Í dálknum ,,Umsagnir og umræður um hlaup 2001" hér á Hlaupasíðunni voru menn að ræða nýlega um verðlaunapeninga. Einn sagði frá því að í upphafi hefði sér þótt gaman að fá verðlaunapeninga, en hann væri löngu búinn að missa áhugann á þeim og hefði nýlega við tiltektir hent bunka af þeim í ruslatunnuna. Ég hrökk við því mér hafði aldrei komið þetta til hugar og varð hugsað til þeirrar innrætingar sem ég fékk í mínum æskuíþróttum - virðingin fyrir verðlaunapeningnum var algjör, enda þjóðin oft minnt á silfurpening Vilhjálms Einarssonar. Mér varð einnig hugsað til míns fyrsta verðlaunapenings sem var fyrir 4. sætið í flokki 13 ára og yngri í Víðavangshlaupi Hafnarfjarðar. Þetta var eirpeningur og ég hrósaði happi að framkvæmdaraðilum hafði hugnast að veita verðlaun fyrir fyrstu 5. sætin í það sinnið. Þvílíkur áfangi. Eftir skólann fór ég í sveitina og var svo heppinn að fyrsta héraðsmót USVS fór fram það sumar og ég vann 4 gullpeninga af 5 mögulegum í flokki 13 ára og yngri. Þegar ég kom svo í Hafnarfjörðinn aftur dugði ekki minna en að fjárfesta í bólstruðum verðlaunaskildi svo gullfengurinn fengi notið sín. Eftir þetta var mér illa við að lenda utan verðlaunasæta. Stundum, alltof oft fannst mér, voru veitt skjöl í 2. og 3. sætið. Það var ekki vinsælt, enda bættist þá ekkert á skjöldinn sem hékk fyrir ofan rúmið til staðfestingar afrekum herbergiseigandans.
Síðan eru liðin mörg ár og satt að segja man ég ekkert hvað varð af skildinum góða og þeim sem komu þar á eftir. Kannski hafa þeir týnst í einhverjum búferlaflutningunum. Verðlaunapeningarnir eru fyrir löngu komnir ofan í Mackintosh dósir einhvers staðar niðri í geymslu. Sömu ferð hafa bikararnir farið, en ég reyndi þó lengi vel að hafa þá útlitskárstu uppi við. Þeir voru að vísu aldrei vinsælt stofustáss, en ég þráaðist við að hafa gamla Álafossbikarinn í einu horninu. Hann er stór og úr silfri, en með tímanum varð ég latur við umhirðuna og lítil prýði af svörtum bikar. Ég verð að viðurkenna að ég hef lítið sinnt verðlaunapeningunum sem ég hef fengið undanfarin ár. Stundum hafa þeir verið lengi í íþróttatöskunni eða þvælst um íbúðina sem leikföng hjá stelpunum mínum. Svona af rælni hef ég tekið þá upp og sett ofan í skúffu, svona til að friða samviskuna. Meiri virðingu hafa þeir ekki fengið.
Það er rétt að gera greinarmun á þátttökupeningum og verðlaunapeningum fyrir fyrstu þrjú sætin. Það var ekki fyrr en í Reykjavíkurmaraþoni árið 1984 sem allir fengu þátttökupening. Smám saman tóku fleiri framkvæmdaraðilar það upp og nú er svo komið að flest almenningshlaup hafa þátttökupening. Ég man t.d. eftir því að í Öskjuhlíðarhlaupinu eitt haustið fyrir nokkrum árum bankaði Ósk Elín, þrautreynd hlaupakona, í öxlina á mér og sagði hróðug að þetta væri sá 28. Ég brosti á móti og sagði sem svo að hún væri nú líka búin að hlaupa í nokkur ár. ,,Nei, þetta er sá 28. á þessu ári" sagði hún þá til áréttingar.
Örugglega hefur gildi þátttökupeninga minnkað hjá mörgum með öllum þessum hlaupum. Ég veit hins vegar að þeir skipta máli fyrir marga, jafnt unga sem eldri. Eitt sinn lentum við Jónas Ragnarsson hjá Krabbameinsfélaginu í því að bálreiður faðir hellti sér yfir okkur eftir Heilsuhlaupið og sagði með öllu ótækt að 12 ára sonur sinn sem orðið hafði í 4. sæti í sínum flokki fengi engan verðlaunapening. Við gátum ekki annað en lofað bót og betrun á næsta ári. Faðirinn hafði líklega ekkert velt því fyrir sér að fyrir 300 kr. þátttökugjald fékk strákurinn bol, drykki, súkkulaði, tímatöku og möguleika á verðlaunum og útdráttarverðlaunum.
Ég er á því að framkvæmdaraðilar eigi að veita verðlaun fyrir fyrstu sætin í hverjum aldursflokki. Það er hvetjandi og oftast ekkert auðvelt að komast á pall. Árangurinn hefur einfaldlega orðið betri með hverju árinu. Sumir vilja fá áletraðan verðlaunagrip, meðan aðrir eru ánægðari með að fá úttekt í íþróttabúðum. Þetta fer að einhverju leyti eftir eðli afreksins, t.d. finnst mér viðurkenningaskildirnir í Laugavegshlaupinu flottir gripir. Nýtilegir hlutir eiga kannski betur við í sveitaverðlaun. Vorið 1982 varð ég í öðru sæti í 8 km götuhlaupi í Skotlandi í 25°C hita. Ég var í fantaformi og tókst vel upp í hlaupinu. Síðan kom verðlaunaafhendingin og ég fékk pott. Á því augnabliki var ég ekki yfir mig hrifinn að mig minnir. Þessi pottur hefur hins vegar reynst ótrúlega vel og er ennþá í notkun (hugsið ykkur að hann á stórafmæli á næsta ári). Skaftið er reyndar laust og skellur hér og þar. Hann hefur stundum verið tekinn úr umferð, en ég hef þá leitað hann uppi. Það er eins og gúllasið bragðist betur úr þessum verðlaunapotti. Líklega hef ég einhverjar taugar til hans, allavega eru hinir pottarnir í skápnum bara pottar.
Hvaða máli skipta þátttökupeningar, verðlaunagripir, útdráttarverðlaun og T-bolir? Svari hver fyrir sig. Þátttökupeningar og T-bolir kosta a.m.k. 600 kr. samanlagt og þá er ég að tala um góðan afslátt. Oftast tekst framkvæmdaraðilum að fá styrktaraðila til að dekka þann kostnað. Það er hins vegar kaldhæðnislegt ef svo er raunin að peningurinn og bolurinn skipti litlu eða jafnvel engu máli fyrir meirihluta þátttakenda. Þá væri betra að verja fjármununum í aðra hluti eða lækka þátttökugjaldið. Góð útdráttarverðlaun draga hins vegar alltaf að og vil ég nota tækifærið og hrósa Akureyringum, en þeir ætla að draga um þrjár Evrópuferðir í sínu hlaupi.