Metþátttaka í fyrsta fjallvegahlaupi ársins

birt 08. júní 2017

Metþátttaka í fyrsta fjallvegahlaupi ársins
Þó að 10 ára fjallvegahlaupaverkefni Stefáns Gíslasonar hafi lokið með útkomu bókarinnar Fjallvegahlaup á liðnum vetri er kappinn ekki hættur að hlaupa um fjallvegi. Fyrsta fjallvegahlaupið á þessu ári var hlaupið yfir Svínaskarð milli Móskarðshnjúka og Skálafells 20. maí sl., en þetta hlaup var samstarfsverkefni Stefáns og Bókaútgáfunnar Sölku sem gaf út fjallvegahlaupabókina. Alls tóku 64 hlauparar þátt í þessu ferðalagi, en það er nánast þrefalt hærri tala en áður hefur sést í hlaupum Stefáns.

Við upphaf aðalhlaupsins við Hrafnhóla. Aldrei hefur fleira fólk teki þátt í einu fjallvegahlaupi, en á myndinni má líklega greina 59 hlaupara. Fimm voru enn ókomnir ofan af Svínaskarði, tilbúnir að leggja á skarðið aftur. (Ljósm. Guðmundur Sigurbjörnsson).

Alþýðlegri hlaupaleið
Hlaupið yfir Svínaskarð var að vissu marki endurtekning á fjallvegahlaupi nr. 10 í fjallavegahlaupabókinni (sem hlaupið var 21. maí 2009), nema hvað núna var lagt upp frá Hrafnhólum við Leirvogsá í stað þess að hefja hlaupið á Esjumelum. Með þessu styttist hlaupaleiðin úr 19,5 í 13,5 km og varð þar með nokkru „alþýðlegri" eins og það var orðað í kynningu sem send var út fyrir hlaupið. Upphaflega fjallvegahlaupið yfir Svínaskarð endaði á vegamótum fyrir neðan Vindáshlíð í Kjós, en nú var endamarkið fært upp á hlaðið í Vindáshlíð, sem þýddi reyndar að endaspretturinn varð 1,5 km lengri en ætlað var. Heildarvegalengdin varð þannig um 15 km.

Á uppleið. Skálafell framundan. Svínaskarð er vinstra megin við það. (Ljósm. Stefán Gíslason).

Hlaup yfir fjallvegi á milli byggðarlaga hafa þann galla að endamarkið er á allt öðrum stað en rásmarkið. Þetta flækir oft ferðamál hlauparanna sem þurfa þá að finna einhvert far frá endamarkinu til baka á upphafsstaðinn. Stefán sjálfur, nokkrir hlaupafélagar hans úr Borgarnesi og vaskur hópur fólks af höfuðborgarsvæðinu leystu þetta mál með þeim einfalda hætti að skilja bílana sína eftir Vindáshlíð og hlaupa suðuryfir skarðið að Hrafnhólum, til að hlaupa síðan aftur norðuryfir með hinu fólkinu.

Stefán neðan við Vindáshlíð í Kjós, undir lok hlaupsins. (Ljósm. Kristinn Ó. Sigmundsson).

Um kl. 10 umræddan laugardagsmorgun lögðu 64 hlauparar af stað frá Hrafnhólum, þ.m.t. 11 sem voru að enda við að hlaupa suðuryfir skarðið. Dimm og svöl þoka lá yfir Faxaflóanum og ströndinni þar í kring, en þegar komið var upp fyrir Hrafnhóla var þokan að baki og sólskinið tekið við. Hitastigið var rétt innan við 10 gráður og vindur ekki til trafala.

Fyrstu menn hituðu súpu og helltu upp á kaffi
Sumir fóru hraðar en aðrir upp með Skarðsá og upp í Svínaskarðið og ekki var liðin nema ein og hálf klukkustund þegar fyrstu menn skiluðu sér í hús í Vindáshlíð. Þangað höfðu konurnar í Sölku flutt vistir fyrr um morguninn, þ.á.m. dýrindis súpu sem Úlfar Finnbjörnsson hafði útbúið af sinni alkunnu snilld. Fyrstu manna beið það verkefni að hita súpuna og hella upp á kaffi - og áður en síðasti maður var kominn til byggða var búið að slá upp veislu á blettinum fyrir utan húsið í Vindáshlíð, já og auðvitað bókabúð líka því að nokkrir í hópnum áttu eftir að eignast fjallvegahlaupabókina. Eftir góða samverustund í sólinni hélt svo hver til síns heima. Flestir settust upp í bíla á hlaðinu en aðrir tóku stefnuna hlaupandi upp í Svínaskarð á nýjan leik, áleiðis í bíla sem beðið höfðu við Hrafnhóla.

Kjötsúpuboð utandyra í Vindáshlíð að hlaupi loknu í boði Bókaútgáfunnar Sölku. (Ljósm. Stefán Gíslason).

Þar með var þessu fyrsta fjallvegahlaupi ársins lokið. Næsta hlaup verður haldið vestur í Dölum sunnudaginn 11. júní nk., en þá verður hlaupið yfir Sælingsdalsheiði úr Saurbæ að Laugum í Sælingsdal, alls um 15 km. Nánari upplýsingar um þetta verða settar inn á hlaup.is dagana fyrir hlaup.

Stefán Gíslason, hlaupafrömuður, er pistlahöfundur á hlaup.is. Í pistlunum fer Stefán yfir víðan völl og fjallar um skemmtilegar og stundum ókannaðar hliðar hlaupanna.