slöppum tíma, það er gaman að geta haldið forminu aðeins í hvíldinni. Svo er að gefa blóð sem er ágætt að gera áður en farið er aftur á fullt skrið. Til viðbótar prófaði ég að synda á laugardögum í staðinn fyrir löngu hlaupin, skellti mér á skriðsundnámskeið og plankaði daglega með vinnufélögum mínum.

Þannig leið mars og um páskana var kominn tími til að byrja aftur í hlaupaprógrammi enda aðeins 15 vikur í næsta stóra áfanga, Laugavegurinn 14. júlí.

Á palli í FlóahlaupinuÞað gladdi mig ótrúlega mikið að fyrrverandi vinnufélagar mínir gáfu mér flott hlaupaúr í kveðjugjöf og er karlinn loksins kominn á Strava. Ekki spurning að það er svolítill léttir að þurfa ekki lengur að hlaupa alltaf með þungan síma til að trakka leiðina, það er töluvert auðveldara að vera með úr sem tekur óratíma að verða batteríslaust. Fyrsta keppnishlaupið með úrið var Flóahlaupið í Gaulverjabæ, það er alltaf jafn gaman að leggjast í smá ferðalag til að hlaupa. Þetta var í annað sinn sem ég tók þátt, í fyrra var ég illa haldinn af magaverk en náði samt að pína mig í markið á undir 45 mínútum í fyrsta sinn og því átti ég súrsætar minningar af hlaupinu.Í þetta sinn gekk svolítið betur en formið var ekki komið í nógu gott stand eftir maraþonið mitt og því var ég hálfri mínútu frá mínu besta, endaði á rétt rúmlega 44 mínútum. Hins vegar dugði það til að komast á pall í fyrsta sinn á ævinni, varð í þriðja sæti í aldursflokknum mínum. Ég veit ekki alveg hversu mikið afrek það var, ég þurfti þó að hlaupa fram úr Flandradrengnum Gunnari Viðari undir lokin þegar hann var orðinn draghaltur. Hann tók ekki í mál að við myndum hlaupa saman og rak mig á undan sér alla leið í markið, mikill höfðingi þar á ferð.Frábær HeimayjarhringurSíðasta laugardag í apríl var Heimaeyjarhringurinn hlaupinn í fyrsta sinn og kæru hlauparar, takið frá daginn 4. maí á næsta ári - hér er einfaldlega um að ræða eitt skemmtilegasta utanvegahlaup ársins!Axel búinn á því í markinu eftir Heimaeyjarhringinn en Gunnar Viðar Gunnarsson ákvað að skella sér í sólbað!

Rásmarkið og endamarkið er í Skansinum og er hlaupið á malbiki, grasi, malarstígum, tröppum, fjörusandi, vikri og hrjóstugu hrauni, alls 20 km hringur í kringum Heimaey. Leiðin er ótrúlega fjölbreytt og krefjandi, t.d. er farið alla leið upp á Stórhöfða og auðvitað er svolítill mótvindur stóran hluta leiðarinnar. Við fórum tveir frá Hlaupahópi FH, Víðir Þór Magnússon hélt uppi heiðri félagsins og endaði í þriðja sæti á frábærum tíma en ég endaði svolítið aftar. En tíminn er algjört aukaatriði, hér gildir að njóta hlaupsins í ótrúlegu umhverfi enda Vestmannaeyjar einn fallegasti staður á landinu.

Maraþonundirbúningur og íslensku götuhlaupin
Í maí byrja svo götuhlaupin fyrir alvöru, algjör veisla fyrir keppnishlaupara. Ég fór í Icelandairhlaupið og Fjölnishlaupið en það er alltaf svolítið erfitt að keppa í götuhlaupum þegar maður er rétt að byrja í æfingaprógrammi. Ég þakkaði þó mínu sæla að hafa komist tímanlega í endamarkið í fyrrnefnda hlaupinu, skömmu síðar brast á með hríðarbyl sem gaf svolítið tóninn fyrir veðrið í sumar.

