birt 11. mars 2019

Mannkynið er í stöðugri endurnýjun og því ætti engum að koma á óvart þótt „nýir hlauparar" skjóti annað slagið upp kollinum á meðal bestu hlaupara í heimi. En samt verður maður oft skemmtilega forviða þegar það gerist. Reyndar er rétt að gera þann fyrirvara við hugtakið „nýir hlauparar" í þessu sambandi, að enginn þeirra „datt" óvart á toppinn. Allir sem ná langt hafa unnið að því hörðum höndum (og fótum) árum saman, án þess að ég og mínir líkir, sem fylgjast ekki nema miðlungi vel með, hafi verið látnir vita. Þrjú nýleg dæmi um svona nöfn eru Julien Wanders, Getaneh Molla og Ruth Chepngetich.

Julien Wanders

Julien Wanders er 23ja ára Svisslendingur, fæddur í Genf 18. mars 1996 (á afmælisdaginn minn). Þegar hann var 17 ára vann hann skólaverkefni um yfirburði kenískra hlaupara og komst í framhaldinu að þeirri niðurstöðu að besta leiðin til að upplýsa málið væri að skoða hvað þessir menn væru að gera heima hjá sér. Tveimur árum síðar flutti hann til Iten í Kenýa og hefur búið þar síðan. Maður verður nefnilega „að vera svolítið geggjaður til að verða góður hlaupari", eins og hann orðar það sjálfur.

Julien Wanders byrjaði að hlaupa fyrir alvöru þegar hann var 15 ára, en allt frá 6 ára aldri hafði hann stundað ýmsar íþróttir af kappi. Átján ára fór hann í fyrstu æfingabúðirnar sínar í Iten en sneri þaðan yfirkeyrður af ofþjálfun, eins og stundum hendir unga menn. En hann gafst ekki upp og náði að bæta sig í 5.000 m hlaupi seinna á árinu (14:06,28 mín). Þá opnuðust möguleikar á styrktarsamningum og eftir að hafa útskýrt fyrir foreldrum sínum að háskólanám samrýmdist ekki atvinnumennsku í hlaupum lá leiðin aftur til Iten.

Árið 2015 (19 ára) bætti hann svissneska unglingametið í 5.000 m í 13:48,21 mín og 2016 (tvítugur) hljóp hann 10 km götuhlaup á 28:22 mín. Í mars 2017 hljóp hann svo fyrsta hálfmaraþonið sitt á 61:43 mín í Mílanó. Þá gátu allir séð að drengurinn var enginn meðalmaður.

Og hvað er svo Julien Wanders að gera í þessum pistli um ný nöfn? Jú, á síðustu 6 mánuðum hefur drengurinn eignast tvö Evrópumet og eitt óopinbert heimsmet í götuhlaupum. Það ferli byrjaði í október 2018 þegar hann bætti Evrópumet Mo Farah í 10 km götuhlaupi um 12 sek. og hljóp á 27:32 mín. í Durban. Í desember bætti hann um betur og hljóp á 27:25 mín í Houilles í Frakklandi. Aðeins 22 hlauparar hafa náð betri tíma frá upphafi, þar af 16 frá Kenýa, 3 frá Eþíópíu, 2 frá Uganda og 1 frá Erítreu. Næsti Evrópumaður (Mo Farah) er í 101.-108. sæti á listanum.

Þann 8. febrúar féll Evrópumetið í hálfmaraþoni í Ras Al Khaimah, þar sem Julien kom fjórði í mark á 59:13 mín. Þar átti Mo Farah líka gamla metið, 59:32 mín. Í þessari grein er Julien sem stendur í 38. sæti heimslistans frá upphafi. Níu dögum síðar náði hann svo besta tíma heimssögunnar í 5 km götuhlaupi, 13:29 mín. Næst á dagskránni er að reyna að standa sig í 5.000 og 10.000 m brautarhlaupum á heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum í haust og eftir Ólympíuleikana í Tókýó gæti verið kominn tími á fyrsta maraþonið. Julien Wanders segist vita að úthaldið komi með árunum - og kannski hefur hann rétt fyrir sér þegar hann segir að hann haldi að fyrsta maraþonið verði ... „ekki slæmt".

Getaneh Molla

Getaneh Molla skráði nafn sitt með skýru letri á spjöld hlaupasögunnar þegar hann kom fyrstur í mark í fyrsta maraþonhlaupinu sínu 25. janúar sl. í Dubai á 2:03:34 klst., sem er besti tími nýliða frá upphafi. Og þessi tími er reyndar meira en „ágætis byrjun", því að allt í einu er þessi 25 ára Eþíópíumaður orðinn sjötti hraðasti maraþonhlaupari sögunnar (á löglegri braut) á eftir Eliud Kipchoge (2:01:39), Dennis Kimetto (2:02:57), Kenenisa Bekele (2:03:03). Emmanuel Mutai (2:03:13) og Wilson Kipsang (2:03:13).

