Allir eiga sína góðu daga og slæmu daga, hlauparar sem og aðrir. Maður getur verið fullur orku einn daginn eða jafnvel heilu dagana og vikurnar, en síðan allt í einu er maður kraftlaus og þungur einn daginn eða yfir lengra tímabil. Oft er hægt að skýra þessar sviftingar með breytingu á álagi. Sá sem er að byrja að skokka eða byrja í nýrri vinnu þarf tíma til að venjast breytingunni og nýju álagi. Sá sem byrjar að æfa fyrir maraþon þarf tíma til að venjast auknu álagi.
Stundum er erfitt að finna líffræðilegar skýringar fyrir þreytu, sleni eða kraftleysi. Ég hef t.d. verið að springa úr orku einn morguninn daginn eftir 30 km sunnudagstúr, en í öðru tilviki verið með stírurnar í augunum fram yfir hádegi þó svo engin æfing hafi verið daginn áður. Í stjörnuspekinni segir að gangur himintunglanna hafi áhrif á manninn. Veðurfarið líka þ.e. loftþrýstingurinn og jafnvel sjávarföllin. Ekki er ég sérfræðingur í þessum fræðum, en líklega hefur þetta allt saman einhver áhrif.
Hvað er til ráða þegar hvorki gengur eða rekur í æfingunum hjá okkur, búin að æfa dögum og jafnvel vikum saman en litla breytingu að sjá, einungis meiri þreytu og eymsli? Mín reynsla er sú að það skipti miklu máli að halda ró sinni og láta ekki tímabundna erfiðleika og þreytu draga úr sér. Það er mikilvægt að missa aldrei trúna á því að maður geti náð settu markmiði. Það er svo skrítið með þjálfun að maður getur verið að æfa vikum saman og séð litla breytingu á forminu, en allt einu einn daginn flýgur maður áfram. Sú tilfinning er frábær. Þegar ég byrjaði að æfa aftur reglulega síðastliðið vor hugsaði ég um þennan dag, hvenær hann myndi koma og hvar ég yrði. Eftir fjórar vikur var ég orðinn heldur pirraður, en þá allt í einu fann ég mig léttan og tók 2 mínútur af hringnum sem ég var vanur að hlaupa. Þá hugsaði ég með mér að erfiðið væri þess virði og sjálfstraustið tók kipp. Það er einmitt málið, sjálftraustið skiptir mjög miklu máli í langhlaupum eins og í öðrum íþróttum og í lífinu yfirleitt. Sá sem hefur undirbúið sig vel hvort sem það er fyrir keppni, próf eða starf veit að hann getur náð markmiðinu.
Það er líka gott að líta til annarra til að efla eigið sjálfstraust. Ef hann eða hún geta þetta, þá hlýt ég að geta þetta. Í erlendum hlaupatímaritum má oft sjá sögur um ótrúleg afrek fatlaðra, fólks að ná sér úr erfiðum veikindum og fólks á gamalsaldri. Það er mér t.d. enn í fersku minni þegar Madge Sharples, 64 ára húsmóðir, kláraði fyrsta Londonmaraþonið árið 1981. Hún varð á svipstundu fræg um allt Bretland og víðar. Fyrst hún gat þetta, þá hlýt ég að geta þetta, sagði fólk og þátttaka í maraþonhlaupum margfaldaðist í Bretlandi næstu árin á eftir. Á tímabili fóru fram yfir 100 maraþonhlaup í Bretlandi á ári, sem nú hefur fækkað um helming. Staðreyndin er sú að aðlögunarhæfni og geta mannsins er ótrúleg. Margir geta mun meira en þeir halda. Hitt er svo annað mál að það er skynsamlegt að byggja sig upp jafnt og þétt. Ekki er ráðlegt að reyna við verkefni sem maður hefur ekki undirbúið sig til að takast á við. Hafi maður hins vegar unnið sína heimavinnu þá er ekkert sem segir að maður komist ekki á þann tind sem maður ætlar sér. Þannig komst Haraldur á Norðurpólinn og strákarnir á Mount Everest fyrir nokkrum árum.