Hvítasunnuhlaup Hauka er haldið árlega á annan í Hvítasunnu, hlaupið er um uppland Hafnarfjarðar í stórkostlegu umhverfi. Þeir mega eiga það Haukarnir að hlaupið er frábærlega skipulagt og æðislegt að taka þátt í því. Í fyrra var ég með brákuð rifbein og gekk stærsta hluta leiðarinnar en fór svolítið hraðar að þessu sinni, bætti tímann um tæpan klukkutíma - geri aðrir betur. Samt sem áður fór svolítið í taugarnar á mér í öllum vorhlaupunum að hafa ekki getað hlaupið hraðar. Ég set markið greinilega of hátt í byrjun hlaupanna og er með aðeins of miklar kröfur á sjálfan mig án þess að eiga fyrir því.

Hlaupahópur FH fyrir Mývatnsmaraþonið, Jón Gunnar Jónsson, Edda Dröfn Eggertsdóttir, Arnar Karlsson, Birna Björk Árnadóttir og Axel. Einar Eiríkurlagður af stað í fullt maraþon og náðist ekki á mynd.Meðvindur í MývatnsmaraþoniÞað kom því eins og skrattinn úr sauðaleggnum að koma í mark í næsta hlaupi á geggjuðum lokatíma. Við fórum fimm úr FH í langan bíltúr norður í land til að taka þátt í Mývatnsmaraþoni. Það er alltaf jafngaman að ferðast og taka þátt í hlaupum út á landi, og enn skemmtilegra í góðum félagskap.Einar Eiríkur gerði sér lítið fyrir og sigraði í glænýju Hraunhlaupi deginum áður og hljóp svo fyrstur í mark í heilu maraþoni daginn eftir á rétt rúmlega 3 klst, glæsilega gert! Við hin fórum "bara hálft" og það var ansi sérstakt hlaup.

Það var mun meiri vindur en við höfðum gert ráð fyrir og svolítið kómískt að húka í rásmarkinu í skjóli rútunnar að bíða eftir startinu. Það var mikill hliðarvindur til að byrja með og hlauparar áttu fullt í fangi með að passa að fæturnir myndu ekki krækjast saman þannig að maður myndi fella sjálfan sig. En um leið og beygt var í norður fengum við vindinn í bakið og þvílík flugbraut! Við tók 10-12 km kafli þar sem hraðinn var fáránlegur á tímabili. Samkvæmt Strava setti ég pb í bæði 5 og 10 km í miðju hálfmaraþoni!

En hlaupið var líka svolítið erfitt, brekkur og auðvitað fengum við líka vind í fangið annað slagið. Einn af kostunum við þessi fámennu hlaup er að það er auðvelt að sjá hversu margir eru fyrir framan. Mér taldist til að ég væri í þriðji karlinn fljótlega í hlaupinu, eftir að ég fór fram úr tveimur dönskum strákum. Það nærir alltaf keppnisskapið þegar fáir eru fyrir framan og ég sá verðlaunapallinn í hyllingum, því var ákaflega svekkjandi þegar annar af dönsku strákunum þaut fram úr mér aftur, rétt fyrir miðbik hlaupsins. Þá fóru ýmsar hugsanir af stað, ég gæti ómögulega farið hraðar og náð honum aftur, hann virtist ekkert hafa fyrir þessu. Ég ákvað því að halda bara mínu striki, hlaupa áfram eins hratt og ég kæmist - ég væri þá viðbúinn ef hægðist á þeim sem framar voru. Það kom því verulega á óvart stuttu síðar þegar sá danski stoppaði skyndilega og fór að bjástra við drykkjarbeltið sitt, aðspurður amaði ekkert að honum. Það var því ekkert annað að gera en að halda áfram, gefa allt í botn og bíða þess að hann myndi hlaupa mig uppi aftur. Það virkaði óhemju hvetjandi að vita af honum fyrir aftan og gera sitt besta til að halda honum þar.

