birt 15. nóvember 2018

4. nóvember setti ég heimsmet í götuhlaupi. Aldrei áður hafa fleiri hlauparar skilað sér í mark í heilu maraþoni eins og í New York 2018, alls voru þeir 52.697. Hlaupið er tröllvaxið á alla kanta enda ekki hlaupið að því að skipuleggja viðburð af þessari stærðargráðu.

Innan um Hollywood stjörnur og forseta

En það merkilega við þennan risavaxna viðburð er að ég tók varla eftir öllum þessum mannfjölda, ég fékk að ræsa nokkuð framarlega þannig að brautin var alls ekki illfær vegna fjölda.

Það er ótrúlega skemmtilegt að taka þátt í hlaupinu og ekki ónýtt að vera innan um leikarana Teri Hatcher og Brian d´Arcy, og m.a.s. forseti Lettlands, Kersti Kaljulaid hljóp í fylgd tveggja leyniþjónustumanna. Hér er því skemmtileg áskorun fyrir forsetann okkar; að taka þátt í stóru maraþonhlaupi erlendis, því myndi fylgja töluverð athygli. Undirbúningur fyrir hlaupið gekk nokkuð vel frá því hann hófst eftir Laugavegshlaupið í ágúst. Það féll niður ein vika vegna sjómennsku og lítið varð úr annarri viku vegna Florida-ferðar en tíminn var vel nýttur að öðru leyti. Það voru tekin tvö 30+ km hlaup í hverjum mánuði og þrátt fyrir að hafa sleppt öllum styrktaræfingum er ekki hægt að segja annað en að ég hafi mætt til NY í besta formi ævinnar.

Þrír Á Mynd
Axel, Sara Lind Þórðardóttir og Sunna Sigfríðardóttir á Tímatorgi.

Ég var í hópi Bændaferða-langa og frábærlega að öllu staðið hjá Sævari og Ingu Dís, og einstaklega skemmtilegt að kynnast nýjum hópi hlaupara. Svo var auðvitað líka gaman að hitta Ívar Jónsson aftur, við kynntumst aðeins í Tokyo en hann var líklega 17. Íslendingurinn sem kláraði 6 stóru maraþonin - hann var sem sagt að klára seríuna í New York og fékk stærðarinnar verðlaunapening fyrir afrekið. Ég ætla að vinna mér inn þennan pening en á eftir að hlaupa í Chicago og Boston til að klára seríuna og ætla að dúlla mér við það til fimmtugs.

Beðið í heilt ár

New York er mögnuð borg og Manhattan náttúrlega svolítið geggjaður staður. Það er engu logið með að borgin sofi aldrei, endalaust sírenuvæl og bílflautur - og nóg um að vera. En það var ekki meiningin að vera mikið á ferðinni og eyða mikilli orku í einhvern óþarfa. Ég lenti á hádegi á föstudegi og fór fljótlega á Expóið að sækja keppnisgögnin. Maraþonið var auðvitað búið að vera á dagskrá hjá mér í meira en ár, en það var ekki fyrr en ég var kominn með rásnúmerið í hendurnar að það kviknaði almennilega á perunni - þetta var raunverulega að fara að bresta á! Tilhlökkunin helltist yfir mig og ég iðaði í skinninu að komast af stað, en þurfti að bíða í 2 daga til viðbótar. Ameríkuhlaupin henta okkur Evrópubúum ágætlega, það var fótferðatími kl 4 um morguninn en þá er klukkan orðin 9 á Íslandi. Við græddum líka heilan klukkutíma um nóttina þar sem vetrartíminn gekk í garð. Ég var því vel sofinn enda ennþá á íslenskum tíma og ekki hægt að kvarta yfir neinu. Dagurinn byrjaði dimmur og nokkuð svalur en hið besta haustveður og sólin lét aldeilis sjá sig. Það var 20 mínútna gangur að rútunum og þar kom greinilega í ljós hversu tröllvaxið hlaupið er. Mikið mannhaf var í röð til að komast í rúturnar en allt gekk smurt fyrir sig og fljótlega var farið af stað. Rásmarkið er á Staten Island, eiginlega á brúarsporðinum sem tengir eyjuna við Brooklyn.

Axel Og Ívar
Sex stjörnu sigurvegarinn Ívar Jónsson og Axel.

Þar var allt til alls, nóg að bíta og brenna enda þurfi ég að bíða í tæpa 3 klukkutíma eftir startinu. Ég var ekki nógu vel klæddur í svalanum en fékk forláta Dunkin Donut húfu til að halda mér heitum og reyndi að halda mér í morgunsólinni þar til byrjað var að hleypa inn í starthólfin.

