Mývatnsmaraþon 2002 - Gunnlaugur A. Júlíusson

birt 01. febrúar 2004

Frásögn Gunnlaugs Júlíussonar

Mývatnsmaraþon var haldið dagana 21. og 22. júní sl. Í það heila tóku heldur færri þátt í öllum hlaupunum fjórum en fyrri ár eða um 150 talsins. Það hafði valdið ýmsum áhyggjum vikurnar á undan að fréttir höfðu borist af því suður heiðar að blikur væru á lofti með framtíð hlaupsins. Það eru ekki það margir formlegir möguleikar á að hlaupa heilmaraþon hérlendis að það má enginn detta úr sem nú er fyrir hendi. Heimamenn fullvissuðu okkur hins vegar um að það væri enginn bilbugur á þeim hvað þetta varðar og létti það lund manna. Fyrir mörgum er það orðinn fastur liður í hlaupaprógramminu að fara norður á Mývatn um Jónsmessuna. Til gamans má geta þess að það eru fjórir hlauparar sem hafa hlaupið öll maraþonin sem hlaupin hafa verið á Mývatni. Þeir eru harðir á því að þeir verði þátttakendur þar á meðan báðir fætur eru jafnlangir.

Veðrið var gott á föstudaginn, sólfar og nokkur gola. Dagana á undan hafði verið kalt og snjóað í byggð svo menn prísuðu sig sælan að þurfa ekki að taka fram negldu skóna. Um kvöldið lægði og var rétt þægileg gola á meðan á hlaupinu stóð og orðið nokkuð lygnt þegar leið á kvöldið. Lagt var upp á hefðbundnum stað kl. 21.00 og hlaupið sem leið liggur réttsælis framhjá Skútustöðum og svo hringinn þar til í mark var komið. Hlaupaleiðin skartaði sínu fegursta, nær heiðskírt veður og vatn og himinn roðnaði því meir sem nær dró sólarlagi. Að sama skapi lengdust skuggarnir. Þegar sólin settist kólnaði nokkuð skarpt og var lofthiti um 2°C upp úr miðnætti þegar hlauparar fóru að tínast í mark. Þeim var víst farið að kólna svolítið sem stóðu vörðinn í markinu þegar þeir síðustu birtust. Á meðan á hlaupinu stóð sveimuðu hjólreiðamenn um og buðu gel, drykki, plástra og annað sem að gagni gæti komið. Það sem mér fellur vel á Mývatni er að á drykkjarstöðvunum getur maður gripið með sér vatnsflösku og smádreypt á henni næstu kílómetrana í stað þess að svelgja í sig drykkinn í nokkrum gúlsopum og fá svo ekkert næstu 5 km. Ég drekk ætíð mikið í svona löngum hlaupum og því fellur mér þetta mjög vel. Annað vildi ég nefna í þessu sambandi að þegar farið er að kólna svo mikið eins og raun bar vitni fyrir norðan um daginn, þá er það óþægilegt að borða kalt gel og skola því niður með köldu vatni. Það harðnar uppi í manni og nýtist örugglega ekki sem skyldi. Einnig kostar orku, sem ekki er of mikið af, að hita vatnið upp. Því fyndist mér til mikilla bóta ef vatnið væri haft moðvolgt til að bæta úr þessu.

Þegar komið var í mark voru þátttakendur drifnir inn og borin fyrir þá heit súpa og brauð. Það er til fyrirmyndar að taka vel á móti slæptum hlaupurum og mættu aðstandendur Reykjavíkurmaraþons læra af þeim Mývetningum í þessu sambandi. Því næst var haldið til sundlaugar Skútustaða og dvalið þar fram á nótt við spjall og spekulationir. Það var afar notalegt að losa um stirða vöðva í heitri lauginni. Fyrir mína parta var ég vel sáttur við útkomuna úr hlaupinu. Ég hafði verið nokkuð áhyggjufullur vikurnar fyrir hlaupið vegna beinhimnubólgu sem greip mig föstum tökum í lok maí. Ég var farinn að hlaupa nokkuð mikið á minn mælikvarða eða um 110 km á viku og það hefur greinilega verið of mikið. Ég hvíldi því alveg í eina viku og fór síðan mjög varlega í vikunni þar á eftir og hljóp mest á stígunum í Elliðaárdalnum. Þetta virðist hafa hrifið vel því ég fann ekki fyrir neinu að hlaupinu loknu og var mjög léttur í sjálfu hlaupinu. Seinni hlutann hljóp ég á 3 4 mín lakari tíma en sá fyrri og var ég vel sáttur við það. Guðmundur Gíslason sigraði í maraþoninu á tæpum þremur tímum. Það er mjög gaman að fylgjast með hve öruggur hann er orðinn með að komast undir þrjá tíma og sjá hann tilbúinn til frekari átaka.

Daginn eftir voru hinn skemmri skeið runnin í góðu veðri og fóru þau hið besta fram. Að vísu villtust 2 erlendir gestir í 3 km rútuna en höfðu ætlað í 10 km. Þetta minnir á að það þarf ekki nema líma smá miða í framrúðuna til að koma í veg fyrir slíkan misskilning.

Athygli vakti árangur Kára Karlssonar sem sigraði í 10 km hlaupinu á 34.13 en hann er einungis 15 ára gamall. Það verður athyglisvert að fylgjast með honum í framtíðinni en þarna er greinilega mikið efni á ferðinni.

Að loknum verðlaunaafhendingum og afhendingu útdráttarverðlauna fóru síðan allir hver til síns heima glaðir í sinni eftir góða daga í Mývatnssveitinni.