Að hlaupa í skógi er eitt af því skemmtilegasta sem ég geri. Heiðmörkin er í miklu uppáhaldi hjá mér, sérstaklega í maí. Þá finnur maður hvernig náttúran springur út, skógarilmurinn magnast með hverjum degi og heyrir fuglasöng við hvert fótmál. Maður fyllist stemmningu við slíkar aðstæður. Þreytan hverfur og maður greikkar sporið, þeytist eftir bugðóttum stígum og lætur hugann reika. Leysir heimsmálin á svipstundu og byggir borgir. Slík eru hughrifin og súrefnisflæðið.
Þegar ég var unglingur var ekki neinum mjúkum stígum til að dreifa í Hafnarfirði. Upp í Heiðmörkina lá rollugata, oft illfær. Hins vegar var meira um ómalbikaða vegi í þá daga en nú á tímum, t.d. upp í Kaldársel og svokallaðan Flóttamannaveg milli Hafnarfjarðar og Vífilsstaða í Garðabæ. Þessar leiðir hljóp ég oft til að hvíla mig á malbikinu. Vegirnir voru heldur mýkri og sennilega varð það mér til bjargar því skórnir í þá daga gáfu ekki mikla höggvörn.
Vorið 1975 fór ég til Norður - Englands í mína fyrstu æfingadvöl á erlendri grund. Þá kynntist ég í fyrsta sinn skógarstígum og varð strax hrifinn af. Minningin er þó sterkari frá æfingadvöl í Suður-Þýskalandi 3 árum seinna. Ég bjó þá fyrstu vikurnar á bóndabæ, nokkrum km utan við 8 þúsund manna þorp. Skógur var þar allmikill og stígar þvers og kruss. Dag einn í fyrstu vikunni var á æfingaáætlun minni um 10-12 km rólegt hlaup. Ég skundaði út í skóg og fór að rekja hvern stíginn af öðrum. Ég gleymdi mér alveg í þessari stemmningu og uggði ekki að mér. Myrkur skall skyndilega á og ég vissi ekkert hvert ég var að fara. Auk þess varð mér ekki um sel þegar ókunnug dýrahljóð bárust um skóginn. Eftir að hafa farið úr einum skógarendanum yfir í annan og öslað yfir akra í dágóðan tíma sá ég ljós. Ég kom að litlu húsi og barði að dyrum. Gamall maður opnaði hurðina lítillega og gægðist út tortrygginn. Hann hefur örugglega ekki átt því að venjast að útlendingur í íþróttagalla stæði á tröppunum hjá sér. Einhvern veginn tókst mér að ná trausti karlsins og fá leiðsögn út úr villunni. Mig minnir að það hafi ekki verið auðvelt að rata heim, en á endanum tókst það og mér reiknaðist til að ég hefði lagt að baki um 30 km. Sú vegalengd var algjörlega út í hött á þeim tíma þar sem ég var í lokaundirbúningi fyrir keppni á vegalengdum frá 1.500 m til 5.000 m.
Enginn íslenskur skógur er svo stór að maður villist í þeim. Ég er hins vegar mjög þakklátur skógræktarfélögunum fyrir að gefa almenningi kost á að njóta þeirra með stígagerð og öðrum framkvæmdum. Hvet alla hlaupara til að nýta sér þessa möguleika og upplifa þannig fegurð náttúrunnar á hlaupum. Ég er að dóla þetta 8-10 km fjórum sinnum í viku að jafnaði yfir veturinn, svona rétt til að halda lágmarksformi. Þegar kemur fram í lok mars fer ég að hugsa til Heiðmerkurinnar. Áhuginn kveiknar á ný og áður en ég veit af er ég oftast kominn í þokkalegt keppnisform í lok maí, án þess að það hafi endilega verið markmiðið. Slíkur er seiðurinn.