Hjá okkur hlaupurum eru það alltaf viss tímamót að færast upp um aldursflokk. Fyrir þá sem hafa gaman af keppni verður til ný áskorun að takast á við. Í gær (28. feb) átti ég hálfraraldar afmæli. Í hugum flestra er það meira en að færast upp um einn aldursflokk í keppni öldunga, hvort sem það er í hlaupi eða einhverju öðru. Þetta eru tímamót sem gefa ástæðu til að staldra við. Fyrri hálfleik er lokið og seinni hálfleikurinn tekur við. Það er ekki laust við að maður velti fyrir sér heimspekilegum spurningum. Hver sé tilgangur lífsins, hvaða hlutverk maður hafi, hvort maður hafi gengið gönguna til góðs, hverju maður hafi fengið áorkað, hvort maður sé sáttur og hverju maður vilji koma til leiðar í framtíðinni svo fátt eitt sé nefnt sem flögrar í gegnum hugann á stundu sem þessari.
Ég ætla ekki að gerast of heimspekilegur hér heldur ræða aðeins um mikilvægi hreyfingar og hollustu, hvatningar og áskorunar. Segja ykkur kannski lauslega mína sögu – af hverju ég byrjaði og hvað dreif mig áfram. Skoða má það sem dæmi um áhrif fræðslu, kynningar og hvatningar. Ég er sveitastrákur og ólst upp til 12 ára aldurs á Hörgslandi rétt austan við Kirkjubæjarklaustur. Þar var ekkert íþróttafélag í þá daga en ég sá einhverju sinni á sjöunda áratugnum auglýsingu í Morgunblaðinu um bók sem hét Frjálsíþróttir og var eftir Vilhjálm Einarsson og Gabor Simony sem þjálfaði hér á landi um tíma um 1960. Ég fékk það í gegn hjá foreldrunum að bókin var pöntuð og síðan las ég hana spjaldanna á milli. Í framhaldinu settum við strákarnir upp okkar eigin frjálsíþróttamót. Fundum sæmilega kringlóttan stein í Hörgsá sem við notuðum í kúluvarpið, súlur úr vegavinnutjaldi voru notaðar í hástökkið og síðan mældum við 100 m hlaupabraut á túninu. Frásagnir Arnar Eiðssonar í útvarpi af sögu Ólympíuleikanna og Ólympíubókin hvöttu mig einnig áfram. Ég var bergnuminn af sögunum af þessum miklu hetjum, Paavo Nurmi, Emil Zatopek og Abebe Bikila svo einhverjar séu nefndar. Þetta var upphafið á íþróttaáhuganum hjá sveitastráknum.
Þegar ég flutti til Hafnarfjarðar haustið 1969 kunni ég ekkert í handbolta, aðalíþróttagrein bæjarbúa. Ég gerði mitt besta til að ná tökum á handboltanum. Fyrst lá leiðin í markið en þar voru oft þeir settir sem minnst gátu. Smá saman vann ég mig út á völlinn og spilaði á línunni í þriðja flokki. Í fótboltanum spilaði ég oftast í vörninni alveg upp í 2. flokk (17 ára). Aldrei varð ég góður boltamaður, enda hugurinn bundinn við einstaklingsíþróttirnar sem reyndar áttu undir högg að sækja í Hafnarfirði. Var þegar byrjaður að æfa nokkuð frjálsíþróttir (með boltanum sagði ég við félagana til að virka ekki of skrítinn) 14-15 ára, en ekki af alvöru fyrr en eftir 16 ára. Það sem skipti máli var hvatningin frá þjálfurunum, fyrst Guðmundi Þórarinssyni þjálfara ÍR og síðan Haraldi Magnússyni sem endurreisti frjálsíþróttadeild FH haustið 1972. Áhugi og kraftur þessara manna var mikill þannig að ekki var hægt annað en að hrífast með. Þeir gáfu mér það sjálftraust að þora að fara mínar eigin leiðir – þola það að hlaupa í gegnum miðbæinn án þess að láta athugasemdir (1-2-3 var vinsælt) á mig fá. Svona var heimurinn þá. Skokkarar (þeir fáu) keyrðu út fyrir bæinn til að hreyfa sig úr augnsýn annarra.
Ég keppti fyrst með landsliði í Evrópubikarkeppni í Portúgal árið 1975 þegar miklar viðsjár voru í stjórnmálum í því landi. Umhverfis keppnisvöllinn voru skriðdrekar og hermenn undir alvæpni. Þetta þótti mér gríðarlegt tækifæri, enda ekki algengt á þeim árum að unglingar færu erlendis til keppni. Næstu árin tók ég þátt í fjölmörgum stórum mótum og síðan færði ég mig smá saman í maraþonhlaupin eftir að ég kom heim úr námi árið 1982. Það hafði hjálpað mér mikið að fara til Edinborgar í háskólanám árið 1978 og æfa og keppa með mér betri hlaupurum. Það var hvatning til að leggja harðar að mér. Ég lærði af Skotunum að temja mér æðruleysi (allavega tímabundið) – að gera ekki of mikið úr hlutunum/vandamálunum. Þeir tuða minna en við Íslendingar finnst mér. Ég gleymi reyndar alveg þessu æðruleysi þegar ég spila golf.