Arnar Karlsson var næstur á undan og mér gekk ljómandi vel að halda í við hann. Hann er auðvitað mun öflugri hlaupari en ég og því var góð tilfinning að bilið væri svona stutt. Alltaf beið ég eftir stundinni þegar sá danski myndi tipla fram úr mér aftur en það gerðist einfaldlega ekki. Hann var töluvert langt fyrir aftan við vinstri beygjuna hjá Reykjahlíð og rétt rúmlega 3 km í markið. Þar byrjaði erfiðið fyrir alvöru, nokkrar brekkur og vindurinn í fangið. Síðasta brekkan upp að endamarkinu við Jarðböðin var óhemju erfið en hafðist að lokum. Ég kom í mark hálfri mínútu á eftir Arnari, á 1:31:52 sem er fáránlega flottur tími og bæting upp á 5 mínútur. Vissulega var meðvindur drjúgan hluta leiðarinnar en mér fannst ég bara eiga það skilið eftir öll keppnishlaupin í gegnum tíðina sem hafa verið hlaupin í mótvindi!

Frábær upplifun í FæreyjumNæst á dagskrá var heimsókn okkar Arnars til vina okkar í Færeyjum. Ég hafði séð umfjöllun um Tórshavn Marathon um áramótin og sýndist þetta vera spennandi hlaup. Niðurstaðan var að ég hefði ekkert að gera í heilt maraþon í byrjun júní, ég væri að undirbúa mig fyrir Laugaveginn og gæti ómögulega bætt því á mig, afskrifaði þetta hlaup einfaldlega.Þá datt mér í hug að það væri tilvalið að taka þátt í hálv marathoni sem er haldið á sama tíma, þvílík snilld. Það þarf ekkert alltaf að af keppa í fullu maraþoni í útlöndum. Við fórum því á vit ævintýranna fyrstu helgina í júní og þvílík skemmtun!Arnar Karlsson og Axel, kvöldið fyrir Torshavn marathon.

Það er æðisleg upplifun að heimsækja frændur okkar í Færeyjum og kynnast landi og þjóð, þetta er smækkuð útgáfa af Íslandi með smá tvisti. Fljótlega við komuna fór Arnar að tala um að skipta yfir í heilt maraþon. Við vorum búnir að súpa hveljur yfir öllum brekkunum í brautinni og því gat ég ekki hugsað mér að skipta, treysti mér einfaldlega ekki til að hlaupa maraþonhlaup með tveggja daga fyrirvara en ég velti því alvarlega fyrir mér. En Arnar var búinn að bíta þetta í sig og breytti yfir í heilt maraþon.

Það var búin að vera þoka yfir Þórshöfn frá því við mættum á svæðið en á hlaupadegi skein sólin skært og heitasti dagur ársins beið hlauparanna. Það voru nokkrir ansi góðir hlauparar mættir til leiks og margir útlendingar í hópnum. Fyrstu 5 km er hringur um bæinn, upp og niður brattar brekkurnar - svo er haldið úr bænum, fyrir Hvítanes og yfir í Kaldbaksfjörð. Þar snúa hálfmaraþonarar fljótlega við en þeir sem hlaupa heilt maraþon fara alla leið í þorpið Kaldbak sem er hinum megin við fjörðinn áður en þeir snúa við.

Flottasta bílnúmer í heimi hjá frændum okkar í Færeyjum.Flugur, hiti, vindur og brekkurVið ræsingu fór ég enn einu sinni of hratt af stað og missti púlsinn upp í rjáfur. Því var ég fljótt móður og másandi og ekkert annað að gera en að hægja á og missa betri hlaupara fram úr. Á Hvítanesinu fóru Arnar og Gísli Einar Árnason fram úr og virtust ekkert hafa fyrir þessu. Þá var orðið stutt í snúningspunktinn og þar mætti ég öllum hálfmaraþonhlaupurunum og taldist til að ég væri í 14. sæti þegar hlaupið var rétt rúmlega hálfnað. Ég var í svolítilli sjálfsvorkunn að hafa ekki getað hlaupið svolítið hraðar en þegar ég mætti hafsjó af hlaupurum á leiðinni til baka, rjátlaði það svolítið af mér en mikið var hlaupið erfitt. Hitinn orðinn verulegur og því ekkert annað að gera en að rífa sig úr bolnum eins og ég gerði yfirleitt í Florida. Á bakaleiðinni eru tvær svakalegar brekkur sem hvor er í kringum kílómetri að lengd og þar missti ég eina kraftmikla konu fram úr mér en náði í staðinn einum færeyskum pilti sem virtist bugaður af brekkunum. Ofarlega í seinni brekkunni fór fluga í munninn á mér og mikið assgoti var það ógeðslegt. Ég kúgaðist og var nálægt því að stoppa og æla í vegakantinn en það leið hjá.Síðustu fimm km eru að mestu leyti niður í móti, uppáhaldið mitt! Loksins var hugurinn orðinn svolítið skýr eftir flugnaátið og púlsinn undir kontról. Næsti hlaupari á undan var of langt í burtu til að ég gæti náð honum, samt dró ég svolítið á hann. Ég hafði meiri áhyggjur af þeim sem var fyrir aftan og fannst hann nálgast fullhratt en það var auðvitað ekkert í boði að hann færi fram úr áreynslulaust. Mér tókst að halda honum í skefjum enda hljóp ég eins hratt og fætur toguðu og rann í markið 16 sekúndum á undan honum. Það var gríðarleg stemning á síðustu metrunum, fullt af áhorfendum og ekki skemmdi fyrir að Unnur Þorláksdóttir rétti mér íslenska fánann og því hljóp ég með hann á lofti, ber að ofan í markið við ágætar undirtektir áhorfenda. Ég hlunkaðist niður í marksvæðinu, alveg búinn á því, sveittur og sólbrunninn - mér telst til að ég hafi drukkið tvo lítra af vökva á fáeinum mínútum.