Haldið af stað með Sinatra í eyrunum

Haldið af stað með Sinatra í eyrunumÉg var léttklæddur eins og venjulega enda spáð fullkomnu hlaupaveðri. Í vösunum var ég með 5 gel og 6 skammta af orkuhlaupi, allt frá Clif og planið var að byrja á gumsinu rétt fyrir startið og svo til skiptis á 20 mín fresti allt hlaupið. Til viðbótar var ég búinn að karbólóda 600 gr af SIS sykurjukki frá miðvikudegi og gleypa Crampfix töflur og tók með mér þrjár til viðbótar sem ég fékk mér á klukkutíma fresti, að ógleymdum hálfs lítra vatnsbrúsa í buxnastrengnum til að skola niður öllum gelunum. Neysluplanið gekk fullkomlega upp og skilaði mér alla leið í markið. Eftir hina löngu bið í rásmarkinu byrjaði eftirvæntingin fyrir alvöru þegar þvagan fór að fikra sig í áttina að startinu.

Hangs Í Rásmarkinu
Hangs í rásmarkinu í ljótupeysu og húfu, hlaupið hefst á brúarsporðinum.

Ég stillti mér upp fyrir framan keppinauta dagsins, hraðastjórana fyrir 3:30. Eftir þjóðsönginn var komið að stóru stundinni, fallbyssuskotið reið af og fremstu hlauparar þar með farnir af stað við dynjandi tóna Frank Sinatra; New York, New York. Það tók rétt rúmlega 3 mínútur að komast á tímatökumottuna og þá byrjaði hlaupið mitt. Kraðakið í startinu var nú ekkert voðalegt en auðvitað eitthvað um hæga hlaupara á fyrstu mínútunum. Það var samt í góðu lagi enda hefst hlaupið á erfiðum kafla með 50 metra hækkun á Staten Island brúnni og eins gott að byrja bara rólega. Ég fann líka fyrir svolitlum stífleika eftir allt hangsið í svalanum og var því bara spakur til að byrja með.

Planið að ná undir 3:30

Planið var samt að hlaupa á peisi undir 5 mín/km sem jafngildir 8 mín/mílu og ég var með forláta armband sem ég gat mátað tímann minn við á hverju mílumarki. Ég fór fljótlega að finna aðeins til í maganum og hefði þurft að fara eina ferð til viðbótar á kamarinn í rásmarkinu en það var orðið of seint. Mér leist því ekkert sérstaklega á blikuna þegar hraðastjórarnir fóru fram úr mér fljótlega eftir að við komum niður af brúnni, kannski var þetta bara ekki minn dagur?

Þetta virtist kveikja í mér og líklega var ég bara orðinn mátulega heitur til að byrja að hlaupið, alla vega fór ég fram úr þeim strax aftur og síðan hefur ekkert til þeirra spurst! En óþægindin í maganum héldu áfram megnið af hlaupinu en ég vildi fresta því í lengstu lög að stoppa til að fara á klóið, sem betur fer þurfti ég þess ekki. Ég drakk á flestum drykkjarstöðvunum eftir fyrstu tvær, greip með mér pappaglas með tveimur-þremur sopum sem ég reyndi að sturta í mig á harðahlaupum.

Mikið var gaman að koma inn í Brooklyn og ekki ofsögum sagt af stemningunni meðfram brautinni, gríðarlega fagnaðarlæti og hávaði - algjörlega æðislegt. Ég var búinn að ákveða að skemmta mér almennilega og hætti fljótlega að hlaupa á miðjum veginum og færði mig í áttina að áhorfendunum hægra megin, þar var aðeins meiri skuggi og betra skjól fyrir austanáttinni. Og það var byrjað að gefa fimmur og það ómuðu óteljandi hvatningahróp „Go Iceland!" enda bolurinn minn einfaldlega merktur heimalandinu. Mér brá svolítið þegar heyrðist „Go Axel!" en þá hljóp við hliðina á mér drengur sem var í bol merktum mér. Við hlupum svolítið saman og gaman að heyra nafnið mitt kallað ótt og títt. Og ég fór að lyfta höndum og kveikja í áhorfendum annað slagið alla leið í markið og yfirleitt fékk ég yfir mig hávær fagnaðarlæti og hvatningarorð, trix sem Ívar Adólfsson kenndi mér.

Þögnin í gyðingahverfinu og brekkan á brúnni

Svo versnaði í því þegar við komum í gyðingahverfið, engin stemning og ansi sérstakt að hlaupa þar í gegn. Fljótlega eftir það vorum við komin að hálfmaraþon markinu, hlaupið var hálfnað í miðri brekku á leið okkar til Queens og mér reiknaðist til að vera rúmlega mínútu undir settu marki. En mér fannst ég farinn að vera þungur á fótunum og byrjaði aðeins að efast um hraðann. Samt var ég búinn að reyna að halda svolítið aftur af mér enda langaði mig að eiga góðan seinni hluta. Þá rifjaðist upp heilræðið um að treysta þjálfuninni og næringunni, það var ekki um annað að ræða en að halda áfram á sama dampi, á meðan líkaminn héldi takti.

Axel Og Keppnautarnir
Axel og keppinautar dagsins, hraðastjórarnir fyrir 3:30.