Líf íþróttamannsins er töluvert frábrugðið íþróttaiðkan þeirra sem eru að hugsa um hreyfingu sér til heilsubótar. Til að ná góðum árangri verða íþróttirnar að vera oftast nær í forgangi – í rauninni þarf að skipuleggja aðra hluti í lífinu í kringum þær. Þetta er stöðug barátta íþróttamannsins. Við Íslendingar erum hins vegar öflugir og oft tekst okkur að gera marga hluti í einu – stunda háskólanám eða vinnu og stofna fjölskyldu samhliða afreksíþróttunum. Getur verið erfitt að samræma þetta en ekki óframkvæmanlegt. Afreksmaðurinn þarf í raun að vera egóisti en vissulega koma upp tímar þar sem hann þarf að slá af til að fylgja með í hinu hefðbundna lífi. Þessi nálgun á viðfangsefnið er auðvitað nokkuð yfirdrifin fyrir þann sem hefur það eina markmið að vera í sæmilegu formi, en keppnismaðurinn (sem býr í ökkur öllum) getur töluvert af afreksmanninum lært. Það á við öll viðfangsefni að því meira sem maður leggur sig fram að þeim betri verður árangurinn og þar með ánægjan.
Eftir að ég hætti í afreksmennskunni fyrir um 20 árum fann ég fyrir aukinni þörf til að miðla öðrum af þekkingu minni og reynslu. Mér fannst svo frábært að hafa upplifað sjálfur þennan líkamlega og andlega styrk að fleiri þyrftu að kynnast slíku ástandi. Mér hefur alltaf fundist hlaupin vera lykill að frelsi. Ef maður er í góðu formi eru allir vegir færir, maður er fullur sjálfstrausts, jákvæðni og bjartsýni. Getur tekist á við hvað sem er í leik og starfi. Ég hef í gegnum tíðina komið að undirbúningi fjölmargra götuhlaupa og móta og jafnframt leiðbeint mörgum um æfingar, byrjendum sem lengra komnum. Alltaf hef ég jafn gaman að sjá þegar fólk upplifir breytinguna frá því að geta lítið hreyft sig vegna mæði til þess að geta hlaupið jafnvel maraþon. Úr andlitum þessa fólks skín einskær gleði yfir því að geta tekist á við nýjar áskoranir. Já, líkaminn er ótrúlegt tæki sem getur afkastað miklu meira en við höldum. Oftast er þetta spurning um andann, um trúna og sjálftraustið. Mitt boðorð til þeirra sem leita eftir aðstoð hjá mér er ávallt: Þú verður að hafa vald á því sem þú ert að gera til að hafa gagn og gaman af því. Fólk sem fer of geyst í æfingar missir fljótt valdið yfir verkefninu. Sígandi lukka er best. Mikilvægt er að fólk setji æfingarnar inn í sína lífsrútínu. Jöfn uppbygging skilar sér best hvað varðar úthald og þrek. Þegar vel er að gáð er víða tíma að finna, fyrir vinnu, í hádeginu eða eftir vinnu. Eftir nokkra mánuði finnur fólk ekkert fyrir því að hreyfa sig 4-5x í viku. Verður eðlilegur hluti af lífinu, í raun ómissandi.
Gildi hreyfingar er margsannað. Svo ég tali nú bara um sjálfan mig þá er ég nánast aldrei veikur. Fæ kvef á þriggja ára fresti að jafnaði. Held ég hafi verið frá vinnu í samtals fimm daga síðustu tólf árin á mínum vinnustað. Það er einstakt á þeim vinnustað. Kannski er þetta genetískt að einhverju leyti, en mín trú er sú að hlaupaæfingarnar á árum áður hafi fært upp þröskuld ónæmiskerfisins þannig að þegar álagið er minna í seinni tíð er nánast ekkert sem bítur á mann. Þetta eru lífsgæði sem ekki er hægt að kaupa fyrir peninga. Ég lít á hlaupaæfingarnar í gegnum tíðina sem mína bestu fjárfestingu. Góð heilsa skiptir meginmáli til að gera lífið ánægjulegt og innihaldsríkt. Þið sem ennþá reykið, eruð of þung og hafið tekið það of rólega eigið mikinn möguleika á að snúa við blaðinu og öðlast aukna lífsfyllingu. Því miður eru ekki allir svo heppnir vegna sjúkdóma og fötlunar. Því fólki eigum við að rétta þá aðstoð sem við getum. Lífið er lotterí var einhverju sinni sungið. Það er hverju orði sannara. Fólk veikist snögglega eða lendir í slysum. Enginn veit hver er næstur í því happdrætti. Það eina sem við getum gert er að gera það besta úr því sem við höfum. Líkaminn er hús sálarinnar sagði einhver spekingurinn. Það er í okkar valdi að sinna viðhaldi þessa húss.
Takk fyrir allar þær góðu kveðjur sem ég hef fengið vegna afmælisins. Þær hreyfa við mér og sýna manni þann fjársjóð sem felst í þeim fjölda vina og kunningja sem ég á úr hlaupageiranum. Golfið er bara hliðarspor (ný áskorun) en auðvitað verða hlaupin alltaf númer eitt. Ætla ekki einu sinni að ræða gengi mitt á seinasta golfhring. Það eina sem ég nefni er ósvífni vallarhönnuðarins að setja stöðuvötn fyrir framan sumar holurnar, saklausum spilurum til skapraunar. Aftur að hlaupunum. Verð að viðurkenna að þegar ég tók spretti (ef spretti skyldi kalla) í fyrsta sinn á nýju hlaupabrautinni í Laugardalshöll í janúar að þá fór um mig fiðringur. Náði aldrei að keppa á slíkri braut á mínum yngri árum. Einhver var að tala um Norðurlandamót öldunga í Reykjavík árið 2008. Aldrei að vita nema maður setji upp æfingaáætlun fyrir sjálfan sig næsta haust. Þessi kíló sem ég er stundum að gantast með verða fljót að fjúka um leið og búið er að stilla fókusinn.
Bestu hlaupakveðjur frá Kanarí.