Lengst inn í fjallasal í ítölsku Dólómítunum

uppfært 09. ágúst 2020

Lavaredo ultra trail er dásamlegt 120km hlaup með 5800m hækkun í Ítölsku Dólómítunum. Hlaupið byrjar og endar í smábænum Cortina en þar eru aðeins tæplega 6000 íbúar. Töluvert fleiri vinna þó við ferðaþjónustu þar á álagstímum. Það er töluvert ferðalag að koma sér á staðinn en nokkrir möguleikar eru fyrir hendi. Við Jóda völdum að fljúga með millilendingu til Feneyja og keyra þaðan, þannig tók ferðalagið okkur um 15 tíma. Hitabylgja gekk yfir Evrópu en Cortina stendur í um 1200m hæð svo hitinn var ekki eins svakalegur þar og í borgunum en hann var samt sem áður mjög mikill.

Hafdís
Hafdís í tignarlegum fjallasal.

Æfingarnar þessa fimm mánuði sem liðnir voru frá hlaupinu í Hong Kong höfðu gengið mjög vel, ég æfði á fjölbreyttu undirlagi og tók styrktaræfingar frá Bigga þrisvar í viku. Líkaminn var í góðu standi fyrir utan þráláta beinhimnubólgu sem hefur verið að angra mig undanfarin ár og smá iljarfellsbólgu sem mér fannst ég nokkurn veginn búin að ná tökum á.

Stressið hvarf að kvöldi hlaups
Hlaupið var ræst á föstudagskvöldi kl. 23:00 í miðbænum þar sem allir 1800 þátttakendurnir starta á sama tíma. Á hlaupadaginn fór að færast stress og kvíði yfir mig sem stafaði líklega mest af óvenjulegum tíma startsins en ég hafði ekki áður byrjað svona hlaup að kvöldi til. Hlaupafélagarnir kepptust við að stappa í mig stálinu og þegar hlaupið var ræst var allt stress farið og eintóm gleði og tilhlökkun til staðar.

Mitt markmið var að njóta í botn og reyna að koma í mark á laugardagskvöldi fyrir miðnætti þannig að tíminn væri undir 25 klukkutímum.

Hlaupinu mínu er hægt að skipta upp í þrjú hlaup; nóttin (fyrstu 48km), dagurinn (km 48-95) og svo kvöldið (km 95-120). Nóttin gekk hrikalega vel, það var miklu auðveldara en ég hélt að hlaupa inn í dimma nóttina. Dagurinn reyndist mér erfiðastur, ég fann mikið fyrir kæfandi hitanum í bröttustu brekkunum í mestu hæðinni og andardrátturinn varð astmakenndur. Við fórum hæst í um 2500m hæð og því var ekkert annað að gera en að hægja verulega á og njóta þeim mun meira. Þvílík og önnur eins fjallasýn, ég settist og lagðist niður og virti fyrir mér fegurðina, hvíldi mig, nærði mig og kældi mig í lækjum og ám. Orkan mín jókst til muna þegar sólin fór að hverfa bak við fjallgarðinn seinnipartinn og þá fór hraðinn að aukast aftur.

Ég var farin að finna fyrir blöðrum undir iljunum enda var ég blaut í fæturna nánast allt hlaupið því óvenju mikið vatn var í lækjum og ám og voru blöðrurnar aðeins að pirra mig á niðurleiðinni. Annars fann ég hvergi fyrir þreytu í vöðvum og engir krampar létu sjá sig. Beinhimnubólgan var ekkert að trufla mig en ég fann aðeins fyrir iljarfellsbólgunni.

Nutella, appelsínur og piparbrjóstsykur
Drykkjarstöðvarnar á leiðinni voru átta og mest voru 20 km milli stöðva. Mikill troðningur var á fyrstu tveimur drykkjarstöðvunum svo þar stoppaði ég mjög stutt. Raunar stoppaði ég frekar stutt á öllum stöðvunum, fyllti á brúsana, fékk mér appelsínur og ristað smábrauð með Nutella og hélt áfram með smá nesti í poka. Ég var meira í að stoppa við lækina og í bröttu brekkunum þegar ég þurfti á því að halda.

Image3
Hluti íslenska hópsins sem tók þátt í Lavaredo hlaupunum.

Þrátt fyrir góðan vilja var ég enn og aftur í vandræðum með að borða gelin. Ég var með gelkubba frá GU og byrjaði fljótt að borða þá en hætti því líka frekar snemma, ég náði að borða einn og hálfan pakka. Mig langaði bara einfaldlega meira í appelsínur og smábrauðið og þar sem ég missti aldrei orkuna var ég ekkert að stressa mig á kubbunum. Ég var líka með hnetu- og kókossúkkulaði og borðaði sitt hvort en GU vöfflunum kom ég ekki niður þó ég reyndi. Ég var mjög dugleg að drekka og tók salttöflu á tveggja tíma fresti allt hlaupið. Ég var einu sinni nálægt því að finna fyrir ógleði eða lystarleysi og fékk mér þá piparbrjóstsykur sem ég var með og það svínvirkaði.

Endamarkið nálgast
Einn poki var leyfður í hlaupinu og hann var á drykkjarstöðinni eftir 68km. Þar var ég með fullan poka af mat, drykk, fötum og skóm en það eina sem ég tók úr pokanum var drykkurinn. Mér leið vel í fötunum og skónum svo ég ákvað að vera ekkert að skipta. Ég þorði ekki að skilja orkuna eftir svo ég bar hana alla leið í mark án þess að snerta hana. Ég nærðist því mestmegnis á appelsínum, bönunum og smábrauði en einu sinni fékk ég mér smá súpu og stundum kökubita sem bragðaðist eins og hjónabandssæla.

Yfir hádaginn þegar hitinn var sem mestur var ég farin að sjá fram á að vera í kringum þessa 25 klukkutíma sem ég hafði sem markmið og var bara mjög ánægð með það, fyrst og fremst langaði mig að komast meiðslalaus í gegnum hlaupið því ekki eru nema níu vikur í næsta hlaup. Seinnipartinn þegar sólin náði ekki lengur niður í fjallasalinn fór ég hins vegar að sjá að mér tækist jafnvel að klára þetta á undir 24 tímum sem var bara frábært. Eftir síðustu drykkjarstöðina áttaði mig á að góðar líkur væru á að klára hlaupið í björtu og þá varð upplifunin enn betri.

Í fylgd asna á lokasprettinum
Síðustu kílómetrana í skóginum fylgdu okkur svo tveir asnar sem var frábært, þeir voru gæfir og hlupu með okkur eins og þeir væru hundar. Þegar ég kom í mark leið mér eins og ég gæti hlaupið annað svona hlaup, ég var full orku og ekki skemmdi fyrir að ég kom í mark á 22 klukkutímum og 37 mínútum sem var langt undir mínu markmiði.

Nú hvíli ég í viku meðan skinnið grær undir iljunum og hlakka svo til að byrja að undirbúa mig fyrir CCC í ágúst.

Hafdís Guðrún Hilmarsdóttir er pistlahöfundur á hlaup.is.