Einn erfiðasti kafli brautarinnar er Queensboro brúin sem tengir Queens við Manhattan, endalaust löng og upphallandi. Þar hægir á flestum og engir áhorfendur leyfðir. Því er sérstaklega skemmtilegt að koma loksins niður aftur og heyra fagnaðarlætin í Manhattan, sem fylgdu okkur nánast óslitið alla leið í endamarkið. Það eru 26 km að baki og hér byrjar maraþonhlaupið fyrir alvöru.

Takmarkinu náð, á harðaspretti

Fyrst er hlaupið á 1st Avenue til norðurs og andlega er það einn erfiðasti kaflinn á allri leiðinni. Brautin er svo bein og virðist vera endalaus, ekkert framundan nema hafsjór af hlaupurum svo langt sem augað eygir. Loksins kemur að vinstri beygjunni í Bronx og brátt liggur leiðin til baka á 5th Avenue í áttina að markinu í Central Park sem hlýtur að teljast hápunktur hlaupsins. Hér fer samt að halla undan fæti hjá sumum enda hlauparar búnir með 35 km og margir löngu byrjaðir að ganga og þvælast fyrir okkur hinum. Það sem hélt mér hlaupandi voru endalaus hvatningaróp áhorfenda ásamt reglulegu orkuáti og auðvitað fann ég fyrir hlýjum straumum frá félögum mínum í Hlaupahópi FH á þessum erfiða kafla. Ég hafði haldið hraða nokkuð vel enda vissi ég að þessar tvær mínútur sem ég hafði upp á að hlaupa, til að enda á lokatímanum 3:30, yrðu fljótar að gufa upp ef ég myndi hægja á mér og byrja að ganga. Það tæki varla meira en 2 km á skokkhraða að klúðra hlaupinu.

Í Central Park er síðasta alvarlega brekkan en það var búið að vara mig við henni og því fannst mér hún ekkert mál. Eftir að leiðin lá aftur niður á við, var allt gefið í botn. Síðustu 2,2 km voru þeir hröðustu hjá mér í öllu hlaupinu og síðasti spretturinn stórkostlegur en alls ekkert auðveldur.

Þegar komið er inn í suðvestur horn Central Park blasir við skilti um að enn séu 400 metrar í mark og mér fannst það bara skrambi langt. Það tók við ólýsanlegur feginleiki að sjá loksins endamarkið og satt best að segja kom það á hárréttum tíma. Ég hefði ekki getað hlaupið einum meter lengra og var algjörlega búinn á því þegar ég steig á tímatökumottuna í endamarkinu. Rétt náði að dragnast áfram í gegnum marksvæðið og gleymdi næstum að þiggja verðlaunapeninginn minn.

Svifið um í sæluvímu

Það var frábært að sjá Sævar Skaptason, framkvæmdastjóra Bændaferða í markinu, hann staðfesti glæsilegan lokatíma minn og við glöddumst yfir afreki dagsins. Þá var ljóst að Búi Steinn Kárason hafði klárað hlaupið á innan við 3 klst sem er stórglæsilegur árangur í þessari krefjandi braut. Aðrir í hópnum tóku sér aðeins lengri tíma en unnu samt mikið afrek með því að skila sér í markið. Það er ekkert sjálfgefið að klára svona erfitt hlaup og fyrst við gátum meikað það hér, þá getum við meikað það alls staðar!

Axel Og Búi
Axel og Búi Steinn Kárason glaðir með árangurinn.

Ég sveif um í sæluvímu það sem eftir lifði dags, hlaupið hafði gengið fullkomlega upp hjá mér og hefði ekki getað heppnast betur. Loksins náði ég takmarkinu sem ég setti mér í fyrsta maraþonhlaupinu mínu árið 2014, að klára undir 3:30.

Ár í Chicago - hvað skal gera á meðan?
Það er því engin eftiráspeki í gangi, aðeins gleði með frábærlega útfært hlaup, 4.774. sætið og lokatímann 3:27:40 sem er 7 mín bæting frá Tokyo. Það var líka gaman að skoða splittin úr tímatökunni, tímarnir á hverjum 5 km voru ansi jafnir og þó að seinni hluti hlaupsins hafi verið hægari, þá munaði aðeins 22 sek. Í minningunni verður þetta því alltaf hið fullkomna maraþonhlaup hjá mér þó ég eigi mögulega eftir að hlaupa hraðar í framtíðinni.

Það var því glatt á hjalla í kvöldverðinum eftir hlaup, allir í Bændaferða-hópnum unnu sigra og gaman að fagna saman. Og þó harðsperrurnar séu rétt að líða úr mér, er ég farinn að pæla í næsta markmiði. Það er alltof langt í Chicago Marathon 2019 sem verður í október, ég þarf því að finna mér eitthvað hæfilegt til að stefna að í millitíðinni, er það ekki?...

Myndir: Úr einkasafni og heimasíðu NY maraþons.