Lokatíminn var 1:41:10 sem var rúmlega níu mínútum lakari tími en í Mývatnsmaraþoninu átta dögum fyrr en aðstæðurnar voru auðvitað gjörólíkar. Strava segir að hækkunin hafi verið 305 metrar í Þórshöfn sem jafngildir tæplega 3% halla þegar þessu er deilt á helming leiðarinnar. Til viðbótar var hrikalega heitt og auðvitað mótvindur stóran hluta leiðarinnar, það var því ekkert annað að gera en að gleðjast yfir árangrinum. Það kom svo skemmtilega á óvart þegar nafn mitt var kallað upp í verðlaunaafhendingu í aldursflokknum mínum, fékk brons og fékk að standa á verðlaunapalli í útlöndum! Þetta var nokkuð óvænt enda hefði lokatíminn minn ekki dugað til að komast á pall í fyrra.

Fljótlega komu þó í ljós leið mistök í tímatökunni en Gísli Einar fékk ekki skráðan lokatíma fyrr en seint og um síðir - hann var í aldursflokknum mínum. Hann var því réttmætur bronsverðlaunahafi og fékk örlitla sárabót daginn eftir á flugvellinum, þá hóaði ég saman þeim Íslendingum sem ég fann og hengdi bronsið á hann við dúndrandi lófaklapp. Þrátt fyrir þetta klúður í tímatökunni er Tórshavn maraþonið gríðarlega vel skipulagt og ekki annað hægt en að mæla eindregið með hlaupaferð þangað á næsta ári.

Restin af júní fór í æfingar með FH-ingum og öll keppnishlaup um helgar lögð til hliðar. Ég stalst þó í Ármannshlaupið í byrjun júlí en gekk ekkert sérstaklega vel. Maginn var eitthvað að stríða mér en ég var örugglega með innstæðu fyrir pb-i ef allt hefði verið með felldu - það bíður þá betri tíma. Það hefði verið gaman að taka þátt í fleiri hlaupum í sumar en það er heilmikil skuldbinding að skrá sig í Laugavegshlaupið, það er ekkert vit í öðru en að láta æfingarnar ganga fyrir og reyna að vera vel undirbúinn. Þrjár lengstu æfingarnar voru nálægt 35 km og nóg af brekkum og óteljandi ferðir upp og niður Helgafellið. Þetta hefur gengið ljómandi vel og engin ástæða til annars en að vera þokkalega bjartsýnn á gott gengi á Laugaveginum og vonandi verð ég nær sex tímunum en sjö. Þrátt fyrir góðan undirbúning verður samt ekki á vísan að róa enda margt sem spilar inn í lokatímann.Við Skógarfoss eftir hlaup yfir Fimmvörðuháls með Hlaupahópi FH.

Þetta kemur allt saman í ljós laugardaginn 14. júlí og aldrei að vita nema hlaupinu verði gerð skil í nýjum pistli.