Getaneh Molla er svo sem enginn nýgræðingur í hlaupum, þar sem hann hefur m.a. orðið Eþíópíumeistari í 5.000 m hlaupi fjögur ár í röð og tvisvar í víðavangshlaupi. Þá varð hann nr. 5 á heimsmeistaramótinu í hálfmaraþoni í Valencia í fyrra (60:47 mín) og nr. 2 í 5.000 m hlaupi á Afríkuleikunum nokkrum mánuðum síðar.Og svo kórónaði hann brautarhlaupaferil ársins með því að hlaupa 5.000 m á 12:59:58 mín á lokamóti Demantamótaraðarinnar í Brussel síðasta haust.

Getaneh Molla var ekki aldeilis einn á ferð í Dubaimaraþoninu á dögunum og í raun munaði mjóu að þessi pistill fjallaði um landa hans, hinn 26 ára Herpassa Negasa sem kom annar í mark 6 sekúndum síðar á 2:03:40 klst. sem setur hann í 8. sæti heimslistans frá upphafi. Hann hefur reyndar hlaupið nokkur maraþon um dagana, en bætingin í Dubai var með ólíkindum. Besti tími Herpassa Negasa fyrir þetta hlaup var 2:09:14 klst., sem þýðir að hann var einhvers staðar nálægt 700. sæti heimslistans frá upphafi.

Ruth Chepngetich

Rétt eins og Getaneh Molla lét Ruth Chepngetich heldur betur að sér kveða í Dubaimaraþoninu, þar sem þessi tæplega 25 ára Kenýukona stökk upp í þriðja sæti heimslistans frá upphafi með því að vinna hlaupið á 2:17:08 klst. Aðeins Paula Radcliffe (2:15:25) og Mary Keitany (2:17:01) hafa hlaupið hraðar og sumir segja að þessar 7 sekúndur sem vantar upp á annað sætið hafi tapast þegar Ruth mistókst að grípa drykkjarbrúsa á drykkjarstöðvum í hlaupinu.

Chepngetich er 25 ára Kenýukona.Fyrir hálfu ári átti Ruth Chepngetich best 2:22:36 klst. í maraþonhlaupi og var rétt á mörkunum að ná inn á topp-100 listann frá upphafi. Í nóvember 2018 bætti hún þann tíma verulega í Istanbúl þar sem hún kom fyrst í mark á 2:18:35 klst. og 11 vikum síðar var hún sem sagt mætt í Dubai með fyrrgreindum afleiðingum.

Internetið lætur lítið uppi um feril Ruth Chepngetich, en hún hefur þó greinilega verið virk í langhlaupum á alþjóðlegum vettvangi frá því á árinu 2016. Þannig hefur hún unnið nokkur stór hálfmaraþonhlaup, m.a. í Istanbúl, Mílanó og París. Þá var hún í 5. sæti í hálfmaraþoni í Kaupmannahöfn sl. haust á 1:07:02 klst., en þar voru einmitt nokkrir Íslendingar á meðal þátttakenda. Besti tíminn hennar í þeirri grein er 1:06:19 klst. frá því í Istanbúl 2017 og sem stendur er hún í 28. sæti heimslistans frá upphafi.

Efnisflokkur: Keppnishlaup

Helstu heimildir og lesefni:
  1. Alþjóðafrjálsíþróttasambandið: https://www.iaaf.org.
  2. Cathal Dennehy (2018): Into thin air. Spikes, 19. mars 2018.https://spikes.iaaf.org/post/julien-wanders-going-it-alone?utm_source=iaaf.org&utm_medium=gridclick.
  3. LetsRun.com (2019): Marathon Madness in Dubai. Frétt á heimasíðu 25. jan. 2019. http://www.letsrun.com/news/2019/01/marathon-madness-in-dubai-getaneh-molla-runs-20334-debut-record-ruth-chepngetich-21708-worknesh-degefa-21734-move-to-3-4-on-all-time-list.
  4. Supersport (2019): Switzerland''s Wanders claims latest record in Monaco 5km. Frétt á heimasíðu 17. febrúar 2019.https://www.supersport.com/athletics/news/190217_Switzerlands_Wanders_claims_latest_record_in_Monaco_5km.

Stefán Gíslason, hlaupafrömuður, er pistlahöfundur á hlaup.is. Í pistlunum fer Stefán yfir víðan völl og fjallar um skemmtilegar og stundum ókannaðar hliðar hlaupanna.