birt 07. desember 2016

Mörgum hlaupurum hefur komið þægilega á óvart hversu stuttan tíma það tekur að ná fullum styrk eftir langt hlé frá æfingum. Þannig má finna dæmi um hlaupara sem voru búnir að vinna sig upp í ákveðinn árangur með nokkurra ára þjálfun og misstu svo eitt eða jafnvel tvö ár úr vegna meiðsla. Samt tók það þá ekki nema nokkrar vikur að komast aftur á svipaðan stað og þeir voru á fyrir hléið. Aðrir hafa kannski æft hlaup á unglingsaldri og tekið svo til við þessa iðju tveimur áratugum síðar og staðhæft að þeir búi enn að æfingum unglingsáranna. Þá er gjarnan sagt að „lengi lifi í gömlum glæðum". Sömuleiðis hafa margir upplifað að maraþon nr. 2 reynist léttara en fyrsta maraþonið og tíminn jafnvel mun betri, jafnvel þótt nokkuð hafi skort á æfingar í seinna skiptið.

Í tilvikum eins og þeim sem lýst er hér að framan er gjarnan talað um „vöðvaminni". Þetta hugtak hljómar reyndar ekki mjög vísindalega, fljótt á litið, því að maður lærir jú í skóla að minnisstöðvarnar séu staðsettar í heilanum. En tilfellið er að þeir sem tala um „vöðvaminni" hafa nokkuð til síns máls.

Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram að þær „gömlu glæður" sem hér er vísað til eiga sér fleiri skýringar en „vöðvaminnið" eitt og sér. Þar koma til þættir á borð við þjálfaðar boðsendingar hreyfitauga, svo og sjálfstraust þess sem hefur gert þetta áður og veit að það er hægt. En þessi pistill fjallar bara um „vöðvaminni".

Kjarni málsins
Vöðvar styrkjast ekki bara við æfingar. Þeir taka líka varanlegum breytingum sem gera þeim auðveldara að ná sama styrk aftur síðar. Vöðvafrumur eru nefnilega öðruvísi en aðrar frumur. Þær eru stórar og í hverri þeirra um sig geta verið nokkrir frumukjarnar. Við styrktarþjálfun geta frumurnar stækkað enn frekar og um leið fjölgar kjörnunum. Jo C. Bruusgaard og félagar við Háskólann í Osló sýndu fram á það fyrir nokkrum árum með rannsókn sem þeir gerðu á músum og rottum að þegar þjálfun er hætt minnka frumurnar aftur, en kjörnunum fækkar ekki að sama skapi, alla vega ekki fyrr en löngu síðar. Þegar æfingar hefjast á nýjan leik eru kjarnarnir til í slaginn, sem þýðir að fruman getur aukið próteinframleiðslu sína miklu fyrr en ella. Þetta kemur sér sérstaklega vel fyrir þá sem stunduðu æfingar á sínum yngri árum, því að ungar vöðvafrumur eiga auðveldara með að búa til nýja frumukjarna og þessir kjarnar eru jafnvel enn til staðar mörgum áratugum síðar þegar þráðurinn er tekinn upp á nýjan leik.

Ávinningur af steranotkun
Sá hæfileiki vöðvafruma sem hér hefur verið lýst skiptir máli í umræðunni um steranotkun íþróttamanna. Sterar flýta fyrir uppbyggingu vöðva og nýju frumukjarnarnir sem verða til í því ferli hverfa ekkert frekar en aðrir þegar fram líða stundir. Þess vegna er líklegt að steranotendur hafi enn forskot á aðra þegar þeir mæta til leiks á ný að loknu löngu keppnisbanni.

Hvað með úthaldsþjálfun?
Svo virðist sem vöðvaminni af því tagi sem hér hefur verið lýst skipti líka miklu máli í úthaldsþjálfun. Þar koma hvatberar (e. mitochondria) í vöðvafrumum við sögu, en þeir eru í rauninni orkuverin í frumunum. Þangað berast næringarefnin sem vöðvinn þarf á að halda og þar eru þau brotin niður og orkan sem losnar nýtt til að smíða ný efni sem nauðsynleg eru til vaxtar og viðhalds, til hreyfingar og í aðra starfsemi sem krefst orku. Líklega fækkar hvatberunum fljótlega eftir að hlé er gert á æfingum en kjarnarnir sem enn eru til staðar geyma allar þær upplýsingar sem þarf til að endurskapa hvatberana þegar þörf er á og þar með kemst starfsemin í fullan gang miklu fyrr en ella.

Í fótspor Bernards Lagat?
Með allt þetta í huga ætti manni að vera óhætt að taka sér góðar hvíldir frá æfingum annað slagið, t.d. einu sinni á ári, svona rétt eins og Bernard Lagat segist gera á haustin. Auðvitað þarf að fara varlega af stað aftur, en fyrr en varir er vélin farin að ganga á öllum og skila fullu afli eins og ekkert hafi í skorist.

Efnisflokkur: Þjálfun

Heimildir:

  1. Alex Hutchinson (2015): Muscle Memory and Endurance. After you get fit once, it really is easier to get fit the next time. Runner‘s World, 3. júní 2015.
    http://www.runnersworld.com/sweat-science/muscle-memory-and-endurance?cid=socTP_20150604_46918016&adbid=10153365728227090&adbpl=fb&adbpr=23403427089.
  2. Hojun Lee (2015): Cellular Mechanism of Muscle Memory: Effects on Mitochondrial Remodeling and Muscle Hypertrophy. Útdráttur úr fyrirlestri á ársfundi ACSM (American College of Sports Medicine), 26.-30. maí 2015, San Diego, Kaliforníu. http://www.abstractsonline.com/Plan/ViewAbstract.aspx?sKey=48212965-5003-4ec0-80a8-082fc0b3e598&cKey=5ce0fd7e-7c3e-4ef9-89f0-7e0de6cadc9c&mKey=8ba47590-f6fa-424e-a609-471a2e1de3bc.
  3. Jo C. Bruusgaard, I. B. Johansen, I. M. Egner, Z. A. Rana, og K. Gundersen (2010): Myonuclei acquired by overload exercise precede hypertrophy and are not lost on detraining. Proceedings of the National Academy of Science of the USA, 24. ágúst 2010; 107(34):15111-15116. https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC2930527.
  4. Kristian Gundersen (2016): Muscle memory and a new cellular model for muscle atrophy and hypertrophy. Journal of Experimental Biology, janúar 2016;219(Pt 2):235-242. https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/26792335.
  5. Stefán Gíslason (2016): Þrír fertugir hlauparar í Ríó. Pistill á hlaup.is 7. ágúst 2016. http://www.hlaup.is/displayer.asp?cat_id=1272&module_id=220&element_id=27848.

Stefán Gíslason, hlaupafrömuður, er pistlahöfundur á hlaup.is. Í pistlunum fer Stefán yfir víðan völl og fjallar um skemmtilegar og stundum ókannaðar hliðar hlaupanna.